Stjórn SS - fundur 425

25.6.2013

425. fundur stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn fimmtudaginn 14. júní 2012 kl. 17:10 í fundarsal Kölku að Berghólabraut 7 í Reykjanesbæ.

Mætt eru: Kristinn Halldórsson formaður, Ríkharður Ibsen, Oddur Ragnar Þórðarsson, Páll Jóhann Pálsson, Kolbrún J. Pétursdóttir, Pálmi S. Guðmundsson, og Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri sem jafnframt ritaði fundargerð.

Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir boðaði forföll og mætti Rúnar V. Arnarson í hennar stað.

Kristinn Halldórsson formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

  1. Grænt bókhald 2011, lagt fram til afgreiðslu

  2. Árskýrsla 2011, lögð fram til kynningar

  3. Fundur með Íslandsbanka vegna lánamála

  4. Tilboð Triumvirate Environmental, staða máls

  5. Bréf frá Gísla R. Eiríkssyni

  6. Bréf frá Sveitarfélaginu Vogum

  7. Önnur mál

1. Grænt bókhald 2011, lagt fram til afgreiðslu
Samkvæmt ákvæði í starfsleyfi SS skal halda grænt bókhald sem m.a. inniheldur helstu upplýsingar um ýmis atriði sem varða umhverfisleg áhrif af rekstri fyrirtækisins. Grænt bókhald Kölku fyrir árð 2011 er nú lagt fram til afgreiðslu og er endurskoðað af Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur endurskoðanda fyrirtækisins eins og reglur gera ráð fyrir.

Stjórn samþykkir grænt bókhald 2011.

2. Árskýrsla 2011, lögð fram til kynningar

Á hverju ári eru tekin saman helstu atriði um magn hinna ýmsu lofttegunda og efna sem brennsla á úrgangi hefur í för með sér og einnig greinir skýrslan frá ýmsum atriðum sem snúa að daglegum rekstri og umhverfisáhrifum. Árskýrsla 2011 lögð fram til kynningar.

3. Fundur með Íslandsbanka vegna lánamála

Frá síðasta stjórnarfundi hinn 10. maí s.l. hefur framkvæmdastjóri átt nokkra óformlega símafundi með viðskiptastjóra fyrirtækjasviðs hjá Íslandsbanka vegna lánamála fyrirtækisins. Í framhaldi var haldinn formlegur fundur með fulltrúum bankans hinn 12. júní. Á fundinn mættu af hálfu SS formaður og varaformaður ásamt framkvæmdastjóra. Af hálfu bankans voru mætt á fundinn framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs og viðskiptastjóri fyrirtækjasviðs. Mjög ítarlega var farið yfir rekstrarmál og framtíðarhorfur fyrirtækisins. Það var sameiginleg niðurstaða að bankinn þurfi að yfirfara og endurskoða fyrra tilboð um frágang lána í samræmi við þær upplýsingar sem fram komu á fundinum. Bankinn tekur næstu skref og viðræðum verður haldið áfram.

4. Triumvirate Environmental, staða máls

Lítil viðbrögð hafa komið fram frá bæjarfélögunum vegna 10 milljón dollara tilboðs Triumvirate Environmental í SS. Framkvæmdastjóri leitaði upplýsinga um málið hjá ráðgjöfum TE hjá KPMG og sendi í framhaldi eftirfarandi erindi til forsvaraðila bæjarfélaganna hinn 18. maí s.l.

Í vikunni (14. til 19. maí) var ég í sambandi við Ágúst Jóhannesson hjá KPMG, ráðgjafa John McQuillan forstjóra Triumvirate Environmental. Hann sagði mér að enn hefðu engin svör eða formleg viðbrögð borist frá bæjarfélögunum varðandi tilboð TE í SS. Í ljósi þess hefur John McQuillan fyrirskipað ráðgjöfum sínum hjá KPMG að hætta að vinna að málinu þar sem hann telur að fullreynt sé að bæjarfélögin hafi ekki áhuga á tilboðinu og samstarfi við hann.

Ágúst vildi koma á framfæri þakklæti fyrir góð samskipti á meðan unnið var að málinu en fannst miður að ekki virtist vilji til að ræða málið áfram. Hann sagði að ef eitthvað breyttist og áhugi yrði til að skoða málið betur yrði frumkvæði að því alfarið að koma frá eigendum SS.

Á aðalfundi SS hinn 27. apríl s.l. upplýsti ég að Dýrleif Kristjánsdóttir lögmaður hjá LEX lögmannsstofu hafi unnið fyrir TE að upplýsingaöflun er varðar möguleika þess að flytja inn úrgang sem samræmdist starfsleyfi SS. Niðurstaða Dýrleifar var að mjög erfitt gæti reynst að fá heimildir til innflutnings og gera mætti ráð fyrir að talsverður kostnaður fylgdi því að láta fullreyna á það. Það kom fram að TE hefði verið tilbúið til að leggja í þann kostnað ef viðbrögð bæjarfélaganna hefðu gefið tilefni til áframhaldandi skoðunar á málinu. Ég geri ráð fyrir að staða málsins verði á dagskrá næsta stjórnarfundar SS sem áætlað er að verði hinn 14. júní n.k.

Bkv. Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri

Að því að best er vitað hefur ekkert bæjarfélaganna afgreitt málið formlega nema bæjarráð Sandgerðisbæjar sem bókaði á fundi sínum 22. maí s.l. eftirfarandi:

Þrátt fyrir þokkalegt kauptilboð TE telur bæjarráð Sandgerðisbæjar ekki rétt að ganga lengra með málið að sinni.

5. Bréf frá Gísla R. Eiríkssyni

Málið var rætt sem trúnaðarmál.

Framkvæmdastjóra falið að vinna málið í samræmi við umræður á fundinum.

6. Bréf frá Sveitarfélaginu Vogum

Vegna bókunar tveggja stjórnarmanna SS á 423. stjórnarfundi um afgreiðslu á tillögu sem varðaði

endurskoðun á kjörum framkvæmdastjóra, sendi bæjarráð Voga bókun til SS þar sem segir:

Bæjarráð mótmælir hækkun launa framkvæmdastjóra, þar sem hækkunin samræmist ekki almennum launahækkunum hjá sveitarfélögunum. Bæjarráð harmar jafnframt að hvorki aðal- né varafulltrúi sveitarfélagsins í stjórn SS hafi ekki mætt á fund stjórnarinnar.

Formaður lagði fram eftirfarandi bókun:

Framkvæmdastjóri hóf störf 1. júlí 2011 og var þá ráðinn á laun sem telja má í lægri kantinum sem framkvæmdastjóralaun. Föst laun voru umsamin 391 þkr. auk 25 fastra yfirvinnutíma á mánuði. Einnig var samið um að greiða fyrir afnot af bifreið framkvæmdastjóra. Samkomulag var handsalað samkvæmt ákvörðun stjórnar um endurskoðun á launum hans að sex mánuðum liðnum og þá með tilliti til hvernig til hefði tekist við lagfæringar á rekstri fyrirtækisins. Umtalsverður bati varð á rekstrinum strax á fyrstu mánuðunum eftir að framkvæmdastjóri hóf störf eins og ársreikningur 2011 sýnir vel.

Umsamin endurskoðun á kjörum framkvæmdastjóra var rædd ítarlega innan stjórnar en frá þeim tíma sem hann var ráðinn þar til í apríl 2012 höfðu grunnlaun hans hækkað um rúmlega 30 þkr. vegna almennra breytinga á kjarasamningum og voru því komin í 413 þkr. í apríl 2012. Á 423. stjórnarfundi SS hinn 27. apríl s.l. lagði formaður fram tillögu um að mánaðarlaun framkvæmdastjóra yrðu hækkuð í 471 þkr. eða um 13,9%. auk þess var lagt til að greitt yrði fyrir 32 yfirvinnutíma á mánuði í stað 25 áður. Þess má geta að frá þeim tíma sem framkvæmdastjóri hóf störf hefur hann skilað fyrirtækinu að meðaltali um 80 yfirvinnutímum á mánuði. Tillaga formanns var samþykkt með 4 atkvæðum gegn 2.

Bókun þessi er svar við opinberri umræðu , m.a. í Víkurfréttum sem bókanir stjórnarmanna SS og bæjarráðs Voga hafa leitt fram. Engar skráðar reglur eru til varðandi almennar launahækkanir sveitarfélaganna eins og vísað er til í bókun bæjarráðs Voga.

Fulltrúi Voga lagði fram eftirfarandi bókun:

Í framhaldi af bókun stjórnarformanns Kristins vill Oddur Ragnar (Vogum) óska eftir afriti af umræddu 6 mánaða samkomulagi um endurskoðun launamála framkvæmdastjòra. Einnig òskar Oddur Ragnar eftir nánari ùtreikningum á 13,9% hækkun launa þar sem greinilega er ekki tekið með i utreikningana föst yfirvinnu.

7. Önnur mál
a. Varðandi bruna sem varð í brennslustöð fyrirtækisins að morgni 5. júní s.l., upplýsti framkvæmdastjóri að stöðva hefði þurft brennslu í rúmlega einn sólarhring en í ljós hefði komið að nánast engar skemmdir hafi orðið á búnaði brennslustöðvarinnar. Nokkrar skemmdir urðu á norðurhlið stöðvarhússins en eldurinn var nánast inni á milli þilja þar og náði ekki að breiðast frekar út. Slökkviliðið vann mjög gott starf og náði tiltölulega fljótt tökum á eldinum. Unnið er að því að meta tjónið og fyrir liggur að fá tilboð í viðgerð.

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 20:01

Kristinn Halldórsson
Ríkharður Ibsen
Oddur R. Þórðarson
Rúnar V. Arnarson
Páll Jóhann Pálsson
Kolbrún Pétursdóttir
Pálmi S. Guðmundsson
Jón Norðfjörð

Til baka