Aðalfundur Kölku sorpeyðingarstöðvar sf var haldinn þriðjudaginn 18. apríl. Þar var farið yfir reksturinn árið 2022. Á fundinum fóru Ingþór Guðmundsson stjórnarformaður og Steinþór Þórðarson framkvæmdastjóri yfir reksturinn á síðasta ári. Meðal þess sem fram kom í máli þeirra var að efnismagn sem barst til Kölku var álíka mikið og árið 2021 en brennt magn var um 1000 tonnum minna en á fyrra ári. Skýrist það einkum af skakkaföllum sem urðu m.a. þegar eldsvoði varð á næstu lóð og allt rafmagn fór af stöðinni. Þá varð tjón á kælibúnaði í kuldakasti í desember.
Mikið var lagt í viðhald á síðasta ári en markmið stjórnenda í Kölku er að halda öllum búnaði í góðu ásigkomulagi.
Kristján Ragnarsson, endurskoðandi Kölku, kynnti ársreikninga fyrir 2022. Talsverður afgangur varð af rekstrinum og samþykkti fundurinn að færa hann yfir til næsta árs þar sem margt er framundan bæði í breytingum á rekstri, viðhaldi og nýframkvæmdum. Ársreikninga Kölku fyrir 2022 má sjá hér.kalka-sorpeydingarstod-sf-arsreikningur-2022.pdf
Á fundinum var einnig upplýst að nýtt útboð á sorphirðu er í undirbúningi. Í þeirri vinnu verður sérstaklega hugað að úrræðum til að hindra að upp komi viðlíka ástand og var frá miðjum desember fram í mars á þessu ári. Framkvæmdastjóri upplýsti að í fyrra náðist nýr samningur við aðila í Noregi um meðhöndlun og förgun flugösku. Einnig kom fram að nýverið hafi verið undirrituð viljayfirlýsing við norskt fyrirtæki um samstarf um kolefnisföngun frá útblæstri brennslunnar.
Framkvæmdastjóri greindi einnig frá því að fréttaflutningur undanfarið um bilun í Kölku eigi ekki við rök að styðjast. Hið rétta er að stöðin var stöðvuð í skipulagt viðhald. Búið var að fresta þessu viðhaldsverkefni einu sinni svo hægt væri að taka við fé af fyrsta bænum sem greindist með riðu. Eftir ástandsskoðun á ofni brennslunnar var það mat rekstrarstjóra að frekari frestun fylgdi talsverð áhætta á bilun og hugsanlega talsverðu tjóni. Neyðarstöðvun með riðusmitað sauðfé í brennslulínunni yrði erfið viðfangs. Viðhald á eldmúr er fastur liður í rekstri á sorpbrennslum. Markmiðið í Kölku er að brenna í a.m.k. 330 daga á ári.