Stjórn SS - fundur 499

21.1.2019

499. fundur stjórnar Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. haldinn miðvikudaginn 16. janúar 2019  kl. 16:30 í fundarsal Kölku að Berghólabraut 7 í Reykjanesbæ. Mætt eru: Inga Rut Hlöðversdóttir, Ásrún Helga Kristinsdóttir, Laufey Erlendsdóttir, Páll Orri Pálsson og Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð. Önundur Jónasson boðaði forföll.

Inga Rut Hlöðversdóttir formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

  1. Sameingarviðræður Kölku og SORPU – tillaga um framhald máls.
  2. Tryggingar og endurskoðun – niðurstöður útboðs.
  3. Lóðarúthlutun fyrir sorpbrennslustöð – kostnaður.
  4. Breyting á nafni eiganda í samþykktum Kölku sorpeyðingarstöðvar sf.
  5. Nokkur rekstrarmál.
  6. Gjafir til HSS í tilefni 40 ára afmælis fyrirtækisins.
  7. Fundargerð 47. fundar hagsmunanefndar SÍS í úrgangsmálum.
  8. Önnur mál.

1. Sameiningarviðræður Kölku og SORPU – tillaga um framhald máls

Viðræðunefndir Kölku og SORPU ásamt ráðgjöfum Capacent og stjórnum fyrirtækjanna hafa unnið að sameiningarviðræðum frá miðju ári 2016. Eftir þessar ítarlegu viðræður og yfirferð er stjórn Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. sammála um að sameining fyrirtækjanna geti verið mjög góður kostur fyrir sveitarfélögin með framtíðarhagsmuni og umhverfissjónarmið að leiðarljósi.

Nú er málið komið á það stig að góðar upplýsingar og hugmyndir liggja fyrir um á hvaða grundvelli hægt er að kynna mögulega sameiningu fyrir bæjarstjórnum sveitarfélaganna. Á þeim forsendum samþykkir stjórn Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. fyrir sitt leyti að vísa frekari ákvörðunum um framhald málsins til bæjarstjórna sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Fyrirkomulag um kynningu á málinu verði framkvæmd í samráði við fulltrúa bæjarstjórnanna.

2. Tryggingar og endurskoðun – niðurstöður útboðs

Tilboð í endurskoðun og tryggingar fyrir fyrirtækið voru opnuð í gær, 15. janúar hjá Ríkiskaupum sem annaðist framkvæmd útboðanna. Tilboð í endurskoðun bárust frá fjórum aðilum, þ.e. frá KPMG ehf., Deloitte ehf., Ernst Young ehf. og PriceWaterhouseCoopers ehf. Tilboð í tryggingar bárust frá þremur aðilum, þ.e. frá Vátryggingafélagi Íslands ehf, Verði tryggingum ehf. og Tryggingamiðstöðinni ehf. Öll tilboð verða yfirfarin nánar hjá Ríkiskaupum og munu niðurstöður liggja fyrir í næstu viku. Framkvæmdastjóra falið að ganga frá samkomulagi við aðila í samræmi við niðurstöður og skilmála.

3. Lóðarúthlutun fyrir sorpbrennslustöð – kostnaður

Borist hefur útreikningur á gatnagerðargjöldum frá byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar vegna úthlutunar á lóðinni Berghólabraut 6 til Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. fyrir sorpbrennslustöð.

Formanni og framkvæmdarstjóra falið að óska eftir fundi með bæjarstjóra Reykjanesbæjar um framvindu málsins.

4. Breyting á nafni eiganda í samþykktum Kölku sorpeyðingarstöðvar sf.

Um áramótin tók gildi nýtt nafn á sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis og ber sveitarfélagið heitið Suðurnesjabær. Í tilefni af þessari breytingu þarf að skrá nafnið í samþykktir Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. og var framkvæmdastjóra falið að ganga frá málinu og koma leiðréttum samþykktum til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra.

5. Nokkur rekstrarmál

Sorphirðuáætlunin riðlaðist að nokkru leyti um jól og áramót. Þetta gerist jafnan þegar hátíðisdagar bera upp á virka daga eins og var núna. Gámaþjónustan er nú aftur komin á áætlun með sorphirðuna.

Nýtt sorphirðudagatal fyrir árið 2019 er tilbúið og er unnið að því að senda það til íbúa. Þá mun einnig verða ítrekuð kynning á flokkun úrgangs sambærileg þeirri sem send var út í september sl. Flokkun úrgangs hefur gengið nokkuð vel og var flokkað efni um 24% af heildarinnvigtuðu úrgangsmagni frá  heimilum síðustu tvo mánuði. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur SORPA takmarkað móttöku úrgangs af Suðurlandi. Þjónustuaðilar þar hafa leitað eftir því að koma með úrgang þaðan til Kölku. Eins og staðan er eftir að flokkun hófst er eitthvað svigrúm til þess, en aðilum hefur verið tjáð að móttaka úrgangs af Suðurnesjasvæðinu muni áfram hafa forgang.

Nýlega framkvæmdi Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja reglulegt eftirlit með endurvinnsluplönum Kölku í Grindavík og Vogum. Fram kemur í eftirlitsskýrslu að endurnýja þurfi starfsleyfi fyrir plönin og mun umsókn verða send til HES á næstunni.

Nú hefur verktakinn Ellert Skúlason ehf. lokið malbikunarframkvæmdum samkvæmt tilboði á lóð við geymsluhús fyrirtækisins að Fitjabraut 10. Framkvæmdir við byggingar á botnösku- og spilliefna-skýlum munu væntanlega hefjast í þessum mánuði. Það eru HUG verktakar ehf. sem munu annast verkefnið. Brennsludagar ársins 2018 voru 325 og voru brennd 11.479 tonn sem er svipað magn og árið 2017, en þá voru brennsludagar 344.

6. Gjafir til HSS í tilefni af 40 ára afmæli fyrirtækisins

Á síðasta ári voru liðin 40 ár frá stofnun sorpeyðingarstöðvarinnar og af því tilefni samþykkti stjórn fyrirtækisins að færa Heilbrigðisstofnun Suðurnesja kr. 1.500.000 að gjöf. HSS hefur nú nýtt gjöfina til kaupa á fimm eftirtöldum hlutum: Blöðruskanna fyrir slysa- og bráðadeild og heimahjúkrun, skoðunarbekk fyrir slysa- og bráðadeild, rafknúna göngugrind fyrir D deild, háa venjulega göngugrind fyrir D deild og eyrnaskolunartæki fyrir hjúkrunarmóttöku heilsugæslu.

7. Fundargerð 47. fundar hagsmunanefndar SÍS í úrgangsmálum

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

8. Önnur mál

  1. Næsti stjórnarfundur er áætlaður  20. febrúar 2019.

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 18:30

Inga Rut Hlöðversdóttir
Ásrún Helga Kristinsdóttir
Laufey Erlendsdóttir
Páll Orri Pálsson
Önundur Jónasson
Jón Norðfjörð

499. fundur stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf á PDF formi, hentugt til útprentunar
Til baka