Þessa dagana er unnið að uppsetningu á grenndarstöðvum fyrir endurvinnanlegan úrgang á Suðurnesjum. Fjórir gámar eru í hverri stöð, fyrir pappír og pappa, plast, málma og gler. Kalka hefur svo átt í viðræðum við Rauða krossinn um uppsetningu á fatagámum á a.m.k. sumum grenndarstöðvanna. Vonir standa til að þeir bætist við fljótlega.
Þessar stöðvar eru fyrst og fremst hugsaðar fyrir úrgang frá heimilum. Í málmgáma eiga t.d. ekki að fara stórir og þungir málmhlutir heldur málmar sem falla til á heimili, niðursuðudósir, dósalok og þvíumlíkt. Í glergámana má setja glerkrukkur og glerflöskur án skilagjalds en stærri glerhluti þarf áfram að koma með á móttökuplönin í Helguvík, Grindavík og Vogum.
Upphaflega stóð til að grenndarstöðvarnar yrðu settar upp síðla vetrar eða snemma í vor. Vegna orsaka sem aðallega má rekja til Covid 19 hefur hins vegar orðið dráttur á afhendingu gámanna. Nú eru þeir komnir og þær stöðvar sem þegar hafa verið ákveðnar, fimm í Reykjanesbæ, tvær í Suðurnesjabæ og ein stöð bæði í Grindavík og Vogum ættu allar að verða komnar í gagnið fyrir ágústlok.
Með grenndarstöðvunum er stigið skref til að auðvelda íbúum Suðurnesja að skila úrgangi í farvegi sem auðvelda ráðstöfun hans til endurvinnslu. Þá er einnig horft til nýrrar stefnu stjórnvalda í úrgangsmálum og áherslu á að draga stórlega úr urðun úrgangs. Framundan eru miklar breytingar á sorphirðu á landinu öllu og búast má við að flokkum úrgangs í söfnun frá heimilum muni fjölga. Það er þó ljóst að markmiðum um hækkað endurvinnsluhlutfall úrgangs verð ekki náð með fjölgun íláta við húsvegg eingöngu. Grenndarstöðvarnar eru liður í að þétta netið og auðvelda íbúum að ráðstafa sínum úrgangi á ábyrgan hátt.
Reynslan af þessum níu grenndarstöðvum sem nú verða settar upp mun svo ráða mestu um framhaldið. Gefi þær góða raun verður þeim vafalaust fjölgað. Auk nýju grenndarstöðvanna er unnið að breytingum á móttökuplani og annarri aðstöðu í Helguvík. Markmiðið er að geta fjölgað hreinum flokkum úrgangs, einkum í því skyni að koma meira efni í endurnýtingu og endurvinnslu.
Hér er hægt er að sjá staðsetningar á grenndarstöðvum:
Reikna má með að eitthvað þurfi að fínstilla staðsetningar gámanna þegar komin er reynsla á þær. Fjórir gámar verða í öllum stöðvunum og vonir standa til að fatagámar bætist við sumar þeirra áður en langt um líður. Kort með staðsetningum stöðvanna er í vinnslu og mun það birtast á vef Kölku á næstu dögum.