Aðalfundur SS 2013

5.7.2013

Fundargerð.

35. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn 24. apríl 2013 kl. 16:00 í Bíósal DUUS húsa í Reykjanesbæ.

Dagskrá:

 1. Fundarsetning.

 2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

 3. Skýrsla stjórnar, Kristinn Halldórsson, stjórnarformaður og Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri.

 4. Reikningar félagsins árið 2012, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir lögg. endurskoðandi.

 5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.

 6. Tilnefning í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.

 7. Kosning endurskoðanda.

 8. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna.

 9. Ávarp, Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar.

 10. Önnur mál.

Fundarsetning

Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Kosning fundarstjóra og fundarritara

Framkvæmdastjóri lagði til að Ríkharður Ibsen varaformaður taki að sér fundarstjórn og var það samþykkt samhljóða. Þá lagði framkvæmdastjóri til að Jóhann Rúnar Kjærbo skrifstofumaður hjá SS tæki að sér að rita fundargerð og var það samþykkt samhljóða.

Ríkharður Ibsen tók við fundarstjórn og tilkynnti að mættir væru fulltrúar allra eignaraðila og að engar athugasemdir hefðu borist vegna fundarboðunar.

Skýrsla stjórnar

Kristinn Halldórsson stjórnarformaður tók til máls og sagði að hann og Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri mundu skipta með sér fluttningi á skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár. Í máli stjórnarformanns kom fram eftirfarandi:

Fundarstjóri góðir fundarmenn.

Komið þið öll sæl og blessuð og velkomin á þennan 35. aðalfund Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. Ég vil bjóða gesti fundarins þær Kristínu Lindu Árnadóttur forstjóra Umhverfisstofnunar og Sigrúnu Guðmundsdóttir sérfræðing á Sviði samþættingar hjá Umhverfisstofnun sérstaklega velkomnar á fundinn. Ég heiti Kristinn Halldórsson, og hef verið stjórnarformaður fyrirtækisins á liðnu starfsári. Ég ætla að fara lítillega yfir gang mála liðins árs, en framkvæmdarstjóri okkar, Jón Norðfjörð mun fara ítarlegar yfir ýmis verkefni og stöðu þeirra hér á eftir.

13 stjórnarfundir voru haldnir á árinu og 3 félagsfundir þar af 1 fundur vegna tilboðs bandarískra aðila í Kölku. Árið hefur verið erilsamt og mörg verkefni á dagskrá, en málin þokast í rétta átt. Fjárhagur fyrirtækisins hefur batnað umtalsvert og mikið hefur áunnist í viðræðum við viðskiptabankann í lánamálum, og ættu þau mál að skýrast betur á næstu dögum eða vikum. Ef fram heldur sem horfir mun rekstrarhæfi fyrirtækisins batna verulega.

Umhverfismálin og starfsleyfi hafa verið ofarlega á dagskrá, en núverandi stjórn fékk mikið af óleystum verkefnum í arf frá fyrri árum og þar er stærst mála margra ára uppsöfnun flugösku. Mikil vinna og tími hefur farið í að leita hentugra lausna. Fram til þessa virðast einu möguleikarnir til lausnar hafa verið að senda öskuna erlendis með ærnum kostnaði, en nú eru blikur á lofti og vonumst við til að aðrar og kostnaðarminni lausnir geti verið í sjónmáli. Jón mun fara betur yfir þau atriði hér á eftir. Við leggjum áherslu á að málin leysist farsællega í góðri sátt við Umhverfisstofnun og aðra sem málið varðar.

Rekstrarkostnaður úrgangsmála á Suðurnesjum er með því hæsta á landinu og hefur stjórnin ákveðið að gerð verði úttekt þar sem tekið verður mið af núverandi fyrirkomulagi annars vegar og hinsvegar að tekin verði upp flokkun úrgangs við heimili og óendurvinnanlegur úrgangur sendur í urðun í stað brennslu. Jafnframt verði kannaður möguleiki á að fleiri aðilar komi að rekstri brennslustöðvarinnar Kölku til framtíðar litið. Upplýsingar og niðurstöður þessarar athugunar verða kynntar fulltrúum eigenda þegar þær liggja fyrir. Í stöðinni voru brennd um 9.000 tonn á árinu 2012 sem er nokkru minna en árið 2011. Þessu ollu bilanir í brennslustöðinni sem voru talsverðar á árinu og gera má ráð fyrir að viðhald aukist með hverju ári sem líður. Starfsmenn stöðvarinnar hafa staðið sig einstaklega vel, oft við erfiðar aðstæður. Ég vil þakka starfsmönnum fyrir mjög vel unnin störf. Þeir eiga svo sannarlega þakkir skildar.

Ég vil þakka stjórnarmönnum fyrir ánægjulegt og gott samstarf, en mjög góð samstaða hefur verið hjá stjórninni. Ég vil þakka framkvæmdastjóranum okkar Jóni Norðfjörð fyrir hans góðu störf og ég tel að það hafi verið mikið gæfuspor fyrir fyrirtækið að fá hann til starfa. Hann hefur með mikilli áræðni og vinnu svo sannarlega komið rekstri stöðvarinnar á réttan braut. Jón lenti á sjúkrahúsi fyrir nokkrum mánuðum, en það stoppaði hann ekki. Hann hélt áfram vinnu með símann í hendi og tölvuna í rúminu, sem sýnir okkur að hann gerir hlutina af heilum hug, kannski full langt gengið. Ég vil einnig sérstaklega þakka Ríkharði Ibsen fyrir hans framlag, en hann átti að öðrum ólöstuðum stærstan þátt í að koma endurbótum hjá fyrirtækinu í gang. Þar er mikill fagmaður á ferð.

Síðustu mánuði höfum við séð miklar og jákvæðar breytingar á rekstri fyrirtækisins og góðan árangur eins og ársreikningur félagsins sýnir.

Það er von mín að þróun mála verði áfram með þeim hætti.

Að lokum vil ég þakka fyrir það tækifæri að fá að taka þátt í starfsemi Kölku.

Nú tekur Jón við og fer nánar yfir ýmis mál og starfsemi fyrirtækisins.

Þá tók Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri við flutningi á skýrslu stjórnar og kom eftirfarandi fram í máli hans:

Árið 2012 var að mörgu leyti viðburðarríkt og árangursríkt í rekstri Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja. Áfram var haldið á þeirri vegferð sem núverandi stjórn fyrirtækisins hóf eftir sveitarstjórnarkosningar 2010 undir forystu þáverandi formanns stjórnar Ríkharðs Ibsen, að hagræða og bæta rekstur fyrirtækisins sem hafði verið erfiður um árabil. Stjórn og stjórnendur fyrirtækisins hafa í megin atriðum haft að markmiði eftirfarandi atriði:

 • Að snúa viðvarandi taprekstri um nokkra ára skeið í hagnað og ásættanlegan rekstur fjárhagslega.

 • Að ná samningum við viðskiptabankann um lækkun lána sem stjórnendur fyrirtækisins hafa talið ólögmæt miðað við dómafordæmi.

 • Að greiða upp yfirdrátt fyrirtækisins á sem skemmstum tíma.

 • Að kanna leiðir til að draga úr almennum hækkunum sorphirðu- og sorpeyðingargjalda á sveitarfélögin eins og mögulegt er.

 • Að yfirfara alla þætti starfsleyfis og lagfæra þau atriði sem fyrirtækið hefur ekki verið að uppfylla. Ég nefni sérstaklega í þessu sambandi meðferð og förgun flugösku, meðferð og förgun botnösku, mengunarmælingar, meðferð ýmissa efna, fráveitumál og fleiri umhverfisþætti í rekstri fyrirtækisins.

Nokkur rekstrarmál og ný verkefni á árinu 2012.
Ég ætla nefna hér nokkur rekstrarmál og ný verkefni og breytingar sem áttu sér stað á árinu 2012.

 • Öll starfsemi SS var flutt frá SSS (Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum) til starfsstöðvar fyrirtækisins að Berghólabraut 7 og ráðinn var til starfa nýr skrifstofumaður, Jóhann Rúnar Kjærbo. Við viljum að sjálfsögðu færa starfsfólki SSS bestu þakkir fyrir gott og ánægjulegt samstarf.

 • Með breytingu á skipuriti fyrirtækisins var ráðinn nýr rekstrarstjóri brennslustöðvar og var Ingþór Karlsson vélfræðingur ráðinn í starfið. Ingþór hefur starfað hjá fyrirtækinu frá því að brennslustöðin Kalka var tekin í notkun árið 2004 og samhliða rekstrarstjórastarfinu starfar hann sem vélfræðingur á vöktum í brennslustöðinni.

 • Sorphirða og öll flutningaþjónusta var boðin út og tóku nýir verktakar við hinn 1. febrúar 2012. Hópsnes í Grindavík sér um sorphirðu í sveitarfélögunum, Íslenska gámafélagið annast aðra flutningaþjónustu að undanskildum flutningum á málmum sem Hringrás sér um.

 • Allar almennar gjaldskrár hafa verið yfirfarnar og leiðréttar í samræmi við mismunandi kostnað við brennslu úrgangsefna. Gjaldskrár fyrir brennslu spilliefna, sóttmengaðs úrgangs o.þ.h. tóku umtalsverðum hækkunum.

 • Sú nýbreytni var tekin upp hjá fyrirtækinu að innheimta hófleg notendagjöld á nokkrum tegundum úrgangsefna á endurvinnslustöðvum í Helguvík, Grindavík og Vogum. Þessi aðferð hefur verið tekin upp víðar og m.a. verið í framkvæmd á höfuðborgarsvæðinu s.l. 10 til 11 ár. Það hefur stundum verið sagt að allt sem er frítt hafi í för með sér misnotkun. Því var svo sannarlega til að dreifa hjá SS hvað þetta mál varðar. Nú er liðið rúmt ár frá því að við hófum þessa innheimtu notendagjalda. Til að byrja með fundum við fyrir því að þetta var umdeilt eins og við höfðum búist við og fólk hafði á þessu ýmsar og mismunandi skoðanir. Meðal annars var þarna komin góð ástæða til að kenna Kölku um að rusli væri hent á víðavangi þó svo að rusli hafi verið hent á víðavangi í talsverðu mæli til margra ára áður en gjaldtakan var tekin upp. Í upphafi litum við svo á að það þyrfti að gefa þessu ákveðinn tíma, t.d. þrjú ár og skoða hvernig málin hefðu þá þróast. Þessi breyting hefur haft mjög góð áhrif t.d. í þá veru að fyrirtæki sem áður fóru í stríðum straumum inn á endurvinnslustöðvarnar og hentu frítt, fara nú á vigt og greiða fyrir sinn úrgang. Fjölmargir aðilar sem komu til okkar af höfuðborgarsvæðinu og hentu frítt hjá okkur af því að það kostar að henda úrgangi þar, sjást nú ekki lengur. Sama má segja um sumarbústaðaeigendur sem komu með mikið magn af byggingaúrgangi til að henda frítt af því að það kostaði að losa sig við efnin annars staðar. Þeir koma nú í mun minna mæli og greiða þá fyrir það sem greiðsluskylt er. Þessi fría þjónusta sem var hjá Kölku hafði í för með sér gríðarlegan kostnað sem íbúar svæðisins þurftu að greiða með stöðugt hækkandi flötum álögum ár eftir ár. Frá árinu 2006 til 2012 höfðu gjöld fyrir sorphirðu og sorpeyðingu sem sveitarfélögin innheimta hjá íbúum hækkað að meðaltali um 14,5% á ári, sem var talsvert umfram verðlagsþróun. Þessi breyting að taka upp hófleg notendagjöld á endurvinnslustöðvum á m.a. sinn þátt í því að stjórn fyrirtækisins gat tekið þá gleðilegu ákvörðun að hækka ekki álögur á íbúa sveitarfélaganna á árinu 2013 frá því sem var árið 2012. Þetta hlýtur að teljast umtalsverð breyting til hins betra. Við væntum þess að þetta sé að þróast í rétta átt og við finnum mjög lítið fyrir andstöðu við gjaldtökuna miðað við það sem var í upphafi. Ég held að fólk skilji það betur og betur að það er mun eðlilegra að þeir sem nota þjónustuna greiði eitthvað fyrir hana frekar en að kostnaðinum sé deilt á alla íbúa svæðisins eins og gert var.

Fjölmörg fleiri málefni og verkefni voru í gangi hjá fyrirtækinu á árinu 2012 og nefni ég nokkur þeirra hér stuttlega en lýk svo þessari yfirferð með því að skýra frá stöðu mála sem snúa að markmiðum stjórnar og stjórnenda sem ég nefndi hér í upphafi máls míns.

 • Kauptilboð barst í SS frá bandaríska fyrirtækinu Triumvirate Environmental upp á 10 milljónir dollara og olli það nokkrum titringi og eftirminnilegum umræðum. Tilboðinu var ekki tekið.

 • Eldur kom upp í brennslustöðinni á miðju ári 2012 sem varð þess þó ekki valdandi að stöðva þyrfti brennslu úrgangs nema í nokkrar klukkustundir. Gott samkomulag náðist við VÍS sem er tryggingarfélag fyrirtækisins um tjónsbætur og er málið að fullu frágengið og uppgert.

 • Talsverðar bilanir komu upp í brennslustöðinni á árinu 2012 og var brennslustopp í stöðinni samtals í rúmlega 9 vikur en til samanburðar var brennslustopp í rúmar 4 vikur árið 2011.

 • Mikið viðhald og endurnýjun var í brennslustöðinni á árinu 2012 og í því sambandi nefni ég að innmötunarbúnaður fyrir brennsluofninn var endursmíðaður að mestum hluta, veruleg endurnýjun og endurbætur voru gerðar á gufukatli, mikil endurnýjun var í reykhreinsibúnaði stöðvarinnar og í mæla- og rafbúnaði o.fl. Ég ætla sérstaklega að nefna alvarlegt atvik sem kom upp þegar eldmúr og einangrun hrundi úr þaki eftirbrennslugeymis sem er um 10 metra hár. Snilldarhugmynd brennslustjórans var að fá sigmenn frá Björgunarsveitinni Suðurnes til að síga inn í geyminn og smíða stillans sem hengdur var í þak geymisins og þannig var búin til aðstaða fyrir starfsmenn til að endurnýja eldmúrinn og einangrunina. Þessi aðferð sparaði fyrirtækinu stórfé. Jón afhenti fulltrúa Björgunarsveitarinnar Suðurnes, Guðna Emilssyni gjafabréf að upphæð kr. 250.000.- með kæru þakklæti fyrir veitta aðstoð.

 • Öryggismál hafa verið ofarlega á dagskrá og gerð var úttekt á vatnsúða- og brunakerfi brennslustöðvarinnar og farið var í verðkönnun til kaupa á nýju brunakerfi í brennslustöð og öryggismyndavélakerfi. Verðkönnunin leiddi til samninga við Öryggismiðstöðina.

 • Sett var í gang vinna við gerð vigtar- og skráningarforrits fyrir öll úrgangsefni sem stöðin tekur á móti og sendir frá sér. Þetta forrit er verið er að taka í notkun þessa dagana. Lóð fyrirtækisins var stækkuð um 5000 m2 með framtíðarsjónarmið um stækkun og eflingu fyrirtækisins í huga. Keyptur var nýr lyftari og nýtt viðhalds- og birgðaforrit sem heitir “Viðhaldsstjórinn” var tekið í notkun fyrir brennslustöðina.

 • Samstarf við viðskiptavini hefur gengið vel og tímabundinn samningur var gerður við fyrirtækið Kubb á Ísafirði um móttöku á úrgangi frá Vestmannaeyjum.

Ýmislegt fleira var á döfinni hjá fyrirtækinu og ýmis málefni í gangi sem tengjast starfseminni. Ég nefni hér að við erum þátttakendur í verkefnisstjórn um aukna hagsmunagæslu í úrgangsmálum á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga, við erum þátttakendur í samstarfsnefnd sorpsamlaga á suðvesturlandi, sem leitaði nýlega til allra sveitarfélaga á svæðinu og fundaði með þeim vegna leitar að nýjum urðunarstað. Við höfum átt í viðræðum um aukið samstarf og/eða sameiningu Kölku og Sorpu og Jón Norðfjörð var skipaður af umhverfisráðherra samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga í starfshóp sem hefur það hlutverk að taka saman yfirlit um förgun úrgangs, sérstaklega förgun dýraleifa og sóttmengaðs úrgangs og mögulegar leiðir til þess að úrgangi verði fargað í meira mæli í brennslustöðvum, eins og segir í skipunarbréfinu. Það vill svo til að Kalka er eina brennslustöðin á landinu sem enn er starfrækt eftir að rekstur brennslustöðvarinnar á Húsavík stöðvaði í lok mars s.l.

Í bréfi Umhverfisráðuneytisins segir m.a. að ráðuneytið telji nauðsynlegt að a.m.k. ein brennslustöð sé til staðar í landinu.

Að endingu ætla ég að fara aðeins yfir stöðu þeirra mála sem stjórn og stjórnendur fyrirtækisins hafa í megin atriðum haft að markmiði og ég nefndi hér í upphafi:

 • Frá árinu 2010 hefur verið hagnaður af starfsemi fyrirtækisins í stað taps árin á undan, en tryggja þarf enn betur ásættanlegan fjárhagslegan rekstur og eru markmið stjórnenda í því sambandi höfð að leiðarljósi.

 • Mikil og stöðug fundarhöld og viðræður hafa verið við viðskiptabanka fyrirtækisins síðast liðna 20 mánuði. Þessu hafa fylgt miklar bréfaskriftir, gerð 5 ára rekstrar- og fjárhagsáætlunar og ítarlegur rökstuðningur verið settur fram til að fá viðurkenningu bankans á ólögmæti lánssamnings frá árinu 2004 í erlendum gjaldmiðlum sem í dag stendur í 837 milljónum króna. Eins og fram hefur komið í fundargerðum stjórnar hefur bankinn nú viðurkennt ólögmæti þess hluta lánssamningsins sem greiddur var út í íslenskum krónum, en hefur ekki viðurkennt ólögmæti þess hlutar sem greiddur var út í evrum. Upphafleg lánsfjárhæð árið 2004 var 650 milljónir kr. og voru 605 milljónir kr. greiddar út í íslenskum krónum (liðlega 93%), en 45 milljónir kr. voru greiddar út í evrum (tæplega 7%). Enn meiri þungi var settur í málið með áliti tveggja lögmanna sem félagið lét vinna. Bankinn hefur að undanförnu unnið að endurútreikningi lánssamningsins og fyrirtækið lætur einnig endurreikna lánssamninginn til samanburðar. Nú hafa borist upplýsingar frá bankanum, settar fram með talsverðum fyrirvara, að fyrstu tölur endurútreiknings 93% hlutans bendi til að lánið muni lækka um 330 milljónir króna. Ef það gengur eftir lækkar lánið í 507 milljónir króna sem er farið nálgast þá upphæð sem talið er að fyrirtækið geti ráðið við að greiða. Út frá þessari niðurstöðu er nú unnið að því meta stöðuna og er bankinn að klára sinn endurreikning sem borinn verður saman við þann endurútreikning sem félagið lætur vinna. Stjórn félagsins mun í samráði við lögmann meta framhald málsins. Ef fram heldur sem horfir er þetta verulegur árangur.

 • Þegar ég hóf stórf hjá fyrirtækinu á miðju ári 2011 var staðan á bankareikningi í mínus upp á 172 milljónir króna. Um síðustu áramót var mínusinn um 72 milljónir króna og þannig hefur yfirdrátturinn lækkað um 100 milljónir á 18 mánuðum og ef vel gengur getur yfirdrátturinn fari langt með að greiðast upp á þessu ári.

 • Við munum leggja okkur fram við það að draga úr almennum hækkunum sorphirðu- og sorpeyðingargjalda á sveitarfélögin og íbúana eins og mögulegt er. Allar mögulegar leiðir til þess verða áfram til skoðunar. Kostnaður íbúa hér á Suðurnesjum vegna úrgangsmála er með því hæsta sem gerist á landinu og því viljum við breyta.

 • Þegar núverandi stjórn fyrirtækisins tók til starfa árið 2010 blasti við auk rekstrarvandans, að lagfæra þyrfti ýmis atriði er varða starfsleyfi fyrirtækisins. Hér tek ég vægt til orða. Sum þessara verkefna hafa reynst erfið úrlausnar og vegur þar þyngst meðferð og förgun flugöskunnar sem hefur verið til umræðu á stjórnarfundum og aðalfundum. Umhverfisstofnun hefur með hertu eftirliti gert athugasemdir og skráð frávik á nokkur þeirra atriða sem fyrirtækið hefur ekki uppfyllt. Það er eindregin vilji stjórnenda að koma öllum þessum málum í gott lag og markvisst er unnið að úrbótum og liggur þegar mikil vinna að baki og nokkuð hefur áunnist en betur má ef duga skal. Við höfum ekki verið alls kostar sátt við framgöngu og verklag Umhverfisstofnunar og höfum með tilliti til forsögu mála leitað eftir aðstoð stofnunarinnar og lagt til og óskað eftir því að öll mál sem snúa að því að uppfylla lög, reglugerðir og starfsleyfi fyrirtækisins og eru á eftirlitssviði stofnunarinnar verði yfirfarin í góðu samstarfi og í framhaldi gerðar eðlilegar og sanngjarnar áætlanir um úrbætur með raunhæfum tímaáætlunum.

Varðandi flugöskuna þá hefur fyrirtækið m.a. í samstarfi við verkfræðistofuna Mannvit leitað til nokkra fyrirtækja erlendis og öskusýni verið send til þeirra. Tvö fyrirtæki hafa svarað jákvætt og eru þau mál nú til athugunar. Einnig hafa komið fram áhugaverðar hugmyndir frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands um möguleika á að nýta flugösku til framleiðslu á steypueiningum. Ríkharður Ibsen hafði milligöngu um málið í gegnum Þorstein Sigfússon forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar og stjórn SS hefur samþykkt erindi og beiðni frá Ólafi H. Wallevik prófessor í efnafræði og steinsteypu um þátttöku í verkefni sem nefnist: „VistAska í steyptar einingar – Vistsköpun úrgangsefna“.

Verkefnið gengur út á að skaffa gögn og framkvæma heimildarkönnun um svifösku frá sorpbrennslu og á annarri sambærilegri iðnaðarösku. Leitað verður að upplýsingum þar sem slík aska hefur verið notuð í steinsteypu og hvaða áhrif hún hefur á ýmsa eiginleika hennar eins og þjálni, styrk, vatnsleiðni og endingu. Áhersla verður lögð á að afla upplýsinga um meðhöndlun á öskunni með tilliti til öryggis, heilsufars, umhverfisáhrifa og almennrar förgunar. Enn fremur verður leitað eftir efnagreiningagögnum og rannsóknarniðurstöðum hvað varða þungmálma og önnur skaðleg efni. Þetta byggir á kenningu um að hægt sé að nota vistösku (sem er svifaskan frá sorpbrennslu) til að gera ofursterka steinsteypu, sem hefur allt að sexfaldan styrk miðað við venjulega steypu. Ofursterk steypa (þ.e. ultra high strength concrete) er allt að þúsund sinnum þéttari en venjuleg steypa, sérstaklega með tilliti til vatnsleiðni og er þar að leiðandi einstaklega endingargóð.

Lögð er áhersla að vinna verkið hratt þannig að unnt sé að funda um niðurstöður innar tveggja mánaða. Í bréfi Ólafs segir m.a. að rannsókn þessi sé til að styrkja forsendur og hafa svör reiðubúin fyrir Umhverfisstofnun um málið.

Kostnaður SS vegna verkefnisins nemur 2,5 mkr.

Góðir fundarmenn.

Þetta er orðin nokkuð löng skýrsla stjórnar, enda höfum við haft mörg járn í eldinum á árinu 2012. Ég vil færa starfsmönnum fyrirtækisins innilegar þakkir mínar og stjórnarinnar fyrir góða samvinnu og frumkvæði sem þeir hafa hvað eftir annað sýnt í störfum sínum. Ég ætla að lokum að þakka stjórn fyrirtækisins fyrir einstaklega gott og ánægjulegt samstarf.

Reikningar félagsins árið 2012

Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi kynnti reikninga félagsins fyrir árið 2012. Í máli hennar kom m.a. fram að áframhaldandi bati er á rekstri fyrirtækisins milli ára og námu heildarrekstrartekjur um 455,7 milljónum króna. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsgjalda námu um 354,2 milljón króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam þannig 101,5 milljónum króna eða um 22,3% af tekjum. Heildarhagnaður nam rúmlega 2 milljónum króna eftir afskriftir og fjármagnsgjöld.

Til samanburðar nam rekstrarhagnaður ársins 2011, 84,4 milljónum króna eða 19,5% af tekjum. Heildareignir félagsins námu 678,2 milljónum í árslok 2012 en heildarskuldir og skuldbindingar námu um 1.094,6 milljónum króna.

Eigið fé félagsins var neikvætt um -416,5 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall félagsins neikvætt sem nemur -61,4%.

Í árslok 2012 nema skammtímaskuldir félagsins um 937,6 milljónum króna og veltufjármunir voru um 51,8 milljónir króna og er veltufjárhlutfall því aðeins 0,06. Í ársreikningi lítur út fyrir að félagið gæti átt í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sína á árinu 2013. Stærstur hluti skammtímaskulda eru afborganir sem eiga að koma til greiðslu á árinu 2013 vegna langtímaskulda félagsins.

Samningaviðræður hafa verið við viðskiptabanka fyrirtækisins síðast liðna 20 mánuði og hefur bankinn viðurkennt ólögmæti þess hluta lánssamningsins sem greiddur var út í íslenskum krónum, en hefur ekki viðurkennt ólögmæti þess hlutar sem greiddur var út í evrum. Upphafleg lánsfjárhæð árið 2004 var 650 milljónir kr. og voru 605 milljónir kr. greiddar út í íslenskum krónum (liðlega 93%), en 45 milljónir kr. voru greiddar út í Evrum (tæplega 7%). Bankinn hefur að undanförnu unnið að endurútreikningi lánssamningsins og fyrirtækið lætur einnig endurreikna lánssamninginn til samanburðar. Nú hafa borist upplýsingar frá bankanum, settar fram með talsverðum fyrirvara, að fyrstu tölur endurútreiknings 93% hlutans bendi til að lánið muni lækka um 330 milljónir króna. Ef það gengur eftir lækkar lánssamningurinn í 507 milljónir króna. Á meðan ekki hefur verið gengið endanlega frá leiðréttingu á ólögmætum lánssamningi og endurfjármögnun við Íslandsbanka þá er ákveðin óvissa um rekstrarhæfi félagsins en reikningskilin eru gerð upp miðað við að forsendan um rekstrarhæfi sé til staðar.

Endurskoðandi lýsir yfir ánægju sinni með þann árangur sem náðst hefur í rekstri fyrirtækisins og hvetur til þess að áfram verði haldið á sömu braut.

Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins.

Ríkharður Ibsen rifjaði upp að í ágúst 2010 þegar ný stjórn tók við og hóf vinnu við endurskoðunarferlið hafði frá upphafi rekstrar fyrirtækisins í Helguvík árið 2004 verið tap á rekstrinum, upp á tugi milljóna ár eftir ár, sem samanlagt nemur yfir milljarði króna. Nú væri hins vegar búið að snúa rekstrinum við og væri rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nú rúmlega 100 milljónir króna og hefði hækkað ágætlega frá síðasta ári. Taldi Ríkharður raunhæfan möguleika á að skila rekstrarhagnaði fyrir afskriftir uppá 90 – 100 milljóna króna næstu árin og ef vel tekst til við að semja við lánadrottna er mögulegt að skuldir lækki úr 1,3 milljörðum króna í ágúst 2010 niður í kannski 600 milljónir króna. Taldi Ríkharður að fyrirtækið væri á síðustu metrum endurskoðunarferlisins, en að vísu væri enn óvissa með flugöskuna og er ætlunin að leysa það mál á besta mögulega hátt.

Árni Sigfússon lýsti ánægju með það sem fram kom í skýrslu stjórnar og spurði nánar um lánamálin og niðurfærslur lána.

Sigrún Árnadóttir lýsti einnig ánægju með skýrslu stjórnar og þakkaði stjórninni fyrir að taka á málin föstum tökum, árangurinn væri góður. Sigrún spurðist fyrir um flugöskuna og hvort hægt væri að nota flugöskuna alla í steinsteypu.

Jón Norðfjörð svaraði fyrst varðandi bankann og niðurfærslur lána með því að rekja sögu þessa máls. Árið 2004 var gerður einn lánssamningur í tvennu lagi, samtals að upphæð 650 milljónir króna en þetta var vegna byggingar stöðvarinnar í Helguvík. Skuldin jókst gífurlega í hruninu og var komin upp í rúmar 1300 milljónir króna 2010. Það fékkst höfuðstólslækkun árið 2011 uppá 162 milljónir króna og síðan hafa verið viðræður í gangi við bankann. Bankinn var síðan tilbúinn að endurreikna allt lánið upp á nýtt, nema 45 milljónir sem voru greiddar út í evrum á sínum tíma en það nemur um 7% af heildarfjárhæðinni. Þetta eru menn enn að meta, þetta gæti verið um 25 milljónir sem lánið gæti lækkað meira, en ef farið er í að reyna að sækja leiðréttingu á þessum 7% vill bankinn leggja allt lánið undir í dómsmáli, fá úrskurð um hvort lánið er löglegt eða ekki. Þetta væri eigi að síður ánægjuleg niðurstaða á málinu en samkvæmt upplýsingum bankans gæti lánið lækkað um 330 milljónir króna.

Varðandi öskuna svaraði Jón því til að þetta væri mjög spennandi mál, þetta er búið að vera mikill höfuðverkur, búið er að senda út öskusýni til 7-8 fyrirtækja í Evrópu. Tvö fyrirtæki hafa svarað jákvætt nýlega, það er fyrirtækið Relux DELA í Þýskalandi, en ef askan yrði flutt þangað hefði það í för með sér gífurlegan flutningskostnað. Fyrirtækið Noah í Noregi er hugsanlega tilbúið til að taka við nýlegri flugösku frá stöðinni en fyrirtækið hafði áður neitað að taka við flugösku frá okkur vegna of mikils kolvetnisinnihalds en nú hafa ný sýni verið send út til nánari greiningar.

300 tonn af flugösku bætast við árlega og heildarmagnið er því um það bil 3300 tonn af ösku sem um er að ræða. Varðandi steypudæmið, þá hefur Nýsköpunarmiðstöð Íslands verið að skoða möguleikann á því að nýta öskuna án þess að hún fari í einhverja sérmeðhöndlun. Ólafur H. Wallevik prófessor í efnafræði og steinsteypu hefur unnið mörg verkefni á þessu sviði og er sannfærður um að við getum nýtt öskuna. Ef þetta gengur eftir munum við selja öskuna í staðinn fyrir að borga með henni.

Einar Jón Pálsson þakkaði góða skýrslu og stjórninni fyrir góð störf. Einar Jón spurðist fyrir um nokkrar tölur í ársreikningi, m.a. um sjóðstreymi og fjármagnsliði (skýr. 20) og viðskiptakröfur. Anna Birgitta endurskoðandi svaraði spurningum Einars Jóns.

Fundarstjóri bar ársreikning Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. fyrir árið 2012 upp til samþykktar og var ársreikningurinn samþykktur samhljóða.

Tilnefningar í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.

Eftirfarandi tilnefningar bárust frá eignaraðilum félagsins:

Aðalmenn: Varamenn:
Frá Reykjanesbæ: Ríkharður Íbsen Rúnar V. Arnarson
Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir Árni Þór Ármannsson
Kolbrún Jóna Pétursdóttir Guðjón Þórhallsson

Frá Grindavíkurbæ: Páll Þorbjörnsson Páll Jóhann Pálsson
Frá Sandgerðisbæ: Kristinn Halldórsson Helgi Haraldsson

Frá Sv.fél. Garði: Brynja Kristjánsdóttir Gísli Heiðarsson

Frá Sv.fél. Vogum: Oddur Ragnar Þórðarson Jóngeir H. Hlinason

Kosning endurskoðanda

Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte ehf. verði endurskoðandi félagsins.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga um þóknun til stjórnarmanna

Formaður stjórnar fái 3% af þingfararkaupi (18.900.-) fyrir hvern fund, aðrir stjórnarmenn fái 2% af þingfararkaupi (12.600.-) fyrir hvern fund.

Samþykkt samhljóða.

Ávarp, Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar

Kristín Linda lýsti ánægju sinni yfir því að fá að koma á fundinn og fá að ræða við fundarmenn um starfsleyfi Kölku og hvað Umhverfisstofnun væri að gera. Starfsleyfi Kölku er frá árinu 2009. Miklar breytingar hafa orðið varðandi urðunarstöðvar og þeim hefur fækkað umtalsvert. Þá hefur brennslustöðvum fækkað mikið og nú er Kalka eina brennslustöðin sem starfrækt er á landinu. Skýringin á þessu væri m.a. sú að smærri brennslur, sem margar hverjar voru á undanþágum gagnvart vissum mengunarkröfum, fengu ekki endurnýjuð starfsleyfi. Eftir voru tvær brennslur og hin brennslan sem er á Húsavík hætti starfsemi fyrir um það bil mánuði síðan. Ástæðan er meðal annars sú að það er mjög dýrt að reka brennslustöð. Umhverfisstofnun þarf að tryggja að allir þeir sem starfa við urðun eða brennslu starfi á jafnræðisgrundvelli. „Til hvers erum við að sinna mengunarvarnareftirliti og hvert er okkar hlutverk og hvert er ykkar hlutverk?“, spurði Kristín Linda og svaraði sjálf að bragði. Hlutverk Umhverfisstofnunar er m.a. að hafa eftirlit með því að það lífsskilyrði séu heilnæm hér á landi, við eigum að reyna að draga úr mengun á vegum atvinnurekstrar og tryggja að mengun valdi ekki óæskilegum eða skaðlegum áhrifum á lífríki og heilsufar almennings. Ennfremur á stofnunin að upplýsa almenning um mengun og mengunarvarnir.

Mikil krafa er gerð til eftirlitsaðila að þeir standi sig gagnvart samfélaginu. Mikilvægt er að taka á frávikum og hafa síðan eftirfylgni með þeim. Öllum frávikum er fylgt eftir, hversu lítið sem frávikið er. Ef það er frávik frá starfsemi þá er það skráð niður og því er fylgt eftir þar til úr því er bætt. Fram kom hjá Kristínu að 48 fyrirtæki eru án fráviks af 135 fyrirtækjum sem Umhverfisstofnun hefur eftirlit með.

Að lokum nokkrar staðreyndir um flugösku. Flugaskan, sem hér um ræðir, er ekki hæf til að fara á urðunarstað, vegna þess að hún er svo menguð að enginn urðunarstaður getur tekið á móti henni. Umhverfisstofnun leggur gríðarlega mikla áherslu á, að það verði fundinn forsvaranlegur frágangur á þeirri flugösku sem geymd er utanhúss jafnt sem innanhúss. Það er mikilvægt að frágangur öskunnar sé í góðu lagi. Síðan þarf að finna varanlega lausn á því að koma flugöskunni fyrir.

Fundarstjóri þakkaði Kristínu Lindu fyrir fróðlegt og gott erindi og setti á dagskrá liðinn „önnur mál“ og bauð fundarmönnum að taka til máls og bera jafnframt upp spurningar til Kristínar Lindu ef þeir vildu svo gera.

Önnur mál

Einar Jón Pálsson tók til máls og þakkaði Kristínu Lindu fyrir erindið. Einar Jón lagði áherslu á að þetta væri eina brennslustöðin sem starfandi væri í landinu og hefði hún þurft að glíma við mikinn fjárhagsvanda. Einar Jón gagnrýndi vinnubrögð stofnunarinnar, hörku og ósveigjanleika og hvatti til þess að stofnunin ynni að úrlausnarefnunum með sorpeyðingarstöðinni.

Árni Sigfússon þakkaði Kristínu Lindu fyrir greinagóða kynningu og lofaði stofnunina fyrir fagleg vinnubrögð. Mikilvægt er að frágangur flugöskunnar sé góður og forgangsmál að gengið sé frá þessum málum á viðeigandi hátt. Þá spurði Árni nánar um meðhöndlun flugöskunnar í steypuklumpa, hvaða tíma við hefðum til að finna lausn á þeim málum, en skildi það mætavel að verið væri að herja á stöðina vegna þessa, til að halda okkur við efnið. Mikilvægt væri þó að það væri samtal milli stofunarinnar og Kölku, því stofnunin viti hvernig taka ber á málum.

Friðjón Einarsson benti á að ekki væri ástæða til að hafa einhverja sérstaka afstöðu varðandi flugöskuna, við hefðum haft langan tíma til koma þessum málum í lag en ekki gert og því væri það þörf áminning að á þetta væri bent og við því eigi að bregðast strax.

Sigrún Árnadóttir spurði meðal annars hverskonar vá væri af flugöskunni, hvort möguleg hætta væri til staðar vegna íkveikju þar sem askan er geymd í lokuðu rými og ennfremur hvernig er frágangur á flugöskunni innanhúss í geymslum.

Gunnar Þórarinsson spurði hversu viðkvæm flugaskan væri, er hægt að nota hana í kantstein eða eitthvað slíkt, hefur þetta verið rannsakað að einhverju marki. Er hugsanlega hægt að finna einhverja ódýra lausn varðandi eyðingu á flugöskunni.

Ríkharður Ibsen svaraði spurningum varðandi steypuna. Verið væri að vinna í þessum málum. Við værum nýlega búin að fá til liðs við okkur einn færasta steypusérfræðing landsins til að finna lausnir á þessu vandamáli.

Kristín Linda sagði að það væri alveg hárrétt sem komið hefur fram á fundinum að það sé ekki eins og ekkert hafi verið gert, búið væri að gera mikið af ráðstöfunum á árinu 2012 og að reksturinn á stöðinni væri að snúast við, þannig að það væri fullt að gerast og auðvitað á að hrósa fyrir það. Hins vegar væri það eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar að benda á frávik ef þau væru til staðar, segja sem svo, „þið megið ekki gera þetta, sýnið okkur fram á raunhæfar lausnir, hvernig ætlið þið að leysa þetta“. Þá er einnig mikilvægt að segja frá því að Umhverfisstofnun getur ekki verið samstarfsaðili, við getum ekki sest niður og sagt „hvernig eigum við að leysa þetta“ af þeirri ástæðu að við erum ykkar eftirlitsaðili, en ef við fáum raunhæfar tímasettar áætlanir um úrbætur, sem fyrirtækin geta staðið við, þá erum við glöð. Það sem skiptir máli er að leysa vel þau verkefni sem fyrir liggja. Horfa bæri á viðfangsefnin nokkuð kalt, „við erum að gera mikið, það eru ákveðin mál sem þurfa að klárast, annað sem þarf að gera skýrar áætlanir með, þetta kostar allt peninga“, sagði Kristín Linda.

Páll Þorbjörnsson spurðist fyrir um það í hvers konar steypu flugaskan gæti nýst.

Jón Norðfjörð nefndi m.a. vegablokkir og steypustokka í jörðu fyrir línulagnir.

Árni Sigfússon kom inná eftirlitshlutverkið og nefndi í því sambandi Vinnueftirlitið. Þar á bæ veittu menn vissa ráðgjöf, án þess að fara út í það að vera orðnir þátttakendur í ferlinu og eiga svo að hafa eftirlit með framkvæmdinni. Áhugavert er að hugsa þá nálgun í samstarfi að geta t.d. bent á þá sem best standa sig hér í svipuðum málum og ennfremur væri hægt að benda á aðrar stofnanir út í heimi sem gætu hjálpað til.

Kristín Linda nefndi að stofnunin gæfi út leiðbeiningar og handbækur, til að aðstoða fyrirtæki á almennum grunni. Sorpeyðingarstöðin væri dálítið sér á báti sem eina sorpbrennslustöðin í landinu og gæti því ekki ráðfært sig við aðrar stöðvar. Hins vegar væri hugsanlegt að álbrennslurnar hérlendis gætu bent á góða samstarfsaðila erlendis. Endurvinnsluiðnaðurinn er sá iðnaður í Evrópu sem menn gera ráð fyrir að verði í hvað örustum vexti í framtíðinni. Það eru líka tækifæri í þessu. Varðandi flugöskuna og úrlausn hennar er mikilvægt að menn standi þétt að baki stjórninni sem er að gera frábært starf.

Jón Norðfjörð lagði áherslu á að stjórnendur og fulltrúar eigenda Kölku vildu hafa öll mál í góðu lagi og búið væri að gera fjölmargt nú þegar til að svo væri. Lagði Jón áherslu á að áfram verði unnið að úrbótum og umhverfið og vinnustaðurinn ætti að vera til fyrirmyndar. Hann sagði mikilvægt að góð samvinna væri við Umhverfisstofnun um úrlausnir mála og markmiðið væri að gera stöðina „hreinni en sjúkrahús“ þegar upp verður staðið. Að lokum þakkaði Jón fyrir mjög góðan fund.

Fleira var ekki gert og var fundi slitið kl. 17:55.

Jóhann Rúnar Kjærbo, fundarritari
Ríkharður Ibsen, fundarstjóri

Til baka