Góð samvinna við síðastu söfnun úrgangs frá heimilum í Grindavík í bili
Umhverfisfyrirtækin sem sinna munu söfnun á úrgangi frá heimilum á Suðurnesjum næstu árin, Terra og Íslenska gámafélagið, sameinuðu krafta sína í dag og luku tæmingu í Grindavík. Þetta var unnið í góðri samvinnu við Kölku og almannavarnir. Þrír bílar fóru inn í bæinn og 16 manns og luku verkinu á um sjö klukkutímum.
Vafalaust hafa allskonar tilfinningar bærst með þeim sem unnu verkið en undarlegt er til þess að hugsa að þarna verður ekki sóttur úrgangur í fyrirsjáanlegri framtíð. Þetta hafði verið í deiglunni í um tvær vikur en ávallt frestað vegna aðstæðna. Núna í vikulokin var svo hugmyndin að tæma á morgun en vegna veðurútlits var því flýtt til dagsins í dag.
Kalka þakkar gámafélögunum, Almannavörnum og öðrum sem komu að þessu verkefni gott samstarf við þessa lokasöfun úrgangs frá heimilum Grindvíkinga. Við í Kölku munum sakna þess að eiga ekki reglulega erindi í Grindavík.