Aðalfundur SS 2011

12.9.2011

Fundargerð.

33. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn 25. ágúst 2011 kl. 17:00 í fundarsal Kölku að Berghólabraut 7, Reykjanesbæ.

Dagskrá:

 1. Fundarsetning.
 2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 3. Skýrsla stjórnar: Ríkharður Íbsen, stjórnarformaður.
 4. Reikningar félagsins árið 2010 - Anna B. Geirfinnsdóttir lögg. endurskoðandi.
 5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
 6. Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins.
 7. Tilnefning í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.
 8. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna og skoðunarmanna.
 9. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
 10. Önnur mál.
 1. Ríkharður Ibsen stjórnarformaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
 2. Stjórnarformaður lagði til að Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri Kölku tæki að sér fundarstjórn og var það samþykkt samhljóða. Stjórnarformaður lagði þá til að Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri SSS tæki að sér að rita fundargerð og var það samþykkt samhljóða. Jón Norðfjörð tók við fundarstjórn. Fram kom hjá fundarstjóra að mættir væru fulltrúar allra eignaraðila og að engar athugasemdir hefðu borist vegna fundarboðunar.

 3. Ríkharður Ibsen stjórnarformaður flutti skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár. Í máli hans kom m.a. eftirfarandi fram: Það voru ærin verkefni sem biðu nýrrar stjórnar eftir síðasta aðalfund Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja fyrir um ári síðan. Söluferli stöðvarinnar hafði siglt í strand og allt það ferli staðið í vegi fyrir endurskipulagningu í rekstrinum. Heildarskuldir námu um 1,3 milljörðum og eigið fé neikvætt uppá um 600 milljónir. Þannig að staðan var mjög erfið og margir lausir endar í félaginu.
  Verkefnið var og er að endurskipuleggja starfsemina með það að markmiði að bæta rekstrarafkomu og fjárhagsaðstöðu. Þegar í stað var skorið á þann hnút sem söluferli stöðvarinnar hafði verið í og málinu vísað frá þar sem meintir kaupendur höfðu ekki staðið við gerða samninga.

  Stjórnin setti stefnuna á að einfalda flókna og erfiða stöðu með því að koma endurskipulagningarferlinu strax í farveg. Ljóst var að ná mætti fram töluverðri hagræðingu með auknu kostnaðaraðhaldi og tekjuaukning væri vel möguleg með því að ná aftur upp nýtingarhlutfalli stöðvarinnar. Ennfremur þyrfti að ganga til samninga við lánardrottna og reyna að lækka fjármagnskostnað með því að semja um erlendar skuldbindingar félagsins sem hækkuðu um tæplega 460 milljónir króna milli áranna 2007 og 2008.

  Til þess að útfæra þe
  tta ferli með okkur fengum við LS Finance til að setja saman fyrir okkur skýrslu um endurskipulagningarferlið. Sú skýrsla hefur nýst afar vel við þá vinnu sem er enn í fullum gangi. M.a. var tekið á skipuriti félagsins í skýrslunni og bent á að sameining stöðugilda umhverfisfulltrúa og framkvæmdastjóra væri vænlegur kostur; Framkvæmdastjórn félagsins væri ómarkviss þar sem framkvæmdastjóri væri í hlutastarfi ásamt því að skrifstofur félagsins væru á tveimur stöðum. Stjórn félagsins fylgdi eftir þessum niðurstöðum með því að ráðast í viðamikið ráðningarferli á nýjum framkvæmdastjóra (nýjum skipstjóra í brúnna), samhliða því að lögð voru niður stöðugildi umhverfisfulltrúa og hálft starf framkvæmdastjóra.

  Alls bárust 45 umsóknir um starfið en eins og flestum er kunnugt var Jón Norðfjörð úr Sandgerði ráðinn. Jón býr yfir víðtækri reynslu þegar kemur að helstu áhersluatriðum stjórnar en við mat á hæfnisþáttum var megináhersla lögð á reynslu af stjórnun og fyrirtækjarekstri, en einnig á þekkingu eða reynslu af breytingastjórnun og/eða endurskipulagningar fyrirtækja. Framundan er áframhaldandi vinna að aukinni hagkvæmni framleiðsluþáttanna og frekari endurskipulagning. Það er vilji stjórnar að ná fram frekari hagræðingu í stjórnunarkostnaði með flutningi allrar yfirstjórnar yfir í húsnæði Kölku. Flestir samningar eru að losna t.d. bæði flutningssamningar og sorphirðusamningar og telur stjórnin mikla möguleika á frekari hagræðingu með auknu kostnaðaraðhaldi.

  Brennslugeta Kölku er um 12.300 tonn af úrgangi á ársgrundvelli en nýtingarhlutfallið hefur verið um 75%. Ljóst er að nýir tekjustofnar þurfa að fylla upp í það gat og hefur stjórnin skoðað vel alla kosti til að svo megi verða. Tekjur frá sveitarfélögunum hafa verið langstærsti hluti af tekjum Kölku eða rúmlega 72%. Það er ríkur vilji að ná inn meira magni af úrgangi sem telja háa gjaldskrárliði eins og t.d. spilliefni, mengaður úrgangur, lífrænn úrgangur (riðuveikt kjöt), flugvélasorp og skipasorp. Nú þegar hefur náðst töluverður árangur sem hefur skapað tekjur sem hlaupa á tugum milljóna. Sú endurskipulagningarvinna sem er í gangi krefst mikillar lagni til þess að ná meiri framlegð með aukinni sorpbrennslu einni og sér.

  Samstarf við lánardrottna hefur verið gott og langtímalánum félagsins í erlendri mynt hefur verið skilmálabreytt í íslenskar krónur í tveimur lánshlutum. Höfuðstóll langtímalána hefur lækkað um vel á annað hundrað milljónir. Stóra málið er þó hinn svokallaði Mótormax dómur og mögulegt fordæmisgildi hans sem gæti lækkað hina stóru upphaflegu erlendu skuldbindingu félagsins um tugi prósenta.

  Því er við að bæta að stjórnin hefur lagt í mikla vinnu til að taka á fortíðar- og framtíðarvanda stöðvarinnar sem eru urðunarmál og flugöskumál. Lyfta þarf grettistaki í þeim málum og kalla þarf eftir breiðu, málefnalegu og víðtæku samstarfi svo ásættanlegur árangur megi nást. Skiptir það sköpum að vel takist til í úrlausn þeirra vandamála. Að lokum vil ég við þetta tækifæri bjóða nýjan framkvæmdastjóra velkominn til starfa og þakka Berglindi Kristinsdóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrir samstarfið. Einnig vil ég þakka stjórninni fyrir mjög gott samstarf sem ég veit að verður framhald á.

 4. Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi kynnti reikninga félagsins fyrir árið 2010. Í máli hennar kom m.a. fram að heildarrekstartekjur félagins námu um 385,1 milljón króna. Rekstargjöld án afskrifa námu um 339,9 milljónum króna. Heildarlaun á árinu 2010 námu um 139,6 milljónum króna með launatengdum gjöldum. Hagnaður af rekstri félagsins á árinu 2010 nam um 44 milljónum króna.
  Heildar eignir félagsins námu um 732,4 milljónum króna í árslok 2010 og á sama tíma voru heildarskuldir og skuldbindingar félagsins um 1.287,3 milljónir króna. Eigið fé félagsins var neikvætt um 554,9 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall félagsins -75,8%. Í árslok 2010 nema skammtímaskuldir félagsins 297,3 milljónum króna og veltufjármunir 49,2 milljónir króna og er veltufjárhlutfall því aðeins 0,17. Það er því ljóst að félagið mun eiga í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sína á árinu 2011. Miðað við framangreindar upplýsingar um mjög erfiða fjárhagsstöðu félagsins og sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði þá gætu orðið erfiðleikum háð fyrir félagið að fá aukið lánsfé til að geta staðið við skuldbindingar sínar á komandi árum. Framsetning ársreiknings og þar með mat eigna og skulda er byggð á þeirri forsendu að um áframhaldandi rekstur félagsins verði að ræða en forsenda þess er að það takist að bæta rekstarafkomu félagsins og fjárhagsstöðu.
  Þess ber þó að geta að í maí 2011 var erlendum langtímalánum félagsins skilmálbreytt í íslenskar krónur og lækkaði höfuðstóll lánanna um 162,7 milljónir króna á sama tíma.
 5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins.

  Baldur Guðmundsson spurði um fjármagnskostnað ársins 2011, hvort eitthvað væri vitað um hann. Formaður sagði að þessari spurningu væri ekki auðvelt að svara. Mikil óvissa væri með lán stöðvarinnar og fulltrúi Íslandsbanka hefði ekki getað svarað þessari spurningu. Vísaði hann til óvissunnar sem dómur í máli Mótormax hefði skapað.
  Sigrún Árnadóttir spurði hvort gripið væri til frekari hagræðingar á þessu ári. Formaður sagði frá þeim aðgerðum í örstuttu máli. Friðjón Einarsson benti á að þessi staða gæti ekki gengið til lengdar. Nauðsynlegt væri að sveitarfélögin legðu fyrirtækinu til frekara hlutafé. Spurði hvort það hefði eitthvað verið rætt af stjórnarmönnum. Formaður sagði frá því að ákvörðun hefði verið tekin um að ganga í ákveðnar aðgerðir fyrst áður en til þess kæmi. Nauðsynlegt væri að lækka kostnað, auka tekjur og semja við lánardrottna félagsins áður en ákvörðun væri tekin um frekari aukningu á fjárframlagi.
  Ársreikningur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja fyrir árið 2010 borinn upp til atkvæðagreiðslu.
  Ársreikningur samþykktur samhljóða.

 6. Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins.

  Eftirfarandi tillögur um breytingar á samþykktum fyrir Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf. eru lagðar fram af stjórn félagsins:

  1. Fyrirsögn fyrir 1. og 2. grein samþykktanna verði:
   Nafn, lögheimili og tilgangur félagsins
  2. Fyrirsögn fyrir 3., 4. og 5. grein samþykktanna verði:
   Ábyrgðir og hlutdeild eignaraðila
  3. Fyrirsögn fyrir 6. og 7. grein samþykktanna verði:
   Stjórn félagsins
  4. Fyrirsögn fyrir 8., 9. og 10. grein samþykktanna verði:
   Aðalfundur og endurskoðunarákvæði
  5. Tillaga um að 1. málsgrein 6. greinar hljóði svo:
   Stjórnarmenn skulu tilnefndir á aðalfundi eða félagsfundi. Tillaga um eftirfarandi breytingu á 3. málsgrein 6. greinar samþykktanna: Stjórnin er heimilt að ráða félaginu framkvæmdastjóra. Sé framkvæmdastjóri til staðar ræður hann aðra starfsmenn félagsins.
  6. Tillaga um breytingu á 8. grein, um upptalningu þeirra mála sem taka skal fyrir á aðalfundi félagsins:
   Tillaga um þóknun til stjórnarmanna og skoðunarmanna skal verða 5. mál og „Önnur mál“ skal verða 6. mál. Málsgrein í lok 8. gr. Hvert aðildarsveitarfélag er heimilt að óska eftir félagsfundi. Rétt til fundarsetu á félagsfundi hafa sömu aðilar og hafa rétt til fundarsetu á aðalfundi.
  7. Tillaga um orðalagsbreytingu á 10. grein, greinin orðist svo:
   Hver eignaraðili getur óskað eftir endurskoðun á samþykktum þessum Breytingar á samþykktum félagsins samþykktar samhljóða.
 7. Tilnefningar í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár. Eftirfarandi tilnefningar bárust frá eignaraðilum félagsins:

    Aðalmenn:
  Varamenn:
   Frá Reykjanesbæ  :
  Ríkarður Íbsen
  Rúnar V. Arnarson
    Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir                   
  Árni Þór Ármannsson
    Kolbrún Jóna Pétursdóttir
  Hjörtur M. Guðbjartsson
  Frá Grindavíkurbæ
  Páll Jóhann Pálsson
  Þórunn Erlingsdóttir
  Frá Sandgerðisbæ
  Sigursveinn Bjarni Jónsson
  Þjóðbjörg Gunnarsdóttir
   Frá Sv.fél. Garði
  Einar Jón Pálsson
  Gísli Heiðarsson
   Frá Sv.fél. Vogum
  Bergur Brynjar Álfþórsson
  Oddur Ragnar Þórðarson
 8. Tilnefningar um skoðunarmenn reikninga:

  Aðalmenn: Hjörtur Zakaríasson og Anna Hulda Friðriksdóttir
  Varamaður: Hulda Matthíasdóttir

  Samþykkt samhljóða

 9. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna og skoðunarmanna

  Formaður stjórnar fái 3% af þingfararkaupi fyrir hvern fund, aðrir stjórnarmenn fái 2% af þingfararkaupi fyrir fund. Skoðunarmenn fái kr. 10.400 pr.ár. Samþykkt samhljóða.
 10. Önnur mál

  Framkvæmdastjóri tók til máls og sagði frá þeim verkefnum sem hann hefði unnið að undarfarnar vikur. Sagði frá tækifærum og ógnunum sem bíða stöðvarinnar. Greindi frá þeim vandamálum sem blasa við félaginu varðandi flugöskumálin. Þarf að taka málefnalega og markvissa umræðu og finna urðunarstað á Suðurnesjum. Staðurinn þarf að vera nothæfur næstu 30 árin. Ekki er seinna að vænna að taka málið föstum tökum og hætta ekki fyrir lausn liggur fyrir.

  Kristinn Jakobsson lýsti yfir ánægju með skýrsluna sem unnin hefði verið af LS-finance. Sagði hana vanta samt framtíðarsýn. Ekkert hefði verið farið inná aukna flokkun og endurvinnslu. Taldi að miklir möguleikar í hagræðingu fælust í þessu tvennu. Auk þess sem gerð væri aukin krafa í framtíðinni um flokkun.

  Ólafur Þór Ólafsson vill taka undir það sem áður hefur verið sagt. Staðan fyrirtækisins er betri en oft áður en lýsti yfir áhyggjum varðandi rekstarhæfi félagsins. Málefnin varða okkur og þau ber að taka alvarlega. Nauðsynlegt að sveitarstjórnarmenn væru betur vakandi yfir málefnum stöðvarinnar.

  Páll Jóhann Pálsson fór yfir hagræðingarmálin og sagði frá því að stjórnin hafi tekið ákvörðun um að vinna að þeim og auka tekjur. Vonandi lægju fyrir niðurstöður í apríl á næsta ári. Varðandi flokkun þá taldi hann að eins staðan væri nú, væri það ekki tímabært.

  Ríkharður Ibsen taldi það mögulegt í framtíðinni að fara út í flokkun og nýta stöðina í brennslu á dýrari efnum. En verkefnið núna væri að fylla upp í alla brennslugetu stöðvarinnar. Því væri verið að horfa á endurskipulaginu á rekstrinum að þessu sinni.

  Friðjón Einarsson þakkar fyrir góðan fund og leggur til við stjórn að hún sendi minnisblað til bæjarstjórna í haust þegar niðurstöður liggja fyrir af viðræðum við lánardrottna.

  Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 18:11.

  Berglind Kristinsdóttir, fundarritari

  Jón Norðfjörð, fundarstjóri

Til baka