Stjórn SS - fundur 490

14.3.2018

490. fundur stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn þriðjudaginn 13. mars 2018 kl. 16:30 í fundarsal Kölku að Berghólabraut 7 í Reykjanesbæ. Mætt eru: Birgir Már Bragason, Brynja Kristjánsdóttir, Jóna Rut Jónsdóttir, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir, Elín Björg Gissurardóttir, Bjarni Stefánsson, Inga Rut Hlöðversdóttir og Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

Birgir Már Bragason formaður stjórnar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

   1.   Breytingar vegna sameiningar Garðs og Sandgerðis

   2.   Bygging spilliefna- og botnöskuskýla – staða máls

   3.   Rekstraryfirlit 2017

   4.   Tillaga um dagsetningu aðalfundar 2018

   5.   Sameiningarviðræður SS og Sorpu – staða máls

   6.   Nokkur rekstrarmál

   7.   Önnur mál

1. Breytingar vegna sameiningar Garðs og Sandgerðis

Framkvæmdastjóri lagði fram minnisblað frá Sesselju Árnadóttur lögfræðingi hjá KPMG vegna breytinga sem gera þarf á samþykktum SS í tilefni af sameiningu Sveitarfélagsins Garðs og Sandgerðisbæjar. Í minnisblaðinu koma fram ábendingar og tillögur sem taka þarf afstöðu til svo sem varðandi breytingu á 6. gr. samþykktanna um fjölda stjórnarmanna og orðalag í 9. grein um að fjárhagsáætlun skuli send stjórn S.S.S. „til meðferðar“. Samþykktunum þarf að breyta á aðalfundi eftir næstu sveitarstjórnarkosningar. Þá liggur fyrir nafn og kennitala hins nýja sameinaða sveitarfélags, en þær upplýsingar þarf að tilgreina í samþykktunum samkvæmt lögum um sameignarfélög.

Eftir góðar umræður samþykkti stjórnin samhljóða að leggja fram á næsta aðalfundi eftirfarandi breytingar á samþykktunum félagsins:

1.    Að nafn og kennitala hins nýja sveitarfélags verði sett í 1. grein samþykktanna í stað nafna og kennitalna Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs.

2.    Að nýtt sameinað sveitarfélag Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs fá einn fulltrúa í stjórn SS og að fulltrúar Reykjanesbæjar verði tveir í stað þriggja eins og nú er.
Breyting á 6. grein, 1. mgr. samþykktanna verði svohljóðandi:
„Stjórn félagsins, sem annast málefni þess á milli funda, skal skipuð 5 mönnum og 5 til vara, sem tilnefndir eru af sveitarstjórnum, tveir frá Reykjanesbæ, einn frá hverju hinna og jafnmargir til vara“.

3.   Að breyting verði gerð á orðalagi í 9. grein samþykktanna á þann hátt að síðasta orð greinarinnar þ.e. orðið „meðferðar“, verði fellt út og í stað þess komi orðið „upplýsingar“. Þá mundi greinin vera svona: „Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið. Stjórn félagsins skal fyrir 30. nóvember ár hvert semja fjárhagsáætlun og senda síðan stjórn S.S.S. til upplýsingar“.

Framkvæmdastjóra falið að senda tillögur stjórnar til Róberts Ragnarssonar verkefnisstjóra.

Sesselja Árnadóttir mun einnig yfirfara „Samþykktir um meðhöndlun úrgangs á Suðurnesjum“ sem einnig þarf að gera breytingar á eftir að samþykktum SS hefur verið breytt.

2. Bygging spilliefna- og botnöskuskýla – staða máls

Eins og áður hefur komið fram hefur reynst erfitt að fá verktaka til verksins þrátt fyrir að útboð hafi farið fram og að leitað hafi verið til ýmissa fyrirtækja. Verið er að kanna möguleika á að fá aðila til að taka að sér verkefnið. Einnig er verið að skoða þann kost að auglýsa útboðið aftur. Framkvæmdastjóri og formaður vinna áfram að málinu.

3. Rekstraryfirlit 2017

Framkvæmdastjóri lagði fram óendurskoðað rekstraryfirlit ársins 2017 beint úr bókhaldi fyrirtækisins. Fram kom að afkoma fyrirtækisins stefnir í að vera svipuð og árið 2016.  Rekstrartekjur hafa hækkað nokkuð frá fyrra ári og eru um 621 m.kr. og rekstrargjöld eru um 533 m.kr., þar af voru keyptir varanlegir fastafjármunir fyrir um 21 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er þ.a.l. um 87 m.kr. Stjórnin lýsir ánægju með áætlaða afkomu og rekstrarniðurstöðu.

4. Tillaga að dagsetningu aðalfundar 2018

Með vísan í samþykktir félagsins, skal að jafnaði halda aðalfund í aprílmánuði ár hvert, en síðar þau ár sem fram fara sveitarstjórnarkosningar. Á kosningaárinu 2014 var aðalfundur félagsins haldinn 21. ágúst. Stjórn samþykkir að stefnt skuli að því að aðalfundur SS fyrir árið 2017 verði haldinn mánudaginn 27. ágúst 2018.

5. Sameiningarviðræður SS og SORPU – staða máls

Engin fundur hefur verið haldinn frá 7. febrúar, en á síðasta stjórnarfundi SS voru lögð fram drög að verkefnadagskrá um framhald sameiningarviðræðnanna. Gert er ráð fyrir að næsti fundur aðila verði í þessari viku. Þá upplýsti framkvæmdastjóri að stjórn SORPU hafi á fundi sínum 7. mars sl. samþykkt fyrir sitt leyti drög að viljayfirlýsingu um að vinna enn frekar að sameiningarmálum þessara félaga með hagsmuni heildarinnar í huga og falið formanni sínum að undirrita yfirlýsinguna. Á síðasta stjórnarfundi samþykkti stjórn SS viljayfirlýsinguna fyrir sitt leyti. Stjórn SS felur formanni að undirrita yfirlýsinguna.

Viljayfirlýsingin er svohljóðandi:

„Kröfur er varða meðferð úrgangs verða sífellt flóknari og strangari. Því er mikilvægt að stöðugt sé leitað hagkvæmra og umhverfisvænna leiða við meðhöndlun úrgangs.

Úrgangur er málefni allra og því nauðsynlegt að aðilar sem sinna úrgangsmálum á vegum sveitarfélaganna og sinna þar með lagaskyldu, sameinist um lausnir eins og kostur er.

Þannig verði hámarks hagkvæmni náð um leið og sem minnst umhverfisleg áhrif úrgangsmeðhöndlunar verða betur tryggð. Stjórnir SORPU bs. og Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf., lýsa þess vegna yfir ríkum vilja til að vinna enn frekar að sameiningarmálum þessara félaga með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi“

Áhersla hefur verið lögð á að greina vel og skilmerkilega frá gangi viðræðnanna í fundargerðum SS.

Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar sameiningarviðræðurnar eru til umræðu:

Sameiningarviðræður Kölku og SORPU hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu. Engin leyndarhyggja er um þetta mál og fyrir þá sem vilja fylgjast með, þá er framvinda viðræðnanna frá upphafi ágætlega skráð í fundargerðir Kölku á heimasíðunni www.kalka.is.

Viðræður við SORPU hófust fyrst síðla árs 2009 að frumkvæði stjórnar Kölku, en þá var fjárhagsstaða félagsins mjög erfið. Stjórn Kölku sleit viðræðum og ákveðið var að auglýsa Kölku til sölu og bárust tvö tilboð. Hvorugt tilboðið reyndist raunhæft. Árið 2012 hittust fulltrúar Kölku og SORPU aftur og möguleg sameining rædd, en þá var fjárhagsstaða Kölku þannig að eiginfjárstaðan var MÍNUS 600 miljónir króna og skuldir um 1.300 miljónir króna. Stjórn Kölku ákvað þá að fresta frekari viðræðum vegna þessarar slæmu stöðu. Á miðju ári 2016 voru viðræður félaganna teknar upp að nýju, enda fjárhagsstaða Kölku þá orðin mun betri og önnur rekstrarmál höfðu batnað umtalsvert. Skuldir höfðu lækkað um 0 miljónir króna og eiginfjárstaðan var komin í PLÚS 270 miljónir. Algjör viðsnúningur hafði orðið í rekstrinum.

Þegar viðræður hófust aftur 2016 voru íbúar höfuðborgarsvæðisins í þeim sex sveitarfélögum sem eiga SORPU um 230 þúsund. Á þeim tíma voru íbúar í fimm sveitarfélögum sem eiga Kölku um 23 þúsund.

Vinna Capacent vegna viðræðna félaganna hefur meðal annars byggt á þróun rekstrar og efnahags, eigna- og skuldastöðu hvors félags, áætlaðar þarfir um fjárfestingar og fleira. Niðurstöður um mögulega skiptingu eignahluta í sameinuðu félagi byggir á niðurstöðum þessarar vinnu. Gert er ráð fyrir að eignarhlutur SORPU verði um 90% og eignarhlutur Kölku um 10%. Það vill svo til að þessi hlutföll eru sambærileg við íbúafjölda eins og hann var á hvoru svæði. Málið hefur verið kynnt fyrir öllum sveitarstjórnum sem hlut eiga að máli og í fyrirhuguðum framhaldsviðræðum er meðal annars gert ráð fyrir að eftirfarandi málefni verði tekin til umræðu og í framhaldinu lagðar fram viðeigandi tillögur.

Hvað er framundan í viðræðum félaganna?

1.    Inngangur

a.     Gangur mála fram til þessa

b.    Niðurstöður um eignaskiptingu og aðferðafræði við uppfærslu

2.     Framtíðarsýn

a.     Hver er staðan núna?

b.     Stutt lýsing á núverandi sorpeyðingu á svæðinu

c.      Kröfur í náinni framtíð

d.     Geta aðila til að mæta kröfum

e.     Áætlaður kostnaður við nauðsynlegar úrbætur sem gera þarf

f.      Staða sveitarfélaga á Suður- og Vesturlandi í úrgangsmálum

g.     Nauðsynlegar auðlindir hvers svæðis til að leysa þarfir til næstu 20-40 ára

3.     Hugmyndir um fyrirkomulag á sorpeyðingu

a.     Í sameiginlegu félagi eða með viðskiptum á milli aðila

b.     Sameiginlega með öðrum svæðum eða með viðskiptum við þau ef þarf

4.     Hvaða fyrirkomulag rekstrar hentar starfseminni best

a.     Saman eða í samstarfi – kostir og gallar

b.     Rekstrarform (bs./hf./sf. – annað)

c.      Stjórn – aðferð við val (bein kosning hvers sveitarfélags, svæðis eða kosið í fulltrúaráð sem velur stjórn) - Eigendasamkomulag

d.     Eignarhald – sveitarfélög eingöngu (félög/ríki)

e.     Fyrirkomulag einstakra þátta

f.      Hvernig verður sameiginlegur rekstur – gjaldtaka o.s.frv.

g.     Rekstur eyðingar (brennsla og urðun)

h.     Rekstur sorphirðu

i.       Endurvinnsla, flokkun, gasgerð

Starfsemi Kölku og SORPU í stuttu máli.

Sorpsamlögin hafa starfað með mismunandi hætti og í mörgum tilfellum þurft að reiða sig á aðstoð hvers annars. Sveitarfélögin á Suðurnesjum reka brennslustöðina Kölku, en hafa engan urðunarstað á sínu svæði og þurfa þ.a.l. að treysta á aðra í þeim efnum. Kalka rekur þrjár endurvinnslustöðvar í Helguvík, Grindavík og Vogum. Undanfarin ár hefur afkastageta brennslustöðvarinnar Kölku verið fullnýtt þrátt fyrir að flokkun efna í stöðinni hafi aukist talsvert. Það er ekki hægt brenna öll óendurvinnanleg  úrgangsefni í Kölku og talsvert magn úrgangs þarf þess vegna að flytja til urðunar í SORPU.

Á höfuðborgarsvæðinu eiga sveitarfélögin og reka sameiginlega SORPU sem er með fjölþætta úrgangsstarfsemi. Þar er rekin sorpflokkunarstöð, endurvinnslustarfsemi, urðunarstaður, framleiðsla á metangasi og fleira. Þar er að hefjast bygging gas- og jarðgerðarstöðvar sem mun vinna gas úr öllum lífrænum úrgangsefnum sem berast til stöðvarinnar. Þegar gas- og jarðgerðarstöðin tekur til starfa, mun urðun á lífrænum úrgangi verða hætt. SORPA rekur Góða hirðinn, sem er verslun með nytjahluti og einnig rekur SORPA sex endurvinnslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Talsvert magn spillefna sem ekki má urða berast til SORPU og þau efni eru send til Kölku til brennslu.

Af hverju eru Kalka og SORPA að ræða mögulega sameiningu?:

Til margra ára hefur sú lagaskylda hvílt á sveitarfélögum að annast meðhöndlun úrgangs til förgunar og/eða endurvinnslu. Bætt umhverfisvitund og skilningur á nauðsyn þess að hafa þennan málaflokk í sem bestu lagi, hefur haft í för með sér mjög auknar kröfur. Með auknum og flóknari kröfum sem stjórnvöld setja hefur kostnaður aukist umtalsvert. Þessi þróun hefur leitt af sér aukið samstarf sorpsamlaga og þannig hafa stjórnendur áttað sig betur á því að enn meiri hagræðing gæti verið fólgin í sameiningu fyrirtækjanna. Framvinda mála gæti mögulega verið á þá leið að mun meiri áhersla verði lögð á endurvinnslu úrgangsefna, metangas verði framleitt í auknu mæli úr lífrænum úrgangi, þörf fyrir aukna brennslugetu fer vaxandi og og þarf að leysa innan stutts tíma og tryggja þarf svæði til lengri framtíðar fyrir urðun þeirra efna sem alls ekki er mögulegt að vinna úr með öðrum hætti.

Sveitarfélög munu áfram þurfa að axla þá ábyrgð að móttaka og ráðstafa mest öllum úrgangi sem til verður. Gert er ráð fyrir að magn úrgangs muni aukast talsvert á næstu árum eins og þróunin hefur verið síðustu misseri og ár. Reynslan sýnir að flokkspólitísk sjónarmið hafa ekki blandast í umræður um úrgangsmálin heldur hefur sveitarstjórnarfólk og aðrir sem að þessum málum standa fyrst og fremst haft hagkvæmnissjónarmið að leiðarljósi. Það er auðvitað markmið allra sem að þessum málaflokki koma, að leita alltaf bestu og hagkvæmustu leiða til úrlausna, bæði umhverfis- og fjárhagslega. Með viðræðum um mögulega sameiningu Kölku og SORPU er markmiðið að reyna að leiða í ljós hvort það geti verið besta leiðin til að ná hámarks hagkvæmni í framtíðarskipan úrgangsmeðhöndlunar fyrir Suðurnesin og Höfuðborgarsvæðið og þannig verði jafnframt sem best tryggð öll umhverfisleg áhrif.

6. Nokkur rekstrarmál

Áætlað er að ný gröfuvél af gerðinni Liebherr sem pöntuð var fyrir síðustu áramót verði tekin í notkun um miðjan júní n.k. Nýja grafan leysir af hólmi 13 ára gamalt tæki sem er orðið erfitt í rekstri.

Framkvæmdastjóri skýrði frá hugmyndum sem Sveinn Valdimarsson verkfræðingur hefur tekið saman um lagningu varanlegs slitlags á hluta af lóð fyrirtækisins að Fitjabraut 10. Varðandi verkefnið var haft samband við eigendur nærliggjandi fasteigna um samstarf og Reykjanesbæ vegna götu sem liggur framhjá húsinu og þarfnast varanlegs slitlags. Allir aðilar hafa samþykkt að taka þátt í verkefninu. Kostnaður SS er áætlaður 8 - 9 m.kr.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjóri og endurskoðandi fyrirtækisins eigi fund fljótlega eða jafnvel í næstu viku með Vigfúsi Ásgeirssyni hjá Talnakönnun um útreikning á lífeyrisskuldbindingum eins og rætt var um á síðasta aðalfundi fyrirtækisins.

7. Önnur mál

1.     Næsti stjórnarfundur er áætlaður fimmtudaginn 12. apríl 2018.

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 18:15

Birgir Már Bragason
Brynja Kristjánsdóttir
Jóna Rut Jónsdóttir
Inga Rut Hlöðversdóttir
Elín Björg Gissurardóttir
Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir
Bjarni Stefánsson
Jón Norðfjörð

490. fundur stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf á PDF formi, hentugt til útprentunar
Til baka