Stjórn SS - fundur 441

25.10.2013

441. fundur stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn fimmtudaginn 24. október 2013 kl. 17:00 í fundarsal Kölku að Berghólabraut 7 í Reykjanesbæ.

Mætt eru: Oddur Ragnar Þórðarson formaður, Ríkharður Ibsen, Brynja Kristjánsdóttir, Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir, Páll Þorbjörnsson, Kristinn Halldórsson og Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri sem jafnframt ritaði fundargerð. 

Oddur Ragnar Þórðarson formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.        

Dagskrá:

  1. Flugaska – staða mála
  2. Fjárhagsáætlun 2014
  3. Kalka ehf. – tillaga um breytingar á samþykktum
  4. Erindi frá bæjarstjórn Reykjanesbæjar – frestað á 439. fundi
  5. Samráðsnefnd sorpsamlaga – fundargerð
  6. Önnur mál

1. Flugaska – staða mála

Framkvæmdastjóri skýrði frá ferð sem hann fór ásamt Ríkharði Ibsen varaformanni stjórnar og Ingþóri Karlssyni rekstrarstjóra brennslustöðvar til Noregs dagana 16. til 18. október s.l.  Megin tilgangur þessarar  ferðar var að hitta forsvarsmenn fyrirtækisins NOAH AS sem sérhæfir sig í eyðingu spilliefna. Fundir voru haldnir með forstjóra fyrirtækisins Trond B. Berg og  Jan-Petter Lindstad sem er sölu- og markaðsstjóri fyrirtækisins. Eins og fram kom á 439. stjórnarfundi fékk SS tilboð frá NOAH AS í sjóflutning og eyðingu flugöskubirgða fyrirtækisins og var málið rætt ítarlega við þá NOAH menn, þ.e. framkvæmd flutniga, verð o.fl. atriði auk þess að aðstæður fyrirtækisins á eyjunni Langöya sem er staðsett úti fyrir bænum Holmestrand inn af Oslófirði voru skoðaðar. Viðræður gengu vel og innan stutts tíma munu liggja fyrir formlegar niðurstöður um þau atriði sem til umræðu voru með samantekt sem send verður frá NOAH. Samþykkt að fela framkvæmdastjóra að ganga frá samkomulagi við NOAH um flutning og eyðingu flugöskunnar í samræmi við þær upplýsingar sem fram komu á fundinum.  

2. Fjárhagsáætlun 2014

Framkvæmdastjóri lagði fram tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 sem hafði verið send til stjórnarmanna fyrir fundinn. Í tillögunni er gert ráð fyrir sömu sorphirðu- og sorpeyðingargjöldum frá sveitarfélögunum á árinu 2014 eins og þau hafa verið á árinu 2013 og voru á árinu 2012. Verulegar umbætur í rekstri fyrirtækisins ásamt því að nú hefur verið staðfestur nýr lánssamningur við Íslandsbanka með lækkun á lánastöðu fyrirtækisins um tæplega 340 milljónir króna gerir kleift að halda óbreyttum gjöldum þriðja árið í röð. Þess má geta að almennar verðlagsbreytingar frá ársbyrjun 2012 til dagsins í dag hafa hækkað um 7,6%. Það hlýtur að vekja athygli og ánægju íbúa og bæjarfulltrúa á Suðurnesjum þegar hægt er að halda óbreyttum gjöldum þrjú ár í röð, þrátt fyrir miklar verðlagshækkanir. Í fjárhagsáætluninni er m.a. gert ráð fyrir minni viðhaldskostnaði enda er nú búið að endurnýja marga mjög kostnaðarsama þætti á s.l. tveimur árum og vinna mikið fyrirbyggjandi viðhald. Vegna væntanlegs kostnaðar við frágang og eyðingu flugöskubirgðanna er gert ráð fyrir tímabundnu láni hjá Íslandsbanka til greiðslu á hluta þess kostnaðar. Tillagan var yfirfarin og miklar umræður voru um hana og almennt um verulega bætta stöðu fyrirtækisins. Tillaga að fjárhagsáætlun 2014 var samþykkt samhljóða og verður send til fjárhagsnefndar SSS. Tillaga framkvæmdastjóra um að hækka gjaldskrár til stofnana og fyrirtækja frá og með 1. janúar 2014 um 5 -7% ásamt því að hækka gjaldskrá vegna spilliefna um 10% með nánari útfærslum frá og með sama tíma var samþykkt samhljóða. Breyttar gjaldskrár verða lagðar fyrir stjórn til staðfestingar.

3. Kalka ehf. – tillaga um breytingar á samþykktum

Eftirfarandi tillaga um breytingar á samþykktum félagsins er lögð fyrir stjórn SS sem hefur umboð til að taka ákvarðanir fyrir hönd félagsins samkvæmt 11. grein í samþykktum þess. Tillagan er lögð fram á stjórnarfundi SS hinn 24. október 2013.

Tillagan er svohljóðandi:

         Tillaga um breytingar á 16. grein sem eftir breytingu mundi hljóða svo:
„Stjórn félagsins skal skipuð einum aðalmanni og öðrum til vara, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn, þó eigi færri en þremur aðalmönnum séu hluthafar fimm eða fleiri. Sjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli hluthafafunda og gætir hagsmuna þess gagnvart þriðja manni. Undirskrift meirihluta stjórnarmanna þarf til að skuldbinda félagið. Halda skal gerðabók sbr. 5. mgr. 46. gr. ehfl. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum. Halda skal fundargerð um stjórnarfund.“

Fyrirtækið Kalka ehf. var stofnað 3. október 2008, en hefur ekki verið starfrækt frá stofnun. Eini hluthafi félagsins er Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf. Á stofnfundi félagsins var kjörinn sjö manna stjórn ásamt sjö varamönnum eins og samþykktir gerðu ráð fyrir og voru þáverandi fulltrúar í stjórn og varastjórn SS kjörnir í stjórn Kölku ehf. Árlega þarf að skila skattalegu uppgjöri fyrir félagið þó engin starfsemi sé til staðar. Tillaga um breytingu á samþykktum kemur frá Önnu Birgittu Geirfinndóttur endurskoðanda félagsins og er ætluð til einföldunar við árleg uppgjör á meðan félagið er ekki starfrækt. Ef ákveðið verður að félagið taki formlega til starfa er auðvelt að fjölga stjórnarmönnum aftur eftir því sem ákveðið yrði.

Með breytingu á samþykktum er jafnframt gert ráð fyrir að stjórnarmaður verði framkvæmdastjóri félagsins sbr. 2. málsgrein 18. greinar í samþykktum félagsins, með vísan í 41. gr. ehfl.

Með vísan til 11. greinar samþykkta félagsins er ekki þörf á að halda aðalfund ef hluthafi er einn, heldur skal hluthafinn (í þessu tilfelli stjórn SS) taka viðeigandi ákvarðanir skv. 59. gr. ehfl. og skrá þær í gerðabók skv. 55. gr. ehfl.

Tillagan er samþykkt samhljóða. Lagt er til að stjórn Kölku ehf. skipi Jón Norðfjörð aðalmaður og Jóhann Rúnar Kjærbo varamaður. Jafnframt er lagt til að Jón Norðfjörð verði framkvæmdastjóri félagsins. Tillögurnar eru samþykktar samhljóða.

4. Erindi frá bæjarstjórn Reykjanesbæjar – frestað á 439. stjórnarfundi

Borist hafa bókanir frá bæjarráðum Grindavíkurbæjar, Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfélagsins Voga vegna erindis og tilmæla bæjarstjórnar Reykjanesbæjar um að afnema gjaldtöku á gámaplönum fyrirtækisins. Öll sveitarfélögin lýsa andstöðu við erindi Reykjanesbæjar. Eftir nokkrar umræður um málið lagði framkvæmdastjóri til að málinu verði frestað til reglulegs fundar stjórnarinnar í nóvember. Þar sem ekki er samstaða um málið milli sveitarfélaganna, er framkvæmdastjóra falið að móta tillögu um leiðir til ásættanlegrar niðurstöðu með tilliti til umræðu á fundinum. Tillaga framkvæmdastjóra verði kynnt stjórnarmönnum fyrir næsta stjórnarfund.

Samþykkt samhljóða.  

5. Samráðsnefnd sorpsamlaga – fundargerð    

Framkvæmdastjóri lagði fram til kynningar fundargerð samráðsnefndar sorpsamlaga á suðvesturlandi frá 14. október s.l. Í fundargerðinni kemur m.a. fram að búið er að fastsetja fund með stjórnum allra sorpsamlaganna föstudaginn 10. janúar 2014 og gert er ráð fyrir að fundurinn verði í Félagsgarði, félagsheimili Umf. Drengs í Kjós. Gert er ráð fyrir að bjóða öllu sveitarstjórnarfólki sem aðild eiga að sorpsamlögunum á fundinn.

6. Önnur mál    

a. Framkvæmdastjóri greindi frá könnun sem Umhverfisstofnun sendi til sveitarfélaga og rekstraraðila um vilja til að koma á samræmdri flokkun heimilisúrgangs á landsvísu. 
b. Framkvæmdastjóri lagði fram til kynningar fundargerð verkefnisstjórnar um aukna hagsmunagæslu íslenskra sveitarfélaga á sviði úrgangsmála frá 26. ágúst s.l. Fundargerðin barst nýverið í tölvupósti.

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 19:15

Oddur Ragnar Þórðarson
Ríkharður Ibsen
Brynja Kristjánsdóttir
Kolbrún Jóna Pétursdóttir
Kristinn Halldórsson
Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir
Páll Þorbjörnsson
Jón Norðfjörð

Til baka