Vaxandi áhugi á endurnýtingu
Kalka og Fjölsmiðjan vilja enn meira samstarf
Eitt mikilvægasta markmiðið í rekstri Kölku um þessar mundir er að stækka hlutfall þess efnis sem berst til fyrirtækisins og hægt er að koma í noktun aftur. Það á þá jafnt við um hluti sem fólk notar áfram í upprunalegri mynd og annað efni sem fólk lagfærir eða notar sem efnivið í nýju samhengi. Hvað nytjahluti varðar þá er samstarf Kölku og Fjölsmiðjunnar lykilatriði. Fjölsmiðjan tekur við nytjahlutum til endursölu, lagfærir sumt en setur annað beint í sölu. Kalka tekur svo við því sem ekki hlýtur náð fyrir augum kaupenda.
Mikill og gagnkvæmur áhugi er meðal stjórnenda Kölku og Fjölsmiðjunnar að auka þetta samstarf og ná lengra í samkeppninni við brennslu og urðun efnis sem getur átt sér aðra framtíð. Framkvæmdstjóri og verkstjóri Kölku, ásamt forstöðumanni og verkstjóra Fjölsmiðjunnar fóru því á dögunum í vettvangsferð til Sorpu og kynntu sér starfsemi Góða hirðisins og efnismiðlunar Góða hirðisins. Fyrrnefnda verslunin á sér allnokkra sögu en efnismiðlunin er enn ung að árum. Þar er tekið á móti nýtanlegu efni og hlutum sem ekki hentar að bjóða upp á í Góða hirðinum. Uppistaðan eru framkvæmdaafgangar, viður, flísar, kantsteinn og gangstéttarhellur o.fl. í þeim dúr. Talsvert úrval er af bæði inni- og útihurðum og efnismiðlunin tekur bæði glugga og rúður í sölu. Þar eru einnig til sölu reiðhjól, hjólbarðar og verkfæri af ýmsu tagi.
Þorvarður Guðmundsson forstöðumaður Fjölsmiðjunnar segir áberandi að áhugi á endurnýtingu góðra hluta fari vaxandi. Ruth Einarsdóttir rekstrarstjóri Góða hirðisins tekur í sama streng og telja þau bæði að þessi áhugi sé ekki eingöngu vegna erfiðs árferðis að undanförnu. Fólk sé orðið meðvitaðra um sóun og kjósi að eyða fjármunum sínum í annað en að kaupa alltaf nýtt. Verslun í Kompunni og Góða hirðinum á undanförnum misserum endurspeglar þessa þróun.
Rekstur Efnismiðlunar Góða hirðisins hefur einnig gengið vel að sögn Guðmundar Tryggva Ólafssonar, rekstrarstjóra endurvinnslustöðva Sorpu. Covid 19 hefur vissulega sett sitt mark á starfsemina en ýmsar hugvitsamlegar lausnir, eins og uppboð á Facebook, hafa heppnast vel. Efnismiðlunin virðist eiga sér bjarta framtíð og nú vilja aðstandendur Kölku og Fjölsmiðjunnar skoða leiðir til að nýta þessa góðu fyrirmynd hér á Suðurnesjum.
Í verslun Góða hirðisins við Fellsmúla. Ruth Einarsdóttir rekstrarstjóri Góða hirðisins, Þorvarður Guðmundsson forstöðumaður Fjölsmiðjunnar, Davor Lucic verkstjóri móttökuplana Kölku og Sigurgeir G. Tómasson verkstjóri hjá Fjölsmiðjunni.
Í Efnismiðlun Góða hirðisins við Sævarhöfða í Reykjavík. Guðmundur Tryggvi Ólafsson rekstrarstjóri endurvinnslustöðva Sorpu, Hafsteinn Hallsson verslunarstjóri Efnismiðlunarinnar, Davor Lucic verkstjóri móttökuplana Kölku, Þorvarður Guðmundsson forstöðumaður Fjölsmiðjunnar og Sigurgeir G. Tómasson verkstjóri hjá Fjölsmiðjunni.