Aðalfundur SS 2012

17.7.2012

Fundargerð.

34. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn 27. apríl 2012 kl. 15:00 í fundarsal Kölku að Berghólabraut 7, Reykjanesbæ.

Dagskrá:

 1. Fundarsetning.

 2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

 3. Skýrsla stjórnar, Ríkharður Ibsen, stjórnarformaður.

 4. Reikningar félagsins árið 2011, Anna B. Geirfinnsdóttir lögg. endurskoðandi.

 5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.

 6. Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins.

 7. Tilnefning í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.

 8. Kosning endurskoðanda.

 9. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna.

 10. Önnur mál.

Fundarsetning

Ríkharður Ibsen stjórnarformaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Kosning fundarstjóra og fundarritara

Stjórnarformaður lagði til að Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri Kölku tæki að sér fundarstjórn og var það samþykkt samhljóða. Stjórnarformaður lagði þá til að Kolbrún Jóna Pétursdóttir stjórnarmaður í Kölku tæki að sér að rita fundargerð og var það samþykkt samhljóða.

Jón Norðfjörð tók við fundarstjórn og tilkynnti að mættir væru fulltrúar allra eignaraðila og að engar athugasemdir hefðu borist vegna fundarboðunar.

Skýrsla stjórnar

Ríkharður Ibsen stjórnarformaður flutti skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár. Í máli hans kom fram eftirfarandi:

Stjórn Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja hefur haldið áfram þeirri vegferð sem hún hóf þegar hún tók við í ágúst 2010. Miklar breytingar hafa verið gerðar á rekstrinum og árangur hefur verið þó nokkur eins og ársreikningar félagsins sýna svo ekki verður um villst.

Verkefnið var og er að endurskipuleggja starfsemina með það að markmiði að bæta rekstrarafkomu og fjárhagsaðstöðu. Mikil vinna hefur farið fram og stendur enn yfir. Búið er að fara í miklar hagræðingaraðgerðir þar sem kostnaður hefur lækkað töluvert og tekjur aukist. Búið er breyta skipuriti stöðvarinnar, sameina stöðugildi og ný yfirstjórn hefur tekið til starfa. Búið er að færa yfirstjórnina alla út í Helguvík en áður var sú starfsemi á tveimur stöðum. Búið er að auka nýtingarhlutfall stöðvarinnar sem er í dag um 80% - brennd voru um 9.800 tonn 2011.

Samvinna við lánardrottna hefur gengið mjög vel og skuldir hafa lækkað þó nokkuð í samræmi við árangur endurskipulagningarferlisins. Fjármagnskostnaður hefur lækkað og búið er að semja um erlendar skuldbindingar félagsins einu sinni og er áfram unnið að frekari samningum við lánadrottna. Frá því að ferlið hófst hefur neikvætt eigið fé félagsins lækkað um þriðjung. En betur má ef duga skal. Það þarf að breyta neikvæðu eigin fé í jákvætt. Markmiðið er vitanlega að reksturinn verði sjálfbær.

Ég tel að hægt sé að hagræða enn frekar í rekstrinum og ná niður lánum félagsins. Það eru fjórar leiðir til að ná niður skuldum; hagræðing með betri rekstrarafkomu, leiðrétting eða niðurfelling skulda, leggja félaginu til aukið eigið fé eða selja reksturinn.

Nú þegar hefur okkur orðið nokkuð vel ágengt með fyrstu tvær leiðirnar. Á síðasta aðalfundi talaði ég um að flestir samningar væru að losna – bæði flutningssamningar og sorphirðusamningar. Við töldum að þar væri hægt að ná fram mikilli hagræðingu. Það hefur gengið eftir. Útboðsferlið hjá okkur gekk framar vonum og niðurstöður þess segja okkur að lækkun á kostnaði Kölku með nýjum þjónustusamningum hlaupi á tugum milljóna.

Í samræmi við endurskiplagningarferlið réðumst við einnig í gjaldskrárbreytingar eftir mikla vinnu og samanburðargreiningu á markaðnum. Enn fremur tókum við upp gjaldtöku á ákveðnum efnum á endurvinnsluplönum í samræmi við það sem þekkist á stórhöfuðborgar-svæðinu og víðar um land. Ljóst má vera að svona breytingar ganga svo sem aldrei áfallalaust fyrir sig og við vorum fyllilega meðvituð um það.

Ef við færum okkur þá í fjórðu leiðina – þ.e. sölu á fyrirtækinu þá fór sú umræða væntanlega ekki framhjá nokkrum manni. Við erum þó á því að allt það fjaðrafok muni koma þessu félagi til góða til lengri tíma litið. Stjórninni barst þetta tilboð frá Triumvirate Environmental uppá um 1.250 milljónir íslenskra króna en bókfært virði stöðvarinnar er um 640 milljónir. Þeir létu í veðri vaka að þeir vildu flytja inn sambærilegt sorp og við erum að brenna í dag – og þannig fylla upp í nýtingarhlutfallið og jafnvel ráðast í stækkun. Ferlið kallaði á það að þeir færu í þá vinnu að fá tilskilin leyfi frá Umhverfisráðuneyti og Umhverfisstofnun. Við vísuðum málinu til sveitarstjórna á svæðinu til umræðu og ákvarðanatöku.

Þegar kemur að fortíðar- og framtíðarvanda stöðvarinnar eru það flugöskumálin sem hafa valdið okkur hvað mestu hugarangri. Þessi flugaska er uppsafnaður vandi sem hefur fylgt rekstrinum frá því að stöðin hóf starfsemi 2004. Við höfum kannað margar leiðir til að finna lausn á vandanum. M.a. hafa menn skoðað leiðir til að minnka umfang öskunnar með efnaferlum. Kannað hefur verið hvort flugaskan geti verið nýtt sem fylling í eldvarnarhurðir, til íblöndunar í steypu eða malbik og fleira. Ljóst má vera að við munum áfram reyna að kanna allar mögulegar leiðir til að nýta öskuna en við höfum einnig verið með til skoðunar það ferli að urða hana erlendis, vitanlega með tilheyrandi kostnaði. Ef það yrði niðurstaðan þá værum við að flytja spilliefni til urðunar í öðru landi. Það er eitthvað sem mætti hugsa í samhengi við innflutning á úrgangi erlendis frá til brennslu hér.

Að lokum vill ég fyrir hönd stjórnar Kölku þakka framkvæmdastjóra og starfsmönnum fyrir mjög gott samstarf í þessu átaksverkefni sem hefur gengið framar vonum og verður að vera framhald á.

Reikningar félagsins árið 2011

Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi kynnti reikninga félagsins fyrir árið 2011. Í máli hennar kom m.a. fram að heildarrekstartekjur félagins námu um 433,5 milljónum króna. Rekstargjöld án afskrifa námu um 349,1 milljónum króna. Heildarlaun á árinu 2010 námu um 140,3 milljónum króna með launatengdum gjöldum. Hagnaður af rekstri félagsins á árinu 2011 án afskrifta og fjármagnsliða (EBITDA) nam um 84,4 milljónum króna og heildarhagnaður nam um 136,4 milljónum króna.

Heildareignir félagsins námu um 674,8 milljónum króna í árslok 2011 og á sama tíma voru heildarskuldir og skuldbindingar félagsins um 1.093,4 milljónir króna. Eigið fé félagsins var neikvætt um 418,5 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall félagsins neikvætt sem nemur -62%.

Í árslok 2011 nema skammtímaskuldir félagsins um 941 milljónum króna og veltufjármunir voru um 30 milljónir króna og er veltufjárhlutfall því aðeins 0,03. Það er því ljóst að félagið mun eiga í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sína á árinu 2012. Stærstur hluti skammtímaskulda eru afborganir sem eiga að koma til greiðslu á árinu 2012 vegna langtímaskulda félagsins. Þrátt fyrir að félagið nái samningum um endurfjármögnun langtímaskulda við lánadrottna, eins og gott útlit er fyrir, er ekki útilokað að félagið muni eiga í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sínar á árinu 2012. Með nýjum samningi um endurfjármögnun lána gæti næsta árs (2012) afborgun lækkað úr um 761 milljón króna niður í um 17 milljónir króna og mundi það létta verulega á lausafjárstöðu félagsins. Endurskoðandi lýsir yfir ánægju sinni með endurskiplagningarferli fyrirtækisins og þann árangur sem náðst hefur. Hvetur endurskoðandi til þess að því verði haldið áfram.

Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins.

Böðvar Jónsson segir gott að sjá að vel gengur og langar að heyra um hvernig samningaviðræður við bankann ganga. Ríkharður Ibsen svarar að hann hafi haft síðast samband við bankann í morgun og komið þeirri skoðun sinni á framfæri að skuldastaðan yrði að fara allavega niður í 700 milljónir svo reksturinn gæti staðið undir lánum. Ljóst væri að koma þyrfti lánamálum í farveg til lengri tíma litið – pakka þessu inn. Bankinn kom með tillögu sem var ekki alveg ásættanleg að mati stjórnar og framkvæmdastjóra og krafan er að bankinn lækki skuldirnar og þá voru reifaðar þær hugmyndir frá bankanum að ef inn kæmi nýtt eigið fé uppá 100 milljónir þá myndi bankinn hugsanlega niðurfæra lánin um 200 milljónir. Hjörtur Guðbjartsson spurði hvort það dygði til.

Böðvar spyr hvort það sé búið að fylgja eftir niðurstöðu skv. Motormaxdómi og Ríkharður svarar því til að við höfum fengið rökstuðning frá bankanum um að við föllum ekki undir þá skilgreiningu en gerðar hafi verið ráðstafanir af okkar hálfu.

Inga Sigrún Atladóttir spyr hvað sé ásættanleg staða fyrir félagið til að greiða á ári. Jón Norðfjörð svarar því til að ábyrgð sveitarfélaganna vegi ansi þungt í samningaviðræðum við bankana. Hann segir frá því að það sé búið að finna aðila til að koma að þessum samningum fyrir hönd Kölku. Jón upplýsir að hluti lánanna sé að sínu mati ólöglegur en hluti þeirra sé löglegur. Greiðslugeta Kölku ætti að vera um það bil 4,5 – 5 milljónir á mánuði í afborganir lána. Bankinn krefjist þess að Kalka byrji að greiða strax í júní skv. þeirri tillögu frá bankanum sem liggur fyrir.

Gunnar Þórarinsson ræðir það að ef lánin verði færð niður í 700 milljónir og vextir um 6% hvernig sér stjórn Kölku reksturinn fyrir sér? Er hugsanlegt að breytingar með gjaldtöku sem var hafin hér í byrjun árs sé nægileg til að greiða af lánunum, eða er eitthvað annað sem stjórnin sér fyrir sér. Jón svarar því til að hann sjái fram á það að það geti gengið. Ríkharður svarar líka að bankinn sé tilbúinn til að koma á móts við Kölku ef vel gengur. Á næsta ári ættu að koma inn betri tölur bæði varðandi nýja þjónustusamninga í samræmi við útboðsferli, tekjur af endurvinnsluplönum og hækkanir á gjaldskrá, en við þurfum bankann með okkur.

Gunnar ræðir um Triumvirate Environmental sem vill kaupa Kölku og spyr hvort það sé yfirleitt leyfilegt að flytja inn sorp til brennslu. Jón svarar því til að það sé ekki vilji fyrir því hjá tilboðsgjafa að leggja í meiri kostnað en eftir samtal við lögfræðing þá sé augljóst að það verði mjög þungt í vöfum fá innflutningsleyfi fyrir úrgang. Til þess að það geti gengið þurfi erlenda ríkið sem úrgangurinn er fluttur frá að gefa út yfirlýsingu um að þeir ráði ekki við að eyða þeim úrgangi í sínu landi. Þetta snýst um að það þurfi að sækja um leyfi til innflutnings og kostnaður við slíka umsókn gæti verið talsvert mikill og þurfa sveitarfélögin að ákveða það hvort þau vilja eyða í slíka könnun.

Inga Sigrún vill fá að vita hvers vegna sérfræðikostnaður hafi hækkað svona mikið og Jón gat ekki svarað því öðru vísi en að enginn sérfræðikostnaður hafi komið til eftir að hann tók við framkvæmdastjórastöðu um mitt ár 2011 en líklega væri þessi kostnaður vegna skýrslu LS Finance.

Fundarstjóri bar ársreikning Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja fyrir árið 2011 upp til atkvæða.

Ársreikningurinn var samþykktur samhljóða.

Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins.

Eftirfarandi tillögur um breytingar á samþykktum fyrir Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf. eru lagðar fram af stjórn félagsins:

Tillaga um breytingu á 8. grein:
Tekið verði út orðið „stöðvarstjóri“ um þá sem eiga rétt til fundarsetu

Tillaga um breytingu á 8. grein um atriði sem taka skal fyrir á aðalfundi:
Í lið 2 falli út orðin „og áritaðir af kjörnum skoðunarmönnum“

Lið 4 verði breytt þannig að núverandi málsgreinar falli út og í stað þeirra komi eftirfarandi: „Kosning löggilts endurskoðanda“

Í lið 5 falli út orðin „og skoðunarmanna“

Tillaga um breytingu á 6. grein:
Í síðustu málsgrein falli út orðin „ræður löggiltan endurskoðanda og“

Breytingar á samþykktum félagsins samþykktar samhljóða.

Tilnefningar í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.

Eftirfarandi tilnefningar bárust frá eignaraðilum félagsins:

Aðalmenn: Varamenn:
Frá Reykjanesbæ: Ríkharður Íbsen Rúnar V. Arnarson
Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir Árni Þór Ármannsson
Kolbrún Jóna Pétursdóttir Guðjón Þórhallsson

Frá Grindavíkurbæ: Páll Jóhann Pálsson Þórunn Erlingsdóttir
Frá Sandgerðisbæ: Kristinn Halldórsson Þjóðbjörg Gunnarsdóttir

Frá Sv.fél. Garði: Einar Jón Pálsson Gísli Heiðarsson
Frá Sv.fél. Vogum: Oddur Ragnar Þórðarson Jóngeir H. Hlinason

Kosning endurskoðanda

Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte ehf. verði endurskoðandi félagsins.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga um þóknun til stjórnarmanna

Formaður stjórnar fái 3% af þingfararkaupi (18.306.-) fyrir hvern fund, aðrir stjórnarmenn fái 2% af þingfararkaupi (12.204.-) fyrir hvern fund.

Samþykkt samhljóða.

Önnur mál

Framkvæmdastjóri tók til máls og í máli hans kom m.a. fram eftirfarandi:

Hann sagðist þakklátur fyrir það að hafa fengið tækifæri til að koma að því verkefni sem stjórn Kölku hóf eftir kosningar 2010 sem fólst í margumræddu ítarlegu endurskoðunarferli á rekstri fyrirtækisins. Hann sagði þetta hafa verið mjög krefjandi og jafnframt skemmtilegt verkefni sem þó er ekki nærri lokið.

Ársreikningurinn ber með sér jákvæða þróun og batnandi afkomu og segir ágætlega til um árangur þess starfs sem þegar hefur verið unnið. Hann vildi vekja athygli á því að rekstrarformið hefur breyst mikið með því að öll starfsemin fer nú fram hér í Helguvík og veigamiklar breytingar hafa orðið á stöðugildum stjórnenda sem til margra ára voru 2,5 en eru nú 1,25. Hann sagði að í annars ágætri skýrslu LS Finance var reyndar lagt til að stöðugildi stjórnenda yrðu 3.

Nýir samningar við verktaka um sorphirðu, gámaflutninga o.fl. eru að ganga mjög vel og skila fyrirtækinu fjárhagslegum ávinningi, nú er verið að selja töluvert af úrgangsefnum til endurvinnslu sem ekki var áður og gjaldskrár verða í reglulegri endurskoðun.

Framkvæmdastjóri sagði margt breyst á stuttum tíma en fjölmörg verkefni eru framundan og bíða úrvinnslu. Hann nefndi þessi helst:

 • Unnið er að frágangi hvað varðar lánamál fyrirtækisins.

Viðræður við Íslandsbanka standa yfir og könnun á lögmæti lánasamninga er í vinnslu. Hann sagði ekki vera sátt um tilboð sem bankinn hefur kynnt og verði leitað allra leiða til að ná betri niðurstöðu. Á síðasta aðalfundi komu fram spurningar um hvort eigendur fyrirtækisins þyrftu að leggja til aukin fjárframlög. Hann sagðist enn þeirrar skoðunar að hinkra með vangaveltur um slíkt og sjá hvernig miðaði með rekstur félagsins.

 • Þó nokkur tími hefur farið í að leita lausna varðandi förgun flugösku og botnösku. Nokkur mál eru til skoðunar og einnig hafa prufur verið sendar til efnagreiningar hjá fyrirtækinu Noah í Noregi. UST fylgist með gangi mála en óþolinmæði er farið að gæta hjá stofnuninni enda er þetta gamalt vandamál. Líkur til þess að flugaskan fáist urðuð hér landi taldi framkvæmdastjóri vera afar litlar nema með gríðarlegum tilkostnaði.

 • Mjög skipulögð vinna er nú í gangi við eflingu viðhalds- og verkskipulags í brennslustöðinni sem vænta má að muni skila fyrirtækinu góðum árangri varðandi viðhaldskostnað, innkaup, birgðahald o.fl. Áfram verður svo unnið að því að greina betur áhrif og kostnað vegna brennslu mismunandi efna.

 • Vinna við skipulag og framkvæmdir á lóð er nú í gangi og þar verður m.a. um að ræða byggingu spillefnaskýlis sem er margra ára krafa UST til að uppfylla ákvæði starfsleyfis.

 • Ýmis verkefni á sameiginlegum samstarfs- og hagsmunagæsluvettvangi sorpfyrirtækja sveitarfélaganna sagði framkvæmdastjóri vera í gangi  (m.a. varðandi endurskoðun laga um úrgangsmál og skoðun á framtíðarlausnum um urðunarstaði hér suð-vestan lands).

Framkvæmdastjóri sagði allar breytingar sem gerðar hafa verið á síðustu mánuðum, stórar sem smáar, sumar sársaukafyllri en aðrar hafa gengið ágætlega upp allavega ennþá án teljandi eftirmála s.s. fjárkrafna, lögsókna o.þ.h. Þó hafi komið stjórnsýslukæru vegna orðalags í útboðsgögnum sem síðar var dregin til baka. Hann sagði mjög gott samstarf við öll gámaþjónustufyrirtæki og verktaka í sorphirðubransanum.

Að endingu ræddi framkvæmdastjóri um þá nýbreytni að hefja gjaldtöku á endurvinnslustöðvum fyrirtækisins. Hann sagði þetta mál hefa fengið mikla og á stundum óvægna umræðu. Tröllvaxnar hrakspár hafi þó enn ekki séð dagsins ljós þó eitthvað hafi borið á því að rusl hafi sést á víðavangi. Flestum beri þó saman um að það sé síst meira en var áður en gjaldtakan hófst. Hann sagðist alveg sannfærður um að við værum á hárréttri leið í þessum efnum og sagðist biðja alla sem hann hitti og bað fundarmenn einnig að tala málið upp og taka ekki þátt í niðurrifsumræðu. Hann sagðist sjá góðar breytingar nú þegar. M.a. eru fyrirtæki sem áður gátu óhindrað notað plönin án endurgjalds nú í auknu mæli að koma inn á vigtina og fara rétta leið. Almennt sagði hann fólk sýna málinu góðan skilning að það sé elilegri leið að notendurnir greiði fyrir þjónustuna. Framkvæmdastjóri sagði rétt að gefa þessu góðan tíma og skoða síðar hver þróunin verður.

Að endingu sagðist framkvæmdastjóri vilja koma á framfæri við fundarmenn, fulltrúa eigenda fyrirtækisins að hann hafi talsvert velt því fyrir sér m.t.t. endurskoðunarferlisins hvernig stjórnunarfyrirkomulagi fyrirtækisins gæti verið best fyrir komið þannig að það þjóni fyrirtækinu sem allra best. Hann sagði að frá upphafi, í 34 ár hafa öll sveitarfélögin átt fulltrúa í stjórn og eftir sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna hafi Reykjanesbær átt þrjá fulltrúa í stjórn. Sveitarfélögin hafa svo skipt með sér formennsku og nú er þetta þannig að vegna stærðar á Reykjanesbær rétt á formennsku annað hvert ár. Hann sagðist sjálfur hafa tekið þátt í að vinna samkvæmt þessu fyrirkomulagi í stjórnum sameiginlegra stofnana m.a. í stjórn SS í sjö ár og í stjórn HS í 12 ár. Hann sagðist telja að þetta fyrikomulag væri ekki til þess fallið að þjóna hagsmunum fyrirtækisins t.d. mikill fjöldi stjórnarmanna og tíð formannsskipti. Hann sagðist ekki persónugera þetta með nokkrum hætti en taldi tímabært að fulltrúar eiganda tækju þessi mál til endurskoðunar m.t.t. rekstrarhagsmuna fyrirtækisins. Hann sagðist geta séð fyrir sér breytingu, ekki ósvipaða og gerð var hjá HS þegar fækkað var þar í stjórn á sínum tíma.

Böðvar stakk uppá því að stjórn Kölku færi í ímyndarvinnu til að kynna sérstöðu félagsins.

Inga Sigrún samþykkti það en var ekki sammála því að fækka ætti í stjórn.

Sigrún Árnadóttir spyr um hvort hægt sé að fá sorp annarsstaðar frá og fer fram á að stjórnin vegi og meti tillboð Triumvirate Environmental. Friðjón þakkar fyrir og styður þessar tillögur.

Jón svarar því hvort sé hægt að fá sorp annarsstaðar frá. Það er búið að skoða ýmislegt og reyna í þessum efnum og lýsir hann því hvernig staðið er að þessum málum annarsstaðar eins og td. í Vestmannaeyjum. Í dag er Kalka að fá utanaðkomandi úrgang í skiptum fyrir timbur og einnig er fyrirtækið að taka á móti spilliefnum og sjúkrahúsasorpi utan af landi.

Ríkharður upplýsir að ímyndarvinna sé í bígerð.

Silja spyr hvort Kalka hafi farið í formlegar viðræður um sorpbrennslu fyrir önnur sveitarfélög. Jón upplýsir um það að það séu búnar að fara fram ákveðnar viðræður um slíkt en ekki liggi fyrir niðurstöður. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru öll aðilar að Sorpu og beina sínum viðskiptum þangað. Oddur segir að það þurfi að ýta við yfirvöldum með að fylgja eftir reglum sem stuðla að því að sorpi sem eigi að brenna verði brennt. Framkvæmdastjóri tók undir þau orð Odds og sagði viðræður hafa farið fram um slík mál, m.a. við Matvælastofnun.

Fleira var ekki gert og sleit Ríkharður Ibsen formaður fundi kl. 17:11.

Kolbrún Jóna Pétursdóttir, fundarritari
Jón Norðfjörð, fundarstjóri

Til baka