Stjórn SS - fundur 497

8.11.2018

497. fundur stjórnar Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. haldinn þriðjudaginn 6. nóvember 2018  kl. 16:30 í fundarsal Kölku að Berghólabraut 7 í Reykjanesbæ. Mætt eru: Ásrún Helga Kristinsdóttir, Inga Rut Hlöðversdóttir, Laufey Erlendsdóttir, Páll Orri Pálsson, Önundur Jónasson og Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

Inga Rut Hlöðversdóttir formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

   1.   Nýtt nafn félagsins og logo

   2.   Tillögur um gjaldskrárbreytingar

   3.   Fjárhagsáætlun 2019 - tillaga

   4.   Viðræður Kölku og SORPU – staða mála

   5.   Tryggingarmál og endurskoðun

   6.   Eftirlit Umhverfisstofnunar

   7.   Fundargerð verkefnastjórnar um hagsmunagæslu í úrgangsmálum

   8.   Ráðstefna um byggingarúrgang

   9.   Önnur mál

1. Nýtt nafn félagsins og logo

Hinn 9. október sl. staðfesti fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra nýtt nafn á félagið. Nýja nafnið er Kalka sorpeyðingarstöð sf. og heldur félagið sömu kennitölu og áður, 531278-0469. Þá hefur merki (logoi) félagsins verið breytt til samræmis við nafnbreytinguna og er tillaga að breytingunni sem sjá má hér efst í vinstra horni þessa skjals lögð fyrir stjórn. Tillagan samþykkt.

2. Tillögur um gjaldskrárbreytingar

Framkvæmdastjóri lagði til að sorpgjöld á íbúðaeigendur á Suðurnesjum verði hækkuð um 4% fyrir árið 2019. Tillagan tekur mið af viðmiðunarvísitölum neysluverðs til verðtryggingar og launavísitölu sem saman hafa hækkað um tæp 5% á yfirstandandi ári og verðbólguspá næsta árs sem er um 3%. Gert er ráð fyrir að hækkanir verði á aðkeyptri þjónustu og rekstravörum meðal annars vegna  vísitölubreytinga og einnig er gert ráð fyrir að hækkun verði á launakostnaði. Lagt til að lágmarksgjald á endurvinnslustöðvum í Helguvík, Grindavík og Vogum verði óbreytt, þ.e. kr. 4.000 pr. m3 frá og með 1. janúar 2019. Þannig verði lágmargsgjald fyrir gjaldskyldan úrgang kr. 1.000 fyrir ¼ m3 , gjald fyrir ½ m3 kr. 2000 og gjald fyrir ¾ m3 kr. 3.000. Gert er ráð fyrir að tekjur muni lækka nokkuð vegna innheimtu viðbótarsorphirðugjalda hjá sveitarfélögunum vegna aðila sem nota fleiri en eina sorptunnu.

Framkvæmdastjóri kynnti einnig tillögu að gjaldskrárbreytingum fyrir stofnanir og fyrirtæki, ásamt gjaldskrám fyrir spilliefni og sóttmengaðan úrgang. Að teknu tilliti til vísitölubreytinga launa og neysluverðs til verðtryggingar sl. ár, er lagt til að framangreindar gjaldskrár hækki að meðaltali um 5% hinn 1. janúar 2019 að frádreginni 2% hækkun sem gjaldskrárnar hækkuðu um hinn 1. júlí sl. Auk þess er lagt til að innveginn úrgangur af nokkrum tilteknum úrgangsefnum frá fyrirtækjum og stofnunum hækki að auki um eina krónu pr. kg.

Góðar umræður urðu um tillögurnar og tóku allir fundarmenn til máls. Allar framangreindar tillögur um breytingar á sorpgjöldum og gjaldskrám voru samþykktar samhljóða. Gjaldskrárnar hafa tekið breytingum undanfarin ár, meðal annars verið leiðréttar frá fyrri tíma og verðlagning tekið mið af kostnaði fyrirtækisins við förgun þess úrgangs sem móttekin er frá viðskiptaaðilum. Gjaldskrárbreytingar fyrir stofnanir og fyrirtæki eru endurskoðaðar á sex mánaða fresti. Á þessu ári, 2018 hefur orðið umtalsverð breyting í sorpmálum á Suðurnesjum með því að tekin var upp flokkun úrgangs við heimili. Sorpgjöld á íbúðaeigendur voru ekki hækkuð sérstaklega vegna þessa þrátt fyrir mikinn kostnað samfara breyttu fyrirkomulagi, svo sem vegna kaupa á sorpílátum o.fl.

3. Fjárhagsáætlun 2019 - tillaga

Framkvæmdastjóri lagði fram drög að fjárhagsáætlun fyrir árið 2019. Við gerð fjárhagsáætlunar er gert ráð fyrir hækkun á sorpgjöldum og gjaldskrám sbr. 2. lið í fundargerðinni. Þá er gert ráð fyrir lækkun tekna vegna aðila sem nota fleiri en eina sorptunnu. Í áætluninni er gert ráð fyrir nokkurri hækkun rekstrarliða, hækkun launakostnaðar, nauðsynlegum viðhaldskostnaði þar sem er lögð mikil áhersla á fyrirbyggjandi viðhald. Þá er gert ráð fyrir áætluðum kostnaði vegna bygginga á skýlum fyrir spilliefni og botnösku á lóð fyrirtækisins sem ekki reyndist unnt að klára á yfirstandandi ári og einnig er gert ráð fyrir endurnýjun tækja sem nauðsynlegt er að ráðast í. Eins og áður er áætlaður kostnaður vegna flugösku sem send verður til Noregs eins og jafnan hefur verið gert ráð fyrir við gerð fjárhagsáætlunar. Tillagan var yfirfarin og góðar umræður voru um hana og almennt um ágæta rekstrarstöðu fyrirtækisins. Tillaga að fjárhagsáætlun 2019 var samþykkt samhljóða og verður send til fjárhagsnefndar SSS og sveitarfélaganna.

4. Tryggingarmál og endurskoðun

Formaður hóf umræður um tryggingarmál félagsins og endurskoðun og lagði til að þessi verkefni verði boðin út. Nokkrar umræður urðu um málið og var ákveðið að fram komi að æskilegt sé að bjóðendur hafi starfstöð á Suðurnesjum. Tillaga formannsins var síðan samþykkt.

5. Viðræður Kölku og SORPU - upplýsingar

Eins og fram kom í tölvupósti til stjórnar er áætlað að halda næsta fund viðræðunefndanna hér í fundarsal Kölku hinn hinn 9. nóvember nk. Framkvæmdastjórar Kölku og SORPU hittu ráðgjafa Capacent hinn 1. nóvember sl. til að undirbúa fund viðræðunefndanna. Gert er ráð fyrir að á fundinum 9. nóvember muni liggja fyrir mótaðar tillögur og hugmyndir um framkvæmd mögulegrar sameiningar félaganna. Formaður lagði til að Laufey varaformaður bætist í viðræðunefndina f.h. Kölku og var það samþykkt.

6. Eftirlit Umhverfisstofnunar

Framkvæmdastjóri lagði fram til kynningar drög að skýrslu Umhverfisstofnunar vegna eftirlits sem framkvæmt var hinn 10. október. Engin frávik eða athugasemdir koma fram hjá eftirlitsaðilum við  rekstrarmál Kölku.

7. Fundargerð verkefnisstjórnar um hagsmunagæslu í úrgangsmálum

Framkvæmdastjóri lagði fram til kynningar fundargerð verkefnisstjórnar um aukna hagsmunagæslu í úrgangsmálum frá 29. október sl. Meðfylgjandi var fróðlegt erindi Freys Ævarssonar verkefnisstjóra umhverfismála á Fljótsdalshéraði, sem hann hélt á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. Þá var einnig meðfylgjandi drög að tillögu um aðgerðaráætlun í plastmálefnum sem kynnt var fyrir umhverfisráðherra hinn 29. október sl.

8. Ráðstefna um byggingarúrgang

Fenúr sem er fagráð um endurnýtingu og úrgang og Kalka er aðili að, boðar til ráðstefnu um byggingarúrgang ásamt Grænni byggð og Samtökum iðnaðarins. Ráðstefnan verður haldin hinn 8. nóvember og er opin öllum sem áhuga hafa.

9. Önnur mál

   1.   Framkvæmdastjóri upplýsti að Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hafi á fundi sínum hinn 26. október sl. samþykkt umsókn Kölku um lóð fyrir sorpbrennslustöð. Fundargerð Umhverfis- og skipulagsráðs fer til afgreiðslu bæjarstjórnar hinn 6. nóvember.

   2.   Önundur kynnti hugmyndir varðandi brennslu úrgangs. Rætt var um næstu skref í flokkun heimilisúrgangs t.d. flokkun glers. Einnig var farið yfir kynningarmál félagsins um málefni sem varða m.a. þjónustu við íbúa o.fl.

   3.   Næsti stjórnarfundur er áætlaður 6. desember 2018.

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 19:20

Inga Rut Hlöðversdóttir
Ásrún Helga Kristinsdóttir
Laufey Erlendsdóttir
Páll Orri Pálsson
Önundur Jónasson
Jón Norðfjörð

497. fundur stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf á PDF formi, hentugt til útprentunar
Til baka