Aðalfundur 2002

14.9.2002

Aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf.
24. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn laugardaginn 14. september 2002 í Félagsheimilinu Festi, Grindavík.
Dagskrá:
1. Fundarsetning.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Skýrsla stjórnar Hallgrímur Bogason formaður.
4. Skýrsla framkvæmdastjóra og reikningar félagsins árið 2001, Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri.
5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
6. Tilnefning í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.
7. Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara
8. Önnur mál.

Rétt til fundarsetu eiga allir kjörnir sveitastjórnarmenn á Suðurnesjum eða varamenn þeirra, framkvæmdastjórar sveitarfélaganna, stjórnarmenn félagsins, framkvæmdastjóri og stöðvarstjóri.

1. mál. Formaður Hallgrímur Bogason setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

2. mál. Uppástungur komu um Hörð Guðbrandsson sem fundarstjóra og Jóhönnu M. Einarsdóttur sem fundarritara og voru þau sjálfkjörin.

3. mál. Hallgrímur Bogason formaður flutti skýrslu stjórnar.

Það hljómar kannski ótrúlega en hið merkilegasta mál er að vera stjórnarmaður í ruslafyrirtækinu okkar Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf.  Dreg ég í efa að annað viðburðarríkara starfsár en þetta hafi verið hjá stöðinni frá því að núverandi sorpbrennsla var byggð fyrir áratugum síðan.

Starfsár stjórnarinnar hófst 23. maí 2001 í Eldborg. Þar skipti stjórnin með sér verkum þannig:

Hallgrímur Bogason, formaður Grindavíkurbær
Albert B. Hjálmarsson, varaformaður Reykjanesbær
Óskar Gunnarsson, ritari Sandgerðisbær
Þorsteinn Árnason, meðstjórnandi Reykjanesbær
Jón Ólafur Jónsson, meðstjórnandi Reykjanesbær
Ingimundur Þ. Guðnason, meðstjórnandi Gerðahreppur
Finnbogi Kristinsson, meðstjórnandi Vatnsleysustrandarhreppur


· Eftir það hófst undirritun samnings við varnarliðið sama dag, einnig í Eldborg.

· Síðan útboð á nýrri sorpbrennslustöð eftir mikla vinnu við gerð útboðsgagna.

· Fullfrágenginn samningur við Heklu/Járnbendingu um nýja sorpbrennslustöð eftir langar og strangar fundarsetur, sem síðan rann út í sandinn.

· Og aftur útboðsferill sem endaði með samningum við Héðinn og var kynntur ykkur flestum í veitingahúsinu Jenný 13. ágúst s.l.

Þetta er búinn að vera langur og strangur ferill en fleiri tímamót urðu þó á starfsárinu.

· Áralangt baráttumál stjórnarinnar um tunnuvæðingu varð að veruleika. Að undangengnu útboði var tekið tilboði Íslenskrar Umhverfistækni ehf um kaup á sorptunnum. Þessa dagana er einmitt verið að dreifa þeim í hús.

· Um annað áratuga baráttumál náðist samkomulag. En það er framtíðar fyrirkomulag um uppbyggingu og rekstur gámasvæða.

· Samningur var gerður við ?Stýrihóp staðardagskrár 21 í Reykjanesbæ? um þátttöku í kaupum á jarðvegskössum og íbúum annarra sveitarfélaga einnig gefinn á því kostur ef áhugi var fyrir.

· Nýr starfsmaður var ráðinn til stöðvarinnar nýlega og starfssvið hans er vinna að þróunar og fræðslumálum svo og að aðstoða við stefnumótun við þær breytingar sem framundan eru.

Rekstur Sorpeyðingarstöðvarinnar hefur að mörgu leyti gengið vel á liðnu starfsári. Gamla góða stöðin skilar verkefni sínu með sóma sem endranær þrátt fyrir að nú sé aðeins sinnt nauðsynlegasta viðhaldi á búnaði stöðvarinnar þar sem nú styttist í lokin.

Móttekið sorp var um 19.100 tonn en árið á undan var magnið um 19.400 tonn, sem er minnkun um 300 tonn, eða um 1,5 prósent. Þessi samdráttur átti sér allur stað í sorphirðu frá sveitarfélögunum en sorpmagn varnarliðsins er nokkuð stöðugt.
Þar af fóru til brennslu um 11.600 sem er um 600 tonna aukning miðað við fyrra ár eða um 5,5%. En þrátt fyrir að minna hafi þar af leiðandi endað hjá Sorpu kemur það ekki fram í lækkandi kostnaði þar sem móttökugjöld þeirra hafa hækkað mikið í einstökum flokkum svo sem sláturúrgangi.
Mikið magn hefur safnast af notuðum hjólbörðum á lóð Sorpeyðingarstöðvarinnar þar sem nú er ekki leyfilegt að brenna hjólbarða í stöðinni. Á árinu var farið með um 200 tonn af hjólbörðum til eyðingar með ærnum tilkostnaði, en ennþá eru eftir að minnsta kosti 500 tonn af hjólbörðum og fer magnið stígandi. Einnig er að safnast upp mikið af fiskikörum sem ekki má brenna en engin góð förgunarleið er til staðar fyrir þau. Báða þessa flokka verður hægt að brenna í nýju stöðinni í Helguvík þegar fram líða stundir.
En verkefnin eru næg. Taka þarf ákvörðun um hvernig eyðingarkostnaði verði dreift í framtíðinni. Hvernig aðkoma fyrirtækja verður í þeirri gjaldskrá, en í dag er kostnaði aðeins skipt á sveitarfélögin. Þar sem gjaldtaka er á úrgang frá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu þegar þau skila til Sorpu en engin þegar skilað er til Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja er viss hætta á ferðum.
Að málefnum stöðvarinnar hefur komið fjöldi fólks sem stjórnin hefur átt mikið og gott samstarf við. Auk starfsmanna stöðvarinnar, skrifstofunnar, framkvæmdastjóra og stöðvarstjóra má nefna Magnús Guðmannsson, Ole Möller og Árna Pál Árnason, starfsfólk Ríkiskaupa ásamt mörgum fleirum. Öllu þessu góða fólki færi ég bestu þakkir fyrir hönd stjórnarinnar. Framkvæmdastjóranum Guðjóni Guðmundssyni vil ég færa sérstakar þakkir fyrir mikið og náið samstarf svo og stjórnarmönnum öllum?.

4.mál Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri flutti skýrslu og reikninga félagsins 2001. Kom fram í máli Guðjóns að rekstrartekjur á árinu 2001 hafi numið 163.251.573 millj. kr. og rekstargjöld 158.448.194 millj.kr. Hagnaður fyrir afskriftir nam kr. 4.803.379.-.

5. mál. Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og reikninga. Til máls tóku Sigurbjörg Eiríksdóttir og Guðjón Guðmundsson.
Reikningar Sorðeyðingarstöðvar Suðurnesja bornir upp og samþykktir samhljóða.

6. mál. Fundarstjóri óskaði eftir tilnefningu í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.
Uppástungur komu frá:

Reykjanesbæ:
Aðalmenn: Sigríður Jóna Jóhannesdóttir
Albert Hjálmarsson Jón Ólafur Jónsson
Varamenn; Hermann Helgason
Konráð Lúðvíksson
Bjarni M. Jónsson

Grindavíkurbæ:
Aðalmaður: Hörður Guðbrandsson
Varamaður: Garðar P.Vignisson

Sandgerðisbæ:
Aðalmaður: Óskar Gunnarsson
Varamaður: Reynir Sveinsson

Gerðahreppi:
Aðalmaður: Einar Jón Pálsson
Varamaður: Gísli Kjartansson

Vatnsleysustrandarhreppi:
Aðalmaður: Kristinn Þór Guðbjartsson
Varamaður: Birgir Þórarinsson

7. mál. Fundarstjóri óskaði eftir tilnefningu endurksoðenda fyrir starfsárið 2002 ? 2003 og
komu uppástungur um Hjört Zakaríasson og Huldu Matthíasdóttur og til varar Jón Þórisson

8. mál. Önnur mál. Engar umræður urður um önnur mál.
Þakkaði formaður Hallgrímur Bogason fundarmönnum fundarsetuna og sleit fundi.

Til baka