Árskýrsla formanns-2001

23.7.2003

Þorsteinn Árnason formaður:

Skýrsla stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. starfsárið 2000-2001

Góðir aðalfundarfulltrúar

Á síðast aðalfundi Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja var tilnefnd óbreytt stjórn fyrir þetta starfsár.  Á fyrsta fundi sínum skipti stjórnin með sér verkum þannig að Þorsteinn Árnason var kjörinn formaður, Hallgrímur Bogason varaformaður og Jón Ólafur Jónsson ritari, en meðstjórnendur eru Albert Hjálmarsson, Finnbogi Kristinsson, Ingimundur Þ. Guðnason og Óskar Gunnarsson.

Frá síðasta aðalfundi S.S. hafa verið haldnir 13 stjórnarfundir.  Stjórnarmenn gátu næstum gengið að því vísu  að 1. mál á dagskrá hvers fundar var skýrt frá fundi með varnarliðinu eða að bréf hafði borist frá varnarliðinu, eins var víst að síðasta mál á dagskrá væru stöðvarfréttir.

Í dag hef ég hugsað mér að snúa þessu við og byrja á stöðvarfréttum eða rekstri stöðvarinnar í stuttu máli.

Rekstur Sorpeyðingarstöðvarinnar hefur að mörgu leiti gengið vel á liðnu starfsári. En sorp sem fellur til á Suðurnesjum hefur aukist mikið á milli ára eða um 12%  sem þýðir rúm 2.000 tonna aukningu.   Um plan stöðarinnar fór um 18.100 tonn en í heild var magnið um 19.500 tonn og hefur aldrei verið meira.

Til brennslu fór um 11.000 tonn, sem er 800 tonnum meira magn en   árið áður, eða 8 prósentu aukning, en að meðaltali síðustu 8 árin hafa farið um 10.400 tonn til brennslu.

Segja má að aukning hafi verið í öllum sorpflokkum frá sveitarfélögunum og var t.d. 200 tonna aukning í sorphirðunni eða um 8%. magn frá varnarliði hefur hins vegar dregist saman. 

Þessi aukning kemur fram í rekstrartölum eins og fram mun koma hér á eftir hjá framkvæmdastjóra þegar hann skýrir reikningana. Það má teljast nokkuð gott að rekstrarafgangur skuli vera 4 milljónir fyrir afskriftir og fjármagnsliði og sýnir reksturinn er í góðu horfi.

Þar sem starfsleyfi Sorpeyðingarstöðvarinnar átti að renna út 1. desember og óvíst var um áframhaldandi rekstur, var ákveðið að sinna aðeins nauðsynlegasta viðhaldi á búnaði stöðvarinnar. Stærsta viðhaldsverkaefnið á árinu var að helmingur eldmúrsins í brennsluofninum var endurnýjaður og skipt var um hjól í aðalblásara og blásarahúsið fóðrað upp vegna slits.

Eins og undanfarin ár var mál málanna bygging nýrrar sorpbrennslustöðvar og samningar við varnarliðið. Miðuðu allar áætlanir að því að hún yrði reist á sama stað og sú sem fyrir er. Unnin var matsáætlun vegna umhverfismats af Birni Halldórssyni verkfræðingi hjá Stuðli (ehf) vegna byggingar nýrrar sorpbrennslu, móttöku og urðunarstaðar.  Matsáætlunin var síðan kynnt á almennum fundi á Glóðinni þ. 31. júlí í fyrra.  Var það 1. hluti á kynningarferli sem umhverfismat þarf að ganga í gegnum. En skjótt skipast veður.

Í bréfi dags. 24. ágúst 2000 frá varnarliðinu kemur fram að endurskoðunarfulltrúi flotans hafi komist að þeirri niðurstöðu, að af nýrri brennslustöð á sama stað fælist óásættanleg áhætta fyrir varnarliðið vegna varavatnsbóla og byggðar í nálægð stöðvarinnar.  Leggur hann til við varnarliðið að kanna aðra kosti eyðingar úrgangs en byggingu og rekstur nýrrar brennslustöðvar innan varnarsvæðanna.

Ákveðið var að samninganefnd SS færi til fundar við varnarliðið og ræddi þessa nýju stöðu í málinu.  Afstöðu varnarliðsins varð ekki haggað og ljóst að ný stöð yrði ekki byggð á varnarsvæði.

Í framhaldi var ákveðið að senda sveitarfélögunum fyrirspurn um möguleika á lóð undir móttöku og brennslustöð.  Í svari frá sveitarstjórnum komu fram ábendingar um lóðir á þrem stöðum, en allir þessir staðir voru utan deiliskipulagðra svæða og því ljóst að bæði yrði tímafrekt og kostnaðarsamt að gera þær byggingarhæfar og tengja þær veitum. 

Því var framkv.stj. falið að kanna til hlítar möguleika á lóð í nágrenni Helguvíkur sem augljóslega væri hagkvæmasti kosturinn.

Á fundi Skipulags- og byggingarnefndar Reykjanesbæjar í jan s.l. var samþykkt lóðarúthlutun til SS að Berghólabraut 11 í Helguvík.

Í framhaldi af áformum um nýja staðsetningu funduðu með varnarliði, framkv.stj. ásamt Árna Páli Árnasyni og Magnúsi Guðmannssyni þar sem gerð var grein fyrir nýrri staðsetningu stöðvar og kostnaði því samfara.

Starfsleyfi núverandi stöðvar rann út þann 1. des. s.l.  Leitað hafði verið eftir að frestur yrði veittur þar til ný lausn kæmist í gagnið.

Veittur var frestur til að finna viðeigandi úrræði til sorpförgunar til 1. apríl. (sem síðar hefur verið framlengt til 1. júní n.k.)

H.E.S. ítrekar málið í bréfi til sveitarstjórna þann 8. jan.  Framkv.stj. skrifaði bréf til varnarliðsins til að vekja athygli á frestum sem HES hefur veitt á starfsrækslu sorpbrennslustöðvarinnar.

Þann 27. mars s.l. barst afrit bréfs frá aðmírál varnarliðsins til Varnarmálaskrifstofu þar sem staðfest er að þeir bjóði upp á samningaviðræður um kostnaðarþætti í Norfolk dagana  17.-19. apríl  Framkvæmdastjóra og lögmanni var falið að vinna að undirbúningi vegna væntanlegra samninga.

Það var ákveðið í stjórn SS í samráði við samninganefndina að Þorsteinn Árnason form. stjórnar, Hallgrímur Bogason varaformaður, Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri, Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri  og Árni Páll Árnason lögfr. S.S.  færu til Norfolk til þess að freista þess að ná ásættalegri niðurstöðu í þessu máli.

Báðum aðilum þ.e. stjórn SS og varnarliði var ljóst að hér var um algjöra loka tilraun til að ná fram sameiginlegri lausn.  Er skemmst frá því að segja að aðilar náðu saman í öllum samningsatriðum sem út af stóðu. Þar  var byggt á  samkomulaginu sem gert var í apríl 1999 með viðbótum vegna nýrrar staðsetningar og fl.  Áformað er að fullbúinn samningur verði undirritaður hér síðari hluta þessa mánaðar.

Hér síðar á fundinum mun Á.P.Á. skýra frá þessum niðurstöðum sem gerður var og undirritaður með fyrirvara um samþykkt sveitarstjórna.

Segja má að með þessu samkomulagi hafi löngu samningaferli lokið en það hefur staðið með hléum allt frá árin 1995.  Oft hefur reynt á þolrifin en ég tel að við höfum náð mjög ásættanlegri niðurstöðu.

Það bíða því stór verkefni næstu stjórnar og við höfum glatað miklum tíma í öllu þessu langa samningaþófi, tíma sem við þurfum að vinna upp.  Við þurfum að endurskoða vinnu við umhverfismatið, ljúka við gerð útboðsgagna á  brennslustöð, byggingum og margt, margt fleira.

Á þessu starfsári hefur verið unnin sorphirðuáætlun og drög að nýjum samþykktum um sorphirðu og förgun liggja fyrir og verður hvortveggja sent sveitarstjórnum fljótlega til afgreiðslu.

Eins og að framan greinir hefur þessi óvissa um heildarlausn sorpmála hér á Suðurnesjum haft mikil áhrif á alla þróun þessara mála.

Ákveðið var  að fresta útboði v/sorphirðu sem áður hafði verið ákveðið vegna þessarar óvissu.  Samningur við Njarðtak var framlengdur til 1. sept. 2001 og er eftir þann tíma er uppsegjanlegur með 6 mán. fyrirvara.

Stjórnin hefur hinsvegar ákveðið að undirbúa útboð á sorptunnum og mun leita eftir samvinnu við verktakann um  að koma margumræddri tunnuvæðingu á síðla sumars.

Ágætu fundarmenn, ég hef hér stiklað á ýmsum atriðum varðandi þetta starfsár. Við stöndum á margan hátt á tímamótum. Við höfum loksins náð samningum við varnarliðið og nú er það okkar að útfæra nýja lausn á nýjum stað.  Ný staðsetning gefur ýmis sóknarfæri eins og t.d. nýtingu á orku frá væntanlegri brennslustöð og brennslu fyrir aðra aðila. Við höfum þegar  átt viðræður við formann og framkvæmdastjóra Efnamóttökunnar og hafa þeir áhuga á samstarfi og jafnvel að koma að þessu verkefni með okkur.  Okkar bíður því umræða og ákvarðanataka um ýmis atriði,  hvort ný stöð eigi að vera algjörlega nýtt fyrirtæki,  með nýju nafni og öðru rekstrarformi. Við þurfum einnig að ljúka umræðu um fyrirkomulag gjaldtöku og hvernig atvinnulífið kemur að kostnaði við eyðinguna.

Nú er kominn tími til að bretta við upp ermarnar og byggja þetta fyrirtæki okkar upp af myndarskap og hafa umhverfismál að leiðarljósi og ef áform okkar ganga eftir getum við verið með endurvinnsluhlutfall allt að 80% af úrgangi okkar. 

Að lokum vil ég þakka meðstjórnendum mínum í stjórn S.S. þeim Ingimundi, Alberti, Jóni Óla, Hallgrími, Óskari og Finnboga fyrir gott samstarf þetta tímabil sem ég hef verið formaður.

Gísla stöðvarstjóra og hans mönnum í stöðinni vil ég færa þakkir fyrir að halda stöðinni gangandi í góðum gír.

Guðjóni framkv.stj. og hans góða kvennaliði þakka ég samstarfið.

Takk fyrir.

Til baka