Aðalfundur SS 2015

18.5.2015

Fundargerð.

37. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn 30. apríl 2015 kl. 15:30 í salnum Merkinesi í Stapa/Hljómahöll í Reykjanesbæ.

Dagskrá:

1.      Fundarsetning.

2.      Kosning fundarstjóra og fundarritara.

3.      Skýrsla stjórnar, Birgir Már Bragason, stjórnarformaður og Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri.

4.      Reikningar félagsins árið 2014,  Rúnar Dór Daníelsson löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte.

5.      Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.

6.      Tillaga um breytingu á 6. grein í samþykktum félagsins.

7.      Tilnefning í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.

8.      Kosning endurskoðanda.

9.      Tillaga um þóknun til stjórnarmanna.

10.     „Sameining SS og SORPU – Hver gæti verið hagur eigenda?“

Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri SORPU

11.     Önnur mál.


1. Fundarsetning

Birgir Már Bragason formaður stjórnar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.


2. Kosning fundarstjóra og fundarritara

Birgir lagði til að Anna Lóa Ólafsdóttir forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar taki að sér fundarstjórn og var það samþykkt samhljóða. Þá lagði Birgir til að Jóhann Rúnar Kjærbo skrifstofumaður hjá SS verði fundarritari og var það samþykkt samhljóða.

Anna Lóa tók við fundarstjórn og tilkynnti að mættir væru fulltrúar allra eignaraðila og að engar athugasemdir hefðu borist vegna fundarboðunar.


3. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra

Birgir Már Bragason, stjórnarformaður og Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri fluttu skýrslu fyrir árið 2014 og tók stjórnarformaðurinn fyrst til máls:

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.

Komið þið öll sæl og blessuð og velkomin á þennan 37. aðalfund Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. Ég heiti Birgir Már Bragason og hef setið sem stjórnarformaður félagsins sl. starfsár. Á þessum fundi eru gestir okkar, Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóra SORPU bs. og Rúnar Dór Daníelsson, löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte.  Ég býð þessa ágætu gesti okkar sérstaklega velkomna. Ég mun nú fara í stuttu máli yfir nokkur verkefni frá síðasta starfsári og svo mun Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri taka við.

Fyrsti fundur þessarar stjórnar var haldinn 11. september 2014 og síðan þá hafa verið haldnir átta átakalausir fundir. Stjórnin hefur fengið góða kynningu á starfseminni og einnig fór stjórnin í vettvangsferð til Gámaþjónustunnar, Íslenska gámafélagsins og SORPU og kynnti sér starfssemi þessara fyrirtækja. Þessi ferð var mjög gagnleg og fræðandi fyrir okkur stjórnarmenn. Stjórnin tók við góðu búi og höfum við reynt að halda áfram þeirri vegferð sem mörkuð hafði verið með góðum árangri. Fjárhagur fyrirtækisins hefur batnað umtalsvert og nú hefur tekist að auka rekstrartekjurnar um 9,2% á milli ára og er hagnaður fyrirtækisins 2014 eftir afskriftir og fjármagnsliði rúmlega 28 milljónir króna. Rúnar Dór endurskoðandi mun fara betur yfir allar tölur og reikningana hér á eftir.

Á þessu ári verða liðin 10 ár frá því að brennslustöðin Kalka var tekin formlega í notkun. Það gerðist hinn 27. maí 2005. Það er ánægjulegt að segja frá því að sl. ár var eitt stærsta brennsluár stöðvarinnar. Stöðin brenndi tæplega 11 þúsund tonnum af úrgangi sem er aukning um tæplega 1500 tonn á milli ára. Sorpgjöld á íbúa hafa ekki verið hækkuð sl. 4 ár og því ber að fangna. Fráfarandi stjórn fékk mörg erfið verkefni í fangið og meðal annars það erfiða verkefni að leysa stóra flugöskumálið. Það sá fyrir endann á því verkefni þegar núverandi stjórn tók við á síðasta ári. Í vetur var svo tekin ákvörðun að kaupa geymsluhúsnæði á Fitjabakka í Njarðvík til að geyma flugöskuna þangað til hún verður flutt til Noregs. Flutningur öskunnar í húsnæðið fer fram á næstu dögum en áður var askan geymd í geymslum víða um Suðurnesin og utandyra við gömlu sorpeyðingarstöðina. Húsnæðið við Fitjabakka getur tekið við allt að þriggja ára birgðum af flugösku og þar með er búið að binda endahnútinn í stóra flugöskumálinu sem hefur verið krefjandi verkefni síðustu árin.

Eins og menn vita er mikill kostnaður sem fylgir því að reka brennslustöð. Menn hafa því verið að leita ýmissa lausna um hagkvæmari leiðir í sorpmálum. Viðræður hafa staðið yfir við SORPU bs. um hvort hagkvæmt  sé að sameina fyrirtækin og eru þær viðræður í gangi.  Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri SORPU bs. mun hér á eftir fjallar nánar um stöðu þeirra mála og hvet ég fundarmenn til að koma með góðar spurningar til hans. Þá er einnig í gangi könnun á því hvort hagræði hljótist af því að slökkva á brennslustöðinni og byrja í staðin á að flokka og urða. Úttekt á kostnaðarmun þess að urða og brenna er í vinnslu en er ekki lokið. Kalka er í dag eina brennslustöðin á landinu og því gætu það verið hagsmunir m.a. ríkisins að halda óbreyttri starfsemi. Vangaveltur hafa því verið uppi um aðkomu ríkisins og fleiri hagsmunaaðila að rekstrinum en það hefur ekki verið tekið lengra. Það er líklegt að framtíðarskipan okkar í sorpmálum verði á dagskrá næstu misserin.

Ég vil þakka stjórninni fyrir ánægjulegt og gott samstarf sl. ár. Þá vil ég þakka Jóni Norðfjörð og starfsfólki fyrirtækisins fyrir frábært samstarf.  Það má segja að það hafi verið heppni fyrir Sorpeyðingarstöð Suðurnesja að hafa fengið Jón í sínar raðir. Þar fer maður sem setur fyrirtækið alltaf í forgang. Til gamans má segja frá því að fyrir tæpu ári síðan þegar mér bauðst stjórnarformennska í Kölku vissi ég ekkert um fyrirtækið annað en að þangað fór maður með ónýtt dót og rusl. En nú tæpu ári síðar hefur það auðvitað breyst. Jón Norðfjörð hefur verði þolinmóður við að kynna mér og öðrum stjórnarmönnum starfsemina og þann stóra heim sem er í kringum allt ruslið sem við mannfólkið erum dugleg við að skila af okkur í ýmsu formi. Ástríða hans hefur náð að smita frá sér og forréttindi að fá að starfa við þennan málaflokk sem skiptir svo miklu máli í stóru samhengi. Og viti menn, áður en maður vissi af, þá er þetta frábæra starfsár á enda komið og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessu þjóðþrifa starfi og sitja sem formaður í stjórn.

Nú mun Jón Norðfjörð taka við og fara yfir ýmis mál og starfsemi fyrirtækisins.


Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra  framhald

Jón Norðfjörð tók til máls og sagði eftirfarandi:

Fundarstjóri góðir fundarmenn.

Á síðasta aðalfundi, sem haldinn var í ágúst 2014 var gerð ítarleg grein fyrir niðurstöðum endurskipulagningarferlis sem hófst eftir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2010. Í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra var ítarlega farið yfir þann árangur sem þá hafði náðst og fulltrúar Íslandsbanka, Umhverfisstofnunar ásamt löggiltum endurskoðanda fyrirtækisins fóru einnig yfir ýmiss atriði sem varðaði m.a. árangur og samskipti við stjórnendur fyrirtækisins. Þá kom einnig fram að þó mikið hefði áunnist þá væru ýmiss mikilvæg verkefni framundan.

Almennt um reksturinn

Árið 2014 var ekki síður viðburðaríkt en fyrri ár í starfsemi sorpeyðingarstöðvarinnar.

Segja má að öll starfsemin hafi gengið vel og aukning varð á viðskiptum milli ára. Eins og fram kom hjá formanni var meiri úrgangi brennt á árinu 2014 en árið áður og var nýting brennslustöðvarinnar nálægt 90% sem verður að teljast gott miðað við að brennslustopp vegna viðhaldsverkefna var um 4 vikur.

Heildarmagn úrgangs sem móttekinn var 2014 var rúmlega 13.500 tonn á móti 11.400 tonnum 2013. Alls var brennt 10.865 tonnum á móti 9.397 tonnum árið áður. Þessar tölur koma fram í Grænu bókhaldi 2014 sem birt er á heimasíðunni www.kalka.is

Fjárhagsleg afkoma á árinu 2014 var vel viðunandi og það skýrist betur þegar farið verður yfir ársreikninginn hér á eftir.

Ég ætla að nefna hér nokkur mál sem unnið var að á árinu og breytingar sem gerðar voru á starfseminni.

Flugaskan

Það er ekki hægt að sleppa því að nefna flugöskuna, þetta margumrædda efni sem var búið að valda mönnum miklum heilabrotum og áhyggjum af því hvernig mögulegt væri að losna við. Það kom fram á síðasta aðalfundi að búið væri að leysa þetta vandamál með því að fyrirtækið NOAH a/s í Noregi mundi taka við öskunni til förgunar. Ég ætla ekki að orðlengja það mikið, en alls fóru til Noregs á árinu 2014 í tveimur skipsförmum í júní og október öll gamla uppsafnaða flugaskan, um 4.950 tonn. Í framhaldi var gengið frá fimm ára samningi við NOAH, með framlengingarákvæðum og var samningurinn undirritaður í byrjun þessa árs. Gert er ráð fyrir að safna flugöskunni upp í tiltekið magn og senda hana til Noregs í stærri förmum. Eins og formaðurinn nefndi þá er búið að festa kaup á geymsluhúsnæði þannig að askan verður framvegis geymd innandyra eins og gert verður ráð fyrir í starfsleyfi fyrirtækisins.

Endurmat á brennslulínu

Á síðast liðnum árum hefur farið fram mjög mikið viðhald og endurnýjun á öllum tækja- og vélbúnaði brennslustöðvarinnar og með tilliti til þess var ákveðið að láta endurmeta virði brennslulínunnar. Til þess verks voru fengnir reyndir sérfræðingar hjá verkfræðistofunni Mannvit. Matið er byggt á núvirði vélbúnaðarins sem var reiknað út frá nývirði,  áætluðum líftíma og ástandsmati eigna, þ.e. hve mörg ár eru eftir af líftíma. Núvirði mætti einnig kalla endurmatsvirði, þ.e. gangvirði á þeim degi sem vélbúnaðurinn er endurmetinn að frádregnum afskriftum og virðisrýrnun.

Í niðurstöðu matsins voru allir hlutar vélbúnaðarins metnir sérstaklega. Matsmenn skoðuðu og mátu hver væri mögulegur stysti líftími og hver væri mögulega sá lengsti fyrir hvern hluta búnaðarins fyrir sig. Þegar búið var að meta þessar stærðir voru reiknuð út þrjú gildi núvirðis, þ.e. lægsta núvirði, metið núvirði og hæsta núvirði. Niðurstöðutala metins núvirðis á vélbúnaði Kölku var 861,8 m.kr. án virðisaukaskatts og miðast niðurstaða matsins við 31. desember 2014. Endurskoðandinn Rúnar Dór mun fara nánar yfir þetta með skýringum á ársreikningi fyrirtækisins hér á eftir og hvaða áhrif þetta hefur á eiginfjárstöðu fyrirtækisins.

Endurnýjun starfsleyfis

Starfsleyfi sorpeyðingarstöðvarinnar rennur út hinn 1. febrúar 2016. Umsókn um endurnýjun starfsleyfisins var send til Umhverfisstofnunar í desember 2014, en gera þarf ráð fyrir að umsóknarferlið taki a.m.k. átta til tíu mánuði. Umsóknarferlið er yfirgripsmikið og því fylgir umtalsverð vinna sem vænta má að muni hafi nokkurn kostnað í för með sér, en við starfsmenn fyrirtækisins vinna að verkefninu að svo miklu leyti sem okkur er mögulegt. Öll atriði starfsleyfisins verða ítarlega yfirfarin og endurskoðuð og ég vænti góðs samstarfs við Umhverfisstofnun um þau mál.

Umhverfisdagar á Suðurnesjum

Á síðasta aðalfundi fór ég nokkuð vel yfir framkvæmd umhverfisdaga sem voru haldnir seinni hluta aprílmánaðar 2014 og voru samstarfsverkefni sveitarfélaganna og   sorpeyðingarstöðvarinnar. Eins og fólk man, þá töldum við reynsluna alls ekki góða af framkvæmdinni og kom þar ýmislegt til. Við lærðum margt af verkefninu og mun framkvæmd  umhverfisdaga á þessu ári verða með breyttu sniði og áfram munu sorpeyðingarstöðin og sveitarfélögin eiga gott samstarf að fegrun umhverfisins. 

Sorpgjöld og gjaldskrár

Eitt af þeim markmiðum sem sett voru í endurskipulagningarferlinu árið 2011, var að reynt yrði að forðast það að hækka sorpgjöld á íbúðaeigendur á Suðurnesjum meira en þá var orðið. Mér finnst ástæða til að vekja enn og aftur sérstaka athygli á því að þetta hefur tekist mjög vel og við erum núna fjórða árið í röð að innheimta óbreytt sorpgjöld. Með því að halda óbreyttum sorpgjöldum í fjögur ár, má ætla að tekist hafi að spara greiðendum sorpgjalda á Suðurnesjum á bilinu 60 til 70 milljónir króna á þessu tímabili. Árið 2012 voru Suðurnesin með fimmtu hæstu sorpgjöldin á landinu, en á þessu ári 2015 erum við komin í 14. sæti.

Að halda sorpgjöldunum óbreyttum hefur tekist þrátt fyrir mikinn kostnað undanfarin ár vegna viðhaldsverkefna, förgunar flugösku og fleiri kostnaðarsamra verkefna sem ráðist hefur verið í. Við höfum mætt auknum kostnaði með því að hækka ýmsar gjaldskrár s.s. á fyrirtæki og gjaldskrár fyrir móttöku á spilliefnum og sóttmenguðum úrgangi. Viðskipti við ýmis fyrirtæki hafa aukist og það hefur einnig hjálpað til. Þegar gjaldtaka var tekin upp á gámaplönum í ársbyrjun 2012, fundum við strax fyrir mjög jákvæðum áhrifum af þeirri breytingu.

Það má geta þess að heimsóknum á gámaplönin hefur fjölgað og á árinu 2014 voru þær rúmlega 21 þúsund eða liðlega 3 þúsund fleiri en árið 2013.

Starfsmannamál

Í byrjun árs 2014 var starfstilhögun Ingþórs Karlssonar rekstrarstjóra brennslustöðvar breytt og hætti hann að vinna vaktavinnu og sinnir hann nú starfi sínu sem dagmaður. Með þessari breytingu var bætt við einum starfsmanni á vaktir í brennslustöðinni. Vegna mjög mikillar vinnu við útflutning á flugöskunni þurfti tímabundið að bæta við starfsfólki og einnig þurfti að ráða fólk í afleysingar vegna sumarleyfa o.fl.

Ýmis mál og verkefni

Ýmis fleiri mál og verkefni hafa verið á döfinni hjá Sorpeyðingarstöð Suðurnesja eins og venjulega. Talsvert mikið er um skýrslugerðir á hverju ári og má þar nefna Grænt bókhald sem við birtum á heimasíðunni www.kalka.is eins og áður segir. Gerð er ársskýrsla vegna reksturs brennslustöðvarinnar þar sem fram koma tölulegar upplýsingar um allar útblástursmælingar og fleiri gagnlegar upplýsingar. Árlega er gerð skýrsla um magntölur úrgangs o.fl. Allar mælingar og skýrslur eru sendar til Umhverfisstofnunar sem jafnframt framkvæmir reglulegt eftirlit með starfseminni og fylgist vel með því að öll skilyrði starfsleyfis séu uppfyllt.

Síðast liðin fjögur ár höfum við sent inn á öll heimili á Suðurnesjum upplýsingablað sem við köllum „Þetta er ekki ruslpóstur“ og inniheldur blaðið ýmsar upplýsingar auk þess sem þar má finna sorphirðudagatal fyrir öll sveitarfélögin. Nýjasta útgáfa blaðsins fylgir með í fundargögnunum ykkar.

Eitt af því sem við skrúfuðum fyrir í endurskipulagningarferlinu var að veita styrki til ýmissa málefna. Á síðasta ári var tekin ákvörðun um að leggja eitthvað lítilræði til samfélagsins og var niðurstaðan að veita eina viðurkenningu í hvern grunnskóla í sveitarfélögunum. Viðurkenning var veitt nemanda í 5. bekk í hverjum skóla fyrir góðan námsárangur í náttúrufræði eða námsefni sem tengist umhverfinu. Þetta mæltist mjög vel fyrir og nú er ákveðið að endurtaka þetta við skólaslit í grunnskólum sveitarfélaganna á þessu vori.

Í október 2014 var haldinn hér í þessum sal, haustráðstefna FENÚR sem er Fagráð um endurnýtingu og úrgang. Við hjá Sorpeyðingarstöð Suðurnesja tókum virkan þátt í skipulagningu og undirbúningi ráðstefnunnar þar sem fjallað var um mörg áhugaverð mál og framtíðarverkefni. Meðal annars kynnti ég starfsemi sorpeyðingarstöðvarinnar og brennslustöðvarinnar Kölku. Ráðstefnugestirnir, sem voru um 50 talsins komu svo í heimsókn og skoðuðu brennslustöðina.

Hvað er framundan?  Viðræður við Sorpu

En hvað er svo framundan? Eftir eril undanfarinna ára fer að renna upp tími til að skoða hvaða möguleika við höfum til að móta framtíðarstefnu í úrgangsmálum fyrir okkur íbúana á Suðurnesjum. Nú hafa verið settar reglur af Evrópusambandinu sem hafa verið innleiddar hér á landi sem m.a. miða að meiri flokkun og endurnýtingu úrgangs og einnig er stefnan að minnka verulega urðun úrgangs. Auðvitað eru ýmsir möguleikar í stöðunni. Við eigum og rekum einu brennslustöð landsins og nú þegar rekstur fyrirtækisins hefur tekið miklum stakkaskiptum til hins betra, þá er auðveldara að halda þessum rekstri áfram í óbreyttri mynd. Við eigum líka þann kost að fá fleiri í lið með okkur t.d. með því að sameinast SORPU og jafnvel fleiri aðilum. Sá möguleiki er einnig til staðar að setja rekstur brennslustöðvarinnar í einkahlutafélag og fá ýmsa hagsmunaaðila að rekstrinum t.d. ríkið sem hefur mjög mikla hagsmuni af því að rekstur brennslustöðvar verði áfram tryggður hér á landi.

Eins og formaður nefndi og fram hefur komið í fundargerðum fyrirtækisins voru viðræður við fulltrúa SORPU endurvaktar á árinu 2014, en fyrirtækin hafa átt í viðræðum áður um það sem nefnt var samstarf eða sameining. Það er ekki hægt að segja að viðræðurnar séu komnar mjög vel á veg, en eflaust mætti klára þær á tiltölulega stuttum tíma ef sýnt verður að ávinningur verði umtalsverður til framtíðar litið. Stjórnendur SS hafa lagt áherslu á að klára ýmis rekstrarmál og einnig að fá niðurstöður í athugun á því hver mögulegur kostnaðarmunur er á brennslu úrgangs og urðun. Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri SORPU mun fara yfir viðræður okkar hér á fundinum í dag og kannski svarar hann spurningunni um hver gæti verið hagur eigenda fyrirtækjanna af sameiningu. Öllu gamni fylgir einhver alvara var það sem ég hugsaði þegar ég sá þetta skilti þarna yfir hurðinni. Allt mun þetta skýrast, kannski fyrr en við höldum.

Góðir fundarmenn.

Á aðalfundinum í ágúst s.l. flutti ég langa og ítarlega skýrslu um þau verkefni sem tekist var á við í endurskipulagningarferlinu. Ég ákvað að hafa þetta styttra nú og fara yfir það helsta sem gerðist á árinu í styttra máli sem ég hef nú gert.

Hinn 1. júlí n.k. verða liðin fjögur ár frá því að ég tók við starfi framkvæmdastjóra  sorpeyðingarstöðvarinnar og mér finnst þessi tími hafa liðið ótrúlega hratt. Þegar ég tók til starfa var ég meðvitaður um að ýmis vandamál biðu úrlausnar. Eftir að hafa yfirfarið og greint stöðuna, varð mér ljóst að verkefnið var mun umfangsmeira og stærra í sniðum en mig hafði órað fyrir. En þetta hefur verið skemmtilegur tími og þegar árangurinn er kominn fram, þá verður þetta auðvitað ennþá betra.  Sá árangur sem náðst hefur má fyrst og fremst þakka mikilli samstöðu og skilningi milli stjórnar og okkar sem sinnum daglegri stjórnun fyrirtækisins og einnig hafa starfsmenn fyrirtækisins tekið virkan þátt og lagt sig mjög fram um að vinna vel að málum og þar með hagsmunum eigendanna sem eru jú við íbúar sveitarfélaganna.

Saga fyrirtækisins síðustu ár er nokkuð vel skráð í fundargerðum stjórnarfunda og aðalfunda sem finna má á heimasíðunni www.kalka.is

Við munum halda áfram á sömu braut og tíminn mun svo leiða í ljós hvert við stefnum í úrgangsmálum hér á Suðurnesjum eins og áður segir.

Starfsmönnum fyrirtækisins vil ég fyrir mína hönd og stjórnarinnar færa bestu þakkir fyrir mjög góða samvinnu og frumkvæði sem þeir hafa ítrekað sýnt í störfum sínum. Að endingu ætla ég þakka stjórn fyrirtækisins fyrir einstaklega gott samstarf sem hefur skilað mjög góðum árangri. Nokkur endurnýjun varð í stjórninni á síðasta aðalfundi og ætla ég að enda orð mín með því að kynna þau fyrir ykkur í léttum dúr.

Takk fyrir.


4. Ársreikningur fyrirtækisins árið 2014

Rúnar Dór Daníelsson löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte kynnti ársreikning fyrirtækisins fyrir árið 2014. Heildarrekstrartekjur námu tæplega 497 milljónum króna. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsgjalda námu tæplega 397 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam þannig tæplega 100 milljónum króna. Heildarhagnaður ársins eftir afskriftir og fjármagnsgjöld nemur rúmlega 28 milljónum króna. Fjárhagsstaða Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. hefur verið erfið undanfarin ár en verulegum árangri hefur verið náð síðustu ár við að snúa fjárhagsstöðunni til betri vegar. Á árinu 2014 framkvæmdi Verkfræðistofan Mannvit sérstakt endurmat á vélbúnaði brennslustöðvarinnar Kölku. Niðurstaða endurmatsins var að núvirði vélbúnaðarins er 861,8 milljónir króna og er núvirðið reiknað út frá nývirði, áætluðum líftíma og ástandsmati eigna. Í árslok 2014 var eigið fé félagsins 272 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall félagsins orðið jákvætt sem nemur 24,53%, en í lok árs 2013 var eiginfjárhlutfall félagsins neikvætt um 35,97% og í árslok 2012 var það neikvætt um 61,4%.


5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins

Ólafur Þór Ólafsson fagnaði því að hér væru lagðir fram reikningar með hreinni áritun endurskoðenda en það hefur ekki gerst undanfarin ár. Þetta sýnir að við getum vel tekið til og lagað hlutina þegar við tökum okkur saman um verkefnið.

Einar Jón Pálsson tók undir orð Ólafs en að auki hrósaði hann stjórninni og Jóni fyrir það að geta þvingað meira í gegnum stöðina en hann hefði getað trúað. Svo virðist sem það skiptir ekki máli hvers eðlis aukning á magni er sem kemur inn í stöðina, það er alltaf 80%  brennt. Menn hafa þannig náð góðum tökum á brennslunni, en þó kann það einnig að vera skýring að stöðin er að taka meira af heimilissorpi sem gerir innihaldið betra. Þá beindi Einar Jón spurningum til Jóns og Rúnars Dórs varðandi kostnaðinn á flugösku og botnösku sem fram kemur í ársreikningi og óskaði eftir nánari útskýringum.

Kristinn Jakobsson hrósaði starfsmönnum, stjórn og framkvæmdarstjóra fyrir frábær störf, það væri ánægjulegt að sjá svona reikninga. Þá vék Kristinn að 2. gr. samþykkta fyrir Sorpeyðingarstöð Suðurnesja og taldi þessa grein vera í nokkurri mótsögn við það sem við erum að stunda t.d. í leikskólunum, þar sem fram fer mikil flokkun en á heimilunum er engin flokkun í gangi.  Lagði Kristinn til að við gerðum það að markmiði okkar á næsta aðalfundi að breyta tilgangi félagsins þannig að inn í 2. gr. samþykkta kæmi sorpflokkun. Þá óskaði Kristinn eftir skýringu á mikilli hækkun milli ára á rekstrarliðnum „aðrar tekjur“ í ársreikningi.

Jón Norðfjörð þakkaði góð orð, það væri ánægjulegt að menn væru ánægðir með stöðu og gang mála. Jón svaraði því næst fyrirspurn frá Einari Jóni varðandi öskuna. Á árinu 2013 var kostnaður vegna flugösku um 19 milljónir króna en það var árið sem pakka þurfti allri öskunni sem hafði verið geymd utandyra og var umtalsverður kostnaður því samfara. Kostnaður ársins 2014 var um 10 milljónir eða til 5. október en þá var öll flugaska sem til var lestuð í skip og flutt út til Noregs. Síðan þá hefur nýjum birgðum verið safnað. Varðandi botnöskuna þá fór hún á árum áður í manir á Helguvíkursvæðinu. Eftir 2011 var ekki lengur hægt að nota öskuna í manir eins og áður og strax árið 2012 fóru birgðir af botnösku að safnast upp. Fyrirtækið Hringrás hreinsaði málminn úr öskunni til endurvinnslu og leyfi fékkst hjá Umhverfisstofnun til að urða öskuna hjá SORPU í Álfsnesi. Í ársbyrjun 2014 var ákveðið að aðgreina kostnað við botnöskuna sérstaklega í bókhaldinu til að fylgjast betur með hvað botnaskan er að kosta fyrirtækið. Kostnaðurinn vegna ársins 2014 er samansettur af förgunargjaldi, flutningi og að hluta til vinnu við að greina málminn úr öskunni.  Varðandi fyrirspurn Kristins um flokkun benti Jón á að þó að ekki væri byrjað að flokka á heimilum í miklu magni á Suðurnesjum færi fram töluverð flokkun í sorpeyðingarstöðinni. Varðandi skýringu á mikilli hækkun annarra tekna milli ára nefndi Jón að sorpeyðingarstöðin hefði tekið að sér að flytja út flugösku frá Sorpbrennslunni á Húsavík fyrir um tæpar þrjár milljónir króna og það er stærsti hlutinn af öðrum tekjum. Annað væri vegna tjónsbóta og leigutekna.

Rúnar Dór Daníelsson sagði varðandi fyrirspurnar um flugöskuna að skuldbindingin árið 2013 hefði verið 140 milljónir króna vegna flugösku sem hafði safnast upp frá stofnun brennslunnar fram til ársloka 2013 og í sundurliðunum í ársskýrslu má sjá gjaldfærslu uppá 10 milljónir króna vegna 2014. Það má segja að það hafi fallið til kostnaður uppá 150 milljónir á árinu 2014, en af þeim tilheyra 140 milljónir fyrri tímabilum. Nú er áætlað fyrir kostnaði vegna förgunar flugösku um 1 milljón króna á mánuði við geymslu, flutning og förgun á flugösku.

Fyrirspurn kom úr sal:  Hvað gera Norðmenn við flugöskuna sem við getum ekki gert? Jón Norðfjörð svaraði því til að Norðmenn eru með gamlar kalksteinsnámur í firði inn af Óslóarfirði sem tekur við alls konar menguðum úrgangi sem komið er fyrir í þessum námum. Í þessar kalksteinsnámur setja Norðmenn um 1 milljón tonna úrgangs á ári.

Að loknum umræðum var ársreikningur SS fyrir árið 2014 borin undir atkvæði og var ársreikningurinn samþykktur samhljóða.

6. Tillaga um breytingu á 6. grein í samþykktum félagsins

Eftirfarandi tillaga um breytingu á 6. grein samþykkta fyrir Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf. var samþykkt samhljóða á stjórnarfundi SS hinn 15. apríl 2015 og ákveðið að leggja tillöguna fram til samþykktar á aðalfundi félagsins hinn 30. apríl 2015.

Núgildandi texti 6. greinar er eins og hér segir:

Stjórnarmenn skulu tilnefndir á aðalfundi eða félagsfundi. Stjórn félagsins, sem annast málefni þess á milli funda, skal skipuð 7 mönnum og 7 til vara, sem tilnefndir eru af sveitarstjórnum, þrír frá Reykjanesbæ, einn frá hverri hinna og jafnmargir til vara. Stjórnin skiptir með sér verkum eftir hvern aðalfund.  Stjórninni er heimilt að ráða félaginu framkvæmdastjóra. Sé framkvæmdastjóri til staðar, ræður hann aðra starfsmenn félagsins. Stjórnin veitir prókúruumboð fyrir félagið.

Tillaga um breytingu á 6. grein er svohljóðandi:

Lagt er til að upphafsmálsgreinin sem hljóðar svo : Stjórnarmenn skulu tilnefndir á aðalfundi eða félagsfundi, verði felld út.

Í staðinn verði eftirfarandi málsgrein sett í texta greinarinnar eins og sýnt verður:

Stjórnarmenn eru tilnefndir á fyrsta aðalfundi félagsins eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar til fjögurra ára, eða til enda kjörtímabils. Ef stjórnarmaður lætur af störfum áður en kjörtímabili lýkur, tilnefnir viðkomandi sveitarstjórn nýjan fulltrúa í stjórnina í hans stað. Í slíkum tilfellum þarf ekki að boða sérstaklega til félagsfundar.

Verði breytingatillagan samþykkt, mun 6. grein samþykktanna hljóða svo:

Stjórn félagsins, sem annast málefni þess á milli funda, skal skipuð 7 mönnum og 7 til vara, sem tilnefndir eru af sveitarstjórnum, þrír frá Reykjanesbæ, einn frá hverri hinna og jafnmargir til vara. Stjórnarmenn eru tilnefndir á fyrsta aðalfundi félagsins eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar til fjögurra ára, eða til enda kjörtímabils. Ef stjórnarmaður lætur af störfum áður en kjörtímabili lýkur, tilnefnir viðkomandi sveitarstjórn nýjan fulltrúa í stjórnina í hans stað. Í slíkum tilfellum þarf ekki að boða sérstaklega til félagsfundar. Stjórnin skiptir með sér verkum eftir hvern aðalfund.  Stjórninni er heimilt að ráða félaginu framkvæmdastjóra. Sé framkvæmdastjóri til staðar, ræður hann aðra starfsmenn félagsins. Stjórnin veitir prókúruumboð fyrir félagið.

Verði tillagan samþykkt á aðalfundinum, fellur út 3. liður „Tilnefning í stjórn“ í upptalningu þeirra mála sem taka skal fyrir á aðalfundi og fram kemur í 8. grein samþykktanna.

Umræður:

Birgir Már Bragason útskýrði tilganginn með þessari breytingartillögu sem fyrir fundinum lægi. Nefndi hann í því sambandi m.a. að það vantaði meiri stöðugleika í stjórnina og reynslan hefði sýnt of tíðar breytingar á stjórnarsetu fólks milli ára.

Friðjón Einarsson lýsti ánægju með þessa breytingartillögu og að hann styddi hana eindregið. Hann hefði jafnvel vilja ganga lengra í breytingum með því að fækka stjórnarmönnum úr sjö niður í fimm.

Kristinn Jakobsson lýsti sig sammála breytingartillögunni en velti fyrir sér að í samþykktum félagsins er ekkert kveðið á um breytingar á lögunum. Kristinn velti fyrir sér hver meðferðin er innan félagsins.

Jón Norðfjörð nefndi að á síðasta kjörtímabili hafi alls 19 aðalfulltrúar komið við í stjórn fyrirtækisins og að þetta hefði verið eins og stoppistöð, menn væru ýmist að koma eða fara. Það væri of losaralegt að kjósa stjórnarmenn einungis til eins árs í senn. Á síðasta aðalfundi hafi verið rætt að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi og nú væri þessi tillaga komin fram. Jón nefndi ennfremur að unnið væri eftir lögum um sameignarfélög og samkvæmt þeim er eigendum í sjálfsvald sett hvernig þeir skipa þessu. Stjórnarmenn eru fulltrúar eigendanna, þannig að það má líta á það þannig að ef stjórnin óskar eftir því að svona tillaga verði samþykkt þá er það í nafni fulltrúa eigenda.

Einar Jón Pálsson taldi þetta vera góða breytingu en sagði eigi að síður að þetta hefði ekkert með „stoppistöðina“ að gera, þar sem aðalfulltrúarnir á þessu kjörtímabili gætu eftir sem áður orðið 19, þar sem það er háð ákvörðunum hvers sveitarfélags hvenær þeir skipta fulltrúum sínum út og nefndi í því sambandi hugsanlegar breytingar á meirihlutum í sveitarstjórnum á kjörtímabilinu. Þá taldi hann að kjósa skyldi hæfasta fulltrúann innan stjórnar til formennsku hverju sinni.

Ingþór Guðmundsson sagðist styðja þessa tillögu heilshugar.  Þetta væri vonandi fyrsta skrefið í því að breyta þessu á öðrum sameiginlegum vettvangi, s.s. hjá S.S.S., B.S. og fleiri stöðum.

Tillagan var borin undir fundarmenn og hún samþykkt.


7. Tilnefningar í stjórn og varastjórn.

Eftirfarandi tilnefningar bárust frá eignaraðilum félagsins:

  Aðalmenn: Varamenn:
Frá Reykjanesbæ: Birgir Már Bragason Baldvin Lárus Sigurbjartsson
  Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir Hanna Björg Konráðsdóttir
  Bjarni Stefánsson Aðalheiður Hilmarsdóttir
Frá Grindavíkurbæ: Jóna Rut Jónsdóttir Jónas Karl Þórhallsson
Frá Sandgerðisbæ: Elín Björg Gissurardóttir Gísli Þór Þórhallsson
Frá Sv.fél. Garði: Brynja Kristjánsdóttir Gísli Heiðarsson
Frá Sv.fél. Vogum: Inga Rut Hlöðversdóttir Bergur B. Álfþórsson

8. Kosning endurskoðanda

Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte ehf. verði endurskoðandi félagsins.

Tillagan samþykkt samhljóða.


9. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna

Að formaður stjórnar fái 3% af þingfararkaupi (19.543.-) fyrir hvern fund, aðrir stjórnarmenn fái 2% af þingfararkaupi (13.029.-) fyrir hvern fund. 

Tillagan samþykkt samhljóða.


10. Sameining SS og SORPU – Hver gæti verið hagur eigenda?

Erindi Björns H. Halldórssonar, framkvæmdastjóra SORPU bs.

Í upphafi máls síns fór Björn yfir helstu þætti í sögu SORPU bs, hlutverk fyrirtækisins, stofnsamning eigenda, eigendastefnu og sérstöku eigendasamkomulagi. Björn nefndi meðal annars að í eigendasamkomulaginu kæmi fram að hætt yrði að urða í Álfsnesi innan 4 – 5 ára frá undirritun samkomulags þessa sem var dagsett 25. október 2013. Þrátt fyrir mikla leit að nýjum urðunarstað hefur því miður ekki fundist ennþá neinn framtíðarurðunarstaður. Björn benti á að það að fá urðunarstað og gera hann tilbúinn tæki u.þ.b. 4 – 5 ár. Kallað er eftir því í þessu eigendasamkomulagi að eiga samtal við aðra um þetta verkefni.

Björn lýsti því næst starfsemi SORPU bs, hvernig hún er skipt upp í nokkrar starfsstöðvar og nefndi helstu tölur úr bókhaldi og hvaða verkefni væru framundan. Þá nefndi Björn nýjar kröfur í lögum um aukna endurvinnslu og kröfu íbúa um aukna þjónustu.

Fram kom í máli Björns að það eru fjölmargar leiðir til að mæta þessum kröfum öllum. Gas- og jarðgerðarstöð sem fyrirhugað er að byggja og taka í notkun árið 2017 er ein þessara leiða. Hún er hugsuð fyrir lífrænan úrgang. Ef hægt er að breyta urðun þannig að einungis verði tekið við óvirkum úrgangi má lækka kostnað verulega við alla urðun. SORPA vill stefna í þá átt.

Varðandi form samvinnu eða sameiningar SORPU bs. og Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. taldi Björn það geta verið dálítið erfitt í framkvæmd þar sem þetta er sitthvort rekstrarformið. Samstarfssamningur er að sjálfsögðu mögulegur en gæti verið flókinn í framkvæmd og kannski erfitt að halda stefnumótun fyrir alla. Hugmyndin sem var uppi á sínum tíma að eigendur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. gangi inn í Sorpu bs. og verði þar hluti af eigendum með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja er að mati Björns sennilega einfaldasta leiðin. Í stofnsamningi Sorpu er gert ráð fyrir að aðrir geti gengið inní félagið en greiði þá til jafns við aðra í stofnfé. Samningsatriði er síðan með hverju er greitt og hvernig. Það gæti verið með „einu stykki“ brennslustöð eða á einhvern annan hátt. Það taldi Björn vera samkomulagsatriði.

Þá vék Björn að samanburðartölum milli þessara tveggja fyrirtækja. SS er með um 8% af magni sorps, þ.e. um 13.500 tonn á móti 167.000 tonnum sem SORPA er með.

SS er með 17,8 ársverk á móti 94 ársverkum hjá SORPU. Þannig séð er erfitt að bera þetta saman, en ef þetta yrði eitt félag og þá í bs yrði eignarhlutur Reykjavíkurborgar kominn niður í 52,3% og eignarhlutur sveitarfélaganna á Suðurnesjum u.þ.b. 9,5%. Sveitarfélögin sem stæðu á bak við SORPU bs væru þá 11 talsins. Ef sveitarfélög á suðurlandi væru einnig orðnir aðilar að SORPU bs væri eignarhlutur Suðurnesja  8,7% og Suðurlands 7,6%. Við þessa hugsanlegu fjölgun sveitarfélaga í SORPU bs er ljóst að ekki gætu öll sveitarfélögin verið með mann í stjórn en það væri vel hægt að leysa það með t.d. fimm manna framkvæmdastjórn og aðalstjórnin hittist t.d. einu til fjórum sinnum á ári til að fara yfir stefnumörkun og slíkt.

Kostir sameiningar sagði Björn vera stærra og öflugra fyrirtæki, það er áhættudreifing fyrir SORPU og SS, það eru fleiri á bak við allar fjárfestingar. Það má tryggja stærra uppland. Það verður einfaldara að stjórna áhættunni. Björn taldi að sameiginlega mætti ná mun betri árangri í endurvinnslu, sérstaklega ef það er samhæfð fræðsla og kynning á stóru svæði þannig að það sé alveg ljóst hvernig eigi að gera hlutina. Það væri hægt að tryggja tilveru brennslustöðvar og þannig betur hægt að tryggja ásættanlega leið fyrir ýmis konar áhættuúrgang og spilliefni. Jafnvel þótt stöðin yrði tvöfölduð sem Björn taldi að þyrfti að gera, þá fer það mikið magn í gegn hjá Sorpu að það væri vel hægt að tryggja nægt magn allan ársins hring. Þá eru einhver samlegðaráhrif með þessum breytingum.

Að lokum sýndi Björn fundarmönnum tvær glærur. Sú fyrri sýndi hvernig úrgangur fer um fyrirtækið. 22,3% af öllum úrgangi sem SORPA tekur á móti fer í gegnum endurvinnslustöðvarnar, 0,8% í gegnum grenndargáma, 39% í gengum móttökustöð og 37,9% fer beint upp í urðunarstaðinn á Álfsnesi. Endurnýtingin fyrir allan úrgang er um 49,8% og urðað er 50,2%. Fullyrða má að endurvinnsla á höfuðborgarsvæðinu er yfir 50%, jafnvel yfir 60%. Seinni glæran sýnir hvað verður um úrganginn sem kom frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu árið 2014. Segja má að 27% af heimilisúrgangi er urðaður sem verður að teljast nokkuð góður árangur. SORPA er nýbúinn að fara út í hið svokallaða blátunnuverkefni. Það að fara út í blátunnuverkefnið hefur haft annars stigs áhrif, því með grófum útreikningum má áætla að plastpokanotkun íbúa á höfuðborgarsvæðinu hafi minnkað um 6 milljón poka á ári.  Endurvinnsla á öllum úrgangi hefur aukist í kjölfarið á þessari blátunnuvæðingu. Markmið SORPU er að árið 2017 verði ekki meira en 5% af heimilisúrgangi á höfuðborgarsvæðinu urðað. Björn taldi að vel væri hægt að ná þessu markmiði og sagðist vona að Suðurnesin yrðu með í því átaki.

11. Önnur mál – umræður um starfsemina

Bryndís Gunnlaugsdóttir þakkaði fyrir þennan fyrirlestur Björns og taldi þessar hugleiðingar um sameiningu mjög áhugaverðar. Björn talaði um þessi mál út frá sínu sjónarhorni en nú þyrftum við að fara að tala um þessi mál út frá okkar sjónarhorni. Bryndís sagðist sitja í stjórn Úrvinnslusjóðs fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu þar sem meðal annars er fjallað um flokkun, endurnýtingu og endurvinnslu. Hún taldi það vera til skammar að við værum nánast eini landshlutinn sem ekki er að flokka. Með sameiningu við SORPU má hugsanlega flýta fyrir því að farið verði að flokka á Suðurnesjum. Nú er fjárhagur SS orðinn mun betri sem segja má að sé grundvöllur fyrir því að hefja flokkun. Hún velti fyrir sér hvort það þýddi minni útgjöld fyrir íbúana  á Suðurnesjum ef farið yrði í sameiningu við SORPU þar sem íbúar þar eru að borga um 5 þús kr. minna í sorpgjöld. Hún vildi vita hver væri ágóðinn af sameiningu fyrir okkur Suðurnesjamenn og sagðist vona að stjórnin vinni þessar hugmyndir áfram svo að aðrir bæjarfulltrúar geti tekið upplýsta ákvörðun þegar á þarf að halda.

Kjartan Már Kjartansson þakkaði Birni fyrir mjög áhugaverða kynningu. Kjartan spurðist fyrir um hverjir gallarnir við sameiningu gætu verið en kostirnir hefðu þegar komið fram í erindi Björns. Ennfremur spurði Kjartan um stöðu metans á Suðurnesjum, því hefði verið lofað á sínum tíma að Keilir ætlaði að setja upp metanstöð hér á Suðurnesjunum og spurði Kjartan hvort eitthvað væri að frétta af þeim málum og hver þróunin væri varðandi notkun metans sem eldsneyti á bíla.

Björn Halldórsson svaraði því til varðandi metanið að aðgengi að metani hefði aukist á höfuðborgarsvæðinu, nú væru komnar fjórar afgreiðslustöðvar í Reykjavík og ein á Akureyri. Það lá alltaf nokkuð ljóst fyrir að metanstöðvar myndu ekki rísa upp annars staðar, á meðan ekki væri framleitt metan á þeim stað. Það er dýrt að framleiða og sér í lagi að dreifa metani. Metan verður áfram hluti af lausnum framtíðarinnar, en það verður einnig ýmislegt annað s.s. rafmagnsbílar. Varðandi spurninguna um gallana svaraði Björn því til að hugsanlega gæti þetta verið erfitt stjórnunarlega séð og ennfremur gæti einkamarkaðurinn brugðist við þessu á einhvern hátt þar sem þeim þætti SORPA vera orðin of stór með þessari sameiningu.

Friðjón Einarsson spurði Björn nánar út í  þá skoðun hans að það væri e.t.v. gott ef Reykjavík dytti undir 50% eignarhluta í SORPU.

Björn svaraði því til að það væru settar ýmsar kvaðir á Reykjavíkurborg vegna þessa, sérstaklega hvað  varðar öll uppgjör, sem gerir hlutina flóknari og erfiðari, sérstaklega hvað varðar fjárfestingar og slíkt. Það kostar peninga að fylgja því eftir. Hann væri svo sem ekkert að kvarta yfir þessu, þetta hefur allt gengið vel upp.

Jón Norðfjörð þakkaði Birni sérstaklega fyrir að hafa komið og upplýst fundarmenn um þessi mál. „Það hefði verið gaman að sjá fleiri sveitarstjórnarmenn á fundinum“ sagði Jón, „því að kannski þurfum við að taka einhverjar ákvarðanir í þessum málum fyrr en okkur grunar eða þegar við getum lagt fyrir ákveðnar hugmyndir“. „Kannski gerum við þetta í haust, kannski ekki fyrr en á næsta ári, það kemur bara í ljós hvað þetta tekur langan tíma“, sagði Jón. Eins og Björn kynnti þessar hugmyndir um sameiningu fyrirtækjanna, taldi Jón þetta virka mjög einfalt, að sveitarfélögin á Suðurnesjum gangi inn í byggðasamlagið SORPU bs. og þannig eigi breytingin sér stað og gjaldið verður hin verðmæta sorpbrennslustöð Kalka. Jón sagði ákveðna kosti við það að stækka þennan málaflokk, að setja hann í stærra samhengi. Þetta er mál sem þarf að skoða betur. Jón benti á að sveitarfélög sem flokka mikið úrgang í dag t.d. Stykkishólmur og fleiri sem eru hvað fremst í flokkun úrgangs í landinu, væru í hópi þeirra sem eru með hæstu sorpgjöld á landinu. Jón sagði að svo virtist sem íbúarnir í þessum sveitarfélögum væru ekki að njóta mikillar flokkunar með lægri sorpgjöldum og spurði hvað gæti valdið því? „Einn umhverfisvænsti kostur í meðferð úrgangs er brennsla og ef hægt er að auka brennsluna í stað þess að urða, þá er það gott mál“ sagði Jón. Í máli Jóns kom einnig fram að með góðum búnaði sem til er í dag er hægt að standast kröfur um mengunarmörk í útblæstri. Þá er einnig kostur að geta nýtt orkuna sem kemur frá brennslunni. Jón sagði að á næstu mánuðum verði til athugunar hvernig nýta megi betur orkuna frá brennslunni. „Eitt af því sem við myndum vilja sjá við sameiningu er umtalsverð lækkun sorpgjalda. Við höfum verið að ná árangri í því með því að hækka sorpgjöldin ekki á milli ára og vonandi tekst okkur að halda því striki eitthvað áfram“ sagði Jón. Að lokum vildi Jón þakka öllum fyrir góðan fund. Mjög mikilvægt er fyrir sveitarstjórnarmenn að vera mjög vel upplýstir um þessi mál.

Anna Lóa Ólafsdóttir fór í stuttu máli yfir fundinn, tæpt hefði verið á ýmsu, aðallega hefðbundin aðalfundarstörf en þó með jákvæðum formerkjum. Framsetning skýrslu framkvæmdastjóra hafi verið mjög lýsandi og myndræn. „Jákvæð fjárhagsleg staða og jákvæður viðsnúningur hlýtur að gleðja okkur öll“ , sagði Anna Lóa. Að lokum þakkaði hún gestum fundarins sérstaklega, þeim Rúnari Þór Daníelssyni og Birni H. Halldórssyni fyrir sitt framlag og fundarmönnum öllum fyrir komuna og þeirra framlag á þessum fundi.

Fleira var ekki gert og var fundi slitið kl. 17:55.

Jóhann Rúnar Kjærbo, fundarritari
Anna Lóa Ólafsdóttir, fundarstjóri

37. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf á PDF formi, hentugt til útprentunar

Til baka