Aðalfundur 1998

2.7.1998
20. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja haldinn í Stóru-Vogaskóla í Vogum fimmtudaginn 2. júlí 1998 kl. 18.00.

Dagskrá fundarins:

1. Fundarsetning.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Skýrsla stjórnar: Jón Gunnarsson.
4. Skýrsla framkvæmdastjóra og reikningar félagsins fyrir árið 1997:
Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri.
5. Umræða um skýrslu stjórnar og reikninga.
6. Sorphirða á höfuðborgarsvæðinu - breyttar áherslur:
Eiríkur Bjarnason bæjarverkfræðingur í Garðabæ.
7. Nýjar forsendur í sorpeyðingarmálum á Suðurnesjum:
Jón Gunnarsson formaður S.S. og Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri.
8. Tilnefning í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.
9. Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara.
10. Önnur mál.

1.
Formaður stjórnar, Jón Gunnarsson, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

2.
Lagði hann til að fundarstjóri yrði Sigurður Kristinsson og fundarritari Snæbjörn Reynisson og voru þeir sjálfkjörnir.

3.
Skýrsla stjórnar.
Fundarstjóri þakkaði það traust sem sér væri sýnt og gaf að því búnu formanni stjórnar orðið.
Í máli hans kom m.a. fram að 11 fundir hafa verið haldnir á liðnu starfsári. Nokkurt óvissuástand ríkir nú um stundir hvað framtíð stöðvarinnar snertir. Samningar um sameiginlega lausn varnarliðsins og S.S. hafa ekki tekist og hefur niðurstaða stjórnar S.S. orðið sú að ganga til samninga við Sorpu um samstarf í þessum efnum. Taldi Jón athyglisvert að fylgjast með því hvaða lausnir varnarliðið fyndi á sínum sorpeyðingarmálum. Kröfur hafa verið gerðar á hendur S.S. vegna heilsutjóns starfsmanna og ákveðið hefur verið að láta þær fara dómstólaleiðina.
Á starfsárinu hafa tvær nefndir verið að störfum, bygginganefnd sem hafði á hendi undirbúning og hönnun v/mannvirkja sam tengjast nýrri lausn og samninganefnd við varnarliðið um framtíðarlausn. Báðar nefndir hafa nú gert hlé á störfum sínum vegna tregðu varnarliðsins til þátttöku. Þakkaði Jón að lokum starfsmönnum og stjórn S.S. fyrir samstarfið á liðnu á

4.
Skýrsla framkvæmdastjóra og reikningar félagsins árið 1997.
Í skýrslu framkvæmdastjóra kom m.a. fram að reksturinn gekk vel á liðnu ári, enda var lítið um bilanir á tækjabúnaði.
Heildarmagn móttekins sorps var um 17.000 tonn og af því var um 11 þúsund tonnum brennt. Á tímabilinu frá 1992 - 1997 hefur þróunin verið sú að fram til 1995 fór móttekið magn sorps heldur minnkandi en hefur aukist síðustu árin.
Guðjón fór síðan yfir það hvernig sorpförgunin flokkast. Kostnaðurinn við sorpeyðinguna hefur farið lækkandi. Meðalkostnaður á fargað tonn var um 5000 kr. á síðasta ári miðað við 6000 kr. 1992. Hvað raunkostnað snertir er þessi munur því enn meiri.
Rekstrarkostnaður S.S. var á síðasta ári um 125 milljónir og hagnaður um 5 milljónir. Eignir S.S. voru 77,5 milljónir.
Nokkrir fjármunir fóru í hönnunarkostnað eða 5,8 milljónir og vinnulaun fóru fram úr áætlun, aðallega vegna nýrra kjarasamninga. Aftur á móti var kostnaður vegna viðhalds tækjakosts minni en áætlun gerði ráð fyrir og munar þar 7 m. kr.
Aðkeypt sorpeyðing og stjórnunarkostnaður var einnig nokkuð undir áætlun.

5.
Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
Finnbogi Björnsson kvaddi sér hljóðs undir þessum lið og þakkaði stjórninni vel unnin störf. Reikningar voru að því búnu samþykktir samhljóða.

6.
Sorphirða á höfuðborgarsvæðinu - breyttar áherslur.
Eiríkur Bjarnason flutti erindi um sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu og þær breyttu áherslur sem þar eru að koma fram. Sagði hann frá vinnu bæjarverkfræðinga á svæðinu sem mynduðu samstarfsnefnd sem fór yfir og bar saman kostnað við sorphirðu á svæðinu. Ræddi hann m.a. um að útboð virtust skila sparnaði í sorphirðu, tunnuvæðing skapaði möguleika á að hirða sorp með lengra millibili en annars væri gert - sem einnig lækkaði kostnað - auk þess sem það hvetti fólk til að nýta sér gámastöðvar.
Hann ræddi um orkuhauga og nýtingu á afurðum þeirra. Hann fór yfir þær aðferðir sem notaðar eru við söfnun og flokkun sorps á nokkrum stöðum hérlendis og erlendis. Hann gat þess einnig að fremur illa hefði gengið að selja jarðvegsefnið moltu sem Sorpa framleiðir, enda verðið fremur hátt. Í Garðabæ hefur verið gerður samningur við verktaka um sorphirðu á 14 daga fresti og jafnframt tekin upp tunnuvæðing.
Eiríkur telur mikinn meirihluta Garðbæinga sáttan við breytinguna sem jafnframt felur í sér að nú er allt sorp vegið og hægt að rukka íbúa eftir magni.
Jón Gunnarsson spurði um það hvernig menn hyggðust bregðast við ruslaglæpamönnum sem henda rusli í tunnur nágrannanna eða losa sig við það á víðavangi, eftir að greiðsla tengist beint magni.
Eiríkur kvað það ekki hafa orðið stórt vandamál erlendis, þar sem þessi háttur hefur við hafður á. Aðspurður um aðferð við vigtun sagði Eiríkur hana fara fram við losun þar sem hún væri jafnframt tölvuskráð.
Fyrirspurn kom frá Kristmundi Ásmundssyni um hver væri meðalstærð sorpíláts fyrir meðal fjölskyldu - taldi Eiríkur það vera 240 lítra ílát. Einnig spurði Kristmundur um framleiðsluaðferð á moltu og ástæður þess hve illa gengi að selja hana. Eiríkur kvað moltuna framleidda í múgum og sölutregðan stafaði e.t.v. af háu verði.
Hallgrímur Bogason sagði frá reynslu Grindvíkinga af tunnuvæðingu - af henni væri góð reynsla.
Kjartan Már spurði um misræmi sem honum þótti vera í tölulegum upplýsingum varðandi sorphirðukostnað í Reykjavík - útskýrði Eiríkur málið.
Guðjón Guðmundsson taldi upplýsingar Eiríks vera vatn á myllu þeirra sem vilja tunnuvæða.

7.
Nýjar forsendur í sorpeyðingarmálum á Suðurnesjum.
Jón Gunnarsson sagði frá samningi sem stjórn S.S. hefur gert við Sorpu, með fyrirvara um samþykki sveitarstjórna. Eintaki af samningnum var dreift til fundarmanna.
Jón fór yfir efnisatriði samningsins. Þar er rætt um móttöku- og hleðslustöð sem rekin yrði á Suðurnesjum. Um flutning sorps sem yrði í sameiginlegu útboði og eyðingu sem fram færi í Gufunesi. Greitt yrði í samræmi við innvegið magn. Gjaldskrá yrði í samræmi við gildandi verðskrá Sorpu frá 1. jan 1998 - hún taki síðan eðlilegum breytingum. Samningurinn yrði til 6 ára - í raun ekki nema frá 2000 - 2004.
Í samningnum er gert ráð fyrir þeim möguleika að S.S. gerist eignaraðili að Sorpu. Samstarfsnefnd, skipuð tveimur fulltrúum frá hvorum aðila, starfi á samningstímabilinu. Samningnum fylgir bókun um að gerð verði hagkvæmniathugun á byggingu og rekstri lítillar brennslustöðvar á starfssvæði fyrirtækjanna, til eyðingar á sjúkrahúsúrgangi, dýrahræjum o.fl. Jafnframt lagði Jón Gunnarsson fram tillögu til ályktunar þar sem sveitar- og bæjarstjórnir eru hvattar til að samþykkja fyrirliggjandi samning milli S.S. og Sorpu.
Guðjón Guðmundsson fór yfir kostnaðartölur varðandi móttökustöð og sorpeyðingu samkv. samningi við Sorpu:

Fjárfesting í móttökustað 77 milljónir.

Rekstrarkostnaður á ári:
launakostnaður 16 milljónir.
yfirstjórn og aðföng 11 milljónir.
flutningur 21,6 milljónir.
eyðing aðkeypt 38 milljónir.

Alls um 95 milljónir á ári.

Kostnaður á tonn yrði um 7.800 kr. - hér er miðað við rúmlega 12. þús. tonn af sorpi.
Kristmundur Ásmundsson lagði til að tillögu að ályktun yrði vísað frá, því betri tíma þyrfti til að kynna samninginn. Undir þetta sjónarmið tók Kjartan Már. Jafnframt spurði hann um hverjar breytingar yrðu á starfsmannahaldi og flutningum ef af samningi við Sorpu yrði. Í svari Jóns Gunnarssonar kom fram að flutningur um Reykjanesbrautina myndi aukast verulega, í 8 - 900 bílfarma og starfsmönnum S.S. fækkar úr 10 í 6.
Hörður Guðbrandsson kvaðst styðja frávísunartillöguna og nefndi sömu forsendur og þeir Kristmundur og Kjartan.
Kristmundur kvað samninginn líta vel út en betri tíma þyrfti til að skoða hann. Í sama streng tók Björk Guðjónsdóttir.
Í framhaldi af þessum umræðum kvaddi Jón Gunnarsson sér hljóðs og dró tillögu stjórnar til baka.

8.
Tilnefning í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.
Lögð var fram dagskrártillaga þar sem lagt var til að fresta 8. og 9. lið dagskrár til framhaldsaðalfundar sem haldinn yrði eigi síðar en 30. nóv. 1998.
Var tillagan samþykkt samhljóða.

9.
Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara.
Sjá 8. mál.

10.
Önnur mál.
Hörður Guðbrandsson ræddi um lífrænan úrgang og óskaði eftir að skoðað yrði hvernig nýta mætti hann til uppgræðslu. Hann ræddi einnig um góða reynslu Grindvíkinga af tunnuvæðingu. Guðjón Guðmundsson benti á að á sveitar- og bæjarskrifstofum væri til skýrsla um nýtingu lífræns úrgangs.
Kristmundur Ásmundsson ræddi um hugtakið endurvinnsla og mismunandi skilning á því.
Kjartan Már ítrekaði ástæður þess að hann vildi vísa tillögu stjórnar frá.
Jón Gunnarsson tók að lokum til máls og þakkaði góða fundarmætingu. Hvatti hann fulltrúa til að hraða umfjöllum um samninginn.

Fundi slitið kl. 21.20.

Snæbjörn Reynisson (sign.)Framhaldsaðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja s.f. 1998 haldinn í fundarsal S.S.S. á Fitjum, Njarðvík þann 24. september 1998 kl. 17.00.

Formaður setti fundinn og stýrði honum og fól framkvæmdastjóra að rita fundargerð. Gengið var til dagskrár:

1.
Tilnefning í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.

Frá Reykjanesbæ:
Aðalmenn:
Albert B. Hjálmarsson
Jón Ólafur Jónsson
Þorsteinn Árnason

Varamenn:
Árni Júlíusson
Bjarni Már Jónsson
Sveinn Adolfsson

Frá Grindavíkurbæ:
Aðalmaður: Hallgrímur Bogason
Varamaður: Sverrir Vilbergsson

Frá Sandgerðisbæ:
Aðalmaður: Óskar Gunnarsson
Varamaður: Sigurður Valur Ásbjarnarson

Frá Gerðahreppi:
Aðalmaður: Ingimundur Þ. Guðnason
Varamaður: Gísli Kjartansson

Frá Vatnsleysustrandarhreppi:
Aðalmaður: Finnbogi Kristinsson
Varamaður: Sigurður Kristinsson

2.
Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara:

Hjörtur Zakaríasson
Hulda Matthíasdóttir
til vara Halldór Ingvason

Fundi slitið kl. 17.10.
Guðjón Guðmundsson (sign.)
Jón Gunnarsson (sign.)
Til baka