Aðalfundur SS 2018

5.9.2018

Fundargerð

40. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn mánudaginn 27. ágúst 2018 kl. 15:30 í fundarsalnum Merkinesi í Hljómahöll í Reykjanesbæ.

Dagskrá:

1.   Fundarsetning. Formaður minnist stofnunar félagsins 1978.

2.   Kosning fundarstjóra og fundarritara.

3.   Skýrsla stjórnar, Birgir Már Bragason, stjórnarformaður og Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri.

4.   Reikningar félagsins árið 2017, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi félagsins.

5.   Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.

6.   Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins.

7.   Tilnefningar í stjórn félagsins.

8.   Kosning endurskoðanda.

9.   Tillaga um þóknun til stjórnarmanna.

10.  Önnur mál.


1. Fundarsetning

Birgir Már Bragason formaður stjórnar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Formaður minntist stofnunar félagsins árið 1978 með eftirfarandi orðum:

Á þessu ári eru liðin 40 ár frá stofnun Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. Aðdragandinn að stofnun félagsins var að samstarf náðist við varnarmáladeild Utanríkisráðuneytisins um að sveitarfélögin tækju að sér sorpeyðingu fyrir Varnarliðið. Á fyrsta fundi fulltrúa sveitarfélaganna vegna undirbúnings að stofnun félagsins sem haldinn var 1. ágúst 1978, var lagt fram bréf frá Utanríkisráðuneytinu þar sem því var lýst yfir að varnarmáladeildin hafi fallist á eftirfarandi atriði:

1.   Að væntanleg sorpeyðingarstöð verði staðsett innan varnarsvæða.

2.   Að stöðin verði eign sveitarfélaganna undir nafninu Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf. og rekin af því félagi.

3.   Að stöðin taki að sér verktöku fyrir Varnarliðið og annist alla sorpeyðingu fyrir það samkvæmt nánara samkomulagi.

Í framhaldi var gerður samningur við franska fyrirtækið Laurent Bouillet um kaup á sorpbrennslustöð sem var staðsett á varnarsvæði við Hafnaveg. Bygging brennslustöðvarinnar gekk vel og var hún formlega gangsett hinn 31. ágúst 1979. Áætlaður kostnaður við byggingu brennslunnar var 2.650.000 dollarar og var samið um að hlutur Varnarliðsins yrði 1.450.000. dollarar. Aðalmenn í fyrstu stjórn félagsins voru:

Ellert Eiríksson frá Keflavík, Albert Karl Sanders frá Njarðvík, Eiríkur Alexandersson frá Grindavík, Gylfi Gunnlaugsson frá Sandgerði, Þórður Gíslason frá Garði, Gunnar Jónsson frá Vogum og Jósep Borgarsson frá Höfnum. Stofnsamningur félagsins var lagður fram samþykktur og undirritaður af öllum sveitarfélögunum á fundi hinn 27. nóvember 1978. Stjórnin skipti þá með sér verkum og var Albert Karl Sanders kosinn formaður, Ellert Eiríksson varaformaður og Eiríkur Alexandersson ritari.

Í tilefni af þessum tímamótum í sögu félagsins samþykkti stjórnin að færa Heilbrigðisstofnun Suðurnesja peningagjöf að upphæð 1.500.000 krónur til tækjakaupa og var gjafabréfið afhent Halldóri Jónssyni forstjóra HSS í morgun.


2. Kosning fundarstjóra og fundarritara

Birgir lagði til að Ellert Eiríksson verði fundarstjóri og var það samþykkt samhljóða. Birgir sagði af þessu tilefni eftirfarandi: „Það er mjög ánægjulegt að Ellert Eiríksson gat séð sér fært að vera með okkur hér í dag. Eins og fram kom í upphafsorðum mínum, var Ellert í fyrstu stjórn félagsins og var þannig þátttakandi í að móta upphaf starfsemi sorpeyðingarstöðvarinnar. Eins og flestir vita hefur Ellert unnið að bæjarmálum nánast alla sína tíð og gegnt ýmsum störfum. Hann var meðal annars yfirverkstjóri hjá Keflavíkurbæ, sveitarstjóri Gerðahrepps, bæjarstjóri í Keflavík og fyrsti bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Ellert var gerður að heiðursborgara í Reykjanesbæ árið 2016.“

Ellert tók við fundarstjórn og lagði til að Jóhann Rúnar Kjærbo starfsmaður hjá SS verði fundarritari og var það samþykkt samhljóða. Ellert tilkynnti að mættir væru fulltrúar allra eignaraðila og að fundurinn hafi verið löglega boðaður. Engar athugasemdir komu fram.


3. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra

Birgir Már Bragason, stjórnarformaður og Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri fluttu skýrslu fyrir árið 2017:

Fyrst tók Birgir Már formaður stjórnar til máls.

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.

Fyrir hönd stjórnar félagsins býð ég ykkur öll velkomin á þennan 40. aðalfund Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. Ég mun fara lauslega yfir nokkur atriði í starfsemi félagsins og síðan mun Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri taka við og fara ítarlega yfir starfsemina síðast liðið ár.

Stjórn félagsins er að ljúka sínu fjórða starfsári og um leið störfum sínum fyrir félagið. Eins og allir vita þá voru bæjarstjórnakosningar síðast liðið vor og nú í kjölfarið munu nýjir aðilar taka við keflinu af fráfarandi stjórn. Fjárhagur félagsins hefur batnað til muna á undanförnum árum. Eins og fram kemur í ársreikningi félagsins fyrir árið 2017 voru heildar rekstrartekjur tæpar 623 milljónir króna. Rekstargjöld voru rúmar 525 milljónir króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld er rúmar 97 milljónir króna. Eigið fé félagsins er rúmar 275 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið er 26,03%. Anna Birgitta Geirfinnsdóttir endurskoðandi félagsins mun hér á eftir fara betur yfir tölulegar upplýsingar í ársreikningi.

Það má með sanni segja að kjörtímabilið hefur verið mjög áhugavert og lærdómsríkt. Stjórnarfundir á árinu voru 12, auk annarra funda og verkefna. Félagið hefur á flestum sviðum eflst til muna og reksturinn hefur gengið vel. Mörg verkefni bæði stór og smá hafa litið dagsins ljós og fengið farsæla niðurstöðu.

Helstu verkefnin sem snúa að stjórninni hafa án efa verið viðræður SS og Sorpu um mögulega sameiningu og að vinna að því að flokkun á sorpi við heimili verði tekin upp. Eins og flestir vita þá eru sameiningarviðræður SS og Sorpu í fullri vinnslu með aðstoð ráðgjafa frá Capacent. Sú vinna gengur vel og stutt er í að boðaður verði til kynningarfundar með bæjarfulltrúum sveitarfélaganna. Þá ætti að liggja fyrir hver næstu skref geta orðið. Vonandi munu bæjarfulltrúar halda áfram að taka vel undir þá vinnu sem búið er að vinna í þessu stóra máli og horfa til framtíðar varðandi ákvaðranatöku um sameiningu.

Flokkun á rusli við heimili er að fara af stað í bæjarfélögunum um þessar mundir og eflaust mun taka einhvern tíma að aðlaga íbúana að verkefninu. Vonandi mun þetta ganga vel fyrir sig. Næstu daga mun grænum endurvinnslutunnum verða dreift til allra heimila ásamt kynningarbæklingi þar sem fram kemur á þremur tungumálum hvaða efni má setja í endurvinnslutunnuna. Stjórnin hvetur alla bæjarbúa til að taka þessu verkefni með opnum örmum.

Á síðasta aðalfundi ræddi ég um að með aukinni fólksfjölgun hér á svæðinu og með allri þeirri uppbyggingu sem einnig á sér stað, þá styttist verulega í að brennslustöðin verð allt of lítil. Sorp sem berst til brennslu í Kölku eykst ár frá ári og er brennslustöðin full nýtt og hefur svo verið í raun síðustu 3 til 4 ár. Einnig má segja að brennslustöðin sé að vissu leyti barn síns tíma þar sem ekki er hægt að brenna þar allan brennanlegan úrgang sem berst til stöðvarinnar. Nú er staðan þannig að  flytja þarf mikið magn af rusli frá stöðinni til urðunar hjá SORPU. Á síðasta ári nam kostnaður vegna þessa um 58 milljónum króna. Í þessu samhengi tel ég að við þurfum að fara að horfast í augu við það að stækka brennsluna og stækka móttökuhlaðið á næstu árum.

Ég vil koma því að hér að ég er frekar hissa á miklum breytingunum í stjórn félagsins sem bæjarfélögin ákveða. Kalka er mjög mikilvægt fyrirtæki í okkar samfélagi og þess vegna finnst mér nauðsynlegt að eigendurnir láti hagsmuni félagsins sitja fyrir. Það tekur þó nokkurn tíma fyrir stjórnarmenn að koma sér inn í málin og miðað við þau verkefni sem framundan eru hjá félaginu, tel ég ekki gott að skipta allri stjórninni út nema einum fulltrúa. Ég efast ekki um að gott fólk er að koma inn í stjórnina og í raun bind ég miklar vonir við að það fólk haldi áfram og vinni vel með þau verkefni sem fráfarandi stjórn hefur verið að vinna að. Fyrir þremur árum var samþykktum félagsins breytt þannig að stjórnin skiptir með sér verkum eftir hvern aðalfund. Mín ráð til næstu stjórnar er að kjósa sér formann sem mun gegna því embætti næstu fjögur árin. Ég tel að reynslan hafi sýnt að það hafi reynst vel á nýliðnu kjörtímabili.

Samstarf stjórnar og framkvæmdastjóra hefur verið með miklum ágætum og vil ég þakka sérstaklega fyrir það. Einnig vil ég þakka starfsfólki félagsins fyrir þeirra góðu störf og mjög gott samstarf.

Að lokum óska ég nýrri stjórn alls hins besta næstu fjögur árin.

Takk fyrir mig.

Þá var komið að Jóni Norðfjörð framkvæmdastjóra

Fundarstjóri góðir fundarmenn.

Ég vil byrja á að lýsa ánægju með góða mætingu á þennan fund og svo er mjög ánægjulegt að Ellert Eiríksson gat séð sér fært að vera með okkur hér í dag. Ég kynntist Ellert fyrst þegar ég tók sæti í stjórn sorpeyðingarstöðvarinnar á 2. aðalfundi félagsins árið 1980 og áttum við Ellert samleið þar sem stjórnarmenn um nokkurra ára skeið. Hann var auðvitað manna fróðastur um málefni félagsins og góður lærimeistari okkar sem komu nýir að verkefninu.

Nú er ég hér á mínum áttunda aðalfundi sorpeyðingarstöðvarinnar frá því að ég tók við starfi framkvæmdastjóra félagsins hinn 1. júlí 2011 og væntanlega þeim síðasta. Þessi tími hefur verið mjög skemmtilegur, áhugaverður, oft erfiður, en sem betur fer mjög árangursríkur og ekki síst lærdómsríkur fyrir mig og stjórnarmenn sem og góða og öfluga starfsmenn sem hafa tekið þátt í miklum breytingum til framfara hjá félaginu á þessum tíma. Á eftir ætla ég að stikla á stóru yfir þetta tímabil frá 2010 til 2018 með glærum svona til upprifjunar og gamans, ekki síst fyrir þá sem hér koma nýir til starfa að sveitarstjórnarmálum.

En fyrst ætla ég að ræða helstu verkefni síðasta starfsárs hjá félaginu sem að venju var viðburðaríkt og unnið var að ýmsum góðum málum.

Viðræður við SORPU um sameiningu

Nú til dags vega umhverfismál mjög þungt í okkar daglega lífi. Þar eru úrgangsmálin risavaxið verkefni sem sveitarfélög bera samkvæmt lögum ábyrgð á að miklu leyti.

Viðræður við SORPU um sameiningu hafa að þessu sinni staðið yfir frá  miðju ári 2016. Ítarlegar upplýsingar um gang mála hafa komið fram í fundargerðum ásamt því að málið var kynnt í öllum sveitarstjórnum. Eigendafundur var síðan haldinn 21. september síðast liðinn þar sem staða málsins var kynnt. Fulltrúar Capacent sem hafa unnið með stjórnum félaganna fóru meðal  annars yfir tölulegar upplýsingar um mögulega skiptingu eignarhluta félaganna í sameinuðu fyrirtæki. Fyrirliggjandi upplýsingar gera ráð fyrir að hlutur eigenda SORPU verði um 90% og hlutur eigenda SS verði um 10%. Góðar umræður voru á fundinum og mörgum fyrirspurnum svarað.

Í framhaldi af kynningarfundinum samþykktu allar bæjarstjórnir sveitarfélaganna að viðræðum yrði framhaldið.

Nú snúast viðræðurnar um mótun á sameiginlegri framtíðarsýn og að  í lok viðræðna verði lagt fyrir sveitarstjórnir eigendasamkomulag til umræðu og afgreiðslu.

Einhverjir kunna að spyrja, af hverju eru SS og SORPA að ræða mögulega sameiningu?

Því er meðal annars til að svara, að til margra ára hefur sú lagaskylda hvílt á sveitarfélögum að annast meðhöndlun úrgangs til förgunar og/eða endurvinnslu. Bætt umhverfisvitund og skilningur á nauðsyn þess að hafa þennan málaflokk í sem bestu lagi, hefur haft í för með sér mjög auknar kröfur. Með auknum og flóknari kröfum sem stjórnvöld setja hefur kostnaður aukist umtalsvert. Þessi þróun hefur leitt af sér aukið samstarf sorpsamlaga og þannig hafa stjórnendur áttað sig betur á því að enn meiri hagræðing gæti verið fólgin í sameiningu fyrirtækjanna. Framvinda mála gæti mögulega verið á þá leið að mun meiri áhersla verði lögð á endurvinnslu úrgangsefna, metangas verði framleitt í auknu mæli úr lífrænum úrgangi, þörf fyrir aukna brennslugetu fer vaxandi og þarf að leysa innan stutts tíma og tryggja þarf svæði til lengri framtíðar fyrir urðun þeirra efna sem alls ekki er mögulegt að vinna úr með öðrum hætti.

Sorpfyrirtækin hafa starfað með mismunandi hætti og í mörgum tilfellum þurft að reiða sig á aðstoð hvers annars. Sveitarfélögin á Suðurnesjum reka brennslustöðina Kölku, en hafa engan urðunarstað á sínu svæði og þurfa þ.a.l. að treysta á aðra í þeim efnum. Félagið rekur þrjár endurvinnslustöðvar í Helguvík, Grindavík og Vogum. Undanfarin ár hefur afkastageta brennslustöðvarinnar Kölku verið fullnýtt þrátt fyrir að flokkun efna í stöðinni hafi aukist talsvert. Það er ekki hægt að brenna öll óendurvinnanleg úrgangsefni í Kölku og talsvert magn úrgangs þarf þess vegna að flytja til urðunar í SORPU.

Á höfuðborgarsvæðinu eiga sveitarfélögin og reka sameiginlega SORPU sem er með fjölþætta úrgangsstarfsemi. Þar er rekin sorpflokkunarstöð, endurvinnsluefni unnið til útflutnings, þar er stærsti urðunarstaður á landinu, framleiðsla á metangasi og fleira. Hinn 17. ágúst s.l. var fyrsta skóflustungan tekin að byggingu nýrrar gas- og jarðgerðarstöðvar sem mun vinna metangas úr öllum lífrænum úrgangsefnum sem berast til stöðvarinnar. Þegar gas- og jarðgerðarstöðin tekur til starfa, mun urðun á lífrænum úrgangi verða hætt. SORPA á og rekur Góða hirðinn, sem er verslun með nytjahluti og einnig rekur SORPA sex endurvinnslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Töluvert magn spillefna berast til SORPU sem ekki má urða og eru þau efni send til brennslu í Kölku.

Sveitarfélög munu áfram þurfa að axla þá ábyrgð að móttaka og ráðstafa mest öllum úrgangi sem til verður. Gert er ráð fyrir að magn úrgangs muni aukast talsvert á næstu árum eins og þróunin hefur verið síðustu misseri og ár. Reynslan sýnir að sveitarstjórnarfólk og aðrir sem að þessum málum standa hafa fyrst og fremst haft hagkvæmnissjónarmið að leiðarljósi. Það er auðvitað markmið allra sem að þessum málaflokki koma, að leita alltaf bestu og hagkvæmustu leiða til úrlausna, bæði umhverfis- og fjárhagslega. Með viðræðum um mögulega sameiningu SS og SORPU er markmiðið að reyna að leiða í ljós hvort það geti verið besta leiðin til að ná hámarks hagkvæmni í framtíðarskipan úrgangsmeðhöndlunar fyrir Suðurnesin og Höfuðborgarsvæðið og þannig verði jafnframt sem best tryggð öll umhverfisleg áhrif.

Í sameinuðu félagi má mögulega auka líftíma þeirra úrræða sem til staðar eru með því að eigendur hins sameinaða félags geti stýrt hagnýtingu kosta með hagkvæmari hætti og umhverfisvænni en ætla má að félögin geti gert hvort í sínu lagi.

Sorpflokkun við heimili samþykkt af stjórn og sveitarfélögum

Á síðasta aðalfundi var ítarleg kynning á samþykkt stjórnar SS að hefja flokkun úrgangs við heimili á þessu ári. Kynningin var unnin í framhaldi af viðamikilli skoðun á ýmsum mismunandi möguleikum og leiðum að verkefninu. Það sem helst var haft til hliðsjónar við þá skoðun voru eftirfarandi atriði:

1.    Hvernig samsetning úrgangs er best fyrir brennslustöðina.

2.    Hvaða úrgangsefni er betra að losna við úr brennslunni.

3.    Hvaða flokkunarleið og aðfer hentar best í byrjun.

4.    Hvernig má tryggja nægilegt magn úrgangs til brennslu í stað þess magns sem flokkað verður til endurvinnslu.

5.    Hver hefur þróun sorpgjalda verið hjá sveitarfélögum þar sem úrgangur er flokkaður við heimili.

Talsverð undirbúningsvinna fór fram og ýmissa nauðsynlegra gagna var aflað og nokkrir aðilar sem þekkja til þessara mála mættu á stjórnarfundi SS og kynntu sín verkefni og sjónarmið.

Það er skemmst frá því að segja, að nú er unnið að dreifingu á endurvinnsluílátum í öllum sveitarfélögunum og í framhaldinu verður breyting á sorphirðutíðni og fleiru. Verkefnið er kynnt með bæklingi á þremur tungumálum sem sendur er í öll hús. Einnig er verkefnið kynnt með öðrum hætti.

Útflutningur á flugösku

Í maí á síðasta ári voru flutt út til NOAH í Noregi tæplega 1300 tonn af flugösku sem höfðu safnast upp frá því í október 2014. Eins og fram hefur komið er flugaskan geymd í húsnæði félagsins að Fitjabraut 10 í Njarðvík. Samningur við NOAH um móttöku og meðhöndlun á öskunni var undirritaður í janúar 2015 eftir að NOAH hafði móttekið um 5000 tonn af flugösku sem hafði safnast upp frá því að brennsla hófst í Kölku árið 2004. Samningurinn við NOAH gildir út árið 2019, en framlengist sjálfkrafa um eitt ár í senn ef hvorugur aðili segir honum upp.

Undirbúningur að byggingu á spillefnaskýli og botnöskuskýli

Í nýju starfsleyfi félagsins sem tók gildi í september 2016 og gildir til ársins 2032, voru gerðar ýmsar kröfur sem ekki voru í eldra starfsleyfi. Meðal þess var að byggð yrðu skýli fyrir móttöku spilliefna og geymslu á botnösku. Verkfræðistofa Suðurnesja hannaði verkefnið og teiknaði ásamt því að gera útboðsgögn. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar samþykkti framkvæmdirnar og einnig kom jákvæð umsögn frá Umhverfisstofnun. Að því búnu var auglýst útboð, en ekkert tilboð barst í verkið. Það reyndist ekki auðvelt að fá aðila til að taka að sér þetta verkefni, en nú hefur verið gert samkomulag við fyrirtækið HUG verktaka ehf. um að byggja skýlin og er samkomulagið á grundvelli kostnaðaráætlunar sem verkfræðistofan gerði.

Uppsögn verksamninga og útboð nýrra verksamninga

Öllum verksamningum sem gilt hafa síðast liðin sex ár var sagt upp með lögmætum fyrirvara. Um er að ræða samninga um sorphirðu, flutninga innan lóðar, flutninga til og frá starfstöðvum félagsins, sölu á ýmsum úrgangsefnum og fleira. Með útboði nýrra samninga var gert ráð fyrir þeirri breytingu að sorpflokkun við heimili yrði tekin upp. Útboðið gekk mjög vel og fengust mjög hagstæðir samningar. Samið var við Gámaþjónustuna um sorphirðu á gjaldi sem er um 80% af kostnaðaráætlun, Íslenska gámafélagið um alla efnisflutninga á gjaldi sem er um 90% af kostnaðaráætlun. Þá var samið við nokkra verktaka um kaup á ýmsum úrgangsefnum svo sem á málmum, bylgjupappa, hjólbörðum, rafgeymum og fleiru.

Samskipti við Umhverfisstofnun

Öll samskipti við Umhverfisstofnun hafa verið mjög góð, en rétt er að taka fram að stofnunin slær þó ekkert af kröfum sínum og hefur gott eftirlit með því að ákvæðum starfsleyfis og viðeigandi reglugerðum sé  fylgt. Í brennslustöðinni eru útblástursmælingar stöðugt mældar í símælikerfi stöðvarinnar þar sem allar niðurstöður eru skráðar. Auk þess eru umfangsmeiri útblástursmælingar framkvæmdar af sérfræðingum frá verkfræðifyrirtæki. Margvíslegum skýrslum þarf að skila til Umhverfisstofnunar á hverju ári samkvæmt ákvæðum í starfsleyfi og má þar nefna Grænt bókhald sem við birtum á heimasíðunni www.kalka.is., ársskýrslu vegna reksturs brennslunnar  þar sem fram koma tölulegar upplýsingar um allar útblástursmælingar og fleiri gagnlegar upplýsingar. Árlega er gerð skýrsla um magntölur úrgangs o.fl. Allar mælingar og skýrslur eru sendar til Umhverfisstofnunar sem fylgist vel með því að öll skilyrði starfsleyfis séu uppfyllt eins og fyrr segir.

Viðhaldsverkefni

Fastur liður á hverju ári er að sinna margvíslegum viðhaldsverkefnum og fyrirbyggjandi aðgerðum af ýmsu tagi í brennslustöðinni og vegna þess þurfti að stöðva brennsluna í um 3 vikur á árinu 2017. Mest áhersla hefur verið lögð á viðhald á brennslulínunni sem er hjartað í fyrirtækinu. Einnig höfum við kappkostað að endurnýja ýmis tæki og vinnuvélar eftir þörfum. Unnið hefur verið að ýmsu til að betrum bæta aðstöðu starfsmanna og starfsmannamál hafa verið í góðu lagi og ekki hefur verið mikil starfsmannavelta. Þó hefur þurft aukinn starfskraft að undanförnu vegna aukningar verkefna.

Móttekin úrgangur – aukin viðskipti

Starfsemi félagsins á árinu 2017 gekk almennt vel og mjög mikil aukning varð á viðskiptum miðað við árið á undan. Ég vil minna á að brennslustöðin er fullnýtt eins og hún hefur í raun verið sl. 3 til 4 ár og því miður höfum við þurft að vísa viðskiptum frá. Heildarmagn úrgangs sem barst til fyrirtækisins árið 2017 var um 18.500 tonn og er það tælega 4000 tonna aukning frá árinu 2016. Aukningin hefur aldrei verið eins mikil á milli ára. Í brennslustöðinni voru brennd rúmlega  11.500 tonn sem er um 500 tonna aukning miðað við árið á undan. Frákeyrt magn úrgangs sem fór til endurnýtingar eða endurvinnslu voru rúmlega 2.000 tonn og til urðunar fóru tæplega 7.000 tonn, en þar af var botnaska um 1.900 tonn. Allur úrgangur sem þurfti að urða var fluttur til SORPU.

Í heildina var frákeyrt magn úrgangs því um 9.000 tonn.

Gjaldskrármál

Mörg síðustu ár hefur stjórn félagsins reynt að halda sorpgjöldum á húseigendur eins hóflegum og unnt hefur verið. Aftast í fundargögnum ykkar er skjal sem sýnir þróun sorpgjalda í um 30 sveitarfélögum frá árinu 2012 til og með 2018. Eins og sjá má í skjalinu hafa sorpgjöld á Suðurnesjum aðeins hækkað um rúm 14% á þessu sjö ára tímabili sem er töluvert undir verðlagsþróun. Almennar gjaldskrár á fyrirtæki og vegna móttöku á spilliefnum og sóttmenguðum úrgangi hafa fylgt verðlagsþróun og tekið leiðréttingum frá fyrri tíð. Viðskipti hafa aukist á hverju ári og það hefur komið sér vel við að bæta fjárhagsstöðu félagsins. Hófleg gjaldtaka á gámaplönum var tekin upp í ársbyrjun 2012 og hafði sú ákvörðun verulega jákvæð áhrif á reksturinn. Þess má geta að heimsóknir á gámaplönin í Vogum, Grindavík og í Helguvík á árinu 2017 voru um 26 þúsund og hefur fjölgað á hverju ári.

Endurskoðun svæðisáætlunar fyrir Suðvesturland

Ég vek athygli ykkar á því að sorpsamlögin á Suðvesturlandi vinna nú sameiginlega að endurskoðun svæðisáætlunar í úrgangsmálum fyrir tímabilið 2019 til 2030. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki á næsta ári. Við höfum einnig tekið virkan þátt í vel skipulögðu samstarfi um hagsmunagæslu sorpsamlaga sveitarfélaga á landinu á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Kynning á starfsemi félagsins 2010 til 2018

Áður en ég lýk máli mínu, ætla ég að rifja upp í stuttu máli starfsemi félagsins síðustu tvö kjörtímabil. Eins og ég sagði í byrjun er þetta væntanlega minn síðast aðalfundur sem framkvæmdarstjóri og ég tel góða ástæðu til að rifja aðeins upp með ykkur starfsemi félagsins síðustu ár. Þó að sum ykkar þekki þennan tíma, þá er hér mikið af nýju fólki sem mun á næstu árum takast á við krefjandi verkefni fyrir sín sveitarfélög. (JN fer yfir málið með glærukynningu)

Góðir fundarmenn

Á þessum aðalfundi liggja fyrir fimm tillögur frá stjórn um breytingar á samþykktum félagsins. Tillögurnar hafa komið fram í fundargerð og voru sendar til ykkar með fundarboði. Ég vil vekja athygli ykkar á því að málefni fyrirtækisins hafa á undanförnum árum verið skráð ítarlega í fundargerðir stjórnar og aðalfunda. Í raun má þar lesa sögu félagsins síðustu ár og þessar upplýsingar má finna á heimasíðu félagsins www.kalka.is.

Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa staðið saman að meðhöndlun og förgun úrgangs síðast liðin 40 ár. Nú þarf að huga að framtíðinni í þessum málaflokki.  Það er einlæg von mín að sveitarfélögunum muni áfram farnast vel í þessum málum og að þær ákvarðanir sem teknar verða um framtíðarstefnuna muni tryggja bestu niðurstöðuna fyrir íbúa svæðisins. Fyrir mig hafa síðustu rúm 7 ár sem framkvæmdarstjóri félagsins verið mjög góður og ánægjulegur tími og farið stöðugt batnandi eftir því sem meiri árangur hefur náðst. Svo hefur auðvitað verið frábært að fá að vinna með öllu þessu góða fólki sem að þessum málum hafa komið. Góðan árangur má fyrst og fremst þakka mikilli og góðri samstöðu milli stjórnar og stjórnenda og starfsmanna félagsins sem oftar en ekki hafa unnið frábærlega að framgangi margra flókinna verkefna.

Ég held að ég sé búinn að fara ágætlega yfir starfsemina og er að sjálfsögðu tilbúinn til að svara spurningum ykkar.

Ég vil að endingu færa fráfarandi stjórn og starfsmönnum félagsins bestu þakkir fyrir mjög góða samvinnu og frumkvæði sem hefur skilað félaginu mjög góðum árangri.

Takk fyrir.


4. Ársreikningur félagsins árið 2017

Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte kynnti ársreikning fyrirtækisins fyrir árið 2017. Heildarrekstrartekjur námu 622,6 milljónum króna. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsgjalda námu 525,4 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam þannig 97,2 milljónum króna. Hagnaður ársins eftir afskriftir og fjármagnsgjöld var 9,2 milljónir króna samanborið við 4,8 milljóna króna tap árið 2016. Í árslok 2017 námu heildareignir félagsins rúmlega 1.057,8 milljónum króna en skuldir og skuldbindingar námu rúmum 782,5 milljónum króna. Eigið fé er rúmlega 275 milljónir króna og eiginfjárhlutfall félagsins 26,03% samanborið við 24,82% í árslok 2016. Anna Birgitta fór yfir nokkrar skýringar, m.a. rekstrarhæfi félagsins og fleira. Eins og áður hefur komið fram, hefur rekstur og staða félagsins batnað mjög mikið undanfarin ár.

5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins

Einar Jón Pálsson þakkaði fráfarandi formanni og framkvæmdarstjóra fyrir ítarlegar og greinargóðar skýringar og skýrslur. Einar Jón þakkaði framkvæmdarstjóra fyrir hversu ítarlega saga félagsins er skráð í fundargerðir félagsins. Þá tók hann undir þá skoðun formannsins að óheppilegt væri að skipta út allri stjórninni á sama tíma og hvatti nýja stjórn til að kjósa sér formann til næstu fjögurra ára ef hægt er í staðinn fyrir að skipta út reglulega.

Ekki tóku fleiri fundarmenn til máls undir þessum lið.

Engar athugasemdir voru gerðar við ársreikning félagsins og hann samþykktur samhljóða.

6. Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins

Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri kynnti breytingatillögur stjórnar félagsins.

Stjórn SS hefur samþykkt að leggja fram eftirfarandi tillögur. Tillögurnar voru sendar til fundarmanna með fundarboði:

1.   Lagt er til að nafni félagsins verði breytt

Lagt er til að nafnið Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf. verði aflagt og í þess stað verði tekið upp nýtt nafn á félagið; Kalka sf. sorpeyðingarstöð (Kalka, incinerator authority). Með breyttu nafni verður ekki breyting á kennitölu félagsins.

Greinargerð með tillögu:

Í daglegu tali er félagið lang oftast kallað Kalka, bæði af starfsfólki, viðskiptaaðilum og almenningi. Nafn félagsins er langt og óþjált, sér í lagi þegar um er að ræða samskipti við erlenda aðila. Einnig hefur þetta nokkuð oft valdið misskilningi hjá aðilum sem senda félaginu reikninga o.þ.h. Stjórn félagsins telur nafnabreytingu tímabæra og leggur þ.a.l. þessa tillögu fram og mundi breytingin koma fram í 1. og 2. grein samþykktanna.

2.   Tillaga um breytingu á 1. grein samþykktanna vegna sameiningar Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs

Lagt er til að nafn hins sameinaða sveitarfélags og kennitala komi í stað eftirfarandi texta: „Sandgerðisbær, kt. 460269-4829, Sveitarfélagið Garður, kt. 570169-4329“.

Greinargerð með tillögu:

Vegna sameiningar sveitarfélaganna var leitað til Sesselju Árnadóttur, lögfræðings hjá KPMG ehf. um álit á nauðsynlegum breytingum á samþykktum félagsins. Varðandi breytingar á 1. grein kom eftirfarandi fram hjá SÁ: „Rétt er að leggja fram breytingar á samþykktunum á aðalfundi eftir næstu sveitarstjórnarkosningar. Þá liggur fyrir nafn og kennitala hins nýja sameinaða sveitarfélags, en þær upplýsingar þarf að tilgreina í samþykktunum samkvæmt lögum um sameignarfélög“.

3.   Tillaga um breytingu á 6. grein samþykktanna sem varðar stjórn félagsins

Lagt er til að stjórn félagsins verði skipuð 5 mönnum og 5 til vara sem tilnefndir eru af sveitarstjórnum, tveir frá Reykjanesbæ, einn frá hverri hinna og jafnmargir til vara.

Greinargerð með tillögu:

Sesselja Árnadóttir var upplýst um sjónarmið stjórnar félagsins um breytingar á skipan í stjórn eftir sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs. SÁ sendi eftirfarandi til stjórnar varðandi þetta atriði:

Stjórnin þarf að taka afstöðu til þess hvaða tillaga verði gerð um breytingu á 6. gr. samþykktanna. Miðað við fyrri umræður þá yrði 1. málsliður 1. mgr. samþykktarinnar svohljóðandi: „Stjórn félagsins, sem annast málefni þess á milli funda, skal skipuð 5 mönnum og 5 til vara, sem tilnefndir eru af sveitarstjórnum, tveir frá Reykjanesbæ, einn frá hverri hinna og jafnmargir til vara.“

4.   Tillaga um breytingu á 8. grein um boðun á aðalfund

Tillaga um breytingu á 2. málsgrein sem verði svohljóðandi:

„Aðalfund skal boða bréflega eða með tölvupósti með minnst viku fyrirvara. Dagskrá aðalfundar skal fylgja með fundarboði. Aðalfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað“.

Greinargerð með tillögu:

Tillagan er sett fram til að taka af allan vafa um lögmæti þess að aðalfund megi boða með tölvupósti.

5.   Tillaga um breytingu á 9. grein samkvæmt ábendingu frá Sesselju Árnadóttur

Tillaga um breytingu á 2. málsgrein sem verði svohljóðandi:

„Stjórn félagsins skal fyrir 30. nóvember ár hvert semja fjárhagsáætlun og senda síðan stjórn S.S.S. til upplýsingar“.

Greinargerð með tillögu:

Ábending SÁ varðandi þessa breytingu er eftirfarandi: Í 9. gr. samþykktanna segir að fjárhagsáætlun skuli senda stjórn S.S.S. „til meðferðar“. Rétt er að þetta ákvæði verði mun skýrara því hægt væri að túlka á ýmsa vegu hvað felst í því að taka eitthvað til meðferðar. Miðað við eignarhald sameignarfélagsins og hlutverk S.S.S. gagnvart SS almennt væri skýrara að tilgreina að fjárhagsáætlunin sé send stjórn S.S.S. til upplýsingar ef menn vilja halda áfram að senda upplýsingarnar þangað. Einnig er spurning hvort bæta eigi við að fjárhagsáætlunin sé send aðilum sameignarfélagsins (sveitarfélögunum) til upplýsingar, enda þurfa sveitarfélögin þessar upplýsingar við undirbúning sinna fjárhagsáætlana og ákvarðana um sorphirðugjöld o.þ.h“.

Umræður um tillögurnar og afgreiðsla:

Berglind Kristinsdóttir kom með ábendingu um breytingu á 9. grein samþykktanna varðandi tímasetningu skila fjárhagsáætlunar og benti á að önnur fyrirtæki og stofnanir sveitarfélaganna þyrftu að vera búin að skila þessu fyrir 1. nóvember samkvæmt samþykktum þeirra.

Kjartan Már Kjartansson tók undir orð Berglindar varðandi tímasetningu skila og taldi einnig mikilvægt að fjárhagsáætlanirnar væru sendar sveitarfélögunum til upplýsingar.

Einar Jón Pálsson tók undir orð Kjartans Más varðandi mikilvægi þess að  fjárhagsáætlunin sé send beint til sveitarfélaganna til að auka flæðið og að hún sé einnig send stjórn S.S.S. til samræmingar þar.

Kjartan Már Kjartansson lagði fram svohljóðandi breytingatillögu við breytingatillögu á 2. málsgrein 9. greinar samþykktanna:

„Stjórn félagsins skal fyrir 31. október ár hvert semja fjárhagsáætlun og senda sveitarfélögunum og stjórn S.S.S. til upplýsingar“.

Breytingatillaga Kjartans Más var samþykkt samhljóða.

Aðrar tillögur um breytingar á samþykktum félagsins voru samþykktar samhljóða.

7. Tilnefningar í stjórn félagsins

Eftirfarandi tilnefningar bárust frá eignaraðilum félagsins:

 

Aðalmenn:

Varamenn:

Frá Reykjanesbæ:

Önundur Jónasson
Páll Orri Pálsson

Bergur Þór Eggertsson
Ríkharður Íbsensson

Frá sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis:     

Laufey Erlendsdóttir

Fríða Stefánsdóttir

Frá Grindavíkurbæ:

Ásrún Helga Kristinsdóttir     

Sigurður Óli Þórleifsson

Frá Sv.fél. Vogum:

Inga Rut Hlöðversdóttir

Bergur B. Álfþórsson

8. Kosning endurskoðanda

Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte ehf. verði endurskoðandi félagsins.

Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.


9. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna

Lagt er til að formaður stjórnar fái 4% af þingfararkaupi fyrir hvern fund, aðrir stjórnarmenn fái 3% af þingfararkaupi fyrir hvern fund.

Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.


10. Önnur mál.

Fríða Stefánsdóttir spurðist fyrir um hver staðan væri á komu á endurvinnslutunnum í sveitarfélögin. Sagðist hún fagna því að geta farið að flokka meira heima. Jón Norðfjörð svaraði því að tunnurnar væru væntanlegar á næstunni. Hugsanlega gæti þetta teygst fram yfir mánaðarmótin ágúst-september. Benti hann á að nýtt sorphirðudagatal mun taka gildi 1. september n.k. þar sem losunartíðni mun vera tvær vikur í stað 10 daga áður. Verktakinn mun koma þessum tunnum út og höfum við í samvinnu við verktakann fengið liðsinni björgunarsveita á Suðurnesjum til að sjá um dreifingu á tunnunum.

Kjartan Már Kjartansson þakkaði fyrir framsöguna, erindin og góðan fund, ennfremur þakkaði hann fyrrverandi stjórn fyrir vel unnin störf og óskaði nýjum stjórnarmeðlimum til hamingju. Hann minnti á mikilvægi þess að kynna vel fyrir íbúum fyrirhugað verkefni varðandi endurvinnslutunnurnar og að koma þessum nýju tunnum fyrir á öruggan hátt. Þá nefndi Kjartan Már að samfélagið á Suðurnesjum væri ört stækkandi og að það þyrfti e.t.v. að endurskoða þjónustustig Kölku með tilliti til þess og nefndi í því sambandi opnunartíma á endurvinnslustöðvum og hvernig við högum þeim málum í framtíðinni. Hann nefndi í þessu sambandi að upplýsingagjöf varðandi lokun endurvinnslustöðva um síðustu Verslunarmannahelgi hefði verið ábótavant. Það þarf að skoða þessi mál út frá breyttum aðstæðum og ennfremur þessa sunnudagslokun. Mikilvægt er að við veitum þá þjónustu sem samfélagið kallar eftir.

Jón Norðfjörð sagði að láðst hefði að auglýsa þessa laugardagslokun um Verslunarmannahelgina á heimasíðu Kölku og baðst velvirðingar á því.

Jón þakkaði fyrir góða mætingu á fundinn og að það væri ánægjulegt að fá að kynna starfsemina fyrir fundarmönnum. Að endingu ítrekaði Jón þakkir til samstarfsfólks í stjórninni, tímabilið hefði verið einstaklega gott og mikil samstaða. Jón ítrekaði einnig að hann hafi hugsað sér að láta af störfum en muni ráðfæra sig við nýja stjórn um það.

Birgir Már Bragason fráfarandi formaður sagði að það hafi hjálpað sér mjög mikið að hafa góðan framkvæmdarstjóra sér til traust og halds og fór með hvatningarorð til viðtakandi stjórnar. Óskaði Birgir Már fundarmönnum alls hins besta fyrir hönd fráfarandi stjórnar og sagði fundi slitið.

Fleira var ekki gert og var fundi slitið kl. 17:15.

Jóhann Rúnar Kjærbo, fundarritari
Ellert Eiríksson, fundarstjóri

40. aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf á PDF formi, hentugt til útprentunar

Til baka