Stjórn SS - fundur 484

25.9.2017

484. fundur stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn fimmtudaginn 14. september 2017  kl. 16:30 í fundarsal Kölku að Berghólabraut 7 í Reykjanesbæ. Mætt eru: Birgir Már Bragason, Jóna Rut Jónsdóttir, Gísli Heiðarsson, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir, Gísli Þórhallsson , Bjarni Stefánsson,  Inga Rut Hlöðversdóttir, og Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

Elín Björg Gissurardóttir og Brynja Kristjánsdóttir boðuðu forföll. Gísli Þórhallsson og Gísli Heiðarsson mættu fyrir þær.

Birgir Már Bragason formaður stjórnar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

   1.     Útboðsmál – vinnsluferli

   2.     Rekstraryfirlit janúar – júlí 2017

   3.     Samþykktir um meðhöndlun úrgangs – endurskoðun

   4.     Eigendafundur SS 21. september

   5.     Endurskoðun svæðisáætlunar fyrir Suðvesturland

   6.     Önnur mál

1. Útboðsmál - vinnsluferli

Útboð verksamninga var auglýst í fréttablöðum 24. og 26. ágúst sl. og gögnin afhent frá og með 28. ágúst. Væntanlegir bjóðendur þurfa að skila inn tilboðum fyrir þriðjudaginn 3. október kl. 11:00, en þá verða tilboðin opnuð á skrifstofu SS, að viðstöddum bjóðendum sem þess óska. Kynningarfundur fyrir bjóðendur var haldinn miðvikudaginn 13.september kl. 14:00. Sex fyrirtæki hafa nú fengið afhent útboðsgögn.  Eins og áður hefur komið fram, er það fyrirtækið Beimur ehf., Sveinn Valdimarsson verkfræðingur sem er ráðgjafi og stjórnandi útboðsins og vinnur að því með framkvæmdastjóra og starfsmönnum fyrirtækisins. Útboðið hefur verið auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þá var einnig auglýst í fréttablöðum hinn 7. september sl. útboð á byggingu botnösku og spillefnaskýla á lóð fyrirtækisins samkvæmt ákvæði í nýju starfsleyfi. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt byggingarframkvæmdirnar eins og áður hefur komið fram og beðið var eftir umsögn Umhverfisstofnunar sem nú hefur samþykkt framkvæmdirnar. Verkfræðistofa Suðurnesja vann hönnun og teikningar. Útboðsfrestur rennur út föstudaginn 22. september kl. 11:00, en þá verða tilboðin opnuð hjá Verkfræðistofu Suðurnesja.

2. Rekstraryfirlit janúar – júlí 2017

Framkvæmdastjóri lagði fram til kynningar rekstraryfirlit úr bókhaldi fyrirtækisins fyrir tímabilið janúar til og með júlí 2017.

3. Samþykktir um meðhöndlun úrgangs – endurskoðun

Á síðasta stjórnarfundi lagði framkvæmdastjóri fram til skoðunar samþykktir um meðhöndlun úrgangs á Suðurnesjum frá árinu 2005. Ákveðið var að stjórnin mundi yfirfara samþykktirnar og mögulegar tillögur um breytingar. Málinu frestað.

4. Eigendafundur SS 21. september

Bæjarfulltrúar og bæjarstjórar á Suðurnesjum hafa verið boðaðir til sameiginlegs eigendafundar fimmtudaginn 21. september n.k. Þar verða teknar til umræðu sameiningarviðræður SS og Sorpu eins og þær standa samkvæmt kynningu ráðgjafa Capacent sem fara yfir málið á fundinum. Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjóri SORPU kynni gang málsins á höfuðborgarsvæðinu og einnig er gert ráð fyrir að fulltrúi Umhverfisstofnunar ræði málefni Kölku frá sjónarhorni stofnunarinnar. Fundurinn verður haldinn í bíósalnum í DUUS húsum og hefst kl. 17:00.

5. Endurskoðun svæðisáætlunar fyrir Suðvesturland

Um þessar mundir er samstarfsnefnd sorpsamlaga á Suðvesturlandi að undirbúa næstu skref við endurskoðun svæðisáætlunar 2019 – 2030. Í undirbúningsvinnunni hefur verið rætt um að  framkvæmd verði skoðanakönnun meðal sveitarstjórnarmanna og hugsanlega valdra embættismanna sveitarfélaganna, þar sem spurt yrði um skoðun þeirra á árangri síðustu áætlunar og stefnu næstu áætlunar.

Af þessu tilefni þarf að liggja fyrir listi með nöfnum og netföngum þeirra sem eiga að fá könnunina.

Óskað því eftir að tekinn verði saman listi hjá hverju sorpfyrirtæki yfir þá einstaklinga sem eiga að fá könnunina á því svæði. Æskilegt væri að samræmis væri gætt milli svæða um hverjum verði boðin þátttaka. Eiga allir sveitarstjórnarmenn að fá boð um þátttöku eða á að fara fram eitthvað val t.d. eingöngu þeir sem eru í umhverfisnefndum? Þetta þarf að ræða og koma tillögum til samstarfsnefndarinnar.

Meðfylgjandi eru fyrstu drög að spurningalista og kynningarbréfi til sveitarstjórna til yfirferðar og athugasemda. Gæta þarf að því að spurningalistinn verði ekki óþarflega langur, sem gæti leitt til þátttökuþreytu, og því er mikilvægt að hafa hnitmiðaðar spurningar. Mögulegt er að fylgja fyrstu könnun eftir með viðbótarspurningum síðar. Óskað er eftir að stjórnir sorpfyrirtækjanna yfirfari málið og spurningarnar og komið með tillögur um allt það sem fólki finnst að megi bæta.

Verkefnavinnunni stýrir Teitur Gunnarsson fagstjóri efnaferla hjá verkfræðistofunni Mannvit.

Málið rætt og fram komu nokkrar hugmyndir að breytingum á spurningalista. Farið verður nánar yfir málið.

6. Önnur mál

   a)     Lögð fram samantekt úr skoðunarferð á vegum samstarfsnefndar sorpsamlaga á Suðvesturlandi. Skoðaðar voru ýmsar lausnir í úrgangsmálum í nokkrum sveitarfélögum í Noregi og Svíþjóð.

   b)     Umræður um áætlanir vegna stækkandi byggðar og fjölgunar íbúa á Suðurnesjum sem stóð til að ræða á fundinum er frestað.

   c)     Næsti stjórnarfundur er áætlaður fimmtudaginn 12. október n.k.

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 18:00

Birgir Már Bragason
Gísli Heiðarsson
Jóna Rut Jónsdóttir
Inga Rut Hlöðversdóttir
Gísli Þórhallsson
Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir
Bjarni Stefánsson
Jón Norðfjörð

Til baka