Árskýrsla formanns-2003

23.7.2003

Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf.

25. Aðalfundur 19. júní 2003

Skýrsla stjórnar: Óskar Gunnarsson varaformaður

Ágætu sveitarstjórnarmenn, 

Síðasti aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja var haldinn 2. október 2002.   Var það fyrsti fundur eftir sveitarstjórnarkosningar og var hann haldinn í tengslum við aðalfund SSS..

Sveitarstjórnirnar tilnefndu nýja stjórn og skipa hana eftirtalin:

Frá Reykjanesbæ:

Aðalmenn:         Sigríður Jóna Jóhannesdóttir
                             Albert Hjálmarsson

                            Jón Ólafur Jónsson


Varamenn:         Hermann Helgason
                             Konráð Lúðvíksson
                             Bjarni M. Jónsson

Frá Grindavíkurbæ:

Aðalmaður:         Hörður Guðbrandsson
Varamaður:        Garðar P.Vignisson

Frá Sandgerðisbæ:
Aðalmaður:          Óskar Gunnarsson
Varamaður:          Reynir Sveinsson

Frá Gerðahreppi:
Aðalmaður:          Einar Jón Pálsson
Varamaður:         Gísli Kjartansson

Frá Vatnsleysustrandarhreppi:
Aðalmaður:           Kristinn Þór Guðbjartsson
Varamaður:           Birgir Þórarinsson

Stjórnin skipti með sér verkum á fyrsta fundi sínum þannig:

Formaður:                Sigríður J. Jóhannesdóttir

Varaformaður:        Óskar Gunnarsson

Ritari:                        Kristinn Þ. Guðbjartsson

Þrátt fyrir að starfsárið hafi verið í styttra lagi, þá hefur það verið ákaflega viðburðarríkt og hefur stjórnin haldið 13 bókaða fundi.

Við erum nú að sjá árangur af mikilli vinnu undanfarinna ára, vinnu sem staðið hefur linnulaust frá árinu 1995.  Oft hefur manni fundist lítið miða og stundum reyndar afturábak. En þolinmæði og þrautseigja hafa loksins skilað okkur áleiðis. Við náðum samkomulagi við varnarliðið í apríl 2001 og síðan eftir stormasamt útboðsferli, sem gert var grein fyrir á síðasta aðalfundi, undirrituðum við samning við Héðinn ehf. þann 27. júlí s.l. um byggingu nýrrar stöðvar fyrir um 750 milljónir króna. Það má segja að síðan hafi hjólin snúist hratt og þann 21. nóvember s.l. var tekinn fyrsta skóflustungan.

Byggingarframkvæmdir

Jarðvinnan hafði verið boðin út og lægsta boð áttu Íslenskir aðalverktakar hf. að upphæð tæplega 40 milljónir króna, eftirlit með þeim framkvæmdum hefur Verkfræðistofa Suðurnesja.

Í desember s.l.  hófst síðan vinna við bygginu stöðvar- og móttökuhúss, það er Húsanes sem er undirverktaki hjá Héðni sem sér um framkvæmdir við steypta hluta hússins.

Þann 22. apríl s.l. hóf svo Héðinn að reisa stálgrindarhúsið sjálft og hefur verkinu miðað mjög vel og eru allir verkþættir á áætlun.

Þjónustubygging sem inniheldur aðstöðu fyrir starfsmenn, vigt og skrifstofu var boðin út fyrir skömmu og var á fundi í dag ákveðið að taka tilboði Húsagerðarinnar uppá rúmlega 32 milljónir.

Hönnun annaðist Gláma/Kím eins og við stöðvarhúsið sjálft, burðarvirki og lagnir hannaði VSÓ -Reykjanes og raflagnir hannaði Rafmiðstöðin.

Þar með hafa öll stærstu verkin verið boðin út fyrir utan sorphauga á Stafnesi.

Á mánudaginn kemur þann 23. júní verður vélbúnaði skipað út frá Basse Sambre í Belgíu og kemur hann til landsins í byrjun júlí. Stærstu einstöku hlutirnir sem vega hvor um sig um 100 tonn eru brennsluofninn og eftirbrennslurýmið sem koma í heilu lagi.

Orkunýting

Sorpeyðingarstöðin fékk Hitaveitu Suðurnesja í lið með sér til að kanna hagkvæmustu leiðina til að nýta orku frá brennslustöðinni.

Fljótlega kom í ljós að lítill markaður er fyrir heitt vatn frá stöðinni því var ákveðið að skoðaður yrði sá möguleiki að framleiða rafmagn.

Talið var heppilegast að virkja orkuna í samvinnu við Hitaveituna enda er hún með einkarétt á að selja orku inn á netið samkvæmt núgildandi lögum

Í upphafi unnu Sorpeyðingarstöðin, Hitaveitan og X-orka að úttekt á því hvort heppilegt væri að nota svokallaða  "Kalina" tækni við orkuframleiðslu en sú tækni byggir á að nýta lægra hitastig, sem gefur meiri raforku (allt að 700 kw) eins og m.a. er gert í dag á Húsavík.   Niðurstaða sérfræðinga Hitaveitunnar var að þessi tækni væri ekki nógu reynd til að nota hana.

Samningur var síðan undirritaður þann 15. maí s.l.  við Hitaveituna.  Samningurinn felur í sér að Hitaveitan leggur til og rekur allan búnað til raforkuframleiðslunnar, ásamt búnaði til að losna við afgangsvarma. Sorpeyðingarstöðin leggur til gufu til rekstursins og húsnæði fyrir búnaðinn.  Sorpeyðingarstöðin kaupir svo raforku af Hitaveitunni, sem tryggir orku til rekstursins, annað hvort frá rafstöðinni eða beint af netinu, sem eykur rekstraröryggið til muna.  Framleidd verða um 440 kW af raforku með gufutúrbínu. Af því notar stöðin mest um 300kW til eigin þarfa, en umframorkan fer út á almenna raforkunetið. Auk þess nýtir stöðin varmaorku frá brennslunni til upphitunar á húsi og lóð. Stöðin verður því sjálfbær bæði hvað varðar raforku og varma. Brennsla til orkunýtingar er talin til endurvinnslu og hækkar endurvinnsluhlutfall stöðvarinnar því verulega við þetta. Samningurinn verður endurskoðaður að tveimur árum liðnum eftir að reynsla hefur fengist af rekstrinum.

Stefnumótun - ímynd.

Eitt af þeim verkefnum sem unnið hefur verið að í vetur er áframhaldandi stefnumótun.  Hefur stjórnin lagt á það áherslu að með nýrri stöð komi fram ný ímynd, ímynd þar sem áhersla er lögð á hreinleika og umhverfisvernd.

Einnig var leitað að nafni á nýju stöðina og auglýst opin samkeppni um nafn á hina nýju starfstöð í Helguvík. 186-tillögur bárust en eftir ítarlega yfirferð ákvað stjórnin að hafna þeim öllum.   Flest þessara nafna voru tengd sorpi og brennslu í hinum ýmsu myndum og þau sem stjórnin hafði valið til frekari skoðunar höfðu þann annmarka að þau voru þegar til á firmaskrá.  Þá var tekið til bragðs að leita í örnefnaskrám hér á svæðinu og varð niðurstaðan sú að velja nafnið Kalka sem er gamalt örnefni á vörðu, hvítri að lit, sem var efst á Háaleitinu, þar sem landamörk flestra bæja og hreppa á svæðinu mættust. Orðið "kalka" þýðir samkvæmt íslensku orðabókinni að baksa eða fást við eitthvað og að merja í sundur og má segja að það hæfi vel.

Í framhaldi af nafnavalinu var síðan leitað til 2 grafískra hönnuða þeirra Jóns Ágústs Pálmasonar og Braga Einarssonar um að koma með tillögur að nýju merki fyrir Kölku um miðjan apríl.  Stjórn Sorpeyðingarstöðvarinnar ákvað að velja tillögu Jóns Ágústs og verður hún kynnt hér á eftir.

Umhverfismat - úrskurður

Þann 20. maí s.l. sendi Skipulagsstofnun frá sér úrskurð um umhverfismat þar sem  fallist er á fyrirhugaða sorpbrennslu-, móttöku- og flokkunarstöð í Helguvík og urðun á Stafnesi.

Helstu niðurstöður eru að Skipulagsstofnun telur að af framkvæmdinni muni ekki stafa umtalsverð loft- eða hávaðamengun, vegna fullkominnar brennslu og hreinsunar útblásturs, né vegna flutninga að eða frá henni til urðunarstaðar með viðeigandi frágangi á flutningabílum. Skipulagsstofnun telur að framkvæmdirnar muni ekki hafa í för með sér veruleg áhrif á gróður- og dýralíf á svæðinu. Segja má að úrskurðurinn sé mjög á þá lund sem við væntum.

Endurskoðun samþykkta og gjaldskrá

Unnið hefur verið að endurskoðun á samþykktum um sorphirðu og förgun úrgangs fyrir Suðurnes og voru nýjar samþykktir svo til fullmótaðar þegar ný lög um meðferð úrgangs voru samþykkt á Alþingi skömmu fyrir þinglok í vetur.  Þar er að finna ýmis nýmæli eins og t.d. varðandi gjaldskrármál en þar er m.a. kveðið á um að sveitarfélögin skuli innheimta gjöld sem standi að öllu leiti undir förgun sorps.

Þeir Árni Páll og Guðjón munu fjalla um þessi mál hér á eftir. 

Góðir sveitarstjórnarmenn

Ég hef nú lýst mörgum af þeim verkefnum sem unnið hefur verið að undanfarna mánuði.  Ekki eru öll verkefnin eins skemmtileg og hefur m.a. þurft talsverða baráttu til að fá að halda núverandi stöð starfandi. Eins og þið sjálfsagt vitið rann starfsleyfi stöðvarinnar út þann 1. desember 2000.

Við höfðum reyndar í lokaskorpunni í samningum við varnarliðið leitað álits hjá öllum aðilum um að fá undanþágu til að reka gömlu stöðina þar til ný stöð tæki við í árslok 2003. Allir þessir aðilar, Heilbrigðiseftirlitið, Utanríkisráðuneytuneyti, Umhverfisráðuneyti og Hollustuvernd ríkisins höfðu tekið vel í erindi okkar og talið það vera ásættanlegt enda lægi fyrir áætlun um úrbætur.  Einnig gerði samningurinn við varnarliðið beinlínis ráð fyrir rekstri hennar til þessa tíma

Dioxínmælingar

Gerðar voru mjög dýrar díoxínmælingar á jarðvegi í nágrenni stöðvarinnar, í Helguvík og Garði að kröfu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.  En stofnunin hafði sett stöðinni mjög þröngar skorður hvað varðar brennslu á plastefnum, hjólbörðum og fiskikörum vegna ótta við mikla díoxínmengun frá stöðinni, þrátt fyrir að Sorpeyðingarstöðin hafi dregið mjög úr brennslu plastúrgangs m.a. með því að tunnuvæða sorphirðuna. 

Niðurstöður díoxínmælinga sýndu fram á að magn þess væri hverfandi eftir 25 ára starfsemi stöðvarinnar og langt undir þeim viðmiðunarmörkum sem aðrar þjóðir hafa sett sér áður en gripið er til varnaaðgerða.  Niðurstöður mælinganna í Helguvík og Garði verða notaðar sem viðmiðunargildi fyrir stöðina í Helguvík í framtíðinni

Kærumál

Ég nefndi í upphafi máls að útboðsferill nýrrar brennslustöðvar hafi verið stormasamur. Eins og kunnugt er féll Hekla /Járnbending frá tilboði sínu og við urðum að fara í annað útboðsferli.

Stjórnin fól Jóhannesi K. Sveinssyni hrl að undirbúa og setja fram kröfur á hendur Heklu sem nú hefur verið gert og er beðið viðbragða þeirra.

Einnig kærðu 2 af bjóðendum seinna útboðið til kærunefndar útboðsmála og var Ríkiskaup fyrir okkar hönd sýknað af öllum kröfum. En allt þetta kostar vinnu og fjármuni.

Samstarf sorpsamlaga

Erindi barst frá Sorpu þar sem m.a. er fjallað um samstarf sorpfélaga á Suður- og Suðvesturlandi og nauðsyn á að gerð yrði úttekt á fyrirkomulagi slíks samstarfs, ásamt kostum þess og göllum.  Stjórnin samþykkti að taka þátt í slíkri úttekt og einnig höfum við tekið vel í erindi um samstarf við Sunnlendinga í þessum efnum og áttum við fund með þeim í gær um þau mál.   Helstu áhersluatriði í þessum málum eru að við gætum nýtt okkur urðunarstaði á höfuðborgarsvæðinu og/eða í Ölfusi og þannig jafnvel komist hjá byggingu urðunarstaðar á Stafnesi.  Í staðinn gætum við tekið við úrgangi sem er betur fallinn til brennslu en urðunar frá þessum nágrönnum okkar. Einnig er nauðsynlegt að vinna saman að ýmsum málum er lúta að skipulagi og samræmingu fræðslu og kynningar.  Í okkar samfélagi renna þessi svæði á margan hátt í eina heild.  Sömu fyrirtækin starfa á mörgum svæðum og íbúar sækja tómstundir t.d. austur fyrir fjall og því er mikilvægt að allsstaðar sé unnið með svipuðum hætti að flokkun og verðlagningu á förgun úrgangs.   En þessar viðræður eru rétt á byrjunarstigi og hver veit nema þær geti leitt af sér hagræði og sparnað fyrir alla, þar sem allir stefna að sama marki.

Hér hefur að mestu verið farið yfir verkefni vetrarins en á sama tíma hefur rekstur gömlu stöðvarinnar gengið sinn vana gang. Sorp sem féll til á Suðurnesjum árið 2002 var um 18.200 tonn en árið á undan var magnið um 19.100 tonn, sem sýnir samdrátt um 900 tonn, eða 5 prósent.

Til brennslu fór um 11.600 tonn, sem er sama magn og árið á undan. Tekist hefur að mestu leiti að eyða öllu brennanlegu sorpi sem fellur til á varnarsvæðinu og Suðurnesjum. Einungis þurfti að kaupa eyðingu fyrir 150 tonn af brennanlegu en það var út af stoppi vegna viðhalds. Árið áður var þessi tala um 510 tonn, hin 500 tonnin í samdrættinum skipta sér nokkuð jafnt á milli annara sorptegunda. Í ársreikningum má sjá að rekstur stöðvarinnar hefur gengið ágætlega og er rúml.  milljón krónum lægri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Sorp frá varnarliðinu var um 3100 tonn árið 2001 en um 3000 tonn árið 2002.  En það sem af er árinu 2003 hefur það heldur aukist.

Þar sem aðeins á að starfrækja stöðina til næstu áramóta hefur viðhaldi hennar verið haldið í lágmarki eins og sjá má í ársreikningi. Til fróðleiks má geta þess að stöðin var keyrð í 7.420 tíma á árinu 2002 sem er um 85% nýting og 30% af dauða tímanun er vegna helgidaga og skorts á brennsluefni, sem sem telst nokkuð góð nýting á búnaði.

Lokaorð

Ég hef hér að framan farið yfir starfsemi Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja síðastliðið starfsár. Ég vona að það gefi ykkur innsýn í þau fjölmörgu verkefni sem unnið hefur verið að. 

Ég vil þakka stjórnarmönnum samstarfið á þessu starfsári og þá sérstaklega Sigríði Jónu Jóhannesdóttir formanni sem ég hleyp hér í skarðið fyrir.  Þá vil ég einnig þakka framkvæmdastjóra og starfsmönnum stöðvarinnar, sem og ráðgjöfum fyrir þeirra framlag.

Mörg spennandi verkefni bíða nýrrar stjórnar.  Við erum á tímamótum, um næstu áramót hefjum við rekstur á nýrri stöð sem við Suðurnesjamenn getum verið stoltir af. Þá verðum við í fararbroddi í meðhöndlun úrgangs og verðum fyrstir til að uppfylla allar reglur um endurvinnslu og eyðingu úrgangs.

Til baka