Stjórn SS - fundur 481

15.5.2017

481. fundur stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn fimmtudaginn 11. maí 2017  kl. 16:30 í fundarsal Kölku að Berghólabraut 7 í Reykjanesbæ. Mætt eru: Birgir Már Bragason, Brynja Kristjánsdóttir, Jónas Þórhallsson, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir, Elín Björg Gissurardóttir, Inga Rut Hlöðversdóttir, Bjarni Stefánsson og Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

Jóna Rut Jónsdóttir boðaði forföll og mætti Jónas í hennar stað.

Birgir Már Bragason formaður stjórnar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

   1.   Stjórn skiptir með sér verkum

   2.   Fundargerð aðalfundar lögð fram

   3.   Þriggja mánaða rekstraryfirlit

   4.   Gjaldskrárbreytingar pr. 1. júlí nk.

   5.   Viðræður við SORPU – framhald máls

   6.   Önnur mál

1. Stjórn skiptir með sér verkum

Samkvæmt breytingum sem gerðar voru á samþykktum félagsins á aðalfundi 2015, skal stjórn skipta með sér verkum eftir hvern aðalfund. Tillaga var um að Birgir Már Bragason verði formaður, Jóna Rut Jónsdóttir verði varaformaður og Elín Björg Gissurardóttir ritari. Samþykkt samhljóða.

2. Fundargerð aðalfundar lögð fram

Fundargerð aðalfundar 2017 lögð fram og verður send til stjórnarmanna í tölvupósti.

3. Þriggja mánaða rekstraryfirlit
Framkvæmdastjóri lagði fram til kynningar rekstraryfirlit úr bókhaldi fyrirtækisins fyrstu þrjá mánuði ársins. Tekjur aukast nokkuð og kostnaður einnig. Farið var yfir rekstraryfirlitið og fram komu spurningar sem framkvæmdastjóri svaraði.

4. Gjaldskrárbreytingar pr. 1. júlí nk.

Tillaga er um að hækka allar almennar gjaldskrár að meðaltali um 1,9% frá og með 1. júlí. Gjaldskrá á endurvinnsluplönum hækkar ekki. Tillagan samþykkt samhljóða.

5. Viðræður við SORPU – framhald máls

Kynningu í sveitarfélögunum lýkur um miðjan maí hér á Suðurnesjum. Eins og fram kom á síðasta stjórnarfundi, var framkvæmdastjóra falið að senda erindi til sveitarfélaganna, eigenda SS þegar kynningu verður lokið og óska eftir því að bæjarstjórnir taki afstöðu til málsins eins og það liggur fyrir samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu Capacent og kynningu. Ákveðið að framkvæmdastjóri kanni hvort vilji er til þess hjá sveitarfélögunum að boðað verði til sameiginlegs eigendafundar þar sem málið verði yfirfarið og rætt áður en sveitarfélögin taka afstöðu í málinu.

6. Önnur mál

   a)   Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir stöðu mála varðandi verkefni sem þarf að framkvæma samkvæmt ákvæðum í nýja starfsleyfinu.

   b)   Í framhaldi af aðalfundi félagsins, var sent erindi til sveitarfélaganna og óskað eftir afgreiðslu þeirra á tillögu stjórnar SS um flokkun úrgangs við heimili.

   c)    Formaður og framkvæmdastjóri mættu á fund Samráðsnefndar sorpsamlaganna á SV-landi í dag, 11. maí þar sem tekin var fyrir tillaga frá verkfræðistofunni Mannvit um endurskoðun svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs. Á fundinum var samþykkt eftirfarandi tillaga:

„Samráðsnefnd sorpsamlaganna á SV-landi leggur til við stjórnir sínar að farið verði í vinnu við endurskoðun svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs. Tillagan er í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og verklag verði í samræmi við  fram komna tillögu.  Kostnaði verði skipt samkvæmt íbúafjölda landshlutanna sem standa að svæðisáætluninni eins og venja hefur verið. Haft verði gott samráð við sveitarstjórnir viðkomandi svæða meðan að vinnuferli stendur yfir“.

Tillagan rædd og samþykkt samhljóða.

   d)   Fram kom hjá framkvæmdastjóra að tæplega 1300 tonn af flugösku voru lestuð í skipið Haf Nes í Njarðvíkurhöfn 3. maí sl. og send til Noah í Noregi til meðhöndlunar.

   e)   Gert er ráð fyrir að næsti reglulegi stjórnarfundur verði fimmtudaginn 13. júlí n.k. Tekið verður fundarfrí í júní.

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 18:00

Birgir Már Bragason
Brynja Kristjánsdóttir
Jónas Þórhallsson
Inga Rut Hlöðversdóttir
Elín Björg Gissurardóttir
Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir
Bjarni Stefánsson
Jón Norðfjörð

Til baka