Aðalfundur 1996

20.5.1996

18. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja haldinn í Fræðasetrinu í Sandgerði, 20. maí 1996 kl. 20.00.

Formaður stjórnar Óskar Gunnarsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Lagði hann til að fundarstjóri yrði Pétur Brynjarsson og ritari Sigurbjörg Eiríksdóttir. Tillaga formanns var samþykkt samhljóða.

Fyrir fundi lá eftirfarandi dagskrá:

1. Skýrsla stjórnar. Óskar Gunnarsson formaður.
2. Reikningar félagsins árið 1995:
Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri.
3. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
4. Skýrslur framkvæmdastjóra og stöðvarstjóra.
5. Sorphirðan - ný viðhorf í sorpflokkun.
Ingi Arason forstöðumaður hreinsunardeildar Reykjavíkurborgar.
6. Tilnefning í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.
7. Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara.
8. Önnur mál.

1.
Óskar Gunnarsson flutti skýrslu stjórnar og gerði hann starfseminni góð skil. Sagði hann m.a. að reksturinn hefði að mörgu leiti gengið vel og fjárhagsleg útkoma verið ágæt. Móttekið sorp á árinu var um 15.500 tonn, af því hafi verið brennt 10.400 tonnum. Lýsti formaður átaki í pappírssöfnun er hófst s.l. vor. Hann sagði einnig að eitt aðalverkefni stjórnarinnar á þessu starfsári væri undirbúningur að framtíðarlausn, sem byggðist á meiri flokkun og minni brennslu. Hann gat þess að viðræður hefðu farið fram við varnarliðið þar sem gert væri ráð fyrir samningi til 8 eða 10 ára. Samkvæmt honum tæki Sorpeyðingarstöðin við öllu sorpi frá varnarliðnu. Margt fleira kom fram í máli Óskars og þakkaði hann að lokum stjórnarmönnum, framkvæmdastjóra, stöðvarstjóra og öðru starfsfólki ánægjulegt samstarf.

2.
Guðjón Guðmundsson skýrði reikninga félagsins.
Helstu niðurstöður eru:

Rekstrarreikningar - hagnaður ársins 4.171.351.-
Efnahagsreikningur - eignir alls 75.663.631.-
Skuldir og eigið fé alls 75.663.631.-
Skammtímaskuldir 19.969.162.-
Langtímaskuldir 5.736.629.-

3.
Umræður um skýrslu formanns og reikninga félagsins:
Jón Gunnarsson þakkaði greinargóðar skýrslur. Sýndist honum rekstur S.S. hafa gengið vel samkvæmt reikningum og ekkert sé kvartað. Telur Jón að huga beri vel að samningunum við varnarliðið.
Bar Jón fram fyrirspurn í sambandi við skaðabætur er dæmdar voru starfsmanni, á hvaða forsendum sá dómur hafi fallið?
Guðjón Guðmundsson svaraði og rakti aðdraganda málsins. Fram kom að heyrnaskaði var orsök málshöfðunar fyrirverandi starfsmanns. Dómur væri í skoðun og frestur til áfrýjunar til 27. júní 1996.

Umræður um sorpumbúðir í sambandi við rekstrarkostnað:
Jón Gunnar Stefánsson taldi fljótt á litið að rekstrarkostnaður myndi lækka, ef tekin væri upp tunnunotkun í stað sorppoka. Guðjón Guðmundsson svaraði því til að talið væri að tunnur myndu borga sig upp á fjórum árum. Taldi hann tímabært að taka upp umræður um málið á vegum sveitarfélaganna. Hallgrímur Bogason sagði ekki rétt sem komið hefði fram að ferðir sorphirðara yrðu fleiri (og vinnan þar með dýrari) ef tunnur væru notaðar. Reynsla Grindavíkinga af tunnunotkun væri góð.
Margrét Gunnarsdóttir taldi slysahættu minni. Nú skeri starfsmenn (Grindavík) sig ekki á gleri eins og komi fyrir í meðferð sorppokanna. Jón Gunnarsson lýsti sig alfarið á móti tunnunotkun.

Voru nú reikningar ársins 1995 bornir upp og samþykktir samhljóða.

4.
Skýrsla framkvæmdastjóra og stöðvarstjóra.
Guðjón Guðmundsson fór yfir rekstur og sagði hann í fastmótuðum skorðum. Lýsti hann þó vonbrigðum með að pappírssöfnun væri ekki orðin nógu mikil.
Guðjón sagði frá ráðstefnu er hann sótti í Baltimore í okt. s.l. Sagði hann stefnu Bandaríkjanna að 50% af sorpi yrði endurvinnanlegt um aldamót.
Gísli stöðvarstjóri sagði fundarmönnum frá ferð þeirra Guðjóns til Þýskalands, 18-24. mars s.l. þar kom einnig fram að framtíðin er endurvinnsla og flokkun og Þjóðverjar standa þar framanlega. Þakkaði Gísli fyrir að fá tækifæri til að fara slíka ferð er hann taldi mjög gagnlega fyrir þá er störfuðu að þessum málum. Stöðvarstjóri gerði einnig grein fyrir nánari rekstri stöðvarinnar.

5.
Ingi Arason forstöðumaður hreinsunardeildar Reykjavíkurborgar lýsti nýjum viðhorfum í sorpflokkkun. Nefnd hafi verið sett á laggir er marka eigi stefnu í sorpeyðingarmálum Reykvíkinga. Minntist Ingi á Ríó sáttmálann og íhugunarefni væri hvernig við Íslendingar ætluðum að standa við hann t.d. minnkun sorps um 50%. Alþingi hafi ekki enn sett nein lög í þessa átt. Ingi sagði pappír vera talinn 20 - 25% af heimilissorpi. Lýsti hann síðan árangri í pappírssöfnun eftir hverfum og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Hann sagði fundarmönnum frá fyrirhugaðri söfnun og endurvinnslu drykkjarvöruumbúða. Margt fleira fróðlegt kom fram í máli Inga og var honum þakkað gott erindi með lófataki.

6.
Tilnefning í stjórn og varstjórn fyrir næsta starfsár.

Frá Gerðahreppi:
Ingimundur Þ. Guðnason, aðalmaður
Karl Njálsson, varamaður

Frá Grindavík:
Hallgrímur Bogason, aðalmaður
Margrét Gunnarsdóttir, varamaður

Frá Vatnsleysustrandarhr.:
Hafsteinn Ólafsson, aðalmaður
Sigurður Kristinsson, varamaður

Frá Reykjanesbæ:
Albert Hjálmarsson, aðalmaður
Helgi Guðleifsson, aðalmaður
Jón Ólafur Jónsson, aðalmaður
Árni Júlíusson, varamaður
Jón R. Árnason, varamaður
Guðmundur Finnsson, varamaður

Frá Sandgerði:
Óskar Gunnarsson, aðalmaður
Pétur Brynjarsson, varamaður.

7.
Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara:
Hjörtur Zakaríasson, aðalmaður
Hulda Matthíasdóttir, aðalmaður
Halldór Ingvason, varamaður

8.
Önnur mál. Engin.

Fundarstjóri þakkaði mönnum góðar umræður og sleit fundi kl. 22.20.

Fundarmenn voru 25.

Sigurbjörg Eiríksdóttir (sign.)
Pétur Brynjarsson (sign.)

Til baka