Aðalfundur SS 2009

8.10.2009

31. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn miðvikudaginn 26. ágúst kl. 17.00 í fundarsal Kölku í Reykjanesbæ.

 

 

Dagskrá

 

1.      Fundarsetning.

2.      Kosning fundarstjóra og fundarritara.

3.      Skýrsla stjórnar: Guðný Ester Aðalsteinsdóttir, stjórnarformaður.

4.      Reikningar félagsins árið 2008: Anna B. Geirfinnsdóttir lögg. endurskoðandi.

5.      Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.

6.      Tilnefning í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.

7.      Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.

8.     Önnur mál.

 

Rétt til fundarsetu eiga allir kjörnir sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum eða varamenn þeirra, framkvæmdastjórar sveitarfélaganna, stjórnarmenn félagsins, framkvæmdastjóri og stöðvarstjóri.

 

Fundargerð 

 

  1. Guðný E. Aðalsteinsdóttir formaður S.S. setti aðalfund 2009.
  2. Tillaga kom um Björk Guðjónsdóttir sem fundarstjóra. Var það samþykkt samhljóða. Aron Jóhannsson var tilnefndur sem fundarritari og var það samþykkt samhljóða. Að því loknu tók Björk við fundarstjórn.
  3. Guðný E. Aðalsteinsdóttir formaður stjórnar S.S. kynnti skýrslu stjórnar fyrir árið 2008.
  4. Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi kynnti reikninga félagsins árið 2008. Í máli hennar kom fram að samkvæmt rekstrarreikningi nam tap félagsins tæpum 597 milljónum króna á reikningsárinu aðallega vegna fjármagnsliða.. Eigið fé var neikvætt um 497 milljónir króna. Framsetning ársreiknings og þar með mat eigna og skulda er byggð á þeirri forsendu að um áframhaldandi rekstur félagsins verði að ræða en forsenda þess er að það takist að bæta rekstrarafkomu félagsins og fjárhagsstöðu.
  5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga. Engar umræður urðu um skýrslu stjórnar eða ársreikninga Kölku. Ársreikningar Kölku fyrir árið 2008 bornir upp til atkvæðagreiðslu. Ársreikningar samþykktir samhljóða.
  6. Tilnefningar sveitarfélaganna í stjórn S.S. starfsárið 2009-2010:

Reykjanesbær - Aðalmenn: Guðný Ester Aðalsteinsdóttir, Margrét Sæmundsdóttir, Stefán B. Ólafsson – Varamenn: Árni Þór Ármannsson, Ólöf Steinunn Lárusdóttir, Ingvi Þór Hákonarson. 

Grindavíkurbær – Aðalmaður: Hörður Guðbrandsson  - Varamaður: Garðar P. Vignisson.     

Sandgerðisbær - Aðalmaður: Hólmfríður Skarphéðinsdóttir - Varamaður: Óskar Gunnarsson. 

Sveitarfélagið Garður - Særún Ástþórsdóttir - Varamaður: Oddný Harðardóttir.

Sveitarfélagið Vogar - Aðalmaður: Inga Rut Hlöðversdóttir -  Varamaður: Bergur Álfþórsson.

 

  1. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara. Skoðunarmenn voru tilnefnd: Hjörtur Zakaríasson og Anna H. Friðriksdóttir. Hulda Matthíasdóttir var tilnefnd sem varamaður. Samþykkt samhljóða.
  2. Önnur mál. Hólmfríður Skarphéðinsdóttir frá Sandgerðisbæ kynnti eftirfarandi bókun sem samþykkt var í bæjarráði Sandgerðisbæjar: “Bæjarráð Sandgerðisbæjar telur rétt í ljósri erfiðrar stöðu félagsins að stjórn Kölku verði falið að kanna hvort möguleikar séu fyrir hendi á áhuga annarra aðila á samstarfi - sameiningu - eða öðru samstarfi við aðila um rekstur Kölku. Lögð er höfuðáhersla á að slíkt samstarf verði kannað við önnur sveitarfélög og eða félög sem hafa markaðssett sig á þessu sviði og hafi til að bera þekkingu á slíkum rekstri. Bæjarráð Sandgerðisbæjar leggur ríka áherslu á að með slíkri tillögu er verið að tryggja að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafi aðgang að áframhaldandi rekstri stöðvarinnar sem og að sorpeyðingarþjónusta fyrir svæðið verði með sambærilegum hætti og verið hefur. Þjónustugjöld taki mið af umfangi og rekstri á sambærilegri þjónustu á landsvísu.”

Böðvar Jóns tók til máls og fór yfir viðhorf Reykjanesbæjar varðandi stöðu félagsins. Í máli hans kom fram að Reykjanesbær sætti sig ekki við núverandi rekstrartap né rekstrarform. Böðvar minnti á að öll sveitarfélögin hefðu samþykkt breytingar á rekstrarformi Kölku á síðasta aðalfundi en þær hefðu ekki gengið eftir vegna andstöðu Grindvíkinga. Böðvar fagnaði bókun Sandgerðisbæjar. Böðvar lagði fram eftirfarandi tillögu: “Aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. samþykkir að kannaðir verði möguleikar á áhuga annarra aðila á samstarfi um rekstur Kölku eða mögulega sölu á fyrirtækinu. Jafnframt verði sorpeyðingarþjónusta fyrir svæðið tryggð.” Böðvar sagði ef engar breytingar yrði á rekstri myndi bæjarráð Reykjanesbæjar íhuga að segja sig frá félaginu.

Oddný Harðardóttir frá sveitarfélaginu Garði tók til máls. Hún vildi minna á að á aðalfundi Kölku árið 2007 hafi verið samþykkt að leita leiða á samstarfi við önnur sorpsamlög á svæðinu. Hún harmaði afstöðu Reykjanesbæjar. Hörður Guðbrandsson frá Grindavíkurbæ tók til máls. Hann tók undir mál Oddnýjar. Hann sagði að Grindavíkurbær hefði bara samþykkt breytingar á rekstrarformi gegn því að hlutfall stjórnar væri óbreytt til að tryggja stöðu litlu sveitarfélaganna. Hann vildi taka undir þau sjónarmið að leita yrði leiða til að efla samstarf við önnur sorpsamlög. Hann væri á móti því að einkavæðing yrði keyrð í gegn - það væri gamall hugsunargangur. Taldi hann að verið væri i viðræðum við einn ákveðinn aðila. 

Guðný E. Aðalsteinsdóttir frá Reykjanesbæ - Lýsti yfir vonbrigðum með málflutning Harðar. Enginn ákveðinn aðili væri i viðræðum um Kölku.

Hörður Guðbrandsson tók aftur til máls. Hann vildi gera bókun Sandgerðisbæjar að sinni tillögu.

Böðvar tók til máls. Hann sagði að Reykjanesbær hafi alltaf verið fús til samstarfs við önnur sorpsamlög en það hefði ekki gengið eftir. Hann sagði að einn aðili hafi komið með fyrirspurn til Reykjanesbæjar vegna Kölku. Ekki væri verið í viðræðum við ákveðna aðila. Áréttaði að gera yrði stórar breytingar á rekstarformi Kölku vegna mikils taps.

Hólmfríður tók aftur til máls og sagði að bókun Sandgerðisbæjar væri bókun, ekki tillaga. Hún áréttaði að staða Kölku væri óviðeigandi og eitthvað yrði að gera.

Hörður tók aftur til máls og vildi bóka bókun Sandgerðisbæjar óbreytta en sem tillögu og undir formerkjum Grindavíkurbæjar. Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri lagði fram tillögu að það yrði gert fundarhlé til fundarmenn kæmu sér saman um tillögur svo stjórn S.S. gæti unnið úr tillögunni. Það væri slæmt fyrir nýja stjórn að fara með tvær ólíkar tillögur inn í starfsárið. Það var samþykkt.

Böðvar Jónsson frá Reykjanesbæ tók aftur til máls og sagði að samkomulag væri á milli aðila með eftirfarandi tillögu: "Aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn 26.08.09 telur rétt í ljósi erfiðrar stöðu félagsins að stjórn félagsins verði falið að kanna hvort möguleikar séu fyrir hendi á áhuga annarra aðila á samstarfi - sameiningu - eða öðru samstarfi við aðila um rekstur Kölku. Í þeirri skoðun verði kannað samstarf við önnur sveitarfélög og/eða félög á almennum markaði sem unnið hafa eða markaðssetja sig á þessu sviði. Jafnframt verði sorpeyðingarþjónusta fyrir svæðið tryggð."  Tillagan borin upp til atkvæða. Tillagan samþykkt samhljóða.

  1. Guðný E. Aðalsteinsdóttir formaður þakkaði fundarstjóra og fundarritara fyrir þeirra störf á aðalfundi og sleit fundi 18.36.
Til baka