Aðalfundur 2005

21.6.2005

27. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn fimmtudaginn 9. júní 2005 kl. 17:00 í fundarsal Kölku í Reykjanesbæ.

 

DAGSKRÁ

 

1.                  Fundarsetning.

2.                  Kosning fundarstjóra og fundarritara.

3.                  Skýrsla stjórnar.

4.                  Reikningar félagsins árið 2004.

5.                  Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.

6.                  Tilnefning í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.

7.                  Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara

8.                  Önnur mál.

 

Rétt til fundarsetu eiga allir kjörnir sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum eða varamenn þeirra, framkvæmdastjórar sveitarfélaganna, stjórnarmenn félagsins, framkvæmdastjóri og stöðvarstjóri.

Mættir voru: Böðvar Jónsson, Sveindís Valdimarsdóttir, Óskar Gunnarsson, Jón Gunnarsson, Hörður Guðbrandsson, Kristinn Þór Guðbjartsson, Jón Ólafur Jónsson, Ingibjörg Reynisdóttir, Kjartan M. Kjartansson, Birgir Örn Ólafsson, Sigríður J. Jóhannesdóttir, Björk Guðjónsdóttir, Guðjón Guðmundsson og Einar Jón Pálsson.

 

  1. Sigríður Jóna Jóhannesdóttir formaður Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja bauð fundarmenn velkomna og setti fundinn. 

           

  1. Formaður var með uppástungu um Björk Guðjónsdóttur sem fundarstjóra og Hjört Zakaríasson sem fundarritara og voru þau sjálfkjörin.

Björk Guðjónsdóttir tók síðan við fundarstjórn og þakkaði traustið fyrir sína hönd og Hjartar Zakaríassonar.   

 

  1. Fundarstjóri gaf formanni Sigríði J. Jóhannesdóttur orðið er flutti skýrslu stjórnar sem fylgir hér með:

Fundarstjóri, ágætu sveitarstjórnarmenn. 

Stjórnin skipti með sér verkum á fyrsta fundi sínum þann 01.07.2004  þannig:

Formaður:                    Sigríður J. Jóhannesdóttir

Varaformaður:             Kristinn Þ. Guðbjartsson

Ritari:                           Einar Jón Pálsson

 

Stjórnin hefur haldið 13 bókaða fundi á starfsárinu.

Segja má að þetta starfsár hafi verið viðburðarríkt og  spennandi en ekki þrautarlaust.

Í upphafi starfsárs höfðum við nýverið lokað gömlu stöðinni við Hafnaveg og ekki er enn útséð hvað um hana verður.

Kalka var erfið á sínum fyrstu mánuðum í rekstri og glímt var við ýmsa byrjunarörðugleika. Tímafrekt reyndist að samstilla brennslukerfið og ná fullum afköstum.

Oft á tíðum þegar við vorum að ná  því marki sem til var ætlast þá dundi yfir okkur einhver önnur hindrun til þess að yfirstíga. Eins og við vitum öll þá er lífið fullt af hindrunum sem við þurfum að horfast í augu við og reyna að yfirstíga þær sem fyrst.

Alfred Souza sagði eitt sinn:

Lengi vel fannst mér alltaf sem lífið væri rétt að byrja.

Þetta eina sanna líf.

En það var alltaf eitthvað sem stóð í vegi fyrir því,

eitthvað sem þurfti að yfirstíga fyrst,

einhver ókláruð mál.

Síðan myndi lífið byrja.

 

Dag einn rann það upp fyrir honum að allar þessar hindranir voru lífið sjálft.

 

Þetta er lýsandi dæmi um líðan starfsmanna og stjórnar á síðasta ári. Eins og Guðjón sagði í ræðu sinni við opnunina, þá er von okkar allra að Kalka taki fyrr út sinn þroska en gamla stöðin við Hafnaveg.

Og okkur er það öllum  ljóst,  að ef deginum í dag er vel varið, mun gærdagurinn breytast í verðmæta minningu og morgundagurinn í vonarbjarma.

 

Afköstum náð

Fullum afköstum var náð um síðustu áramót og lokaprófanir á hæfni og brennslugetu kerfisins fóru fram í byrjun mars s.l.

Allar niðurstöður liggja fyrir úr þessum prófunum og hefur stöðin staðist allar hönnunarkröfur. Gengið var frá skýrslu um lokaúttekt í byrjun apríl s.l. Kostnaðaráætlun við framkvæmdir hafa staðist mjög vel og lítið um aukaverk.

 

Opnunar-  og kynningarhátíð

Stjórnin áformaði næstu skref og ákvað að blása til opnunar- og kynningarhátíðar í  Kölku 27. maí 2005 sem tókst í alla staði vel.

Það var okkur sönn ánægja að Umhverfisráðherrann okkar Sigríður Anna Þórðardóttir hafði tök á því að vera með okkur á þessum tímamótum.

 

Gámaplön

Ný glæsileg gámaplön voru opnuð í Grindavík og Vogum þann 24. september s.l.

Miklar umræður voru  um gámaplönin og opnunartíma þeirra. Stjórnin  endurskoðaði fyrri afstöðu sína gagnvart opnunartíma og ákvað að lengja hann. Við það varð kostnaðarauki um 2 m. kr. og vona ég að flestir séu sáttir í dag þó eitthvað sé enn óunnið.

Mikil aðsókn er á gámaplönin og er ánægjulegt að segja frá því að bæjarbúar bera starfsmönnum gott orð.

 

 

 

Stafnes

Það sem út af stendur í framkvæmdum er bygging urðunarstaðar á Stafnesi. Umhverfismat liggur fyrir og er undirbúningur framkvæmda á fullu en skipulagsmál og vegalagning hafa tafið það verk. Gert er ráð fyrir að vegalagning hefjist í haust.

 

 

Greiðsla bóta

Sorpeyðingarstöð Suðurnesja og Hekla hf.  komust að samkomulagi um greiðslu bóta vegna fjártjóns SS vegna vanefnda Heklu hf. að fjárhæð kr. 12.000.000 sem greiddust í júlí og sept. 2004. Greiðsla þessi fól í sér fullnaðargreiðslu á öllu sem leiddi af framgreindri vanefnd.

 

Magntölur

Sorp sem barst til Kölku  árið 2004 var um 16.200 tonn en það er nokkru minna en undanfarin ár. Munar þar mestu  um brotamálma sem fara nú að mestu beint til endurvinnslufyrirtækjanna.

Til brennslu fóru tæplega 9.700 tonn, 3.370 tonn fóru til endurvinnslu og endurnýtingu  og um 2.760 tonn í urðun.

Þar sem brennsla til orkunýtingar er talin til endurvinnslu, hækkar endurvinnsluhlutfall stöðvarinnar verulega og lætur því nærri að um 83% af sorpinu fari í  endurvinnslu og endurnýtingu.  Við viljum auka það hlutfall enn frekar með því að nýta öskuna í mannvirki,  s.s. vegfyllingar og er nú verið að gera ítarlegar rannsóknir á henni.

 

Rekstur

Hið nýja fyrirkomulag hefur haft í för með sér allmiklar breytingar á rekstrartekjum og rekstrargjöldum eins og við sjáum í ársreikningnum. Segja má að þetta fyrsta ár í rekstri  sé á vissan hátt afbrigðilegt. Við hættum rekstri gömlu stöðvarinnar

1. apríl 2004 og í ársreikningunum er hún afskrifuð að fullu.

Inn koma nýir kostnaðarliðir við nýju stöðina sem varða t.d. starfsmannahús, rekstur gámaplana, íblöndunarefni vegna reykhreinsitækja, meiri orkunotkun og síðast en ekki síst aðkeypt eyðing sem var miklu meiri vegna minni afkasta fram eftir ári eins og minnst var á hér að framan. Árið 2005 ætti hins vegar að verða eðlilegra í rekstri.

 

Úrvinnslusjóður

Nú á vordögum hóf úrvinnslusjóður að greiða fyrir móttöku og endurvinnslu á pappa og í kjölfarið breyttum við gjaldskrá okkar þannig að hægt er að skila honum inn gjaldfrjálst.

Einnig lækkuðum við gjald fyrir móttöku á dagblöðum.

Þá hefur stjórnin samþykkt gjaldskrá fyrir brennslu spilliefna og undirritað samninga við Efnamóttökuna um eyðingu og meðhöndlun spilliefna og koma þeir samningar til framkvæmda á næstu vikum.

 

Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs

Í lögum um meðhöndlun úrgangs kemur fram að sveitarstjórnir skuli semja og staðfesta svæðisáætlun og þar skal tiltekið  með hvaða hætti sveitarfélagið hyggst ná þeim markmiðum.

Sorpa, Sorpurðun Vesturlands, Sorpstöð Suðurlands og S.S.  skrifuðu undir samning um sameiginlega svæðisáætlun.

Með því að tala einum rómi gagnvart neytandanum tryggjum við einsleit skilaboð um meðferð og meðhöndlun úrgangs og getum fylgt þeim skilaboðum eftir.

 

Gæðahandbók:

Við höfum verið að vinna að gæðahandbók fyrir Kölku sem inniheldur meðal annars:

Markmið

Umhverfisstefnu

Samþykktir

Starfsmannamál

Verklagsreglur

Öryggis- og heilbrigðisáætlun

En því miður tókst okkur ekki að ljúka þeirri vinnu fyrir aðalfund en gerum ráð fyrir því að kynna hana fyrir sveitarstjórnarmönnum síðar.

Stefnumótun / ímynd

Straumhvörf hafa orðið hjá okkur í umhverfismálum við opnun Kölku og við stöndum vel að vígi við að takast á við framtíðina með okkar nýju lausn. Það er margt að gerast í þessum málaflokki, sífellt hertar reglur, sem við þurfum að bregðast við og gerðar eru meiri kröfur um þjónustu við íbúa og fyrirtæki.

Við megum ekki sofna á verðinum og láta stundargaman byrgja okkur sýn til framtíðar, heldur leggja okkur fram um að vernda umhverfið, því í nútímasamfélagi fylgir mikill úrgangur.

 

?Hreint land fagurt land? munið þið ekki eftir þessu slagorði? Þetta er slagorð sem var mikið notað þegar formaður var að slíta barnsskónum. Enn er þetta slagorð mér í fersku minni.

?Ungur nemur, gamall temur? segir máltækið.

 

Stjórnin hefur lagt á það ríka áherslu að með nýrri stöð komi fram ný ímynd þar sem áhersla er lögð á hreinleika og umhverfisvernd.

Vonandi getum við í framtíðinni lagt okkar að mörkum með því að bjóða upp á fræðslu til leikskóla- og grunnskólabarna, þar sem fjallað er um umhverfissjónarmið við úrgangsmeðhöndlun líkt og SORPA gerir í dag.

 

?Því lengi býr að fyrstu gerð?  segir máltækið.

 

Baldursbráin er okkar tákn um hreinleika og umhverfisvernd. Það er mikil gróska í þessu blómi, það vex og dafnar við ótrúlegustu skilyrði og fer víða.  Við munum leggja okkur fram við að svo megi einnig verða með orðstýr Kölku.

Það er von mín að við eigum eftir að gefa út fræðsluefni um umhverfismál þar sem okkar sögupersónur þær Baldursbrá og Kalka taka til hendinni við að vernda umhverfið.

 

Lokaorð

Ágætu sveitarstjórnarmenn

Hér hefur að mestu verið farið yfir verkefni Kölku síðastliðið starfsár og framtíðar sýn.

Ég vona að þið hafið fengið smá innsýn í þau fjölmörgu verkefni sem unnið hefur verið að.

En þó við höfum náð þessum áfanga í dag þá er margt óunnið enn og mörg spennandi verkefni bíða nýrrar stjórnar.

Um leið og ég vil þakka, stjórninni, Guðjóni Guðmundssyni og hans öfluga starfsfólki fyrir samstarfið er það ósk mín að þessi frábæra sorpbrennslu- og móttökustöð verði okkur öllum til heilla.

 

 

  1. Fundarstjóri gaf Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur endurskoðanda orðið er skýrði reikninga félagsins fyrir árið 2004 og rakti helstu niðurstöðutölur ársreikningsins.
  2. Fundarstjóri gaf síðan orðið laust um reikningana og skýrslu stjórnar. Til máls tóku Jón Gunnarsson er lagði fram spurningar um eigið fé, veltufjárhlutfall og áhrif gengis á stöðu fyrirtækisins, Böðvar Jónsson spurði um lækkandi brennslutekjur. Kjartan M. Kjartansson spurðist fyrir um brennslutekjur af öðrum en sveitarfélögunum, lengingu á sorphirðu og viðskiptakröfur fyrirtækisins.

Anna Birgitta og Guðjón Guðmundsson svörðu spurningum fyrirspyrjanda en þar kom fram m.a. að aðkeypt þjónusta hafi verið með meira móti á síðasta ári vegna flutnings í nýju stöðuna, gengisþróun hagstæð á síðasta ári, viðskiptakröfur hafa farið lækkandi, seld þjónusta sé tilraunastarf en með fullum afköstum ætti stöðin að vera samkeppnishæfari. Framlag varnarliðiðsins afskrifað á 25 árum, gamla stöðin afskrifuð um 40 milljónir og að lokum væri lítið um kvartanir frá íbúum vegna lengingu á sorphirðutíma. 

 

Fundarstjóri bar síðan upp reikninga félagsins sem voru samþykktir samhljóða.

  1. Fundarstjóri las síðan upp tilnefningar í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár: 

Frá Reykjanesbæ:

            Aðalmenn:            Sigríður Jóna Jóhannesdóttir

                                    Guðný Ester Aðalsteinsdóttir

                                    Jón Ólafur Jónsson

            Varamenn:

                                    Hermann Helgason

                                    Konráð Lúðvíksson

                                    Bjarni M. Jónsson

 

Frá Grindavíkurbæ:

            Aðalmaður:            Hörður Guðbrandsson

            Varamaður:            Garðar P. Vignisson

 

Frá Sandgerðisbæ:

            Aðalmaður:            Óskar Gunnarsson

            Varamaður:            Reynir Sveinsson

 

Frá Sveitarfélaginu Garði:

            Aðalmaður:            Einar Jón Pálsson

            Varamaður:            Gísli Kjartansson

 

Frá Vatnsleysustrandarhreppi:

            Aðalmaður:            Jón Gunnarsson

            Varamaður             Birgir Örn Ólafsson.

 

7.   Fundarstjóri stakk uppá Hirti Zakaríassyni og Huldu Matthíasdóttur sem skoðunarmenn reikninga.

 

8.            Fundarstjóri gaf síðan orðið laust um önnur mál.  Til máls tóku Sveindís Valdimarsdóttir er taldi að það væru gríðarlegir möguleikar í nýtingu á sorpi, Kjartan Már Kjartansson spurðist fyrir um flokkunarstöðvar í hverfum.  Guðjón Guðmundsson svaraði fyrirspyrjendum og sagði að ýmislegt væri til skoðunar á frekari nýtingu sorps, framtíðin væri aukin endurvinnsla og flokkun og varðandi hverfastöðvar snerist það um pólitískan vilja.

           

Fundarstjóri gaf síðan fráfarandi formanni Sigríði J. Jóhannesdóttur orðið er þakkaði þeim Alberti Hjálmarssyni og Kristni Þór Guðbjartssyni fyrir gott samstarf og vel unnin störf fyrir fyrirtækið. Að lokum þakkaði Sigríður fundarmönnum góðan fund og starfsmönnum og endurskoðanda fyrir þeirra þátt og sleit fundi.

 

 

 Fleira ekki gert og fundi slitið.

 

 

                                                            Hjörtur Zakaríasson (sign.)

                                                            Björk Guðjónsdóttir (sign)

 

 

 

Til baka