Aðalfundur SS 2014

26.9.2014

Fundargerð.

36. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn 21. ágúst 2014 kl. 15:30 í Bíósal DUUS húsa í Reykjanesbæ.

Dagskrá:

1.    Fundarsetning.

2.    Kosning fundarstjóra og fundarritara.

3.    Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra, Oddur Ragnar Þórðarson, formaður stjórnar og Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri.

4.    Ársreikningur fyrirtækisins árið 2013, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur  endurskoðandi.

5.    Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.

6.    Tilnefning í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.

7.    Kosning endurskoðanda.

8.    Tillaga um þóknun til stjórnarmanna.

9.    Kynning á endurskipulagningarferli og rekstri SS 2010 – 2014

·         Framsögu hefur Ríkharður Ibsen fv. formaður og núv. varaformaður 

·         Ávörp flytja:

o    Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar.

o    Rósa Júlía Steinþórsdóttir viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka

o    Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi

·         Nokkur lokaorð um kynninguna frá Jóni Norðfjörð framkvæmdastjóra

10. Önnur mál – umræður um starfsemina. 


1. Fundarsetning

Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.


2. Kosning fundarstjóra og fundarritara

Jón lagði til að Ríkharður Ibsen varaformaður taki að sér fundarstjórn og var það samþykkt samhljóða. Þá lagði Jón til að Jóhann Rúnar Kjærbo skrifstofumaður hjá SS verði fundarritari og var það samþykkt samhljóða.

Ríkharður Ibsen tók við fundarstjórn og tilkynnti að mættir væru fulltrúar allra eignaraðila og að engar athugasemdir hefðu borist vegna fundarboðunar.


3. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra

Oddur Ragnar Þórðarson stjórnarformaður ætlaði að flytja fyrri hluta skýrslunnar, en forfallaðist tímabundið og Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri tók þá til máls og bauð gesti fundarins sérstaklega velkomna en þau voru: Anna Birgitta Geirfinnsdóttir endurskoðandi hjá Deloitte, Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar, Sigríður Kristjánsdóttir teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, Rósa Júlía Steinþórsdóttir viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka og Sölvi Sturluson lánastjóri hjá Íslandsbanka.

Annað sem fram kom í máli Jóns var eftirfarandi:

Á aðalfundum fyrirtækisins undanfarin ár höfum við farið ítarlega yfir flest þeirra verkefna sem unnið hefur verið að. Í kynningu á  endurskipulagningarferlinu hér síðar á fundinum verður  farið vel yfir starfsemi fyrirtækisins og kynntar helstu breytingar sem hafa orðið á rekstrinum á kjörtímabili stjórnarinnar sem nú skilar af sér.

Árið 2013 var sannarlega viðburðaríkt eins og fyrri ár kjörtímabilsins og góður árangur náðist í veigamiklum málum. Þar er helst að telja niðurstöður samkomulags um endurútreikning á langtíma lánssamningi fyrirtækisins við Íslandsbanka og farsæla lausn á stærsta vandamáli fyrirtækisins sem snýr að því að uppfylla starfsleyfisskilyrði og lengi hefur verið til umræðu sem óleyst vandamál, en það varðar förgun flugöskunnar. Góður árangur hefur einnig náðst í viðhaldsmálum með auknum áherslum á fyrirbyggjandi viðhald og svo nefni ég gjaldtökumál, en mikið breytt stefna í þeim málaflokki hefur skilað fyrirtækinu mjög miklum og góðum árangri.

Eins og fram kom á aðalfundinum 2013 var samkomulag við Íslandsbanka um leiðréttingu á lánssamningi í augsýn og svo fór að samkomulag náðist.  Fulltrúi Íslandsbanka mun fara nánar yfir málið síðar á fundinum í kynningu á endurskipulagningarferlinu. 

Samtals hefur langtímalán fyrirtækisins lækkað um 500 milljónir króna á síðustu fjórum árum og sannarlega munu þessar lækkanir á lánastöðunni skipta sköpum hvað varðar rekstrarhæfi fyrirtækisins til framtíðar. Ég vil hér og nú koma á framfæri sérstöku þakklæti til starfsfólks Íslandsbanka sem hefur unnið með okkur að því að ná þessum góða árangri og í því sambandi sýnt mikinn skilning og sanngirni.

Næst ætla ég að fara aðeins yfir margumtalað flugöskumál.

Til að rifja aðeins upp fyrir þá sem ekki vita, er flugaskan efni sem verður til í reykhreinsikerfi brennslunnar og inniheldur meðal annars þungmálma. Eins og staðan er og hefur verið, er ekki leyfilegt að urða flugöskuna hér á landi. Engin gögn eða upplýsingar hafa fundist hjá fyrirtækinu eða komið fram með öðrum hætti um að einhver vinna hafi verið lögð í að leita varanlegra lausna á undanförnum árum um förgun öskunnar, en bent hefur verið á að þess hafi verið vænst að leyfi fengist til að urða öskuna á Stafnesi, sem eins og allir vita, aldrei varð. Flugaskan hefur því safnast upp og magnið skipti orðið þúsundum tonna.

Síðustu þrjú ár hefur mikil vinna verið lögð í að finna viðunandi lausn og loksins á síðasta ári rofaði til í málinu. Fyrirtæki að nafni NOAH A/S í Noregi samþykkti að taka við flugöskunni, en þetta sama fyrirtæki hafði tæplega einu ári áður hafnað þeirri beiðni okkar. Við fengum svo tilboð frá fyrirtækinu í sjóflutning og förgun öskunnar sem okkur fannst vera í hærra lagi.

Við Ríkharður Ibsen og Ingþór Karlsson fórum á fund Norðmannanna og niðurstaðan var að við komum heim með samkomulag sem var um 20 mkr. lægra en áður sent tilboð var.

Hinn 5. júní s.l. sigldi svo skip frá Njarðvík til Noregs með um 3.500 tonn af flugösku. Nú liggur fyrir að Norðmennirnir eru tilbúnir til að gera við okkur samning um framtíðarsamstarf og kostnaðartölur sem liggja fyrir eru vel ásættanlegar fyrir SS.

Af því að ég er að tala um ösku þá ætla ég aðeins að nefna botnöskuna einnig, sem er gjallið sem kemur úr brennsluofninum. Varanleg lausn á meðhöndlun og förgun botnöskunnar var ekki til staðar árið 2010 og athugasemdir Umhverfisstofnunar lágu fyrir.

Þetta mál er nú að komast í ásættanlegan farveg þar sem skilyrði starfsleyfis verða væntanlega uppfyllt og gert er ráð fyrir að það fari langt með að klárast á þessu ári.

Núgildandi starfsleyfi fyrirtækisins rennur út í febrúar 2016 og samþykkt stjórnar SS liggur fyrir um að senda umsókn til Umhverfisstofnunar um endurnýjun starfsleyfisins. Ákvæði starfsleyfisins verða þá ítarlega yfirfarin og endurskoðuð og vænti ég góðs samstarfs við Umhverfisstofnun um þau mál. Við hjá sorpeyðingarstöðinni og Umhverfisstofnun höfum ekki alltaf gengið í takt á undanförnum árum, en með góðum samtölum hefur skilningur milli okkar vaxið og samstarfið þróast eins og best verður á kosið. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki Umhverfisstofnunar fyrir gott og ánægjulegt samstarf.

Þriðja málið sem ég nefni hér varðar viðhalds- og öryggismál.

Mikil vinna hefur verið lögð í að koma viðhalds- og öryggismálum í brennslustöðinni í viðunandi farveg.

Verulegur kostnaður hefur farið í rekstur brennslunnar og þess vegna skiptir öllu máli að reyna að koma í veg fyrir óvæntar og ótímabærar bilanir. Nú er áherslan lögð á breytt vinnubrögð með fyrirbyggjandi viðhald í forgangi. Til að leggja áherslu á mikilvægi þessara mála var ákveðið að Ingþór Karlsson mundi frá 1. febrúar á þessu ári sinna starfi rekstrarstjóra brennslunnar í fullu starfi.

Á árinu 2013 var farið í miklar fyrirbyggjandi viðhaldsframkvæmdir þar sem meðal annars var skipt um eldmúr og einangrun í eftirbrennslugeymi, stór hluti af tölvukerfi stjórnstöðvarinnar var endurnýjaður, brunakerfi í brennslustöðinni var endurnýjað og einnig öryggismyndavélakerfið. 

Síðasta málefnið sem ég ætla að ræða hér eru gjaldtökumál fyrirtækisins. Meðal annars vegna umræðu um gjaldtöku á gámaplönum fyrirtækisins, hef ég velt fyrir mér spurningunni:  Hvert viljum við stefna í gjaldtökumálum?

Ég ætla í stuttu máli að tala um hvernig gjaldtökumálum var háttað áður og svo að segja ykkur frá því hverju við höfum breytt og af hverju.

 • Sorpgjöld sem lögð eru á íbúðaeigendur á Suðurnesjum hafa þróast í að verða með þeim hæstu hér á landi. Núverandi stjórnendur SS hafa talið þetta algjörlega óásættanlegt og lagt mikla áherslu á að breyta þessu!
 • Við skoðun á rekstri fyrirtækisins aftur í tímann kemur í ljós að þegar rekstrarvandinn jókst voru sorpgjöldin hækkuð. Það var hin auðvelda leið að fara.
 • Viðskiptaaðilum fyrirtækisins var verulega mismunað með verðlagningu á þann hátt að mun meiri hækkanirnar voru lagðar á íbúðaeigendur en fyrirtækin.
 • Segja má að þannig hafa íbúðaeigendur verið látnir taka mun stærri þátt í að niðurgreiða taprekstur fyrirtækisins.
 • Það er alveg augljóst að sú leið sem farin var þjónaði alls ekki hagsmunum fyrirtækisins og það er einnig alveg augljóst að þessi leið sem farin var þjónaði alls ekki hagsmunum íbúanna.

Á sex ára tímabili á árunum 2006 til og með 2011 hækkuðu sorpgjöldin sem hér segir:

 • Sorpgjöld á íbúa innheimt með fasteignagjöldum hækkuðu um 91% 
 • Á sama tímabili hækkaði gjaldskrá fyrir stofnanir og fyrirtæki aðeins um 37% og......
 • Gjaldskrá fyrir spilliefni og sóttmengaðan úrgang, efni sem valda langmestum brennslukostnaði hækkaði aðeins um 30%.

Nú hefur verið breytt um takt og þessum gjaldtökumálum algjörlega verið snúið við og á síðustu þremur árum, þ.e. frá 2012 til og með 2014 hefur þetta breyst umtalsvert og sorpgjöldin hækkað sem hér segir:

 • Sorpgjöld innheimt með fasteignagjöldum hafa hækkað um 3%
 • Gjaldskrá fyrir stofnanir og fyrirtæki hefur hækkað um 23%
 • Gjaldskrá fyrir spilliefni og sóttmengaðan úrgang hefur hækkað að meðaltali um 55% á þessum þremur árum.

Með þessari miklu stefnubreytingu hefur á síðustu misserum orðið verulegur viðsnúningur í gjaldtökumálum fyrirtækisins eins og sjá má. Stefnan var sett á að verðleggja þjónustuna í sem mestu samræmi við þann kostnað sem úrgangsefni valda í brennslunni. Einnig hefur verið tekið tillit til þess að mikið magn berst til fyrirtækisins af óendurvinnanlegum úrgangsefnum sem við getum ekki brennt og verðum að láta flytja til Sorpu til urðunar. Allt veldur þetta mjög miklum kostnaði fyrir fyrirtækið og þess vegna skiptir öllu máli að verðleggja þjónustuna rétt, hafa góða yfirsýn á allri starfseminni og að hafa vel mótaðar vinnu- og umgengnisreglur sem viðskiptaaðilar fyrirtækisins þurfa að framfylgja.

Auk framangreindra breytinga ætla ég að segja ykkur að einhver albesta ákvörðun sem við höfum tekið í gjaldtökumálum var að taka upp gjaldskyldu á gámaplönum fyrirtækisins. Ég legg mikla áherslu á þetta atriði ágætu fundarmenn eins og fram kom í upphafi máls míns, vegna umræðunnar sem orðið hefur um þessi mál.

Áhrifin af þeirri góðu ákvörðun að taka upp gjaldskyldu á gámaplönum Kölku hefur skilað frábærum árangri.

 • Tekist hefur að tryggja nánast fullkomlega að greitt sé fyrir allan úrgang frá fyrirtækjum og minni rekstraraðilum. Áður en gjaldtakan var tekin upp komu 800 til 1000 tonn á ári af gjaldskyldum úrgangi á gámaplönin m.a. frá fyrirtækjum og minni rekstraraðilum sem engin greiðsla fékkst fyrir. Miðað við gjaldskrá nú eru þetta tekjur upp á um 16 til 18 milljónir króna á ári. Auk þess innheimtast 4 til 5  milljónir króna á ári af einstaklingum fyrir greiðsluskyldan úrgang.
 • Með ákvörðun um gjaldtöku á gámaplönum hefur þannig tekist að koma í veg fyrir að fyrirtækjum sé gróflega mismunað og einnig er nú tryggt að ákvæðum samþykkta um meðhöndlun úrgangs á Suðurnesjum er mun betur framfylgt.
 • Fullyrða má að settar reglur og gjaldtaka á gámaplönum hafi einnig átt hvað stærstan þátt í að stöðva þá slæmu stefnu sem leiddi af sér gengdarlausar hækkanir sorpgjalda á íbúðaeigendur. Meðal annars þess vegna hefur ekki þurft að hækka sorpgjöld á íbúana um meira en 3% á síðast liðnum þremur árum eins og fram kom hér áður.
 • Með sama aðhaldi og góðum skilningi fyrir því að hafa stefnuna í gjaldtökumálum Kölku eins hér hefur verið líst, er það von mín að sorpgjöld á fasteignaeigendur geti haldist óbreytt áfram árið 2015. Ég segi þetta þó með smá fyrirvara.

Hér koma aðeins meiri upplýsingar og skýringar um gjaldtöku á gámaplönunum.

Fyrstu sex mánuði þessa árs hafa að meðaltali komið um 1500 aðilar á gámaplönin í hverjum mánuði. Af þessum 1500 aðilum koma um 80% eða um 1200 aðilar með gjaldfrjálsan úrgang og greiða þ.a.l. ekkert gjald.
Af þeim 20% þ.e. 300 aðilum sem koma með gjaldskyldan úrgang, eru um 65% eða um 200 aðilar sem greiða lágmarksgjald kr. 875.-.
Það eru því aðeins um 100 aðilar þ.e. um 7% þeirra sem koma á gámaplönin í hverjum mánuði sem greiða meira en lágmarksgjald. Sumir þessara aðila eru rekstraraðilar sem koma með úrgang sinn utan opnunartíma fyrir móttöku úrgangs frá fyrirtækjum.

Á þessum upplýsingum má glögglega sjá að gjaldtaka á gámaplönum er ekki fjárhagslega íþyngjandi fyrir íbúa á Suðurnesjum. Það er langt frá því. Við vitum það öll að það er rík tilhneiging til að misnota allt sem kallast frítt. Við vitum það líka öll að það sem ég get fengið frítt, borgar einhver annar. Ég held að fólk skilji það betur og betur að það er mun eðlilegra að þeir sem nota þjónustuna greiði eitthvað fyrir hana frekar en að kostnaðinum sé deilt á alla íbúa svæðisins eins og gert var áður með tilheyrandi stjórnleysi og óráðsíu sem því fylgdi.

Í stuttu máli hefur gjaldtaka á gámaplönum Kölku sem sagt skilað þeim árangri:

 • Að tryggja endurgjald fyrir nánast allan gjaldskyldan úrgang.
 • Að stöðva grófa misnotkun sem gjaldfrelsið bauð upp á.
 • Að loka fyrir þann möguleika að fyrirtækjum væri verulega mismunað.
 • Að skapa meiri reglusemi um starfsemina á gámaplönunum sem hefur skilað almennt betri reglusemi fyrir rekstur fyrirtækisins.
 • Að koma á þeirri sjálfsögðu aðferð að þeir sem nota þjónustuna greiði hóflegt gjald fyrir.
 • Að eiga einn stærsta þáttinn í bættri rekstrarafkomu fyrirtækisins.

Ég spurði í byrjun þessarar umræðu minnar, hvert viljum við stefna í gjaldtökumálum?

Persónulega vil ég sjá framhald þeirrar stefnu sem hér hefur verið líst og ég lít á það sem sameiginlegt hagsmunamál  fyrirtækisins og íbúanna sem eru eigendur fyrirtækisins að góðu og traustu aðhaldi og reglusemi verði viðhaldið í gjaldtökumálum og því verði ekki raskað með óskynsamlegum ákvörðunum.

Í apríl á þessu ári gerðum við tilraun til að hafa svokallaða umhverfisdaga á Suðurnesjum og liður í því verkefni voru tveir gjaldfrjálsir dagar hjá Kölku. Á tveimur dögum tókum við á móti 340 tonnum af úrgangi og til samaburðar tókum við á móti rúmum 1600 tonnum af úrgangi á gámaplönunum allt árið 2013.

Niðurstaða okkar í Kölku var sú að meiri hluti þess úrgangs sem við tókum á móti á þessum umhverfisdögum í vor hafi komið frá fyrirtækjum og ýmsum rekstraraðilum sem nýttu sér óspart þessa glufu sem opnuð var fyrir heimilin á Suðurnesjum. Í byrjun reyndu starfsmenn Kölku að benda mönnum á að greiðsluskyldur úrgangur rekstraraðila ætti að fara á vigt, en gáfust fljótlega upp.

Hér eru nokkrar myndir sem sýna hluta þess úrgangs sem móttekin var.


Starfsmenn upplifðu sömu óráðsíu og skipulagsleysi og var áður en gjaldtaka á gámaplönum var tekin upp. Í ljósi þessarar reynslu þurfum við að taka góða og skynsamlega umræðu um þessi mál og kannski er rétta leiðin að hvert sveitarfélag sem vill hafa gjaldfrjálsa daga geri samkomulag við SS um það og greiði jafnframt þann kostnað sem af því leiðir.

Góðir fundarmenn.      

Allt starf okkar stjórnenda og starfsmanna SS hefur að sjálfsögðu fyrst og fremst tekið mið af hagsmunum fyrirtækisins og þar með eigendanna sem eru íbúar sveitarfélaganna.

Þó að mikið hafi áunnist að undanförnu þá eru mörg verkefni sem bíða úrlausnar og væntanlega styttist í að sveitarfélögin þurfi að taka stefnumótandi ákvarðanir um framtíðarfyrirkomulag í sorpmálum hér á Suðurnesjum.

Starfsmönnum fyrirtækisins vil ég færa bestu þakkir mínar og stjórnarinnar fyrir mjög góða samvinnu og frumkvæði sem þeir hafa ítrekað sýnt í störfum sínum. Að endingu ætla ég þakka stjórn fyrirtækisins sem nú skilar af sér góðu verki, fyrir einstaklega farsælt, ánægjulegt og árangursríkt samstarf.   Takk fyrir.


4. Ársreikningur fyrirtækisins árið 2013

Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi kynnti ársreikning fyrirtækisins fyrir árið 2013. Heildarrekstrartekjur námu rúmlega 454 milljónum króna. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsgjalda námu um 518,8 milljónum króna. Í rekstrargjöldum er áætlaður förgunarkostnaður flugösku krónur 140 milljónir sem kemur til greiðslu árið 2014. Rekstrartap fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam þannig -64,7 milljónum króna. Heildarhagnaður ársins nemur 176,8 milljónir króna sem skýrist meðal annars af höfuðstólslækkun langtímalána sem samkomulag náðist um við Íslandsbanka að upphæð 336,8 milljónir króna.

Fjárhagsstaða Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. hefur verið erfið undanfarin ár en verulegum árangri hefur verið náð síðustu ár við að snúa fjárhagsstöðunni til betri vegar. Í lok árs 2013 er eiginfjárhlutfall félagsins neikvætt um 35,97% en var neikvætt um 61,4% í árslok 2012. Eiginfjárhlutfall er enn neikvætt þrátt fyrir höfuðstólslækkun skulda á árinu 2013 sem nam 336,8 milljónum króna í kjölfar samninga við Íslandsbanka.

Á árinu 2013 hefur verið gjaldfærður áætlaður 140 milljóna króna kostnaður sem falla mun til árið 2014 vegna förgunar flugösku sem safnast hefur upp á 10 ára tímabili eða frá árinu 2004 til ársloka 2013. Ef til gjaldfærslunnar hefði ekki komið væri EBITDA félagsins jákvæð um 75,3 milljónir króna.

Í lok árs 2013 nema skammtímaskuldir fyrirtækisins 232 milljónum króna og er þar meðtalin skuldbinding vegna förgunar flugösku krónur 140 milljónir. Veltufjármunir námu um 50,6 milljónum króna og er veltufjárhlutfall því 0,22. Langtímaskuldir eru um 674 milljónir króna.

Í skýringu 18 í ársreikningi er að finna helstu kennitölur félagsins. Þá er fjallað um skuldbindingu vegna flugösku í skýringu 15 og fjárhagslega stöðu þess í skýringu 16. Miðað við framangreint ríkir ákveðin óvissa um rekstrarhæfi en reikningsskilin eru gerð miðað við að forsendan um rekstrarhæfi sé til staðar. Á árinu 2013 hefur áfram tekist að bæta fjárhagsstöðu félagsins og lýsti Anna Birgitta ánægju með þá vinnu sem hefur verið unnin.


5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins.

Böðvar Jónsson hrósaði stjórninni fyrir frábæra niðurstöðu á liðnu kjörtímabili. Hann sagði margt afar jákvætt og nefndi í því sambandi flugöskumálið. Nánast allt væri komið í gott horf og ástæða væri til að þakka fyrir það og óska stjórn og starfsmönnum til hamingju. Í máli Böðvars kom fram m.a. að alltaf væri eitthvað sem betur mætti fara og nefndi í því sambandi gjaldskyldumálið. Hann sagði að ástæðan fyrir því að bæjarstjórn Reykjanesbæjar tók þetta mál upp á sínum tíma hafi verið aukið rusl á víðavangi innan sveitarfélagsins eftir að gjaldtakan var tekin upp, en ástandið hefði þó lagast eftir að gjaldskráin var lækkuð og ákvörðun tekin um gjaldfrjálsa daga. Böðvar sagði að dreifing úrgangs hafi farið minnkandi eftir þessar breytingar og það væri afar jákvætt. Hvatti Böðvar þá stjórn sem tæki við af þessum fundi til þess að viðhalda þeirri ákvörðun að hafa gjaldfrjálsa daga að minnsta kosti tvisvar til þrisvar á ári.

Kristinn Jakobsson tók undir orð Böðvars og Önnu Birgittu endurskoðanda um að náðst hafi frábær árangur og bæri að þakka stjórninni fyrir það. Kristinn vitnaði í aðra grein  samþykkta fyrir Sorpeyðingarstöð Suðurnesja þar sem stendur að tilgangur félagsins sé að eiga og reka Kölku Sorpeyðingarstöð Suðurnesja og ennfremur að annast alla sorpeyðingu og sorphirðu. Að mati Kristins er kominn tími til að breyta þessari 2. gr. og bæta inn í hana orðinu endurvinnsla. Hann benti á að víða í samfélaginu væri byrjað að flokka úrgang og endurvinna.

Sigrún Árnadóttir tók undir þakkir til stjórnar SS, framkvæmdarstjóra og starfsfólks fyrir frábæran árangur sem náðst hefur í rekstri stöðvarinnar síðastliðin fjögur ár. Sérstaklega væri ánægjulegt að flugaskan væri að stórum hluta farin úr landi og búið væri að leysa stórt vandamál. Sigrún tók undir með Kristni og taldi mjög mikilvægt að huga að því hvernig mætti endurvinna meira af því sorpi sem til félli á svæðinu.

Ólafur Þór Ólafsson tók undir með öðrum og þakkaði fyrir góða skýrslu og þann árangur sem náðst hafi í rekstri stöðvarinnar undanfarin ár. Ólafur taldi að við værum komin á þann tímapunkt að við þyrftum að huga að framtíð sorphirðumála á Suðurnesjum, taka þyrfti stöðuna og ákveða hvert skuli stefna. Það væri samtalið sem sveitarstjórnarfólk og íbúar á svæðinu þyrftu að eiga á næstu misserum. Ólafur vildi gera Suðurnesin virkari í þeirri umræðu sem á sér stað innan sorpsamlaga á suðvesturhorni landsins, taka þátt í henni og vera leiðandi. Það er krafa samfélagsins að við flokkum og við þurfum að standa okkur betur gagnvart umhverfinu en við höfum gert. Að lokum lagði Ólafur það til að ný stjórn taki þessa punkta til skoðunar og hugi að framtíðarskipulagi þessara mála hér á svæðinu.

Ekki tóku leiri til máls og fundarstjóri bar ársreikning Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. fyrir árið 2013 upp til samþykktar og var ársreikningurinn samþykktur samhljóða.


6. Tilnefningar í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.

Eftirfarandi tilnefningar bárust frá eignaraðilum félagsins:

 

Aðalmenn:

Varamenn:

Frá Reykjanesbæ:   

Birgir Már Bragason

Baldvin Lárus Sigurbjartsson

 

Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir

Hanna Björg Konráðsdóttir

 

Teitur Örlygsson

Bjarni Stefánsson

Frá Grindavíkurbæ: 

Jóna Rut Jónsdóttir

Þórunn Svava Róbertsdóttir

Frá Sandgerðisbæ: 

Elín Björg Gissurardóttir

Gísli Þór Þórhallsson

Frá Sv.fél. Garði:    

Brynja Kristjánsdóttir

Gísli Heiðarsson

Frá Sv.fél. Vogum:  

Inga Rut Hlöðversdóttir

Bergur B. Álfþórsson


7. Kosning endurskoðanda

Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte ehf. verði endurskoðandi félagsins.

Tillagan samþykkt samhljóða.


8. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna

Formaður stjórnar fái 3% af þingfararkaupi (19.543.-) fyrir hvern fund, aðrir stjórnarmenn fái 2% af þingfararkaupi (13.029.-) fyrir hvern fund. 

Samþykkt samhljóða.


9. Kynning á endurskipulagningarferli SS 2010 – 2014

Í kynningunni hafði Ríkharður Ibsen fv. formaður og núverandi varaformaður stjórnar SS framsögu og ávörp fluttu Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar, Rósa Júlía Steinþórsdóttir viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka og Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi fyrirtækisins. Að endingu fór Jóni Norðfjörð framkvæmdastjóri nokkrum orðum um kynninguna og starfsemina.

Ríkharður Ibsen fv. stjórnarformaður

Ríkharður lýsti þeirri sýn sem við stjórninni blasti í upphafi kjörtímabilsins árið 2010. Hann sagði að staðan hafi vægast sagt verið afar slæm. Heildarskuldir voru um 1.350 milljónir króna og eiginfjárstaðan var neikvæð um 600 milljónir króna. Viðvarandi taprekstur hafði verið frá upphafi starfsemi brennslustöðvarinnar Kölku í Helguvík og sameiginleg ábyrgð sveitarfélaganna kom í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækisins. Mörg óleyst vandamál voru í rekstrinum og fyrirtækið uppfyllti ekki ýmis ákvæði í starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út. Þar var stærst mála uppsöfnun á flugösku um nokkur þúsund tonn frá upphafi rekstrar brennslunnar árið 2004. Gerð var heildarúttekt á rekstri fyrirtækisins af ráðgjafafyrirtækinu LS Finance. Úttektin sýndi nauðsyn þess að farið yrði í róttækar aðgerðir til að rekstri fyrirtækisins yrði komið í betra horf.

Ríkharður fór síðan yfir aðgerðir sem gripið var til eftir að úttektin á rekstrinum lá fyrir. Skipulagsbreytingar voru gerðar og nýr framkvæmdastjóri, Jón Norðfjörð var ráðinn til starfa á miðju ári 2011. Allur rekstur fyrirtækisins var algjörlega endurskipulagður með þeim árangri að viðvarandi taprekstri var snúið í hagnað öll árin á tímabilinu og samningar náðust við Íslandsbanka um lækkun lána sem nam um 500 milljónum króna. Yfirdráttarskuld fyrirtækisins upp á 173 milljónir króna var greidd upp á tímabilinu.
Miklar breytingar voru gerðar í gjaldskrármálum þar sem jafnframt var dregið úr sífelldum og miklum hækkunum sorpgjalda á íbúa svæðisins. Viðhaldsmál hafa verið tekin fastari tökum með áherslu á fyrirbyggjandi viðhald og mörg ákvæði starfsleyfis hafa verið lagfærð og þar vegur þyngst að flugöskuvandinn sem stjórnin fékk í arf hefur verið leystur með samningi við norska fyrirtækið Noah og er það mál nú í góðum farvegi. Ríkharður upplýsti fundarmenn um að á kjörtímabilinu 2010 til 2014 hafi 19 aðilar tekið sæti aðalfulltrúa í stjórn SS og einnig nokkrir í varastjórn. Hann benti á að slíkur óstöðugleiki í stjórnarsetu gæti vart talist gott fyrir fyrirtækið. Fram kom að hann var eini stjórnarmaðurinn sem hafði setið allt kjörtímabilið. Að endingu þakkaði Ríkharður stjórnarmönnum, framkvæmdastjóra og starfsfólki fyrirtækisins fyrir gott og ánægjulegt samstarf á tímabilinu.

Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar.

Kristín hóf mál sitt með því að fjalla almennt um mengunareftirlit Umhverfisstofnunar. Hún sagði að það byggist á vottuðum gæðakerfum og eru allar eftirlitsskýrslur birtar á vefnum. Gríðarmikill árangur hefur náðst í úrgangs- og efnamóttökumálum hjá sveitarfélögum sem er afar jákvætt. Meðaltal frávika hefur dregist saman milli ára. Fjöldi áminninga jókst árið 2010 en minnkaði eftir það. Þetta þýðir að fyrirtækin eru mun fljótari að bregðast við. Markmið Umhverfisstofnunar er að ná árangri. Árangur Kölku er m.a. þessi stóri áfangi að leysa flugöskumálið. Þetta 10 ára vandamál gengu stjórn og framkvæmdastjóri í að leysa og kláruðu. Öll frávik hafa farið í úrbótaferil og menn bregðast mjög fljótt við og við finnum það líka að menn vilja stefna í rétta átt. Það er mikill vilji til að leysa málin og er sífellt hugað að nýjum leiðum til lausna. Það var sérstaklega áhugavert að ná þessum viðsnúningi í rekstri Kölku en jafnframt að taka sig svo vel í gegn hvað varðar umhverfismálin. Kristín Linda sagði þetta styðja þá skoðun að vel rekin fyrirtæki standa sig jafnframt mjög vel í umhverfismálum. Stöðugur rekstur skiptir líka gríðarlega miklu máli. Þegar horft er á árangurinn sést að hann er glæsilegur. Mikilvægt er að brennslustöð sé starfrækt í landinu m.a. til að geta tekið á ýmsum vandamálum sem getað komið upp. Löggjöfin um brennslu úrgangs er mjög þröng og krefst mikillar árvekni og stöðugleika. Umhverfisstofnun leggur mikla áherslu á jákvæða umbun, mikilvægt væri að hrósa fyrirtækjum sem standa sig vel. Þá sagðist Kristín Linda gera ráð fyrir því að Sorpeyðingarstöð Suðurnesja verði frávikalaust fyrirtæki á næsta ári, fyrirtækið gæti það vel. Starfsleyfi fyrirtækisins rennur út eftir tvö ár og það væri gleðilegt að heyra að menn væru strax byrjaðir að undirbúa að sækja um nýtt starfsleyfi. Því næst vék Kristín Linda aðeins að rekstri mengandi fyrirtækja og eftirliti. Umræðan er oft á þann veg að mengandi fyrirtæki hafi eftirlit með sjálfum sér, þau sjái sjálf um sínar mælingar og svo framvegis. Kristín Linda telur mjög mikilvægt að fyrirtækin með sína sívöktun sinni þessu eftirliti, þetta sé stór hluti af góðum rekstri fyrirtækja, en auðvitað förum við sem eftirlitsaðili síðan vel yfir niðurstöður þessara mælinga. Þá taka viðurkenndir aðilar svokallaðar prufur tvisvar á ári. Við teljum afar mikilvægt að fyrirtækin líti á þetta sem hluta af þeirra rekstri að fylgjast vel með sínum umhverfismálum. Þá hefur Umhverfisstofnun óskað eftir fjármagni í svokallað sértækt eftirlit í tengslum við  mælingar og vöktun, svokallað stikkprufueftirlit, slíkt eftirlit væri gert algerlega sjálfstætt og markmiðið væri auðvitað þessi trúverðugleiki. „Enn og aftur vil ég óska ykkur til hamingju með þann árangur sem náðst hefur og gangi ykkur vel í framhaldinu“, sagði Kristín Linda að lokum.

Rósa Júlía Steinþórsdóttir viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka

Rósa Júlía byrjaði á því að óska stjórn og stjórnendum til hamingju með árangurinn. Hún kynnti síðan helstu þætti í rekstri bankans fyrir fundarmönnum, sjálf sagðist hún tilheyra fyrirtækjasviðinu sem er í höfuðstöðvum bankans. Hlutverk Rósu inn á fyrirtækjasviði er m.a.  samskipti við sveitarfélög sem eru í viðskiptum við bankann. Viðskiptareikningar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja eru í útibúi bankans á Suðurnesjum. Eftir kynningu á bankanum var komið að endurskoðunarferlinu. Upphafleg var bygging Kölku fjármögnuð að tveim þriðju hlutum af Íslandsbanka, f.h. sveitarfélaganna og einum þriðja hluta af varnarliðinu. Stöðin var m.a. byggð upp með þarfir varnarliðsins í huga og það segir sig sjálft að rekstrarskilyrðin breyttust verulega þegar þeir fóru af landi brott. Lánið var í erlendum myntum og þau hækkuðu verulega þegar efnahagshrunið varð 2008. Ákveðið var á þeim tímapunkti að vinna með félaginu, framlengja lánið og bíða svo og sjá hvernig framvindan yrði. Höfuðstólslækkunin árið 2011 fól í sér úrræði sem öllum viðskiptavinum Íslandsbanka stóð til boða, sama hvernig lán voru flokkuð og hvaða dómar lágu fyrir, en það var í raun fyrirtækið sjálft sem réð því hvort það tæki þessari höfuðstólslækkun eða ekki. Þá lækkaði lánið um rúmlega 162 mkr. en það var í raun ekki nægilegt til að tryggja rekstrarhæfi fyrirtækisins þannig að það gæti staðið í skilum. Fyrirtækið var í raun enn of skuldsett. Bankinn gerði síðan tilboð til félagins sem byggðist á tölum og áætlunum sem komu frá félaginu sjálfu en því tilboði var hafnað. Áfram var leitað leiða til lausnar og inn í þá vinnu féll svo dómur um ólögmætt erlent lán og samkvæmt þeim dómi var ljóst að sum lán þurfti að endurreikna. Lögfræðideild bankans mat öll erlend lán út frá þessum dómi og niðurstaða þeirra var sú að lán Sorpeyðingarstöðvarinnar væri löglegt sem fólst m.a. í því að 7% af láninu var greitt út í erlendri mynt. Í framhaldi af þessari niðurstöðu og áframhaldandi samningaviðræðum milli félagsins og bankans, gerði bankinn félaginu tilboð um að endurútreikna lánið, en skilja eftir þann hluta sem greiddur var út í erlendri mynt, þ.e. um 7% lánsins. Um þetta náðist samkomulag og fór lánið þá niður í rúmlega 500 mkr. Í framhaldi af þessari niðurstöðu var sest niður með framkvæmdarstjóra og endursamið um lánaskilmála þessa nýja lánssamnings. Rósa sagði að þau hjá bankanum hafi fylgist vel með félaginu og væru mjög ánægð með gang mála og hvernig tekist hefur að leysa flugöskuvandann. „Vonandi verður áfram góður gangur í rekstri félagsins“, sagði Rósa og kom svo með smá hugleiðingu í lokin varðandi brennslustöðina:

„Eiga sveitarfélögin á Suðurnesjum að standa ein undir þeim kostnaði að farga eitruðum úrgangi þegar ríkið telur nauðsynlegt að svona stöð þurfi að vera til í landinu?“, sagði Rósa að lokum.

Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi

Anna Birgitta kynnti fjárhagslega þróun félagsins og ýmsar rekstrarniðurstöður samkvæmt ársreikningum síðast liðin fimm ár. Í máli Önnu Birgittu kom fram að rekstrartekjur hafa hækkað töluvert meira en rekstrargjöld á þessu tímabili ef kostnaður vegna flugöskunnar er tekinn út. Niðurstaðan sýnir glöggt að búið er að hagræða og ná árangri í rekstri. EBITAN var 56,7 mkr árið 2009 og ef við tökum kostnaðinn vegna flugöskunnar út þá eru þetta um 94 mkr árið 2013. „Auðvitað hefðu þessar 140 mkr. átt að dreifast á síðastliðin tíu ár, en þetta er eigi að síður samanburðarhæft milli ára“, sagði Anna Birgitta. Afkoman var jákvæð öll árin, en endurskipulagningin spilar þar sterkt inn í. Ef tekjurnar eru skoðaðar nánar sést að framlög sveitarfélaganna hafa vaxið um 11,8% frá árinu 2009 og tekjur frá stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum hafa vaxið um 30% frá sama tíma.  Varðandi rekstrargjöldin sést að laun og launatengd gjöld hafa vaxið um 16% frá árinu 2009 en launavísitalan hefur hækkað töluvert meira á sama tímabili. Rekstrargjöld vegna reksturs sorpeyðingarstöðvar hafa hækkað um 60% en það skýrist fyrst og fremst af auknum viðhaldsverkefnum, en þetta er eini liðurinn sem hækkaði á meðan aðrir liðir lækkuðu. Hagræðing í aðkeyptri sorpeyðingu, rekstri sorphirðingar og stjórnunarkostnaði hefur skilað verulegum árangri. Viðhaldskostnaður og fyrirbyggjandi viðhald hefur vissulega kostað sitt en eins og fram hefur komið hjá stjórnendum þá er stöðin í mun betra ástandi fyrir vikið. Ef rekstrargjöld eru skoðuð sem hlutfall af tekjum sést að hlutfall launa og launatengdra gjalda er það sama nú og var 2009, hlutfall rekstrar sorpeyðingarstöðvarinnar hefur hækkað úr 16% í 22%, aðkeypt sorpeyðing lækkað úr 12% í 4%, rekstur sorphirðingar lækkað úr 20% í 17% og stjórnunarkostnaður lækkað úr 2% í 1%. Fjármagnsliðirnir sýna miklar sveiflur milli ára, sem skýrist meðal annars af því að öllum langtímaskuldum var skilmálabreytt úr erlendri mynt í krónur á árinu 2011. Höfuðstólslækkun nam 162,7 mkr. Þá náðist samningur um endurfjármögnun á árinu 2013 og höfuðstólslækkun um 336,8 mkr. Önnur vaxtagjöld sem eru aðallega vegna yfirdráttarlána hafa verið að lækka á tímabilinu, þar sem vel hefur gengið að greiða niður yfirdrátt.

Hvað varðar efnahagsreikninginn, þá er sorpeyðingarstöðin afskrifuð um 4% á hverju ári og endurbætur á stöð eru eignfærðar ár hvert. Bókfært verð sorpeyðingarstöðvar var 577 mkr í árslok 2013 en varanlegir rekstrarfjármunir eru 615 mkr. Eigið fé stöðvarinnar var í lok árs 2013 neikvætt um 240 mkr, en eiginfjárstaðan hefur batnað um 359 mkr. frá árinu 2009. Þá hefur orðið töluverð breyting á skuldahliðinni. Skuldir við lánastofnanir í árslok 2009  námu 1.240 mkr. Í árslok 2013 námu skuldirnar 651 mkr. Lækkunin nemur 589 mkr. eða 48%. Heildarskuldir voru 1347 mkr. í árslok 2009 en eru nú 906 mkr. en inn í þeirri tölu er 140 mkr. skuldbinding vegna áætlaðs kostnaðar við förgun flugösku. Í lok árs 2013 eru öll bankalán í verðtryggðum krónum.

Jóni Norðfjörð framkvæmdastjóri, nokkur orð um kynninguna og starfsemina

Jón sagði að þessi kynning og yfirferð á starfsemi SS lýsti mjög góðum og miklum árangri sem fráfarandi stjórn og starfsmenn fyrirtækisins eru að skila af sér inn í nýtt kjörtímabil til nýrrar stjórnar. Hann sagði að þó góður árangur hafi náðst í mörgum málum þá væru næg verkefnin framundan og haldið verði áfram að takast á við bæði erfið og einnig skemmtileg mál. Jón rifjaði upp að á fyrsta aðalfundinum sem hann sat árið 2011 hafi hann greint ótta hjá sveitarstjórnarmönnum um að sveitarfélögin þyrftu að leggja  félaginu til aukið fjármagn vegna þeirrar erfiðu stöðu sem fyrirtækið var í, en í dag væri útséð með að sveitarfélögin þurfi ekki að óttast það. „Við höfum og munum væntanlega geta áfram klórað okkur út úr þessu sjálf“, sagði Jón. Þá ítrekaði hann það sem hann sagði fyrr á fundinum, að ef áfram verði haldið skynsamlega á rekstrarmálum,  gjaldtökumálum og fleiri atriðum í rekstrinum, þá muni það tryggja góðan árangur áfram. Jón benti á spurninguna sem Rósa skyldi eftir í sínu erindi, um það hvort eðlilegt væri að sveitarfélögin á Suðurnesjum væru ein að reka dýra brennslustöð? Hann sagðist vilja upplýsa í tilefni af þessari ágætu spurningu frá Rósu, að vinna væri komin í gang um að kanna mismun kostnaðar milli þess að brenna og urða sorp. Í framhaldi af þeirri könnun kemur að því innan tíðar að sveitarfélögin þurfi að taka stefnumarkandi ákvörðun um það hvert eigi að stefna í sorpmálum. „Endurvinnsla er mörgum hugfólgin og það er mjög eðlilegt, þetta er að gerast út um allt land, það eru breytingar víða, aukin flokkun og aukin umhverfisvitund og þetta er eitthvað sem við þurfum að fylgja eftir líka“, sagði Jón. Hann sagði að það væri í gangi nefnd á vegum Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem hann á sæti í, sem er ætlað að koma með tillögur um hvernig skuli tryggja að a.m.k. ein brennslustöð verði rekin hér á landi. „Ég get alveg séð fyrir mér að Kalka ehf. sem er fyrirtæki sem var stofnað hér fyrir nokkrum árum og átti að taka við rekstri fyrirtækisins komist á legg og þar komi inn fleiri hluthafar en bara sveitarfélögin á Suðurnesjum og brennslustöðin verði þá rekin sem sérstakt fyrirtæki“, sagði Jón. Hann sagði að ríkið gæti komið að slíkum rekstri vegna hagsmuna varðandi sjúkrahúsaúrgang og fleira. „Mögulega erum við áður en langt um líður, að sjá margskonar breytingar framundan í úrgangsmálum“, sagði Jón. Að endingu þakkaði hann Ríkharði fyrir hans yfirferð sem og Kristínu Lindu, Rósu Júlíu og Önnu Birgittu, þetta hefur verið fróðlegt og vonandi margt vel upplýsandi fyrir fundarmenn um starfsemi Kölku undanfarin ár. „Ný stjórn tekur við góðu búi og ég vænti þess að framundan verði skemmtilegur tími fyrir ný verkefni“, sagði Jón að lokum.

10. Önnur mál – umræður um starfsemina

Friðjón Einarsson tók til máls og rifjaði upp þau ófáu skipti sem hann hafði staðið upp á aðalfundum og kvartað yfir flugöskunni en nú gæti hann ekki gert það lengur. Hann þakkaði fráfarandi stjórn fyrir stórkostlegt afrek, hún væri í raun fyrirmynd til að fylgja fyrir aðrar stofnanir í eigu sveitarfélaga á Suðurnesjum þar sem þörf er á tiltekt. Að lokum sendi hann kærar þakkir til starfsfólksins og framkvæmdastjóra.

Oddur Ragnar Þórðarson fráfarandi stjórnarformaður tók til máls og sagði hann m.a. að

ánægjulegt væri að sjá hvað mikið hefur áunnist í tíð fráfarandi stjórnar. Eins og fram hefur komið hafa tvö mál öðrum fremur verið kappsmál á tímabilinu, en það eru fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækisins og að koma 10 ára birgðum af flugösku í varanlega hýsingu. Einnig hafa viðræður við Íslandsbanka um lánamál fyrirtækisins skilað miklum árangri. „Ég vil þakka þeim Rósu og Sölva, starfsfólki bankans fyrir afskaplega fagleg og umfram allt góð samskipti“, sagði Oddur.

Umhverfismálin hafa mikið batnað og þar vegur þyngst að hafa fundið varanlega lausn á  flugöskumálinu. Fyrir hönd fyrirtækisins langar mig til að þakka Umhverfisstofnun m.a. fyrir samstarfið í þessu stóra og þarfa verkefni. Farsæll og góður frágangur almennt í rekstrinum hefur skilað mun betra búi en við tókum við og getum við sátt gengið sæl og stolt frá borði vitandi að ný stjórn tekur við góðu búi. Rekstrarkostnaður úrgangsmála á Suðurnesjum er með því hæsta á landinu og hefur stjórnin sem nú tekur við þarft verkefni við að skoða úrlausnir á því máli. Ljóst er að spennandi og þörf verkefni verða eftir sem áður á höndum þeirra sem taka við stjórntaumunum í þessu skemmtilega fyrirtæki.

Í brennslustöðinni eru brennd þúsundir tonna á ári hverju og eins og áður sagði er stöðin orðin 10 ára. Stöðin var farin að þarfnast viðhalds og gera má ráð fyrir að viðhald aukist með hverju ári sem líður. Starfsmenn stöðvarinnar hafa staðið sig einstaklega vel, oft við erfiðar aðstæður. Ég vil þakka starfsmönnum fyrir mjög vel unnin störf. Þeir eiga svo sannarlega þakkir skildar.

Á árinu 2013 voru haldnir 12 stjórnarfundir og 1 félagsfundur. Ég vil þakka stjórnarmönnum fyrir ánægjulegt og gott samstarf, en mjög góð samstaða hefur verið hjá stjórninni. Ég vil þakka framkvæmdastjóranum okkar Jóni Norðfjörð fyrir hans góðu störf og ég tel að það hafi verið mikið gæfuspor fyrir fyrirtækið að fá hann til starfa. Hann hefur með mikilli áræðni og vinnu svo sannarlega komið rekstri stöðvarinnar á rétta braut. Ég vil einnig sérstaklega þakka Ríkharði Ibsen fyrir hans framlag, en hann átti að öðrum ólöstuðum stærstan þátt í að koma endurbótum hjá fyrirtækinu í gang. Síðustu mánuði höfum við séð miklar og jákvæðar breytingar á rekstri fyrirtækisins og góðan árangur eins og ársreikningur félagsins sýnir. Það er von mín að þróun mála verði áfram með þeim hætti. Að lokum vil ég þakka fyrir það tækifæri að fá að taka þátt í starfsemi Kölku.

Fleira var ekki gert og var fundi slitið kl. 17:50.

Jóhann Rúnar Kjærbo, fundarritari (Sign.)
Ríkharður Ibsen, fundarstjóri (Sign.)

 

Fjárhagsleg þróun 2009 – 2013 (Anna Birgitta Geirfinnsdóttir endurskoðandi) á PDF formi, hentugt til útprentunar

36. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf á PDF formi, hentugt til útprentunar

Til baka