Aðalfundur SS 2010

15.4.2011

32. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn fimmtudaginn 19. ágúst 2010 kl. 16.00 í fundarsal Kölku (starfsmanna og vigtarhús) í Reykjanesbæ.

  1. Berglind Kristinsdóttir starfandi framkvæmdastjóri S.S. setti aðalfund 2010. Berglind fór stuttlega yfir sögu og starfsemi brennslustöðvarinnar Kölku í Helguvík.
  2. Tilnefning kom um Róbert Ragnarsson bæjarstjóra Gindavíkur sem fundarstjóra. Var það samþykkt samhljóða. Aron Jóhannsson var tilnefndur sem fundarritari og var það samþykkt samhljóða. Að því loknu tók Róbert við fundarstjórn. Engar athugasemdir bárust frá fundarmönnum vegna fundarboðunar.
  3. Hörður Guðbrandsson formaður stjórnar S.S. kynnti skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2010 – 2009: 

Ágætu fundarmenn,

Síðasta starfsár hefur verið unnið út frá tillögu síðasta aðalfundar þar sem samþykkt var að skoða sölu Kölku eða sameiningu við önnur samlög vegna mikilla skulda stöðvarinnar og vegna þess að sum sveitarfélög hafa ekki haft vilja til að að auka eigið fé félagsins með auknu framlagi. Fundað var nokkrum sinnum formlega og óformlega með fulltrúum Sorpu með sameiningu í huga en jafnframt var auglýst eftir aðilum sem hefðu áhuga á samstarfi eða kaupum á stöðinni. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að Sorpa var til í sameiningu og yfirtöku skulda upp á c.a. 500 – 600 milljónir. Formlegum viðræðum var þó ekki lokað heldur frestað um óakveðinn tíma. Nokkrir aðilar sýndu einnig áhuga á kaupum á stöðinni og var mín tilfinning að þeir höfðu svipaða verðmætahugmynd að einum aðila undanskildum sem lýsti yfir að hann væri til í að borga 10 milljónir dollara fyrir stöðina ef hann gæti fengið lóð til lengri tíma með. Þessum aðila var ítrekað gefinn kostur að kaupa stöðina á því verði sem hann bauð en djúpt virðist virðist ætla að vera á efni samning sem gerður var á milli aðila en síðasti frestur rann út á föstudaginn síðastliðinn. Ef hann efnir ekki samninginn innan örfárra daga, þá finnst mér einungis um 2 leiðir að ræða í framtíðarrekstri Kölku. Annaðhvort að sameinast Sorpu og sveitarfélögin yfirtaki þær skuldir sem út af standi eða að sveitarfélögin setji inn í félagið aukið stofnfé og hagræði og haldi rekstrinum áfram.. Fyrri kosturinn sýnist mér auðveldari þar sem líklegt er að hann þýði minni álögur á íbúana auk þess sem hann leysi urðunarmál og flugöskumál félagsins sem við að öðrum kosti yrðum að leita sérlausna á. Að lokum vil ég þakka einstaklega gott samstarf við stjórnarmenn félagsins og óska nýjum aðilum velfarnaðar í vandasömu starfi fyrir íbúa samfélagsins á Suðurnesjum. Einnig vil ég þakka Berglindi framkvæmdastjóra, Aroni umhverfisfulltrúa, Gísla stöðvarstjóra og Guðjóni Guðmundssyni fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrir gott samstarf. Sem og öllum sveitarstjórnarmönnum sem ég hef kynnst á undanförnum árum á þessum vettfangi. Þar með fer ég frjáls út í sumarið.

 

 

  1. Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi kynnti reikninga félagsins árið 2009. Í máli hennar kom fram að samkvæmt rekstrarreikningi nam tap félagsins tæpum 101,2 milljónum króna á reikningsárinu. Heildareignir félagsins voru í árslok 2009 um 747,9 milljónir króna, heildarskuldir 1.346.8 milljónir króna og bókfært eigið fé er neikvætt um 598,9.   Í árslok 2009 voru skammtímaskuldir 266,5 milljónir króna hærri en veltufjármunir. Með vísan til framanritaðs verður að telja að hætta sé á gjaldfellingu skulda og nokkur óvissa sé um um möguleika félagsins til áframhaldandi reksturs. Framsetning ársreiknings og þar með mat eigna og skulda er byggð á þeirri forsendu að um áframhaldandi rekstur félagsins verði að ræða en forsenda þess er að það takist að bæta rekstrarafkomu félagsins og fjárhagsstöðu.

 

  1. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.

Friðjón Einarsson úr Reykjanesbæ bar upp eftirfarandi spurningar:

·        Hversu líklegt væri að salan gengi í gegn?

·        Af hverju er skuldastaða fyrirtækisins eins og hún er í dag?

·        Eru sveitarfélögin tilbúin að greiða niður skuldir ef salan gengur ekki upp?

·        Eru einhverjar skuldbindingar við WEM?

·        Geta sveitarfélögin rekið þetta fyrirtæki saman?

 

Friðjón lagði jafnframt til að aðalfundi yrði frestað þar sem ekkert væri vitað um afdrif kauptilboðs WEM.

Kristinn Jakobsson úr Reykjanesbæ bar upp eftirfarandi spurningu:

·        Er rekstrargrundvöllur fyrir 12.300 tonna stöð á Suðurnesjum og hvaðan á  
    úrgangurinn að koma?

Inga Sigrún Atladóttir úr sveitarfélaginu Vogum bar upp eftirfarandi spurningar:

·        Af hverju minna magn væri tekið inn núna en áður?

·        Mun salan ganga í gegn?

 

Einar Jón Pálsson úr sveitarfélaginu Garðinum bar upp eftirfarandi spurningar:

·        Hvað verður um gámaplön Kölku ef sameining verður við Sorpu. Hvað kostar að
    byggja ný í sveitarfélögunum?

·        Hvað verður um erlendu lánin sem hvíla á stöðinni? Munu þau lækka?

·        Hver heimilaði framlengingu á svarfrest vegna tilboðs WEM í brennslustöðina. Það
    væri ekki hægt að lesa úr fundargerðum að það hafi verið heimild til þess.

 

Hörður svaraði og sagði að ein ástæðan fyrir erfiðri skuldastöðu fyritækisins væri efnahagshrunið en fyrirtækið hafi verið með erlend lán vegna byggingu stöðvarinnar og þau hefðu hækkað.

Hörður nefndi að hart hafi verið tekist á um sölu/sameiningu á síðasta aðalfundi Kölku. Ákveðið hafði verið að leggja til 200 milljónir í reksturinn en Reykjanesbær drógu að borga sinn hlut þannig að það fé rýrnaði og nýttist ekki sem skyldi. Reykjanesbær vildi ekki leggja til meira fé til rekstursins og vildi hefja söluferli. Sveitarfélögin bera fulla ábyrgð á rekstri stöðvarinnar en það væri hans sannfæring að hægt væri að losa sig úr skuldum og horfa fram á veginn. Góður árangur hafi náðst á síðasta rekstrarár miðað við árið á undan.

Hörður Guðbrandsson tjáði fundarmönnum að Arion banki staðfesti að líklega væri sala á stöðinni að ganga í gegn til Waste Energy Management. Hugmyndin væri sú að semja þyrfti um áframhaldandi rekstur við kaupanda í 1 ár og farið yrði í samningaviðræður við Sorpu á þeim tíma. Hörður vonaðist til að salan gangi í gegn við WEM en áréttaði að engar aðrar skuldbindingar væru við WEM aðrar en að gerður yrði rekstrarsamningur við WEM í 1 ár á meðan sveitarfélögin væru að ráða ráðum sínum varðandi framtíðina. WEM hafi aðrar hugmyndir um brennslu en tíðkast nú í Kölku. Hans tillaga væri sú að gengið yrði til samninga við WEM ef af yrði. Varðandi framlengingu á svarfrest vegna tilboðs WEM í brennslustöðina þá hefði það verið mat stjórnar að láta reyna á söluna í lengstu lög.

Hörður sagði að í dag væri stöðin í 75% nýtingu og minna af úrgangi kæmi til stöðvarinnar vegna efnahagshrunsins. Minna mætti á að Varnarliðið var ein af rekstrarforsendum stöðvarinnar á sínum tíma. Leitað væri leiða til að fá aukinn úrgang til brennslu.

Hörður sagði að gámaplönin í Grindavík og Vogum væru ekki með í söluferlinu. Hann benti einnig á að Sorpuplönin á höfuðborgarsvæðinu væru í eigu sveitarfélagana. Þau gámaplön yrðu áfram í eigu sveitarfélaganna, þó að brennslustöðin yrði seld. Líklega yrði að byggja nýtt gámaplan í stað þess í Kölku ef af sölu og sameiningu yrði. Það þyrfti að halda áfram að þjóna íbúunum hver sem niðurstaðan yrði í málefnum Kölku.

Verið væri að endurskipuleggja fjármál fyrirtækisins en því hefur verið boðin 20-30% lækkun á erlendu lánum gegn því breyta þeim í íslenskar krónur. Framkvæmdastjóri hefði óskað eftir niðurfellingu skulda og lengingu í lánum.

 

Ársreikningar Kölku fyrir árið 2009 bornir upp til atkvæðagreiðslu. Ársreikningar samþykktir samhljóða.

 

  1. Tilnefningar sveitarfélaganna í stjórn S.S. starfsárið 2010-2011:

Reykjanesbær - Aðalmenn: Ríkharður Ibsen, Margrét Sæmundsdóttir, Júlíus Freyr Guðmundsson – Varamenn: Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir, Árni Þór Ármannsson,  Kolbrún Pétursdóttir. 

GrindavíkurbærAðalmaður: Páll Jóhann Pálsson  - Varamaður: Bryndís Gunnlaugsdóttir.     

Sandgerðisbær - Aðalmaður: Guðrún Arthúrsdóttir - Varamaður: Þjóðbjörg Gunnarsdóttir. 

Sveitarfélagið GarðurAðalmaður: Einar Jón Pálsson - Varamaður: Gísli Heiðarsson.

Sveitarfélagið Vogar - Aðalmaður: Inga Rut Hlöðversdóttir -  Varamaður: Oddur R. Þórðarson.

 

  1. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara. Skoðunarmenn voru tilnefnd: Hjörtur Zakaríasson og Anna H. Friðriksdóttir. Hulda Matthíasdóttir var tilnefnd sem varamaður. Samþykkt samhljóða.
  2. Önnur mál engin.

 

Hörður Guðbrandsson formaður þakkaði fundarstjóra og fundarritara fyrir þeirra störf á aðalfundi og sleit fundi 16.45.

Til baka