Aðalfundur SS 2016

13.5.2016

Fundargerð.

38. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn 28. apríl 2016 kl. 15:30 í fundarsal Kölku að Berghólabraut 7 í Reykjanesbæ.

Dagskrá:

   1.  Fundarsetning.
   2.  Kosning fundarstjóra og fundarritara.
   3.  Skýrsla stjórnar, Birgir Már Bragason, stjórnarformaður og Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri.
   4.  Reikningar félagsins árið 2015, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi félagsins.
   5.  Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
   6.  Kosning endurskoðanda.
   7.  Tillaga um þóknun til stjórnarmanna.
   8.  Önnur mál.


1. Fundarsetning

Birgir Már Bragason formaður stjórnar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.


2. Kosning fundarstjóra og fundarritara

Birgir lagði til að Jóna Rut Jónsdóttir bæjarfulltrúi í Grindavík og stjórnarmaður í Sorpeyðingarstöð Suðurnesja taki að sér fundarstjórn og var það samþykkt samhljóða.

Jóna Rut tók við fundarstjórn og lagði til að Jóhann Rúnar Kjærbo skrifstofumaður hjá SS verði fundarritari og var það samþykkt samhljóða. Jóna Rut tilkynnti að mættir væru fulltrúar allra eignaraðila og að fundurinn hafi verið löglega boðaður. Engar athugasemdir komu fram.


3. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra

Birgir Már Bragason, stjórnarformaður og Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri fluttu skýrslu fyrir árið 2015 og tók stjórnarformaðurinn fyrst til máls:

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.

Fyrir hönd stjórnar félagsins, býð ég ykkur öll velkomin á þennan 38. aðalfund Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. Ég býð sérstaklega velkomna Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur sem er löggiltur endurskoðandi félagsins. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði í starfsemi félagsins og síðan mun Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri taka við og ræða starfsemina nánar.

Stjórn félagsins er að ljúka öðru starfsári sínu og það verður að segjast eins og er, að þessi tími hefur verið mjög áhugaverður og lærdómsríkur. Við höfum fylgst með fyrirtækinu eflast og dafna frá því að vera í mjög erfiðri stöðu. Mörg verkefni hafa verið í gangi og sum hafa þegar fengið farsæla niðurstöðu. Stjórnarfundir á árinu 2015 voru 11 og málaskráin fjölbreytt.

Fjárhagur félagsins hefur á síðustu árum batnað umtalsvert. Eins og fram kemur í ársreikningi félagsins fyrir árið 2015 voru heildar rekstrartekjur um 513,8 milljónir króna og hafa aldrei verið meiri. Tekjurnar hafa aukist þrátt fyrir að sorpgjöld á íbúa hafi ekki hækkað síðast liðin fimm ár sem hlýtur að teljast hluti af góðum árangri. Rekstrargjöld án afskrifta eru um 418,4 milljónir króna og nam rekstrarhagnaður fyrir afskriftir þannig 95,4 milljónum króna. Niðurstaða ársreikningsins sýnir örlítið tap, eða um 1,3 milljónum króna. Þar munar um auknar afskriftir og hærri fjármagnskostnað. Eigið fé félagsins er um 271 milljón  króna og eiginfjárhlutfallið er 24,51%. Anna Birgitta endurskoðandi mun fara betur yfir allar tölur í ársreikningi hér á eftir.

Eignarhlutur sveitarfélaganna á árinu 2015 með vísan til 4. greinar samþykkta félagsins var eftirfarandi: Reykjanesbær á 70,90%, Grindavíkurbær 11,12%, Sandgerðisbær 6,54%, Sveitarfélagið Garður 6,17% og Sveitarfélagið Vogar 5,27%.

Eins og fram kom á síðasta aðalfundi, voru búnar að vera í gangi viðræður við SORPU bs. um hvort hagkvæmt sé að sameina fyrirtækin. Á aðalfundinum var Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri SORPU með kynningu á fyrirtæki sínu og þeim sjónarmiðum sem hann taldi sýna hagkvæmni þess að sameina fyrirtækin. Dregið var úr þessum viðræðum af okkar hálfu og ákveðið að skoða fleiri möguleika til framtíðar. Þó var engum dyrum lokað. Ákall um flokkun úrgangs hefur farið vaxandi og eru framtíðaráform nú meðal annars skoðuð í því ljósi.  Nú þegar hefur ýmissa gagna og upplýsinga verið aflað um þessi mál.

Við höfum meðal annars skoðað hvernig mörg önnur sveitarfélög standa að þessum málum. Einnig hefur verið unnin greining á hagkvæmni þess að brenna eða urða úrgang eins og öll sveitarfélög á landinu gera nema sveitarfélögin hér á Suðurnesjum. Í þessu sambandi var skoðað tímabilið 2012 til og með 2015 með tilliti til rekstrarafkomu okkar félags. Greiningin sýnir aukna hagkvæmni brennslunnar með batnandi rekstrarafkomu og tekjuaukningu. Síðast liðið haust fórum við, ég og framkvæmdastjóri í kynnisferð til þriggja landa í Evrópu ásamt fleiri aðilum sem starfa að úrgangsmálum hér á landi. Það var Lúðvík Gústafsson verkefnastjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í úrgangsmálum sem skipulagði ferðina sem var mjög fróðleg. Við fengum svo óvænt og gott innlegg í þessa umræðu frá Einari Jóni Pálssyni sem afhenti okkur og kynnti MBA lokaverkefni sitt þar sem spurt var m.a. hvort flokkun heimilissorps gæti leitt til hagræðingar fyrir Sorpeyðingarstöð Suðurnesja og þar með íbúa svæðisins. Í niðurstöðu verkefnisins kemur fram það mat hans að athugunin hafi sýnt að það  sé hagkvæmt að farið verði í flokkun og endurvinnslu á svæðinu.

Eins og við vitum er Kalka í dag eina brennslustöðin á landinu og því gætu það verið hagsmunir m.a. ríkisins að brennslustöðin verði starfrækt áfram. Á vegum Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er starfandi nefnd sem framkvæmdastjóri okkar á sæti í og hefur nefndin það verkefni að skoða hvernig megi tryggja að a.m.k. ein brennslustöð verði starfrækt hér á landi. Þar er m.a. spurt um mögulega aðkomu ríkisins og fleiri hagsmunaaðila að slíkum rekstri.

Í ljósi þess sem ég hef rætt hér, er meðal helstu verkefna stjórnar félagsins framundan að skoða hvaða möguleikar eru líklegastir í rekstri brennslustöðvarinnar Kölku til framtíðar. Ég minntist áðan á að ákall um flokkun úrgangs hafi farið vaxandi og að framtíðaráform væru nú m.a. skoðuð í því ljósi. Samkvæmt reynslu annarra sveitarfélaga mundi einfaldasta flokkun úrgangs við heimili draga úr magni heimilisúrgangs sem kæmi til brennslu um ca. 1/3 sem eru nú um 1500 tonn á ári. Ef slík flokkunarleið yrði valin, þyrfti jafnframt að tryggja að brennslustöðin fengi samsvarandi magn úrgangs til brennslu. Þið heyrið að það er á margt að líta í þessum efnum og ég geri ráð fyrir að þegar stjórnin hefur komist að niðurstöðu og mótað sínar tillögur, þá verði boðað til kynningarfundar með sveitarstjórnarfólki á svæðinu.

Samstarf stjórnar og framkvæmdastjóra hefur verið með miklum ágætum og vil ég þakka sérstaklega fyrir það. Ég vil einnig þakka starfsfólki fyrirtækisins fyrir þeirra góðu störf og mjög gott samstarf.

Nú tekur Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri við.

Fundarstjóri góðir fundarmenn.

Árið 2015 var að ýmsu leyti frábrugðið fyrri árum mínum hér í starfi. Það má segja að það hafi gætt fráhvarfseinkenna að þurfa ekki að eyða löngum tíma í bankaþras, hvernig við gætum losnað við flugöskuna og að sumu leyti erfið samskipti við Umhverfisstofnun. Betri tími hefur gefist til annarra verkefna og ætla ég að fara yfir nokkur þeirra hér.

Í ársbyrjun lá fyrir endurmat á brennslulínu Kölku sem framkvæmt var af sérfræðingum Verkfræðistofunnar Mannvits. Mikil endurnýjun og viðhald í brennslustöðinni gaf ástæðu til að yfirfara þessi atriði sem leiddu til góðrar niðurstöðu og jákvæðrar eiginfjárstöðu fyrirtækisins.

Það var einnig í ársbyrjun 2015 sem gengið var endanlega frá skriflegum samningi við norska fyrirtækið NOAH um móttöku og varanlega geymslu á allri flugösku sem verður til við brennsluna.

Vel á minnst, við þurftum að finna geymsluhús til að geyma flugöskuna innandyra þar til hún verður flutt til Noregs. Það voru tilmæli frá Umhverfisstofnun um þetta þar sem reynslan af því að geyma öskusekkina utandyra var afspyrnu slæm. Við fórum vítt og breytt í leit að hentugu húsnæði og skoðuðum einnig möguleika á að byggja skemmu hér á lóð fyrirtækisins. Við höfðum heppnina með okkur þegar við fundum nýlegt hús tæplega 900 m2 að Fitjabraut 10 í Njarðvík, þar sem áður var einingaverksmiðja. Húsið var í eigu Íslandsbanka og brunbótamat þess var um 140 mkr. Við buðum bankanum 57 mkr. og náðum samkomulagi um það verð. Við teljum að við komum allt að þriggja ára birgðum inn í húsið.

Árið 2015 var afmælisár Kölku. Hinn 27. maí 2015 voru liðin 10 ár frá því að brennslustöðin Kalka var formlega tekin í notkun. Við héldum upp á daginn og höfðum opið hús og fengum margar góðar heimsóknir. Af þessu tilefni var samþykkt að færa Fjölbrautarskóla Suðurnesja kr. 1.000.000 að gjöf fyrir kjörsviðsgreinar á náttúrufræðibraut skólans. Svona í leiðinni má geta þess að einu styrkirnir sem fyrirtækið veitir eru viðurkenningar til nemenda í einni bekkjardeild í öllum grunnskólum á Suðurnesjum vegna góðs árangurs í námi sem tengist náttúrufræði eða námsefni sem tengist umhverfinu.

Starfsemi fyrirtækisins hefur almennt gengið vel og aukning varð á viðskiptum milli ára. Nýting brennslustöðvarinnar var nálægt 90% eins og árið áður sem verður að teljast mjög gott miðað við að brennslustopp vegna viðhaldsverkefna var um 4 vikur.

Heildarmagn úrgangs sem barst til fyrirtækisins árið 2015 var um 13.600 tonn og er það aukning frá árinu á undan. Í brennslustöðinni voru brennd um 10.400 þúsund tonn sem er svipað magn og árið á undan. Frákeyrt magn úrgangs sem fór til endurnýtingar eða endurvinnslu var tæp 1.500 tonn og til urðunar fóru um 1.800 tonn.

Mig langar til að koma aðeins inn á mál sem formaðurinn nefndi í sinni skýrslu, en það er þróun sorpgjalda á íbúa svæðisins. Mér finnst alveg ástæða til að vekja sérstaka athygli á því að við erum með óbreytt sorpgjöld núna fimmta árið í röð. Með því að halda óbreyttum sorpgjöldum í fimm ár, má ætla að tekist hafi að spara greiðendum sorpgjalda á Suðurnesjum á bilinu 70 til 80 milljónir króna á þessu tímabili.

Árið 2012 voru Suðurnesin með fimmtu hæstu sorpgjöldin á landinu, en á þessu ári 2016 erum við komin í 16. sæti.

Við höfum haldið sorpgjöldunum óbreyttum þrátt fyrir umtalsverðan kostnað undanfarin ár vegna viðhaldsverkefna, förgunar flugöskunnar og fleiri kostnaðarsamra verkefna sem ráðist hefur verið í. Við höfum mætt auknum kostnaði með því að hækka almennar gjaldskrár s.s. á fyrirtæki og gjaldskrár fyrir móttöku á spilliefnum og sóttmenguðum úrgangi. Viðskipti hafa aukist og það hefur einnig hjálpað til. Þegar gjaldtaka var tekin upp á gámaplönum í ársbyrjun 2012, fundum við strax fyrir mjög jákvæðum áhrifum af þeirri breytingu.

Það má geta þess að heimsóknir á gámaplönin í Vogum, Grindavík og í Helguvík á árinu 2015 voru þær nær 23 þúsund og fjölgaði milli ára.

Í haust var framkvæmd talning á sorpílátum við öll heimili á Suðurnesjum. Svona talning hafði ekki verið framkvæmd síðan um áramótin 2011/2012.  Þó nokkur fjöldi íbúa eru með fleiri en eina sorptunnu og ákveðið var að innheimta sorphirðugjald fyrir hverja aukatunnu. Stefnt er að annarri talningu næsta haust, a.m.k. á hluta svæðisins. Framlag sveitarfélaganna til sorpgjalda tekur mið af fjölda fasteignanúmera, en samningurinn um sorphirðuna tekur mið af fjölda íláta sem sorphirðuverktakinn losar í hverjum mánuði. Þarna hefur gætt einhvers misræmis þar sem sorpgjöld miðast við eitt sorpílát við hverja íbúð.

Birgir formaður fór ágætlega yfir upplýsingar og umræður sem farið hafa fram um framtíðaráform í rekstri fyrirtækisins og ég tek undir með honum að skoða þarf vel alla möguleika, kosti og galla. Þessi vinna verður áfram í gangi og við stefnum auðvitað að því að finna bestu leiðirnar til framtíðar fyrir fyrirtækið.

Við fáum nokkuð oft heimsóknir frá ýmsum aðilum. Hingað koma námsmenn, fólk sem vinnur að umhverfismálum með einhverjum hætti og erlendir aðilar úr ýmsum áttum. Við erum ekki enn farin að taka á móti ferðafólki, en kannski sjáum við það í framtíðinni.

Í upphafi orða minna kom fram að samskipti við Umhverfisstofnun hafi áður verið að sumu leyti erfið. Það verður að segjast eins og er að þetta hefur breyst mikið og samstarfið nú er með eindæmum gott. Umhverfisstofnunin slær þó ekkert af kröfum sínum, gefur sig út núna fyrir að vera „þjónandi stofnun“ sem þýðir að starfsfólkið er mun meira leiðbeinandi en áður. Útblástursmælingar eru stöðugt mældar í símælikerfi brennslustöðvarinnar sem skráir allar niðurstöður. Auk þess koma hér tvisvar á ári aðilar frá verkfræðifyrirtæki og framkvæma umfangsmeiri útblástursmælingar. Nú á eftir að koma í ljós hvort umhverfiskröfur verði auknar í endurnýjuðu starfsleyfi sem hefur verið í vinnslu hjá Umhverfisstofnun, en umsókn okkar var lögð inn í desember 2014. Töluverð vinna fylgir þessu ferli, en nú er vonast til að endurnýjað starfsleyfi verði tilbúið fyrir 1. júlí á þessu ári. Ástæða fyrir því hvað þetta tekur langan tíma er aðallega að verkefnið er vandasamt og Umhverfisstofnun hefur einnig borið við tímaskorti. Gert er ráð fyrir að nýtt starfsleyfi muni gilda í 16 ár, eða til ársins 2032.

Talsvert mikið er um skýrslugerðir á hverju ári og má þar nefna Grænt bókhald sem við birtum á heimasíðunni www.kalka.is. Gerð er ársskýrsla vegna reksturs brennslustöðvarinnar þar sem fram koma tölulegar upplýsingar um allar útblástursmælingar og fleiri gagnlegar upplýsingar. Árlega er gerð skýrsla um magntölur úrgangs o.fl. Allar mælingar og skýrslur eru sendar til Umhverfisstofnunar sem  fylgist vel með því að öll skilyrði starfsleyfis séu uppfyllt.

Sveitarfélögin halda sína umhverfisdaga sem eru sjálfsagður hluti þess að bjóða sumarið velkomið. Sveitarfélögin eru með mismunandi áherslur og fyrirkomulag í þessum málum, en við kappkostum að eiga gott samstarf við þau að fegrun umhverfisins.

Ýmislegt fleira var á döfinni hjá fyrirtækinu og má þar nefna að gerður var samningur við fyrirtækið GRP (Geothermal Resource Park) um gerð fýsileikakönnunar þar sem meðal annars eru kannaðir möguleikar á hagnýtingu afgangsvarma (orku) sem verður til við brennslu í Kölku. Eins og áður hefur komið fram var gert ráð fyrir nýtingu afgangsvarmans frá brennslunni til framleiðslu á raforku þegar brennslustöðin var byggð og var settur upp gufuhverfill (túrbína) við stöðina í samstarfi við Hitaveitu Suðurnesja. Af ýmsum ástæðum gekk orkuframleiðslan ekki vel og eftir nokkurra ára tilraunir var ákveðið að ljúka verkefninu.  Í grein 1.3. í starfsleyfi SS er vísað til stefnu stjórnvalda um að markvisst skuli unnið að nýtingu úrgangs, þar með talið orkuvinnslu o.fl.

Starfsmannamál hafa verið í góðu lagi og starfsmannavelta lítil. Kjarasamningar á síðasta ári tóku langan tíma og niðurstöður komu ekki fram fyrr en í árslok og sumpart ekki fyrr en á þessu ári. Af þessum ástæðum mun aukinn þungi launakostnaðar koma fram á þessu ári.

Stjórnin samþykkti starfsreglur fyrir sig og framkvæmdastjóra sem sendar voru til allra sveitarstjórnarmanna og reglurnar má finna á heimasíðu fyrirtækisins.

Góðir fundarmenn.

Ég hef á aðalfundum síðast liðinna ára flutt langar og ítarlegar skýrslur um þau verkefni sem tekist var á við. Ég ætla ekki að lengja mál mitt meira núna en er að sjálfsögðu tilbúinn til að svara spurningum ykkar.

Hinn 1. júlí n.k. verða liðin fimm örstutt ár frá því að ég tók við starfi framkvæmdastjóra  fyrirtækisins. Þetta hefur verið skemmtilegur tími og farið stöðugt batnandi eftir því sem meiri árangur hefur náðst. Góðan árangur má þakka góðri samstöðu milli stjórnar og stjórnenda og starfsmanna fyrirtækisins sem oftar en ekki hafa unnið frábærlega að framgangi margra flókinna verkefna. Ég hef áður sagt það á aðalfundum að  saga fyrirtækisins síðustu ár er ágætlega skráð í fundargerðum stjórnarfunda og aðalfunda sem finna má á heimasíðunni www.kalka.is

Við höldum okkar striki og það verður spennandi að sjá hvaða tillögur koma fram um framtíðarrekstur fyrirtækisins.

Ég vil færa stjórn og starfsmönnum fyrirtækisins bestu þakkir fyrir mjög góða samvinnu og frumkvæði sem hefur skilað mjög góðum árangri.

Takk fyrir.


4. Ársreikningur fyrirtækisins árið 2015

Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte kynnti ársreikning fyrirtækisins fyrir árið 2015. Heildarrekstrartekjur námu tæplega 514 milljónum króna. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsgjalda námu rúmlega 418 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam þannig rúmlega 95 milljónum króna. Heildartap ársins eftir afskriftir og fjármagnsgjöld nemur tæplega 1,3 milljónir króna samanborið við 28 milljón króna hagnað árið 2014. Helsta skýringin eru auknar afskriftir í kjölfar sérstaks endurmats á brennslulínu félagsins sem framkvæmd var í árslok 2014. Afskriftir námu tæplega 51 milljón króna, sem er 12,5 milljónum króna hærra en á fyrra ári. Í árslok 2015 námu heildareignir félagsins rúmlega 1.105 milljónir króna en skuldir og skuldbindingar námu rúmum 834 milljónum króna. Eigið fé er tæplega 271 milljónir króna og nú er eiginfjárhlutfall félagsins 24,51% en samanborið við 24,53% í árslok 2014.


5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins

Einar Jón Pálsson spurði hvers vegna lífeyrisskuldbindingar væru óbreyttar milli ára og ennfremur spurði Einar Jón hvernig bregðast ætti við almennum hækkunum launa, hvort til stæði að  hækka sorpgjöld sem hefðu ekki hækkað undanfarin 5 ár. Jón Norðfjörð svaraði því til að lífeyrisskuldbindingar hafi verið endurmetnar, en lífeyrisskuldbindingar fyrirtækisins eru tengdar lífeyrisskuldbindingum SSS og þar sem ekki fékkst lokaniðurstaða frá þeim fyrir lokagerð ársreikningsins var ákveðið að hafa þetta óbreytt. Jón svaraði einnig seinni spurningu Einars Páls, hvernig brugðist yrði við fyrirsjáanlegum launahækkunum á árinu. Jón sagði hagstætt samkomulag við bankann um yfirdrátt gefa svigrúm og einnig er til athugunar að endurskoða almennar gjaldskrár um mitt ár. Ekki stendur til að hækka sorpgjöld á íbúa að sinni. Það á svo eftir að koma í ljós hvernig tekjuþróunin verður á árinu.

Kristinn Jakobsson spurði hver ástæðan væri fyrir því að laun- og launatengd gjöld lækkuðu milli ára þrátt fyrir að laun hækkuðu á árinu 2015.

Jón sagði ástæðuna vera meðal annars þá að greiðslur vegna launahækkana á árinu 2015 komi ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 2016. Ennfremur voru hærri launagreiðslur árið 2014 vegna mjög mikillar vinnu við útflutning flugöskunnar.

Árni Sigfússon spurði hvers vegna aðrar tekjur í rekstrarreikningi lækkuðu milli ára og ennfremur hver væri ástæðan fyrir mikilli hækkun á afskriftum milli ára.

Jón svaraði því til að afskriftirnar hækkuðu vegna endurmats á stöðinni. Stöðin hafði verið mjög mikið afskrifuð og matið orðið mjög lágt. Mjög miklar endurbætur væri búið að gera á brennslulínunni, þannig að fullt tilefni var talið til að endurmeta verðmæti brennslulínunnar. Verkfræðistofan Mannvit var fengið í þetta verkefni. Meðal annars var fengið tilboð í nýja brennslulínu frá sama framleiðanda til að nota til viðmiðunar. Við endurmat fór verðmæti stöðvarinnar í 860 milljónir króna, úr rúmum 300 milljónum en ný samskonar stöð kostar yfir tvo milljarða króna. Endurmatið hafði meðal annars áhrif á hækkun afskrifta. Varðandi spurningu um lækkun á öðrum tekjum stöðvarinnar milli ára svaraði Jón því til að lækkunin er fyrst og fremst tilkomin vegna þess að árið 2014 fékk fyrirtækið einskiptis tekjur frá Sorpbrennslunni á Húsavík vegna útskipunar á flugösku frá þeim.

Að lokum útskýrði Anna Birgitta nánar hvers vegna lífeyrisskuldbindingar væru óbreyttar milli ára. Upplýsingar frá Talnakönnun um stöðu lífeyrisskuldbindinga Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sýna einnig stöðu lífeyrisskuldbindinga hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Rekja má þessi tengsl langt aftur. Það þarf að horfa á þetta saman. Sumir starfsmenn unnu að hluta til hjá Sorpeyðingarstöðinni og að hluta til hjá SSS. Út frá stöðunni sem borin var saman við síðustu skýrslur, kom í ljós að það var engin hækkun þar sem gjaldfærsla síðastliðin tvö ár var það há.

Fundarstjóri bar ársreikning Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. fyrir árið 2015 upp til atkvæða og var ársreikningurinn samþykktur samhljóða.


6. Kosning endurskoðanda

Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte ehf. verði endurskoðandi félagsins.

Tillagan samþykkt samhljóða.


7. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna.

Að formaður stjórnar fái 3% af þingfararkaupi (21.361.-) fyrir hvern fund, aðrir stjórnarmenn fái 2% af þingfararkaupi (14.241.-) fyrir hvern fund.

Tillagan samþykkt samhljóða.


8. Önnur mál

Ólafur Þór Ólafsson spurði hvort búast mætti við fundi í haust um framtíðarrekstur fyrirtækisins. Birgir Már Bragason svaraði því til að það væri að mörgu að hyggja varðandi þessi mál en vonandi yrði fundur fyrir áramót vegna þessa.

Jón Norðfjörð ræddi um framtíðina og sagði m.a. að flokkun á heimilum hafi ekki verið helsta áhugamálið, þar sem tryggja þurfi nægan úrgang fyrir brennsluna. Úrgangsmagnið sem kemur frá heimilum er innan við 4.500 tonn á ári af þeim tæpum 11.000 tonnum sem brennd eru. Mismunurinn kemur frá fyrirtækjum og ýmsum aðilum. Viðskipti við fyrirtæki hafa eflst og það gefur betri möguleika til þess að horfa til þess að fara í einhverja úrgangflokkun. Meðal annars hafi verið til skoðunar að hafa tvær tunnur við hvert heimili og flokka ýmis efni eins og plast, pappa, dagblöð og málmar í flokkunartunnu sem yrði losuð einu sinni í mánuði. Almenna ruslatunnan yrði þá losuð á 14-15 daga fresti í stað þess að vera losuð á 10 daga fresti eins og nú er. Kostnaður við sorphirðuna þyrfti ekki að aukast mjög mikið við þessa breytingu. Jón sagði að vanda þurfi mjög til verka og kynna vel slíka breytingu.

Að lokum þakkaði Jón fundarmönnum fyrir góða mætingu og sleit fundi.


Fleira var ekki gert og var fundi slitið kl. 16:30.

Jóhann Rúnar Kjærbo, fundarritari
Jóna Rut Jónsdóttir, fundarstjóri

38. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf á PDF formi, hentugt til útprentunar

Til baka