Aðalfundur 1997

20.5.1997
19. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja haldinn fimmtudaginn 20. maí 1997 að Vesturbraut 17, Reykjanesbæ.

Formaður stjórnar Helgi Guðleifsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Lagði formaður til að fundarstjóri yrði Jónína A. Sanders og ritari Hjörtur Zakaríasson og voru þau sjálfkjörin.

Dagskrá:

1. Skýrsla stjórnar
2. Reikningar félagsins 1997
3. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
4. Skýrslur framkvæmdastjóra og stöðvarstjóra.
5. Framtíðarlausn sorpmála á Suðurnesjum.
6. Tilnefning í stjórn og varastjórn.

1.
Fundarstjóri þakkaði það traust sem sér væri sýnt og gaf formanni stjórnar Helga Guðleifssyni orðið er flutti skýrslu stjórnar. Helgi Guðleifsson rakti starfsemi Sorpeyðingarstöðvarinnar sem að mörgu leyti hefði gengið nokkuð vel. Móttekið sorp var um 16.150 tonn sem er aukning frá fyrra ári. Til brennslu fór 10.400 tonn sem er svipað og frá fyrra ári. Lagt var til á árinu við sveitarstjórnir að breyta sorphirðunni þannig að notaðar yrðu plasttunnur í stað pokanna. Brýnustu verkefni stöðvarinnar er bygging nýrrar brennslulínu og móttökuhúss við stöðina. Að lokum þakkaði Helgi stjórnarmönnum, framkvæmdastjóra, stöðvarstjóra og öðru starfsfólki ánægjulegt samstarf á starfsárinu.

2.
Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri skýrði reikninga félagsins.

Helstu niðurstöður eru:

Rekstrarreikningur, tap ársins kr. 7.021.154
Efnahagsreikningur, eigið fé kr. 74.991.236

Framkvæmdastjóri rakti ástæður fyrir tapi félagsins sem stafaði m.a. af minni brennslutekjum frá sveitarfélögunum og hækkun launakostnaðar vegna veikinda og slysa.

3.
Fundarstjóri gaf orðið laust um umræður við skýrslu stjórnar og reikninga.
Til máls tók Björk Guðjónsdóttir er spurðist fyrir um pappírssöfnunina á s.l. ári og hvort ætti að fara út í frekari flokkun á úrgangi.
Guðjón Guðmundsson sagði að 130 - 140 tonn af pappír safnaðist á ári. Endurvinnsla á netum hefði verið nokkur á s.l. ári og stefnt á frekari endurvinnslu þar. Önnur flokkun hefur verið látin bíða þar til reynsla hefur komið á slíka endurvinnslu á höfuðborgarsvæðinu.

Fundarstjóri bar síðar reikninga félagsins upp til afgreiðslu og voru þeir samþykktir samhljóða.

4.
Fundarstjóri gaf Guðjóni Guðmundssyni framkvæmdastjóra orðið um skýrslur framkvæmdastjóra og stöðvarstjóra. Guðjón gerði grein fyrir samanburði á rekstri, förgun o.fl. milli ára, en þar kemur m.a. fram að rekstrarkostnaður hefur lækkað all nokkuð milli áranna 1992 - 1996.
Guðjón taldi það áhyggjuefni að allar fjárfestingar kölluðu á lánsfé. Einnig rakti Guðjón önnur verkefni sem framundan eru s.s. útboð sorphirðu, gámaplön og rekstur þeirra, nýjar samþykktir og gjaldskrármál.

5.
Fundarstjóri gaf frummælendum þeim Guðjóni Guðmundssyni framkvæmdastjóra, Magnúsi R. Guðmannssyni verkfræðingi og Friðfinni Einarssyni ráðgjafa orðið um "framtíðarlausn sorpmála á Suðurnesjum."
Fyrstur tók til máls Guðjón Guðmundsson er rakti m.a. samningaferil við varnarliðið vegna umhverfismats á nýjum urðunarstað á Stafnesi.

Magnús R. Guðmannsson verkfræðingur er ræddi framtíðarsýn í flokkun og brennslu á sorpi, flokkunarstöð, stækkun starfsmannaaðstöðu. Hönnun mannvirkja væri langt komið en að lokum ræddi Magnús um ímynd fyrirtækisins og taldi rétt að breyta nafni stöðvarinnar, þar sem endurvinnsla væri til staðar og muni stóraukast á komandi árum.

Friðfinnur Einarsson ráðgjafi ræddi um brennslukerfi, kostnaðargreiningu brennslulínu o.fl. við uppbyggingu á nýrri vélasamstæðu.

6.
Tilnefning í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.

Frá Gerðahreppi:
Ingimundur Þ. Guðnason, aðalmaður
Karl Njálsson, varamaður

Frá Grindavík:
Hallgrímur Bogason, aðalmaður
Margrét Gunnarsdóttir, varamaður

Frá Reykjanesbæ:
Helgi Guðleifsson, aðalmaður
Albert Hjálmarsson, aðalmaður
Jón Ólafur Jónsson, aðalmaður
Jón R. Árnason, varamaður.
Árni Júlíusson, varamaður
Guðmundur Finnsson, varamaður

Frá Sandgerði:
Óskar Gunnarsson, aðalmaður
Pétur Brynjarsson, varamaður

Frá Vatnsleysustrandarhr.:
Jón Gunnarsson, aðalmaður
Sigurður Kristinsson, varamaður

7.
Kosning 2. endurskoðenda og eins til vara.
Uppástunga kom um Hjört Zakaríasson og Huldu Matthíasdóttur sem aðalmenn og Halldór Ingvason til vara og voru þau sjálfkjörin.

Að lokum þakkaði formaður fundarmönnum fyrir fundarsetuna og sleit fundi.

Jónína A. Sanders fundarstjóri (sign.)
Hjörtur Zakaríasson ritari (sign.)
Til baka