Stjórn SS - fundur 492

18.5.2018

492. fundur stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. haldinn fimmtudaginn 17. maí 2018  kl. 16:30 í fundarsal Kölku að Berghólabraut 7 í Reykjanesbæ. Mætt eru: Birgir Már Bragason, Gísli Heiðarsson, Jóna Rut Jónsdóttir, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir, Elín Björg Gissurardóttir, Bjarni Stefánsson, Inga Rut Hlöðversdóttir og Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

Gísli Heiðarsson mætti fyrir Brynju Kristjánsdóttur sem boðaði forföll.

Birgir Már Bragason formaður stjórnar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

    1.    Ársreikningur SS 2017 lagður fram

    2.    Bygging spilliefna- og botnöskuskýla – staða máls

    3.    Grænt bókhald 2017

    4.    Ársskýrsla 2017

    5.    Drög að umsókn um lóð fyrir nýja brennslustöð

    6.    Sameiningarviðræður SS og Sorpu – staða máls

    7.    Önnur mál

1. Ársreikningur SS 2017 lagður fram til afgreiðslu

Ársreikningur fyrirtækisins fyrir árið 2017 var lagður fram til afgreiðslu. Einnig var lögð fram endurskoðunarskýrsla og staðfestingarbréf stjórnar. Anna Birgitta Geirfinnsdóttir endurskoðandi var mætt á fundinn og fór yfir og skýrði niðurstöður. Heildarrekstrartekjur námu rúmum 622 mkr., en voru rúmar 545 mkr. árið 2016. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsgjalda námu rúmlega 525 mkr., en voru rúmar 463 mkr. árið 2016. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam þannig rúmlega 97 mkr. en var rúmar 82 mkr. árið 2016. Heildarhagnaður ársins eftir afskriftir og fjármagnsgjöld nam rúmlega 9,2 milljónum króna samanborið við 4,8 milljóna króna tap árið 2016. Í árslok 2017 námu heildareignir félagsins rúmlega 1.057 mkr. en skuldir og skuldbindingar námu rúmum 782 mkr. Eigið fé er rúmlega 275 mkr. og eiginfjárhlutfall félagsins 26,03% samanborið við 24,82% í árslok 2016. Stjórn lýsir ánægju með góða stöðu félagsins.

Ársreikningurinn borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða.

2. Bygging spilliefna- og botnöskuskýla – staða máls

Eins og áður hefur komið fram hefur reynst erfitt að fá verktaka til verksins þrátt fyrir að útboð hafi farið fram og að leitað hafi verið til ýmissa fyrirtækja. Nú liggur fyrir að HUG verktakar ehf. geta tekið verkefnið að sér, en að það verður ekki fyrr en í september eða október á þessu ári. Framkvæmdastjóra falið að ganga frá málinu á grundvelli þeirra verða sem rætt hefur verið um.

3. Grænt bókhald 2017 lagt fram

Framkvæmdastjóri lagði fram til samþykktar endurskoðað Grænt bókhald vegna ársins 2017. Stjórn samþykkir Græna bókhaldið.

4. Ársskýrsla 2017 lögð fram

Framkvæmdastjóri lagði fram til kynningar Ársskýrslu Kölku vegna ársins 2017. Stjórn lýsir ánægju með vel unnar og skilmerkilegar skýrslur. 

5. Drög að umsókn um lóð fyrir nýja brennslustöð

Fyrir fundinum lágu drög að umsókn til Atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar um lóð fyrir brennslustöð og er umsóknin svohljóðandi:

Stjórn Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. sækir hér með um að fá úthlutað lóðinni Berghólabraut 6 eins og hún er samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Með umsókn þessari vill stjórn SS tryggja þann möguleika að hægt verði að byggja nýja brennslustöð á lóð við núverandi starfsvæði fyrirtækisins. Á þessari stundu hafa engar ákvarðanir verið teknar um framhaldið, en fyrir liggur að brennslugeta Kölku verður ekki aukin meira en orðið er. Magn úrgangs sem kemur til eyðingar hefur aukist mjög að undanförnu og framtíðarspár gera ráð fyrir enn meiri aukningu. Engin viðurkenndur urðunarstaður er á Suðurnesjum, en það er verkefni sveitarfélaga samkvæmt lögum að ráðstafa úrgangi til endurvinnslu eða eyðingar. Sorpbrennsla er viðurkennd sem ein umhverfisvænasta leið til eyðingar úrgangs og gera verður ráð fyrir að auka þurfi brennslugetu á allra næstu árum. Starfsemi Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. með brennslustöðina Kölku hefur verið til staðar í Helguvík síðast liðin 14 ár og hefur starfsemin gengið mjög vel og ekki valdið íbúum eða starfsfólki nærliggjandi fyrirtækja neinu ónæði, óþægindum eða slæmum umhverfisáhrifum.

Samþykkt var að senda umsóknina til Atvinnu og hafnarráðs Reykjanesbæjar.

Þá var samþykkt að senda tilkynningu um málið til sveitarfélaganna, eigenda Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. enda eru endanlegar ákvarðanir um framtíðarrekstur fyrirtækisins háðar samþykki þeirra. Einnig var samþykkt að tilkynna Umhverfisstofnun um þessa samþykkt stjórnar SS.

6. Sameiningarviðræður SS og SORPU – staða máls

Formaður og framkvæmdastjóri mættu á fund viðræðunefndanna hinn 16. apríl. Þar var farið yfir vinnuskjal sem kynnt var á síðasta stjórnarfundi. Framkvæmdastjóri lagði fram kynningu sem stjórnarmenn og framkvæmdastjóri munu yfirfara. Næsti fundur viðræðunefndarinnar verður boðaður fljótlega og gert er ráð fyrir að fulltrúi Capacent mæti á næsta stjórnarfund SS og þá verði farið ítarlega yfir stöðu málsins. Stefnt er að því að málið verði kynnt fyrir fulltrúum sveitarfélaganna í ágúst eða september nk.

7. Önnur mál

1.      Framkvæmdastjóri lagði fram til kynningar eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar vegna eftirlits sem framkvæmt var hinn 27. mars 2018. Einnig voru kynnt önnur samskipti við stofnunina.

2.      Þá upplýsti framkvæmdastjóri að komur á endurvinnsluplönin í Helguvík, Grindavík og Vogum hafi verið rúmlega 26 þúsund árið 2017.

3.      Næsti stjórnarfundur er áætlaður fimmtudaginn 21. júní 2018.

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 17:50

Birgir Már Bragason
Gísli Heiðarsson
Jóna Rut Jónsdóttir
Inga Rut Hlöðversdóttir
Elín Björg Gissurardóttir
Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir
Bjarni Stefánsson
Jón Norðfjörð

492. fundur stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf á PDF formi, hentugt til útprentunar
Til baka