Um fyrirtækið

Reykjanesbær, Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar eiga og reka saman, sameignarfélag með ótakmarkaða ábyrgð undir nafninu Sorpeyðingarstöð Suðurnesja s.f. (Suðurnes Incinerator Authority) skammstafað S.S.  Heimili þess og varnarþing er í Reykjanesbæ.   Tilgangur félagsins er að eiga og reka hina nýju móttöku-flokkunar- og eyðingarstöð Kölku í Helguvík. Ennfremur að annast þjónustu og á sviði sorphirðu og móttöku úrgangs í sveitarfélögunum og önnur verkefni sem sveitarfélögin kunna að fela félaginu, á sviði úrgangs og endurvinnslumála.

Frá og með 1. apríl 2004 flutti starfsemi S.S. í nýja  móttöku-flokkunar- og eyðingarstöð í Helguvík sem ber nafnið Kalka. Þar fer fram öll móttaka á sorpi frá sveitarfélögunum og fyrirtækjum á starfsvæði stöðvarinnar samkvæmt verðskrá.   Þar er einnig rekin gámasvæði fyrir almenning sem og í Grindavík og Vogum, þar sem íbúar svæðisins geta komið með úrgang frá heimilum til endurvinnslu og eyðingar.

Nýja stöðin Kalka sem getur brennt allt að 12.300 tonnum úrgangs á ári er með mjög fullkomin hreinsunarbúnað til að halda mengun frá stöðinni í algjöru lágmarki.  Jafnframt er unnin orka úr sorpinu sem gefur um 4.5 mw af varmaorku sem knýr gufutúrbínu sem framleiðir um 450 kw af rafmagni eða um helmingi meira en stöðin þarfnast sjálf.  Hitaveita Suðurnesja á og rekur rafstöðina og sendir raforkuna út á dreifikerfi sitt en afgangsvarmaorkan er nýtt til að hita upp hús og plön Kölku.

Annar úrgangur sem til fellur á Suðurnesjum um 6.000 tonn verður að stærstum hluta sendur í endurvinnslu. Stefnt er á að endurvinnsluhlutfall verði yfir 80% hér á svæðinu að meðtalinni orkunýtingui í Kölku.

Auk þess að þjóna sveitarfélögunum fimm á Suðurnesjum tekur Kalka á móti úrgangi frá gamla varnarsvæðinu og flugþjónustusvæðinu á Keflavíkurflugvelli.  Þá er stöðin einnig útbúin til að eyða sóttmenguðum úrgangi sem og ýmsum flokkum spilliefna sem falla til hér á landi.

Við þessar miklu breytingar ákvað stjórn S.S. að vinna að nýrri ímynd stöðvarinnar m.a. með nýju nafni á hina nýju starfstöð og nýju merki félagsins. Nafnið vísar til vörðu sem nefndist Kalka og skipti löndum meðal 4 sveitarfélaganna á Suðurnesjum en er nú horfin undir flugbrautir á Keflavíkurflugvelli. Hún var hvítkölkuð á lit og var kennileiti af sjó.  Hún mun einnig vísa okkur vegin inn í  framtíðina á sviði umhverfismála. Merkið samanstendur af nokkrum uppbrotnum gulum hringjum sem eiga að tákna samfellda hringrás lífsins en guli liturinn stendur fyrir uppskeru þess að fara fara vel með náttúruleg auðævi.

Gamla stöðin við Hafnaveg sem var byggð árið 1979 og var á margan hátt fullkominn á sínum tíma og mikil bylting í sorpmálum Suðurnesjamanna en hefur nú lokið hlutverki sínu eftir tæplega 25 ára farsæla þjónustu. Hin nýja stöð er ekki síður mikil bylting og færir Suðurnesjamenn í fremstu röð á sviði  meðhöndlunar, endurvinnslu og förgunar úrgangs.