Árskýrsla formanns-2000

23.7.2003

Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf

22. Aðalfundur 8. maí 2000

Skýrsla stjórnar: Ingimundur Þ. Guðnason formaður

Aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja haldinn þann 8. mai 2000  kl.17.30 í Samkomuhúsi Gerðahrepps.

Ágætu sveitarstjórnarmenn,

Haldnir hafa verið 9. stjórnarfundir á árinu. Fyrsti fundur númer 273. var haldinn í golfskála Golfklúbbs Suðurnesja í Leiru í Gerðahreppi ásamt sveitarstjórnamönnum eins og þið sem þar voru munið. Fundurinn var boðaður til þess að kynna niðurstöðu draga á samningum við varnarliðið frá 23. apríl 1999 um þátttöku þess í stofnkostnaði vegna nýrrar sorpbrennslu. Á fundinum lagði stjórn SS til við sveitarstjórnirnar að þær veittu stjórninni umboð til að ganga til samninga við varnarliðið á þeim grunni og var tilagan samþykkt samhljóða. Nú er skemmst frá því að segja þrátt fyrir að ár sé liðið frá fyrrgreindri samþykkt hefur ekki verið skrifað undir eitt eða neitt við varnarliðið enn þá.  

Bakslag kom í málið þegar við í stjórninni vildum skilgreina betur hvaða spilliefni mætti brenna í nýrri stöð og fengum við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja til að gera slíkan lista fyrir okkur því ekki var hugmyndin að fara út í brennslu á einhverjum stórhættulegum efnum. Þessi listi ásamt öðrum bréfum hafa verið að velkjast í ameríska kerfinu allt til þessa eða þar til samninganefndin var boðuð á fund til yfirmanns varnarliðsins (admiral ) morguninn 20. marz s.l.  Á fundinum afhenti aðmírállinn okkur svarbréf sem sagði einfaldlega að flotinn gæti ekki samþykkt eyðingu hættulegs úrgangs umfram það sem gert er í dag . Stjórnin ákvað síðan á fundi þann 11. apríl s.l. að halda viðræðum áfram á grundvelli fyrirliggjandi draga að samningum þrátt fyrir svar varnarliðsins og var þeim skilaboðum komið til yfirmannsins á fundi með honum þann 19. april með bréfi. Aðmírálinn vann hratt þennan daginn því hann hafði samband við Ellert Eiríksson fulltrúa í samninganefnd seinna um daginn og tjáði honum að hann hefði þegar hringt út til Norfolk til manna sem hafa með slíka samninga að gera fyrir Bandaríkjamenn þar sem hann lét þá vita um okkar ákvörðun og nú gætu endanlegir samningar farið í gang  strax.

Í dag þegar þetta er tekið saman er staðan sú að Árni Páll Árnason starfsmaður stjórnar og samninganefndar er staddur í Norfolk þó ekki á vegum S.S. en hann mun samt sem áður þreifa á stöðu mála þar hvað viðkemur S.S. og verður fróðlegt að heyra í honum þegar hann kemur til

baka. Engum ætti að koma á óvart þó ég hafi dvalið og farið nokkuð ýtarlega í málaflokkinn ný brennslustöð en hér er um framtíðarmál okkar Suðurnesjamanna að ræða, það er hvort hér verður viðhöfð brennsla við eyðingu á sorpi eða ekki.

Annað mál sem nokkuð hefur verið rætt í stjórninni og einnig þeirri á undan er flokkun á sorpi og fyrirkomulagi á sorphirðunni. Engin spurning er um það að okkur ber að fara út í flokkun á sorpi sem fyrst en þar erum við langt á eftir frændum okkar á hinum Norðurlöndunum. Við verðum þó að taka þetta í skrefum og finna þannig út hvernig við nágum bestum árangri í flokkuninni.

Í sorphirðunni hefur stjórnin ákveðið að segja upp þeim samningi sem er í gangi og fara út í tunnuvæðingu með útboði í haust þar sem verktökum verður væntanlega gefinn kostur á að bjóða í pakkann með eða án tunna þ.e.a.s. annað hvort útvegi verktakinn, S.S., áhaldahús viðkomandi sveitarfélaga eða jafnvel húseigendur tunnurnar.

Gjaldskrá S.S. og framtíðarfyrirkomulag hennar hefur oft verið rædd undan farin ár en engin ákvörðun verið tekin um breytingar á því fyrirkomulagi sem fyrir er. Ýmsar hugmyndir eru uppi svo sem að allir greiði eftir vigt en slíkar tilraunir eru í gangi á höfuðborgarsvæðinu núna og bíða margir spenntir eftir niðurstöðunum. Ef þessi aðferð yrði ofan á má ætla að hún yrði hvati á fólk til að flokka sorpið þar sem mismunandi verð væri á milli flokka í eyðingu og öllu lífrænu sorpi sem tilfellur í eldhúsinu mætti koma fyrir í safnhaug viðkomandi og svo framvegis.

Stjórnin skuldar Grindavík svar við bréfi þar sem farið er fram á að SS taki við rekstri sorpsöfnunarstöðvar ( gámaplani ) í Grindavík. Þessi ósk hefur áður komið fram frá Grindavík fyrir mörgum árum og hlaut ekki hljómgrunn hinna sveitarfélaganna þá. Nú hins vegar þegar framtíð sorpmála á Suðurnesjum eru í umræðunni sem raun ber vitni væri ekki úr vegi að taka upp umræðuna um gámaplön í hverju sveitarfélagi sem S.S. sæi um reksturinn á.

Að lokum ætla ég að fara yfir nokkrar tölulegar staðreyndir um rekstur stöðvarinnar á árinu en Guðjón mun að sjálfsögðu fara ýtarlegar yfir hann þegar hann skýrir reikingana hér á eftir. Rekstur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja hefur að mörgu leyti gengið vel á liðnu starfsári. Móttekið sorp var um 16.400 tonn en árið á undan var magnið um 16.100 tonn, sem er aukning um 300 tonn, eða 2 prósent.  Til brennslu fóru um 10.200 tonn, sem er sama magn og á árinu á undan, en að meðaltali síðustu 8 árin hafa farið um 10.400 tonn til brennslu. Í ársreikningum má sjá að aðkeypt eyðing hefur aukist um tæpar fjórar milljónir króna, skýringin á þessu er meðal annars sú að magnaukning hefur verið í efni sem urðað er á Stafnesi. T.d. fór timburúrgangur á Stafnes úr liðlega 1050 tonnum í 1500 tonn, sem er aukning um 450 tonn. Einnig varð aukning á timburúrgangi sem fór til endurvinnslu, fór úr 750 tonnum í tæplega 1000 tonn, sem er aukning um 250 tonn. Samanlagt er þetta um 700 tonna aukning með tilheyrandi aksturs-og eyðingargjöldum. Magn brennanlegs sorps er nánast eins á milli ára. Það þurfti að kaupa eyðingu fyrir um það bil 1.200 tonn af brennanlegu sorpi, Síðan hafa orðið einhverjar hækkanir á móttökugjöldum hjá þeim fyrirtækjum sem við skiptum við.

Sorpmagnið úr sorphirðunni frá sveitafélögunum jókst á milli ára um nálægt 200 tonn, sem er um 4 prósent, en rekstur sorphirðunnar hefur hækkað um 2,5 miljónir sem er um 7 prósent hækkun. Sorpmagn frá varnarliðinu jókst um liðlega 150 tonn sem er breyting frá liðnum árum, því þar hefur verið stöðugur samdráttur.

Þar sem starfsleyfi Sorpeyðingarstöðvarinnar rennur út 1. desember árið 2000, hefur verið ákveðið að sinna aðeins nauðsynlegasta viðhaldi á búnaði stöðvarinnar. Helsta viðhaldsverkaefni á árinu var að skipt var um hjól í aðalblásara og blásarahúsið fóðrað upp vegna slits.

Eins og ég sagði áðan rennur starfsleyfið út 1. desember í ár og er því ljóst að framlengingu á því verður að fá til að minnsta kosi 1. desember 2001. Yfirvöld hafa gefið jákvæð svör um það svo framalega sem við getum sýnt fram á að vinna við framtíðarlausn sorpmála á Suðurnesjum sé í fullum gangi sem hún er.

Góðir fundarmenn!

Í stjórninni sitja með mér frá Reykjanesbæ Albert B. Hjálmarsson, Þorsteinn Árnason og Jón Ólafur Jónsson, frá Grindavík Hallgrímur Bogason, frá Sandgerðisbæ Óskar Gunnarsson, og frá Vatnsleysustrandarhreppi Finnbogi Kristinsson og í samninganefndinni eru með mér Ellert Eiríksson bæjartjóri, Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri, Albert B. Hjálmarsson stjórnarmaður og Guðmundur Pétursson starfsmaður Keflavíkurverktaka. Ráðgjafar og starfsmenn stjórnar og samninganefndar á árinu hafa verið Árni Páll Árnason lögfr., Magnús R.Magnússon verkfræðingur., ásamt þeim Guðjóni Guðmundssyni framkvæmdastjóra S.S., Gísla R. Eiríkssyni stöðvarsstjóra S.S. og ritara stjórnar Ástu M. Jónsdóttur.

Þessum aðilum vil ég sérstaklega ásamt starfsfólki á skrifstofu S.S.S., starfsfólki Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, starfsfólki í sorpeyðingarstöðinni og öðrum þeim sem starfað hafa fyrir S.S. á árinu þakka fyrir góða viðkynningu og fyrir vel unnin störf.

Takk fyrir.

Ingimundur Þ. Guðnason

Til baka