Skýrsla Resource International fyrir Kölku
Á fundi Suðurnesjavettvangs þann 16. júní sl. var kynnt skýrsla sem Resource International vann fyrir Kölku sorpeyðingarstöð sf. með stuðningi frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Markmiðið með gerð skýrslunnar er að skoða forsendur byggingar nýrrar sorporkustöðvar fyrir landið í heild og m.a. reifaðir þeir kostir sem Helguvík hefur sem staðsetning stöðvarinnar. Ljóst er að stjórn og framkvæmdastjóri Kölku sjá ýmis tækifæri með nýrri og öflugri sorporkustöð á svæðinu. Stöðin yrði á margan hátt frábrugðin þeirri sem Kalka rekur nú í Helguvík en með samstarfi myndu stöðvarnar tvær geta tekið við nánast öllum gerðum brennanlegs úrgangs sem til falla í landinu.
Hægt er að nálgast skýrsluna í heild sinni hér.
Öll umræða um nýja stöð byggist að sjálfsögðu á þeirri forsendu að hún mæti auðveldlega öllum kröfum innlendra umhverfisyfirvalda og Evrópusambandsins um mengunarvarnir. Kalka á nú aðild að verkefni á vegum samstarfsvettvangs sorpsamlaganna á SV horninu í samvinnu við Umhverfisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar verður grundvöllur nýrrar sorporkustöðvar á Íslandi skoðaður nánar.