Aðalfundur SS 2017

16.5.2017

Fundargerð.

39. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn fimmtudaginn 27. apríl 2017 kl.Aðalfundur SS 2016 15:30 í fundarsal Kölku í „Stofunni“ í DUUS húsum í Reykjanesbæ.

Dagskrá:

  1.  Fundarsetning.

  2.  Kosning fundarstjóra og fundarritara.

  3.  Skýrsla stjórnar, Birgir Már Bragason, stjórnarformaður og Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri.

  4.  Reikningar félagsins árið 2016, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi félagsins.

  5.  Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.

  6.  Tillaga um breytingar á samþykktum félagsins.

  7.  Kosning endurskoðanda.

  8.  Tillaga um þóknun til stjórnarmanna.

  9.  Kynning á tillögu stjórnar SS um sorpflokkun við heimili á Suðurnesjum.

  10.  Önnur mál.


1. Fundarsetning

Birgir Már Bragason formaður stjórnar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.


2. Kosning fundarstjóra og fundarritara

Birgir lagði til að Einar Jón Pálsson forseti bæjarstjórnar í Garði verði fundarstjóri og var það samþykkt samhljóða.

Einar Jón tók við fundarstjórn og lagði til að Kári Húnfjörð starfsmaður hjá SS verði fundarritari og var það samþykkt samhljóða. Einar Jón tilkynnti að mættir væru fulltrúar allra eignaraðila og að fundurinn hafi verið löglega boðaður. Engar athugasemdir komu fram.


3. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra

Birgir Már Bragason, stjórnarformaður og Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri fluttu skýrslu fyrir árið 2016:

Fyrst tók Birgir Már formaður stjórnar til máls.

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.

Fyrir hönd stjórnar félagsins, býð ég ykkur öll velkomin á þennan 39. aðalfund Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. Ég býð sérstaklega velkomna Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur sem er löggiltur endurskoðandi félagsins.  Ég ætla að fara yfir nokkur atriði í starfsemi félagsins og síðan mun Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri taka við og ræða starfsemina nánar.

Stjórn félagsins er að ljúka þriðja starfsári sínu og það verður að segjast eins og er, að þessi tími hefur verið mjög áhugaverður og lærdómsríkur. Við höfum fylgst með fyrirtækinu eflast og dafna. Mörg verkefni eru í gangi og sum hafa þegar fengið farsæla niðurstöðu. Stjórnarfundir á árinu 2016 voru 10, málaskráin fjölbreytt og ýmsir gestir hafa komið til okkar og frætt okkur um hin ýmsu mál er snúa að úrgangsmálum .

Fjárhagur félagsins hefur á síðustu árum batnað umtalsvert. Eins og fram kemur í ársreikningi félagsins fyrir árið 2016 voru heildar rekstrartekjur  um 545 milljónir króna og hafa aldrei verið meiri. Rekstrargjöld án afskrifta eru um 463 milljónir króna og nam rekstrarhagnaður fyrir afskriftir þannig 82,2 milljónum króna. Niðurstaða ársreikningsins sýnir örlítið tap, eða um 4,8 milljónum króna. Eigið fé félagsins er um 266 milljónir  króna og eiginfjárhlutfallið er 24,82%.

Anna Birgitta endurskoðandi mun fara betur yfir allar tölur í ársreikningi hér á eftir.

Eignarhlutur sveitarfélaganna á árinu 2015 með vísan til 4. greinar samþykkta félagsins var eftirfarandi: Reykjanesbær á 70,90%, Grindavíkurbær 11,12%, Sandgerðisbær 6,54%, Sveitarfélagið Garður 6,17% og Sveitarfélagið Vogar 5,27%.

Eins og áður hefur komið fram þá hefur félagið verið í viðræðum við SORPU bs um hvort hagkvæmt sé að sameina fyrirtækin. Við tókum þessa umræðu í samráði við SORPU og færðum hana á annað stig. Við fengum Capacent til að hjálpa okkur við að gera okkur grein fyrir því hvernig þessi sameining mundi líta út fyrir okkur í formi stærðar og eignarhluta hvors fyrirtækis um sig. Við höfum nú þegar kynnt þær niðurstöður fyrir flestum bæjarstjórnum. Við vonumst til að bæjarstjórnirnar komi sér svo saman um framhaldið á þessum viðræðum og að þær horfi til framtíðar með ákvarðanatöku sinni.

Í fyrra komum við einnig inn á að ákall um flokkun úrgangs hafi farið vaxandi og að framtíðaráform yrðu skoðuð í því ljósi. Við höfum nú þegar lagt mikla vinnu í að kynna okkur ýmis flokkunarkerfi og höfum ákveðið að leggja til að farið verði út í meiri flokkun á næsta ári. Jón mun koma betur að því hér á eftir í kynningu á tillögu stjórnarinnar.

Sorp sem berst til Kölku er alltaf að aukast og er brennslustöðin fullnýtt.  Stöðin er á 13. ári og búin að vera í gangi stanslaust í yfir 4400 daga.  Á síðasta ári þurfti félagið að greiða rúmar 43 milljónir króna fyrir sorpeyðingu vegna úrgangs sem við getum ekki brennt í Kölku og þurftum að senda frá okkur.

Það er alveg ljóst að með aukinni fólksfjölgun hér á svæðinu og allri þeirri uppbyggingu sem áætluð er þá líður að því að brennslustöðin verði of lítil og hafi ekki getu til að taka á móti því sorpi sem berst. Því þurfum við að horfa til þess að innan nokkurra ára munum við þurfa að stækka stöðina ef við ætlum að getað tekið á móti öllu þessu rusli. Hvort sem við munum  sameinast Sorpu eða ekki.  Þá þurfum við að skoða stækkun á móttökuhlaðinu ef við ætlum að fara út í frekari flokkun þar sem núverandi plan er orðið eða er að verða of lítið.

Eins og þið heyrið þá er að mörgu að hyggja á næstu mánuðum og árum í rekstrinum og stórar ákvarðanir framundan.

Samstarf stjórnar og framkvæmdastjóra hefur verið með miklum ágætum og vil ég þakka sérstaklega fyrir það. Ég vil einnig þakka starfsfólki fyrirtækisins fyrir þeirra góðu störf og mjög gott samstarf.

Takk fyrir.

Þá var komið að Jóni Norðfjörð framkvæmdastjóra.

Fundarstjóri góðir fundarmenn.

Á síðasta aðalfundi sem haldinn var í fundarsal Kölku, lýsti ég því hvernig árið 2015 hafi að ýmsu leyti verið frábrugðið fyrri árum mínum í starfi sem framkvæmdastjóri sorpeyðingarstöðvarinnar. Þá sagði ég að gætt hafi fráhvarfseinkenna hjá mér að þurfa ekki að eyða löngum tíma í bankaþras, hvernig við gætum losnað við flugöskuna og að sumu leyti hvernig samskiptin við Umhverfisstofnun hafi verið erfið. Ég sagði frá því að betri tími hafi gefist til annarra og skemmtilegra verkefna. Það hefur sannarlega reynst rétt.

Árið 2016 var ekki síður viðburðaríkt fyrir mig og hjá fyrirtækinu var unnið að ýmsum góðum verkefnum og lagður grunnur að nokkrum málum sem vonandi og væntanlega munu hafa góð áhrif á reksturinn til framtíðar.

Í ársbyrjun var framhaldið nokkrum verkefnum sem voru í gangi frá fyrra ári og er þar helst að nefna endurskoðun starfsleyfis fyrirtækisins sem var viðamikið verkefni, umfjöllun og athugun á framtíðarsýn í úrgangsmálum hér á Suðurnesjum sem einnig hefur verið yfirgripsmikil verkefni, athugun á hagnýtingu afgangsvarma frá brennslustöðinni o.fl.

Eins og fram kom á aðalfundinum í fyrra, þá urðu kaflaskil hjá mér persónulega þegar ég fékk hjartaáfall á leið heim úr vinnu í lok febrúar. Þetta gerðist í Garðinum og ég ók bílnum út af veginum og lenti á stórum steini. Ég var svo heppinn að ágætar konur sem voru að æfa í íþróttahúsinu sáu þetta gerast og hringdu strax á sjúkrabíl og lögreglu og komu svo og ýttu hressilega í mig þannig að ég rankaði við mér. Í stuttu máli þá fór ég í hjartaaðgerð í mars og í framhaldinu í sjúkraþjálfun og endurhæfingu á Reykjalundi. Kom svo til baka nýuppgerður og 25 kílóum léttari. Þess má geta að allan tímann sem ég var að standa í þessu var ég í góðu sambandi við Ingþór rekstrarstjóra og fleiri starfsmenn fyrirtækisins og gat sinnt ýmsum verkefnum og samskiptum við ýmsa aðila, mætt á nokkra fundi, annast öll bankaviðskipti og fleira tilfallandi sem kom upp á þessum tíma.

Á árinu 2016 gekk starfsemi fyrirtækisins almennt vel og aukning á viðskiptum hélt áfram milli ára. Segja má að brennslustöðin sé nú fullnýtt eins og hún hefur í raun verið sl. 2 til 3 ár og hefur því miður þurft að vísa frá viðskiptum. Heildarmagn úrgangs sem barst til fyrirtækisins árið 2016 var um 14.600 tonn og er það um 1000 tonna aukning á milli ára. Í brennslustöðinni voru brennd rúmlega  11.000 þúsund tonn sem er um 600 tonna aukning miðað við árið á undan. Frákeyrt magn úrgangs sem fór til endurnýtingar eða endurvinnslu var rúmlega 1.600 tonn og til urðunar fóru rúmlega 2.000 tonn auk um 1.600 tonna af botnösku sem flutt var til Sorpu til urðunar. Í heildina var frákeyrt magn úrgangs því um 5.200 tonn sem er umtalsvert magn.

Eins og venjulega á hverju ári þurfti að sinna viðhaldsverkefnum og fyrirbyggjandi aðgerðum af ýmsu tagi í brennslustöðinni og vegna þess þurfti að stöðva brennsluna í um 3 vikur á árinu 2016. Mest áhersla hefur verið lögð á viðhald á brennslulínunni sem er hjartað í fyrirtækinu og einnig hefur verið unnið að ýmsu til að betrum bæta aðstöðu starfsmanna. Starfsmannamál hafa verið í góðu lagi og ekki hefur verið mikil starfsmannavelta. Mikinn hluta ársins 2016 þurfti þó aukinn starfskraft bæði vegna forfalla starfsmanna og aukningar verkefna. Kjarasamningar á árinu 2015 tóku langan tíma og niðurstöður komu ekki fram fyrr en í árslok 2015 og sumpart ekki fyrr en á árinu 2016. Launahækkanir giltu frá 1. maí 2015 að stórum hluta og komu því til útborgunar á árinu 2016. Af þessum ástæðum meðal annars kom aukinn þungi launakostnaðar fram á árinu 2016 eins og fram kemur í ársreikningi.

Eins og fram hefur komið í fundargerðum stjórnar SS, þá tókst að halda sorpgjöldum hér á Suðurnesjum óbreyttum í fimm ár. Þar var í raun um að ræða leiðréttingu frá fyrri tíma þegar hækkanir sorpgjalda á íbúa voru umtalsvert meiri en á fyrirtæki og stofnanir. Við ákvörðun sorpgjalda fyrir árið 2017 var ákveðið að hækka þau um 6,9%. Auk þess sem sérstaklega er nú innheimt gjald fyrir aukatunnur sem sumir íbúar velja að vera með, en þannig gjaldtaka var tekin upp á síðast liðnu ári.

Að öðru leyti höfum við mætt auknum kostnaði með því að hækka reglulega almennar gjaldskrár á fyrirtæki og gjaldskrár fyrir móttöku á spilliefnum og sóttmenguðum úrgangi. Viðskipti hafa aukist á hverju ári og það hefur einnig hjálpað til. Þegar gjaldtaka var tekin upp á gámaplönum í ársbyrjun 2012, fundum við strax fyrir mjög jákvæðum áhrifum af þeirri breytingu. Þess má geta að heimsóknir á gámaplönin í Vogum, Grindavík og í Helguvík á árinu 2016 voru um 25 þúsund og hefur fjölgað á hverju ári.

Endurnýjun starfsleyfis sorpeyðingarstöðvarinnar rann út 31. janúar 2016, en þá átti nýtt starfsleyfi að vera tilbúið. Ekki tókst að framfylgja þessu á réttum tíma vegna umfangs verkefnisins og tafa hjá Umhverfisstofnun. Töluverður tími fór í vinnu við þetta verkefni hjá okkur starfsmönnunum, en við reyndum að kaupa út sem allra minnst af utanaðkomandi aðstoð. Að endingu tókst að klára þetta og nýtt starfsleyfi leit dagsins ljós hinn 21. september 2016. Nýtt starfsleyfi mun gilda næstu 16 árin, eða til ársins 2032. Rétt er að geta þess að öll samskipti við Umhverfisstofnun hafa verið með miklum ágætum.

Umhverfisstofnunin slær þó ekkert af kröfum sínum, en gefur sig út fyrir að vera „þjónandi stofnun“ sem þýðir að starfsfólkið er mun meira leiðbeinandi en áður var. Eins og áður hefur komið fram eru útblástursmælingar í brennslunni stöðugt mældar í símælikerfi brennslustöðvarinnar þar sem allar niðurstöður eru skráðar. Auk þess hafa komið tvisvar á ári sérfræðingar frá verkfræðifyrirtæki og framkvæmt umfangsmeiri útblástursmælingar. Vegna mikillar umræðu að undanförnu um lyktarmengun o.fl. frá nýja kísilverinu í Helguvík, þá vil ég geta þess að aldrei svo að ég viti, hefur komið fram að íbúar eða aðrir hafi orðið fyrir óþægindum vegna starfsemi Kölku.

Ég hef áður talað um margvíslegar skýrslugerðir sem gera þarf á hverju ári samkvæmt ákvæðum í starfsleyfi og má þar nefna Grænt bókhald sem við birtum á heimasíðunni www.kalka.is. Gerð er ársskýrsla vegna reksturs brennslustöðvarinnar þar sem fram koma tölulegar upplýsingar um allar útblástursmælingar og fleiri gagnlegar upplýsingar. Árlega er gerð skýrsla um magntölur úrgangs o.fl. Allar mælingar og skýrslur eru sendar til Umhverfisstofnunar sem fylgist vel með því að öll skilyrði starfsleyfis séu uppfyllt.

Ýmsar auknar kröfur eru í nýja starfsleyfinu meðal annars breytingar varðandi geymslu spilliefna og botnösku og þarf að ráðast í nokkuð fjárfrekar framkvæmdir vegna þeirra. Einnig var gerð krafa um nýtt loftdreyfilíkan sem nú er í vinnslu og gerð vöktunaráætlunar og umhverfismarkmiða.

Töluverðum tíma hefur verið varið til athugunar og umræðu um framtíðarþróun félagsins og meðal annars hafa verið skoðaðir ýmsir möguleikar til þess að auka flokkun úrgangs, en kallað hefur verið eftir því frá íbúum á svæðinu. Sérstaklega verður farið yfir tillögu stjórnar SS um málið hér síðar á fundinum.

Þá hafa verið í gangi viðræður við fulltrúa Sorpu um sameiningu félaganna eins og öllum bæjarfulltrúum mun vera kunnugt um.  Skýrsla Capacent um virði Kölku og Sorpu í mögulegu sameiningarferli hefur verið send til allra sveitarfélaganna og kynning á málinu er í gangi.  Í raun hafa viðræður SS við SORPU staðið yfir með hléum allt frá því í ársbyrjun 2010, en þáverandi stjórn SS óskaði eftir viðræðunum. Á miðju ári 2012 voru viðræðurnar teknar upp að nýju með samþykki sveitarfélaganna, en þá var aftur gert hlé á viðræðunum vegna erfiðrar stöðu SS. Í maí 2016 samþykkti stjórn SS að hefja aftur viðræður við fulltrúa SORPU um mögulega sameiningu eða aukið samstarf. Formaður og varaformaður SS ásamt framkvæmdastjóra hafa annast viðræðurnar við formann, varaformann og framkvæmdastjóra SORPU  og ákváðu aðilar sameiginlega að fá ráðgjafa frá Capacent til liðs við okkur í viðræðunum eins og kunnugt er. Það er mikilvægt að fulltrúar eigenda félaganna sjái hver staðan er á þessu stigi til að geta tekið ákvörðun um hvort viðræðum skuli framhaldið.

Eftir að málið hefur verið kynnt öllum bæjarstjórnunum, verður óskað eftir afstöðu þeirra til áframhaldandi viðræðna. Það er mjög mikilvægt fyrir sveitarfélögin, eigendur fyrirtækisins að horfa til þess hvernig fyrirkomulagi í úrgangsmálum verður best fyrirkomið til framtíðar.

Fyrir þessum aðalfundi liggur tillaga um breytingu á þriðju grein samþykkta félagsins þar sem gert er ráð fyrir að álagning sorpgjalda taki mið af fjölda íbúða í hverju bæjarfélagi í stað fjölda íbúa eins og var. Samningurinn um sorphirðuna tekur mið af fjölda íláta sem sorphirðuverktakinn losar í hverjum mánuði.

Mig langar að koma aðeins inn á nokkur atriði sem eru í gangi og eru  framundan hjá félaginu og hafa sum hver í för með sér umtalsverðan kostnað.

Ég hef áður nefnt verkefni eins og gerð spilliefnaskýlis og skýli fyrir botnösku sem gerð er krafa um í nýja starfsleyfinu. Þá er framundan í næstu viku lestun á um 1300 tonnum af flugösku í skip og verður askan flutt til NOAH í Noregi. Öll tilskilin leyfi fyrir útflutningnum liggja nú fyrir.

Þá eru framundan útboð á öllum verksamningum hjá fyrirtækinu, en núgildandi verksamningar renna út í byrjun febrúar á næsta ári. Ef tillaga stjórnar SS um að hefja flokkun úrgangs við heimili á næsta ári, þarf að ráðast í kaup eða kaupleigu á sorpílátum fyrir endurvinnsluefnið sem verður flokkað frá.

Þá eru framundan verkefni til að bæta aðstöðu enn frekar og aukin þörf er á endurnýjun tækja og vinnuvéla sem óhjákvæmilegt er að fara í á þessu ári.

Ýmislegt fleira er framundan auk þess sem hér hefur verið nefnt. Má þar nefna að nú liggur fyrir skýrsla frá fyrirtækinu GRP (Geothermal Resource Park) sem sýnir fram á möguleika til að nýta afgangsvarma (orku) sem verður til við brennsluna í Kölku. Eins og áður hefur komið fram var gert ráð fyrir nýtingu afgangsvarmans frá brennslunni til framleiðslu á raforku þegar brennslustöðin var byggð og var settur upp gufuhverfill (túrbína) við stöðina í samstarfi við Hitaveitu Suðurnesja. Af ýmsum ástæðum gekk orkuframleiðslan ekki vel og eftir nokkurra ára tilraunir var ákveðið að ljúka verkefninu. Í skýrslu GRP er horft til þess að nýta gufuafl frá brennslunni og gera stöðina þannig umhverfisvænni og um leið að auka tekjur.

Við tökum þátt í ágætu samstarfi sorpsamlaga á suðvesturlandi og erum einnig þátttakendur í starfi hagsmunanefndar í úrgangsmálum á vettvangi sambands íslenskra sveitarfélaga. Um þessar mundir halda sveitarfélögin sína umhverfisdaga sem eru sjálfsagður hluti þess að bjóða sumarið velkomið. Sveitarfélögin eru með mismunandi áherslur og fyrirkomulag í þessum málum, en við kappkostum að eiga gott samstarf við þau að fegrun umhverfisins.

Góðir fundarmenn.

Ég held að ég sé búinn að fara ágætlega yfir starfsemina og er tilbúinn að sjálfsögðu til að svara spurningum sem upp kunna að koma.

En tíminn er ótrúlega fljótur að líða og auðvitað styttist í annan endann hjá mér að starfa fyrir ykkur að ruslamálunum, en ég verð sjötugur á þessu ári. Nú eru að verða liðin sex örstutt ár frá því að ég tók við starfi framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Þetta hefur verið mjög ánægjulegur tími og farið stöðugt batnandi eftir því sem meiri árangur hefur náðst og frábært að vinna með öllu þessu góða fólki sem að þessum málum hefur komið. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Góðan árangur má fyrst og fremst þakka mikilli og góðri samstöðu milli stjórnar og stjórnenda og starfsmanna fyrirtækisins sem oftar en ekki hafa unnið frábærlega að framgangi margra flókinna verkefna.

Málefni fyrirtækisins hafa á undanförnum árum verið skráð ítarlega í fundargerðir stjórnar og aðalfunda. Ég hef áður sagt það á aðalfundum að  þar er saga fyrirtækisins síðustu ár ágætlega skráð og má finna þessar upplýsingar á heimasíðunni www.kalka.is.

En ágætu fundarmenn.

Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa staðið sig vel undanfarin ár hvað varðar meðhöndlun og förgun úrgangs en nú liggur fyrir að huga þarf að framtíðinni í þessum málaflokki. Það er einlæg ósk mín að sveitarfélögunum muni áfram farnast vel í þessum málum og að þær ákvarðanir sem teknar verða um framtíðarstefnuna muni tryggja bestu niðurstöðuna fyrir íbúa svæðisins.

Ég vil að endingu færa stjórn og starfsmönnum fyrirtækisins bestu þakkir fyrir mjög góða samvinnu og frumkvæði sem hefur skilað mjög góðum árangri.

Takk fyrir.


4. Ársreikningur fyrirtækisins árið 2016

Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte kynnti ársreikning fyrirtækisins fyrir árið 2016. Heildarrekstrartekjur námu rúmum 545 milljónum króna. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsgjalda námu rúmlega 463 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam þannig rúmlega 82 milljónum króna. Heildartap ársins eftir afskriftir og fjármagnsgjöld nam rúmlega 4,8 milljónum króna samanborið við 1,3 milljóna króna tap árið 2015.  Í árslok 2016 námu heildareignir félagsins rúmlega 1.072 milljónum króna en skuldir og skuldbindingar námu rúmum 806 milljónum króna. Eigið fé er rúmlega 266 milljónir króna og eiginfjárhlutfall félagsins 24,82% samanborið við 24,51% í árslok 2015. Anna Birgitta fór yfir nokkrar skýringar, m.a. varðandi lífeyrisskuldbindingar, afskriftir og rekstrarhæfi félagsins. Eins og áður hefur komið fram, hefur rekstur og staða félagsins batnað mjög mikið undanfarin ár.


5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins

Friðjón Einarsson

Friðjón þakkaði góðan árangur sem náðst hefur í starfsemi félagsins. Hann minnti á nokkur mikilvæg mál sem eru í gangi og sagði að ekki gengi að Jón hætti sem framkvæmdastjóri og færi þannig frá hálfkláruðu verki. Hann lagði til að fundarmenn klöppuðu fyrir góðum árangri í rekstri fyrirtækisins.

Kristinn Jakobsson

Kristinn þakkaði fundarmönnum fyrir afmælissönginn sem sunginn var fyrir hann, en hann var 60 ára þennan dag. Kristinn spurði um grænt bókhald og hvort það væri gert opinbert.

Einar Jón Pálsson

Einar óskaði eftir nánari skýringum á þeim lið í ársreikningi þar sem fjallað er um lífeyrisskuldbindingar.

Jón Norðfjörð

Jón byrjaði á að þakka vinsamleg orð í sinn garð og starfsmanna.

Hann svaraði Kristni og sagði að enduskoðað grænt bókhald félagsins sé birt á heimasíðunni www.kalka.is.

Jón þakkað Einari fyrir að spyrja um lífeyrisskuldbindingar. Hann sagðist áður hafa gagnrýnt útreikningana og talið þá of háa. Jón færði fram ýmis rök sem hann taldi styðja skoðun sína og sagði að farið verði ítarlega yfir málið á þessu ári.  Hann sagði mjög brýnt að allar reiknaðar stærðir í ársreikningi væru eins réttar og mögulegt er þannig að þær sýni ekki rangar niðurstöður.

Kristinn Jakobsson

Kristinn ræddi um skuldahlutfall félagsins og framlegð sem hann taldi að þyrfti að vera 15%.

Marta Sigurðardóttir:

Marta bað um frekari skýringar varðandi lífeyrisskuldbindingar, meðal annars hvort eðlilegra væri að láta útreikninga trygginingarfræðings standa.

Anna Birgitta Geirfinnsdóttir

Anna Birgitta svaraði Mörtu og sagðist ekki hafa sérstaka ástæðu til að rengja útreikningana. Hins vegar hafi komið fram vísbendingar sem styðja nauðsyn þess að farið verði yfir málið. Meðal annar hafi skuldbindingum SS og SSS verið blandað saman og kanna þurfi hvort skiptingin þar á milli sé rétt.

Anna benti á að í endurskoðunarskýrslunni sé lögð áhersla á að þetta verði yfirfarið á þessu ári 2017.

Einar Jón fundarstjóri

Einar segir að fleiri hafi ekki kveðið sér hljóðs og leggur til að ársreikningur félagsins fyrir árið 2016 verði samþykktur. Ársreikningurinn var samþykktur  samhljóða.

6. Tillaga um breytingar á samþykktum félagsins.

Tillaga um breytingu á 3. grein samþykkta félagsins var send út með fundarboði og er texti greinarinnar eftirfarandi:

Kostnaði við uppbyggingu þjónustuþátta svo og rekstrarkostnaði, að frádregnum tekjum skal skipt milli eignaraðila í hlutfalli við íbúafjölda í hverju sveitarfélagi miðað við 1. desember næstliðið ár.

Lagt er til að þessari grein verði breytt og þá hljóði hún svo:

Kostnaði við uppbyggingu þjónustuþátta svo og rekstrarkostnaði, að frádregnum tekjum skal skipt milli eignaraðila í hlutfalli við íbúðafjölda í hverju sveitarfélagi miðað við lok næstliðins árs. Með íbúðafjölda er átt við allar fasteignir sem bera fasteignagjöld skv. A flokki.

Jón Norðfjörð

Jón fór yfir og skýrði ástæður þess að tillagan er borin fram. Sagði mun eðlilegra að miða sorpgjöld við íbúðafjölda frekar en íbúafjölda þar sem greitt er til verktakans fyrir hvert ílát sem losað er. Jón bað fundarmenn að samþykkja tillöguna.

Kristinn Jakobsson

Kristinn spurði hvort hægt væri að koma með tillögu um aðra breytingu á samþykktum félagsins um flokkun úrgangs.

Einar fundarstjóri taldi það ekki mögulegt og Jón N. benti á atriði inn á heimasíðu félagsins um flokkun og taldi eðlilegra að líta á ákvarðanir um flokkun sem hvert annað rekstrarmál.

Tillagan um breytingu á samþykktum borin upp og samþykkt samhljóða.

7. Kosning endurskoðanda

Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte ehf. verði endurskoðandi félagsins.

Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.


8. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna.

Að formaður stjórnar fái 4% af þingfararkaupi fyrir hvern fund, aðrir stjórnarmenn fái 3% af þingfararkaupi fyrir hvern fund.

Birgir Már Bragason formaður

Birgir fór yfir tillöguna vegna spurningar úr sal um hvort komið hafi til tals að breyta viðmiðun um stjórnarlaun og sagði Birgir svo ekki hafa verið.

Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.


9. Kynning á tillögu stjórnar SS um sorpflokkun við heimili á Suðurnesjum.

Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri kynnti tillögu stjórnar SS um að stefnt verði að því að tekin verði upp flokkun úrgangs við heimili á Suðurnesjum á árinu 2018.

Kynningin var á 26 glærum þar sem ítarlega var farið yfir forsögu málsins og þá vinnu sem lögð hefur verið í undirbúning málsins.

Fram kom meðal annars, að leitað var upplýsinga og kynninga hjá mörgum fyrirtækjum sem veita sveitarfélögum flokkunarþjónustu við heimili. Gerðar voru ýmsar greiningar og skoðaðar voru mismunandi leiðir með tilliti til þess sem fyrirtæki bjóða upp á og hagkvæmt væri fyrir Kölku og íbúana.

Eftir þessa ítarlegu yfirferð ákvað stjórn SS að leggja það til að tekið verði upp tveggja tunnu kerfi, grá og græn tunna, þar sem gráa tunnan er fyrir almennan úrgang, lífrænan o.fl. sem ekki á samleið með endurvinnsluefni. Efnið í gráu tunnunni fer í brennslu.

Græna tunnan er fyrir blandaðan úrgang til endurvinnslu. Blandaður úrgangur mundi samanstanda af dagblöðum og tímaritum, bylgjupappa og sléttum pappa, fernum hvers konar, plastumbúðum og minniháttar málmhlutum.

Blandaði úrgangurinn fer í móttökustöð þar sem hann er flokkaður og sendur í endurvinnslu.

Þar sem tveggja tunnu kerfi er í gangi, er gert ráð fyrir að gráa tunnan sé losuð á tveggja vikna fresti, en að græna tunnan sé losuð á fjögurra vikna fresti.

Ágætar umræður urðu um tillöguna og tóku margir fundarmanna til máls:

Einar Jón Pálsson lýsti ánægju með tillöguna, en benti á að hún verði ekki til afgreiðslu á þessum fundi, heldur send sveitarfélögunum til afgreiðslu.

Kristinn Jakobsson ræddi um kostnað og spurði hversu dýrt þetta yrði.

Marta Sigurðardóttir sagði löngu tímabært að hefja flokkun sorps og sagði það ekki spurningu um kostnað heldur bætt umhverfi.

Ólafur Þór Ólafsson þakkaði fyrir þennan góða fund og vildi taka undir með Friðjóni og sagðist óska okkur öllum til hamingju með góðan rekstur félagsins. Ólafur sagði okkur Íslendinga vera talsvert á eftir öðrum þjóðum hvað varðaði sjálfbærni og nefndi m.a. Finnland í því sambandi.

Kristinn Jakobsson tók undir með Mörtu um að kostnaður væri ekki aðalatriðið. Hann benti á að börn í leikskólum væru búin að alast upp við sorpflokkun þar en ekki heima hjá sér. Nú stendur til að bæta úr þessu sagði Kristinn.

Bergur Álfþórsson sagðist fagna þessu framtaki og að þetta fyrsta skref væri ágætt, en hann sagðist telja fulla ástæðu til að taka tvö skref og fara í þriggja tunnu kerfi. Hann sagði að kannski mætti bjóða þann valkost einnig við útboð.

Ingþór Guðmundsson sagðist geta tekið undir með Bergi og benti á að nú standi yfir viðræður við Sorpu um sameiningu fyrirtækjanna og þá mætti gera ráð fyrir að Sorpa mundi vilja leggja línurnar hvað þessa framkvæmd varðar. Hann taldi ákvörðun um þessi mál tengjast nokkuð. Hann sagði það dýrara að flokka sorpið eftir á frekar en að flokka það betur við heimilin.

Jóngeir Hlinason lýsti ánægju með starfsemi félagsins, sagði stöðuna ekki hafa verið góða fyrir fáum árum þegar hann sat stjórnarfundi. Jóngeir ræddi um tunnugerði við heimahús og sagði víðast hvar aðeins gert ráð fyrir einni tunnu og bæta þyrfti úr því. Hann sagði að þó að oft væri lygnara í Vogum en víða annars staðar á Suðurnesjum þá væri slæmt að hafa fjúkandi tunnur út um allt.

Ingþór Guðmundsson sagði að með flokkun væri ekki verið að bæta við úrgangi. Hann sagðist sannfærður um að þetta mundi ekki auka kostnað, losunartíðni yrði ekki meiri, en stofnkostnaður yrði nokkur.

Einar Jón sagðist ekki hafa áhyggjur af kostnaðinum, það hafi verið niðurstaða þess verkefnis sem hann fór í að þetta gæti verið ódýrara. Hann taldi að tíminn til að gera þetta núna væri hárréttur, það mundi lengja tíman sem hægt væri að nota stöðina án þess að byggja við. Hann sagðist vera sammála niðurstöðu stjórnar um að fara í tveggja tunnu kerfi.

Marta nefndi það að kannski mætti koma fyrir grenndargámum þannig að fólk gæti aðlagað sig breytingunni.

Jón Norðfjörð þakkaði góðar umræður. Hann sagði að ekki lægi ljóst fyrir hvort verkefnið hefði í för með sér breytingar á sorpgjöldum, það mundi skýrast betur þegar búið verður að bjóða verkefnið út. Jón sagði ljóst að stofnkostnaður verði umtalsverður m.a. vegna kaupa á sorpílátum og kynningu á verkefninu.

Jón sagði að erindi yrði sent til allra sveitasrfélaganna og óskað eftir afstöðu bæjarstjórnanna til tillögu stjórnarinnar.


10. Önnur mál.

Engin mál voru tekin fyrir undir þessum lið.

Ólafur Þór Ólafsson sagði nauðsynlegt varðandi viðræður SS og Sorpu um mögulega sameiningu, að sveitarfélögin ræddu málið sín á milli. Hann sagðist telja að hægt væri að boða til eigendafundar þar sem sveitarfélögin gætu tekið umræðuna og jafnvel sameiginlega ákvörðun í málinu. Hann vildi beina þessu til stjórnar SS.

Einar Jón fundarstjóri þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund og góðar umræður. Hann gaf svo framkvæmdastjóra orðið.

Jón Norðfjörð þakkaði vinsamleg orð í sinn garð og fyrirtækisins og þakkaði fundarmönnum fyrir góðan og málefnalegan fund. Hann þakkaði fundarstjóra og fundarritara fyrir þeirra störf. Jón sagðist hefði viljað sjá fleiri bæjarfulltrúa á fundinum, en stundum væri margt sem kallaði og ekki gæti fólk verið alls staðar í einu. Jón sleit síðan fundi.

Fleira var ekki gert og var fundi slitið kl. 17:19.

Kári Húnfjörð, fundarritari
Einar Jón Pálsson, fundarstjóri

39. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf á PDF formi, hentugt til útprentunar

Til baka