Stjórn SS - fundur 496

5.10.2018

496. fundur stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. (Kölku sorpeyðingarstöðvar sf.) haldinn fimmtudaginn 4. október 2018  kl. 16:30 í fundarsal Kölku að Berghólabraut 7 í Reykjanesbæ. Mætt eru: Ásrún Helga Kristinsdóttir, Inga Rut Hlöðversdóttir, Laufey Erlendsdóttir, Páll Orri Pálsson, Önundur Jónasson, og Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð. Ingþór Karlsson rekstrarstjóri brennslu sat einnig fundinn.

Inga Rut Hlöðversdóttir formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

1.   Kynning á starfsemi félagsins – vettvangsskoðun.

2.   Viðræður Kölku og SORPU – kynning frá Capacent.

3.   Nokkur rekstrarmál til upplýsinga og umræðu.

4.   Önnur mál.

1. Kynning á starfsemi félagsins - vettvangsskoðun

Stjórnarfulltrúar fóru í vettvangsskoðun um brennslustöð og starfsvæði félagsins í Helguvík og geymslu hús að Fitjabraut í Njarðvík. Framkvæmdastjóri og Rekstrarstjóri brennslu skýrðu frá starfseminni og svöruðu spurningum.

2. Viðræður Kölku og SORPU - kynning frá Capacent

Formaður sagði frá fundi viðræðunefndanna sem haldinn var 24. september sl. hjá Capacent og bauð velkomin á fundinn Þröst Sigurðsson og Snædísi Helgadóttur ráðgjafa Capacent. Þau Þröstur og Snædís fóru yfir ferlið og kynntu helstu atriði þess frá því að viðræður félaganna um mögulega sameiningu hófust á miðju ári 2016. Fram komu ýmsar spurningar sem ráðgjafarnir svöruðu.

3. Nokkur rekstrarmál til upplýsinga og umræðu

Framkvæmdastjóri upplýsti um fund sem bæjarstjóri Reykjanesbæjar boðaði til hinn 19. september sl. Á fundinn mættu auk hans og bæjarstjóra, Ingþór Karlsson rekstrarstjóri brennslu, Önundur Jónasson stjórnarmaður í Kölku og Guðlaugur Helgi Sigurjónsson sviðstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar. Á fundinum var m.a. rætt um möguleika þess fyrir bæinn að gera þjónustusamning við Kölku um rekstur grenndargáma o.fl. Niðurstaða var að bærinn sendi erindi til Kölku þar sem fram kæmu þau atriði sem óskað væri eftir. Eins og fram kom á aðalfundi félagsins var gerð breyting á samþykktum um skilafrest á fjárhagsáætlun til SSS og sveitarfélaganna. Skilafresturinn var styttur um einn mánuð, þ.e. til 31. október ár hvert. Framkvæmdastjóri upplýsti að hann hafi haft samband við framkvæmdastjóra SSS og óskað eftir lengri skilafresti, eða til 10. nóvember. Samkomulag náðist um lengri skilafrest.

Keyptur var sendibíll af gerðinni Renault Traffic árgerð 2017 og Skodabifreið félagsins árgerð 2014 var seld. Áætlað er að framkvæmdir við malbikun á hluta lóðar við geymslu félagsins að Fitjabraut 10 verði í næstu viku. Framkvæmdastjóri kynnti ýmis rekstarmál svo sem varðandi skipan starfa hjá félaginu, vinnuverndar og öryggismál, Grænt bókhald 2017 sem m.a. varðar magntölur úrgangs og skiftingu og fleira og umfang viðskipta. Einnig lagði framkvæmdastjóri fram skýrslu um fýsileikakönnun sem gerð var á sl. ári um hagnýtingu afgangsvarma frá brennslustöðinni.

4. Önnur mál

1.   Eins og fram kom á aðalfundi félagsins, tilkynnti framkvæmdastjóri að hann hyggðist láta af starfi sínu innan tíðar. Hann upplýsti að hann hafi óskað eftir fundi með formanni til að ræða starfslok sín. Niðurstöður þeirra viðræðna voru að formaður óskaði eftir frestun ákvörðunar hans þar til sýnt væri hver framvinda viðræðna við SORPU yrði.

2.   Borist hefur formlegt svar frá Reykjaneshöfn dags. 3. október, vegna umsóknar félagsins um lóðina Berghólabraut 6. Í svarinu kemur fram að forræði lóðarinnar hefur færst frá Reykjaneshöfn til Reykjanesbæjar. Samkvæmt þessari breytingu þarf að senda umsóknina um lóðina til Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar. Framkvæmdastjóra falið að senda umsóknina.

3.   Ágætar umræður voru um þjónustustig félagsins svo sem opnunartíma o.fl.

4.   Næsti stjórnarfundur er áætlaður 6. nóvember 2018.

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 21:10

Inga Rut Hlöðversdóttir
Ásrún Helga Kristinsdóttir
Laufey Erlendsdóttir
Páll Orri Pálsson
Önundur Jónasson
Jón Norðfjörð

496. fundur stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf á PDF formi, hentugt til útprentunar
Til baka