Matarleifarnar þínar hafa breyst í moltu handa þér!
Söfnun á matarleifum hófst í lok síðasta sumars á Suðurnesjum og hefur gengið vonum framar. Alls hefur GAJA tekið á móti 10.500 tonnum af matarleifum frá höfuðborgarsvæðinu og nágrenni, þar á meðal Suðurnesjum. Hreinleikinn árið 2023 er 98% sem gefur mjög skýra mynd af því hversu vel við stöndum okkur í eldhúsunum okkar.
Af þessu tilefni ætlar Kalka að bjóða íbúum á Suðurnesjum að nálgast moltu á eftirtöldum stöðum föstudaginn 3.maí eða á meðan birgðir endast.
Móttökustöð Kölku í Helguvík milli kl 09:00-16:00
Strandgötu 13 Sandgerði á milli kl 08:00-12:30
Hafnargata 101 Vogar
GAJA moltan er ætluð til notkunar utanhúss, en hún hentar einkar vel til notkunar á lóðir, græn svæði í þéttbýli, beð og matjurtagarða. Mikilvægt er að hafa í huga að moltan er mjög sterk og ekki æskilegt að hún sé notuð óblönduð. Rætur plantna eru sérstaklega viðkvæmar fyrir snertingu við óblandaða moltu.
Þeim íbúum sem ætla að nálgast moltu er bent á að hafa meðferðis ílát undir hana, til dæmis fötur eða fjölnota poka.
En hvað er molta?
Molta er öflugur og hollur jarðvegsbætir sem nærir jarðveginn. Molta er ólík mold að því leiti að hún inniheldur ekki nein ólífræn efni, eins og sand eða möl, eins og moldin gerir. Molta inniheldur kolefni, köfnunarefni, fosfór og kalín, sem eru mikilvæg nærandi efni fyrir jarðveginn. Hún er rík af örveruflóru og m.a. þess vegna stuðlar hún að heilbrigðari jarðvegi og eykur hæfni hans til að binda kolefni, þannig leikur molta lykilhlutverk í að viðhalda heilbrigðu vistkerfi.
Í töflunni hér að neðan má sjá næringarefnin í GAJA moltunni.
Hver er munurinn á áburði og moltu?
Molta nærir jarðveginn en áburður gefur plöntunum næringu. Það er mikilvægt að blanda moltuna við mold í hlutföllunum einn á móti þremur. Moltan er nefnilega kraftmikil og getur brennt viðkvæmar plöntur og grös nema hún sé blönduð.
Fleiri fróðleiksmola og frekari upplýsingar má finna á vefsíðu GAJA