Fara í efni

Aðalfundir

41. fundur 09. maí 2019 kl. 15:30 - 16:30 Bíó sal DUUS húsa í Reykjanesbæ
Fundargerð ritaði: Jóhann Rúnar Kjærbo

Fundargerð

41. aðalfundur Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. (áður Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf.) haldinn fimmtudaginn 9. maí 2019 kl. 15:30 í Bíósal DUUS húsa í Reykjanesbæ.

Dagskrá:

1. Fundarsetning.

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

3. Skýrsla stjórnar, Inga Rut Hlöðversdóttir, stjórnarformaður og Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri.

4. Reikningar félagsins árið 2018, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi félagsins.

5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.

6. Tillaga um breytingu á samþykktum félagsins.

7. Kosning endurskoðanda.

8. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna.

9. Önnur mál.


1. Fundarsetning

Inga Rut Hlöðversdóttir formaður stjórnar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.


2. Kosning fundarstjóra og fundarritara

Inga Rut lagði til að Guðbrandur Einarsson bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ yrði kjörinn fundarstjóri og var það samþykkt samhljóða.

Guðbrandur tók við fundarstjórn og lagði til að Jóhann Rúnar Kjærbo starfsmaður hjá Kölku yrði kjörinn fundarritari og var það samþykkt samhljóða.

Guðbrandur tilkynnti að mættir væru fulltrúar allra eignaraðila og að fundurinn hafi verið löglega boðaður. Engar athugasemdir komu fram.


3. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra

Inga Rut Hlöðversdóttir, stjórnarformaður og Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri fluttu skýrslu fyrir árið 2018.

Fyrst tók Inga Rut formaður stjórnar til máls.

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.

Fyrir hönd stjórnar félagsins býð ég ykkur öll velkomin á þennan 41. aðalfund Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. Ég mun fara yfir nokkur atriði hér í dag og svo mun Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri taka við og fara betur yfir starfsemina síðast liðið ár.

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var haldinn 6. september 2018 og höfum við fundað reglulega einu sinni í mánuði. Stjórn félagsins er því á sínu fyrsta starfsári og væntanlega verða verkefnin mörg á kjörtímabilinu.

Fjárhagur félagsins hefur batnað til muna á undanförnum árum og síðasta starfsár var það besta hjá félaginu um langt skeið. Eins og fram kemur í ársreikningi félagsins fyrir árið 2018 voru heildar rekstrartekjur 652 milljónir króna. Rekstargjöld voru tæplega 503 milljónir króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld er rúmar 149 milljónir króna.

Eigið fé félagsins er tæpar 1.128 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið er nú 29,9 prósent. Anna Birgitta Geirfinnsdóttir endurskoðandi félagsins mun hér á eftir fara betur yfir tölulegar upplýsingar í ársreikningi.

Þetta fyrsta ár stjórnar á kjörtímabilinu hefur verið mjög fróðlegt og samvinna stjórnarkvenna og manna góð og er ég þakklát fyrir það traust sem mér var sýnt með því að kjósa mig formann stjórnar. Í mínum huga skiptir ekki máli hvort vægi eigenda að baki stjórnarkonu eða manni er 6 eða 70 prósent í félaginu þegar kosið er til formennsku. Ég tel að reynsla og þekking á starfsemi félagsins vegi þyngra, en ég er að klára tíunda árið mitt sem fulltrúi í stjórn Kölku. Eðlilega hafa skoðanir stundum verið skiptar, en heilt yfir hefur samvinna stjórnarmanna og kvenna gengið vel og ekki má gleyma góðu samstarfi stjórnar við framkvæmdastjóra.

Síðasta ár hefur gengið vel og flokkunin við heimilin fór nokkuð vel af stað. Byrjað var að flokka eftir miðjan september og hefur hlutfall flokkaðs úrgangs komist í að vera um 24 prósent. Markmiðið er að ná prósentunni í 30 sem þá kallast nokkuð gott. Nauðsynlegt er að hvetja fólk enn frekar til dáða, en eins og öllum ætti að vera kunnugt mun þurfa að stefna að enn meiri flokkun úrgangs á næstu árum.

Á næstu mánuðum gerum við ráð fyrir að unnið verði að því koma fyrir gámum fyrir minni glerílát í sveitarfélögunum. Það hefur verið kallað eftir þessu og það er sannarlega gott að losna við glerið úr brennslunni. Glerið bara bráðnar í ofninum og veltist þar um og verður að kúlum sem koma út með botnöskunni. Því teljum við gott að losna við glerið úr brennslunni og ekki væri verra ef við fengjum borgað fyrir það. Það er oft sagt að mikil verðmæti leynist í ruslinu.

Í lok ársins var farið í útboð á tryggingum og endurskoðun fyrir félagið og náðust þar ágætir samningar.

Á árinu var haldið áfram með sameiningarviðræður við SORPU og niðurstöðu skilað til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin ákváðu að fá Hauk Björnsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Íslenska gámafélagsins til að yfirfara niðurstöður viðræðnanna og hefur nú verið boðað til kynningarfundar með bæjarfulltrúum sem og núverandi og fyrri stjórnarkonum og mönnum Kölku 22. maí næstkomandi. Ég vil hvetja alla bæjarfulltrúa til að mæta á þann fund. Skýrsla Hauks verður ekki til umræðu á þessum aðalfundi, en ég vil taka undir orð Birgis Bragasonar fyrrverandi formanns stjórnar Kölku sem sagði á síðasta aðalfundi eftirfarandi: „Vonandi munu bæjarfulltrúar halda áfram að taka vel undir þá vinnu sem búið er að vinna í þessu stóra máli og horfa til langrar framtíðar þegar kemur að ákvarðanatöku um sameiningu Kölku og SORPU“:

Á fyrsta fundi stjórnar Kölku eftir þennan aðalfund verður farið í að huga að ráðningarmálum framkvæmdastjóra því Jón okkar hefur áhveðið að skila inn uppsagnarbréfi í næsta mánuði.

Jón Norðfjörð hefur unnið gott og þarft verk fyrir félagið og kunnum við honum okkar bestu þakkir fyrir. Einnig vil ég þakka Jóni gott samstarf og góð samtöl við mig sem stjórnarformann félagsins. Takk elsku Jón og takk fyrir mig.

Þá var komið að Jóni Norðfjörð framkvæmdastjóra

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.

Á aðalfundinum í ágúst á síðasta ári, tilkynnti ég ykkur að það væri væntanlega minn síðasti aðalfundur sem framkvæmdastjóri Kölku. Með samkomulagi við stjórn fyrirtækisins hefur vera mín í starfi orðið heldur lengri en ég gerði ráð fyrir. Það sem veldur því að ég er enn við störf er bið eftir niðurstöðu mögulegrar sameiningar Kölku og SORPU.

Nú hef ég tilkynnt stjórninni að ég muni leggja fram uppsagnarbréf í júní og ákvörðun stjórnar um framhaldið verður væntanlega tekin fyrir á næsta stjórnarfundi sem áætlaður er 15. maí n.k.

Á aðalfundinum í fyrra stiklaði ég á stóru yfir tímabilið frá því að ég tók við framkvæmdastjórastarfinu 2011 til ársins 2018. Núna ætla ég sleppa því að rifja upp fyrri tíma og fara þess í stað yfir það helsta sem á dagana dreif á síðasta starfsári, en þar er af ýmsu að taka eins og venjulega.

Nýir verksamningar

Í upphafi ársins lágu fyrir tilboð verktaka í ýmis þjónustuverkefni sem boðin voru út í árslok 2017. Meðal þess sem boðið var út voru sorphirða frá íbúðarhúsum á Suðurnesjum sem kom í hlut Gámaþjónustunnar, flutningar frá Kölku og endurvinnslustöðvum sem kom í hlut Íslenska gámafélagsins, kaup á ýmsum úrgangsefnum sem kom í hlut nokkra aðila, og flutningar innan lóðar og önnur verkefni sem komu í hlut Íslenska gámafélagsins. Nýir verksamningar tóku gildi hinn 1. febrúar 2018 og hafa reynst Kölku mjög hagstæðir.

Nýbreytni í starfseminni – sorpflokkun

Í útboði verksamninga var gert ráð fyrir að að tekin yrði upp flokkun úrgangs við heimili á árinu 2018. Verkefnið var undirbúið í samvinnu við sorphirðuverktakann, Gámaþjónustuna með kaupum á grænum sorpílátum, samningu og dreifingu kynnisefnis og fleira. Verkefnið hófst eftir miðjan september og voru björgunarsveitir á Suðurnesjum fengnar til að dreifa sorpílátunum. Flokkunaraðferðin sem ákveðin var, að blanda saman nokkrum endurvinnanlegum úrgangsefnum, fór nokkuð vel á stað og hafa íbúar sýnt framfarir í þátttöku verkefnisins. Reynsla þeirra sem tekið hafa upp sömu flokkunaraðferðir, sýna að um 30% árangur í þunga efnis telst góð þátttaka. Það getur tekið nokkurn tíma að ná þeim árangri, en með endurteknum hvatningum og kynningu á þetta að hafast. Verkefnið var kynnt með útgáfu kynningarbæklings með leiðbeiningum um sorpflokkun. Einnig voru viðtöl við fulltrúa Kölku í Víkurfréttum og sjónvarpi. Þá var viðtal og við fulltrúa Gámaþjónustunnar ásamt auglýsingu með leiðbeiningum um verkefnið í Víkurfréttum. Ýmislegt fleira hefur verið gert og er fyrirhugað til hvatningar og kynningar á verkefninu.

Sameiningarviðræður við SORPU

Viðræðurnar við SORPU í þessari lotu hafa staðið yfir frá miðju ári 2016 og voru viðræðurnar á dagskrá allt árið 2018. Viðræðunefndir og stjórnir Kölku og SORPU með ráðgjöfum Capacent luku viðræðum í árslok 2018 með greinargerð og kynningu með ítarlegum upplýsingum um atriði sem máli skipta fyrir sveitarfélögin. Málið var sent til allra viðkomandi sveitarfélaga, sem munu ákveða hvert framhaldið og niðurstaðan verður.

Umsókn um lóð fyrir nýja brennslustöð

Stjórn Kölku samþykkti á árinu að sækja um lóðina Berghólabraut 6 fyrir nýja sorpbrennslustöð. Umsóknin var tekin til afgreiðslu og samþykkt á fundi Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar í október sl. og var samþykktin staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 6. nóvember 2018. Gert var samkomulag við Reykjanesbæ til sex mánaða frá og með 3. apríl sl. um frestun á afhendingu lóðarinnar og greiðslu gatnagerðargjalds.

Móttekin úrgangur

Öll starfsemi félagsins á árinu 2018 gekk mjög vel, en magn á úrgangi sem tekið var á móti í stöðinni, var svipað og árið 2017. Brennslustöðin var eins og undanfarin ár fullnýtt, en eftir að flokkun við heimili hófst, dró úr því magni sem flytja þurfti til urðunar.

Heildarmagn úrgangs sem barst til fyrirtækisins árið 2018 var um 18.300 tonn sem er um 200 tonnum minna en árið 2017.

Í brennslustöðinni voru brennd tæplega 11.500 tonn sem er svipað magn og árið á undan. Frákeyrt magn úrgangs sem fór til endurnýtingar eða endurvinnslu voru rúmlega 2.300 tonn og þar af voru um 325 tonn endurvinnsluefnis vegna flokkunar við heimili. Til urðunar fóru rúmlega 6.500 tonn, en þar af var botnaska um 1.830 tonn. Allur úrgangur sem þurfti að urða var fluttur til SORPU.

Í heildina var frákeyrt magn úrgangs því um 8.800 tonn.

Heimsóknum á gámaplönin fjölgaði aðeins milli ára, en magn úrgangs sem kom á plönin minnkaði um 400 tonn milli ára.

Viðhaldsverkefni og ný tæki

Eins og fram hefur komið áður, er mikið af viðhaldsverkefnum sem fylgja rekstri brennslustöðvar. Á hverju ári þarf að sinna margvíslegum viðhaldsverkefnum og fyrirbyggjandi aðgerðum og vegna þessa þurfti að stöðva brennslu tvisvar á árinu 2018, fyrst í apríl í tvær vikur og aftur í október í eina viku. Það er mikill hiti og mikið álag á brennslulínunni og viðhaldsverkefnin eru fjölbreytt. Þar má nefna endurnýjun á eldmúr og einangrun í brennsluofni, endurnýjun á síum í reykhreinsikerfi, hreinsun á gufukatli, endurnýjun og viðhaldi á rafmótorum, viðhald á færiböndum og sniglum og margt margt fleira. Fyrirbyggjandi viðhald hefur dregið verulega úr óvæntum stoppum. Á árinu 2018 var endurnýjun á vinnuvélum og má þar nefna að keypt var Libherr moksturstæki sem leysti af hólmi 13 ára gamla vinnuvél. Einnig var keyptur Linde lyftari og Renault Traffic sendibíll sem er notaður sem þjónustubifreið.

40 ára afmæli fyrirtækisins

Á síðasta ári minntumst við 40 ára afmælis félagsins og af því tilefni var Heilbrigðisstofnun Suðurnesja færð tækjagjöf að verðmæti krónur 1.500 þúsund. Einnig var þessara tímamóta minnst á aðalfundinum í ágúst síðast liðnum.

Bygging spillefnaskýlis og botnöskuskýlis

Eins og fram kom á síðasta aðalfundi var gert samkomulag við HUG verktaka ehf. um að byggja skýli fyrir spilliefni og botnösku. Þetta er samkvæmt kröfu í starfsleyfi félagsins. Verkfræðistofa Suðurnesja hannaði verkefnið. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar samþykkti framkvæmdirnar og einnig kom jákvæð umsögn frá Umhverfisstofnun. Framkvæmdir hófust síðari hluta ársins og er framhaldið á árinu 2019.

Malbikun lóðar við Fitjabraut 10

Fleiri framkvæmdir voru í gangi hjá félaginu sem var meðal annars að snyrta og malbika hluta lóðarinnar við geymsluhúsið að Fitjabraut 10.

Útboð á tryggingum og endurskoðun

Í desember sl. voru tryggingar félagsins og endurskoðun boðin út í samstarfi við Ríkiskaup. VÍS, sem hefur annast tryggingar fyrir Kölku undanfarin ár var með lægsta gilda tilboðið í tryggingar og heldur þ.a.l. áfram að annast tryggingar fyrir félagið. Undanfarin ár hefur endurskoðunarfyrirtækið Deloitte séð um endurskoðun hjá Kölku en í útboðinu reyndist lægsta tilboðið vera frá Price Waterhouse Coopers. PWC tekur við endurskoðun félagsins frá og með janúar 2019. Samstarfið við Deloitte hefur verið mjög gott og er Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur og öðru starfsfólki Deloitte þökkuð góð og ánægjuleg samskipti til margra ára.

Eftirlit og samskipti við Umhverfisstofnun

Eins og venja er til, framkvæmdi Umhverfisstofnun eftirlit með starfsemi félagsins tvisvar á árinu 2018 og voru engin frávik skráð. Samskipti við Umhverfisstofnun hafa að venju verið mjög góð, en stofnunin slær þó ekkert af kröfum sínum og hefur gott eftirlit með því að ákvæðum starfsleyfis og lögum og reglugerðum sé framfylgt.

Í brennslunni er símælikerfi vegna útblástursmælinga og allar niðurstöður skráðar. Auk þess eru umfangsmeiri útblástursmælingar framkvæmdar af sérfræðingum frá verkfræðifyrirtæki. Margvíslegum skýrslum þarf að skila til Umhverfisstofnunar á hverju ári samkvæmt ákvæðum í starfsleyfi og má þar nefna Grænt bókhald sem við birtum á heimasíðunni www.kalka.is., ársskýrslu vegna reksturs brennslunnar þar sem fram koma tölulegar upplýsingar um allar útblástursmælingar og fleiri gagnlegar upplýsingar. Árlega er gerð skýrsla um magntölur úrgangs o.fl. Allar mælingar og skýrslur eru sendar til Umhverfisstofnunar sem fylgist vel með því að öll skilyrði starfsleyfis séu uppfyllt eins og fyrr segir.

Útflutningur á flugösku

Engin flugaska var flutt út á árinu 2018 en áætlað er að aska sem er í húsnæði félagsins að Fitjabraut 10 í Njarðvík verði flutt út síðari hluta þessa árs. Samningur við NOAH um móttöku og meðhöndlun á öskunni gildir út árið 2019, en framlengist sjálfkrafa um eitt ár í senn ef hvorugur aðili segir honum upp.

Við lentum reyndar í miklum vanda í aprílmánuði þegar okkur var nánast fyrirvaralaust tilkynnt að sænska fyrirtækið sem seldi okkur sódann í reykhreinsikerfið væri orðið gjaldþrota. Jafnframt fengum við fregnir af því að eigandinn hafi látist úr krabbameini daginn sem gjaldþrotið var tilkynnt. Þetta gerði það að verkum að finna þurfti nýjan aðila sem gæti selt okkur sóda og það reyndist alls ekki auðvelt. Gerðar voru tilraunir með ýmis efni og á haustmánuðum var komin ásættanleg niðurstaða, en þá var komin ákvörðun um að skipta um efni og nota kalk sem við kaupum af dönsku fyrirtæki í stað sódans. Kalkið hefur reynst og virkað mjög vel.

Gjaldskrármál

Stjórn félagsins og framkvæmdastjóri hafa á umliðnum árum reynt að halda sorpgjöldum á húseigendur eins hóflegum og unnt hefur verið.

Í fundargögnum ykkar er skjal sem sýnir þróun sorpgjalda í nokkrum sveitarfélögum frá árinu 2012 til og með 2019. Eins og sjá má í skjalinu hafa sorpgjöld á Suðurnesjum aðeins hækkað um tæp 19% á þessu átta ára tímabili sem er töluvert undir verðlagsþróun.

Af þeim rúmlega 30 sveitarfélögum sem voru skoðuð var aðeins eitt sveitarfélag, Norðurþing, með minni hækkanir þar sem þeir gátu á tímabilinu lækkað sín gjöld, en brennslustöð þeirra var lokað og hætti starfsemi á tímabilinu. Meðaltalshækkun sorpgjalda á þessu tímabili var hjá öðrum sveitarfélögum rúm 45%.

Almennar gjaldskrár á fyrirtæki og vegna móttöku á spilliefnum og sóttmenguðum úrgangi hafa fylgt verðlagsþróun. Viðskipti voru svipuð á milli áranna 2017 og 2018 en tekjur jukust um tæpar 30 mkr. á milli ára.

Samstarf sorpsamlaga á Suðvesturlandi

Sorpsamlögin á Suðvesturlandi hafa á undanförnum árum haft með sér samvinnu um ýmis mál. Má þar nefna endurskoðun á svæðisáætlun í úrgangsmálum sem nú er unnið að fyrir tímabilið 2019 til 2030. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki á þessu ári. Þessi samstarfshópur hefur einnig staðið fyrir skoðanakönnun meðal sveitarstjórnarmanna með ósk um ábendingar varðandi mögulega staðsetningu fyrir nýjan urðunarstað. Sú könnun skilaði ekki miklum árangri. Einnig höfum við tekið virkan þátt í samstarfi á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga um hagsmunagæslu sorpsamlaga sveitarfélaga á öllu landinu.

Góðir fundarmenn

Á síðasta aðalfundi var samþykktum félagsins breytt meðal annars á þann veg, að nafni félagsins var breytt í Kalka sorpeyðingarstöð sf., fækkað var í stjórn félagsins úr sjö fulltrúum í fimm vegna sameiningar Garðs og Sandgerðis í eitt sveitarfélag og fleira. Á þessum aðalfundi liggur fyrir ein tillaga frá stjórn um breytingu á samþykktum félagsins. Tillagan er vegna nýs nafns á hið sameinaða sveitarfélag sem nú ber nafnið Suðurnesjabær. Þessu þarf að breyta í samþykktum með formlegum hætti. Tillagan var send til ykkar með fundarboði. Fyrir þá sem vilja skoða sögu félagsins síðustu ár, bendi ég á ítarlega ritaðar fundargerðir sem má finna á heimasíðu félagsins www.kalka.is.

Að lokum þetta

Tíminn er ótrúlega fljótur að líða. Eins og ég nefndi í upphafi, tók ég við starfi sem framkvæmdarstjóri félagsins á miðju ári 2011. Verkefnin hafa verið mörg og miserfið, en heilt yfir hefur þetta verið ánægjulegur tími og batnað með hverju árinu eftir því sem meiri árangur hefur náðst. Góðan árangur má þakka mjög góðri samstöðu stjórnar og starfsmanna félagsins sem ávallt hafa unnið frábærlega að framgangi margra flókinna verkefna. Góð ráð frá gömlum vini hafa reynst vel, en hann sagði þegar ég tók við starfi framkvæmdastjóra Skipaafgreiðslu Suðurnesja árið 1981, „Taktu allar ákvarðanir og stjórnaðu fyrirtækinu eins og þú mundir gera ef þú ættir það sjálfur og hefðir alla hagsmuni af því að vel gangi“.

Samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum hefur á mörgum sviðum reynst vel og það á ekki síst við um úrgangsmálin undanfarin 40 ár.

En núna eins og alltaf blasir framtíðin við með öllum sínum kostum og göllum svo ekki sé minnst á miklar breytingar og auknar kröfur á öllum sviðum. Það eru mörg og mikilvæg verkefni framundan og brýnt að vel takist til. Það er einlæg von mín að þið sem haldið um stjórnartaumana í sveitarfélögunum náið að taka réttar og heillavænlegar ákvarðanir til framtíðar.

Ég held að ég sé búinn að fara ágætlega yfir starfsemina og er að sjálfsögðu tilbúinn til að svara spurningum ykkar.

Nú liggur alveg klárlega fyrir að ég mun segja starfi mínu lausu í næsta mánuði og þar af leiðandi líður senn að kveðjustund. Ég verð að segja það að ég er einstaklega þakklátur fyrir það tækifæri sem ég fékk þegar stjórn Kölku ákvað loksins að ráða mig til starfa fyrir félagið. Ég vil færa ykkur öllum, núverandi og fyrrverandi stjórnarmönnum og starfsmönnum félagsins einlægar þakkir fyrir mjög góða samvinnu og frumkvæði sem hefur gert þennan tíma svo ánægjulegan og árangursríkan.

Takk fyrir.


4. Ársreikningur félagsins árið 2018

Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte kynnti ársreikning fyrirtækisins fyrir árið 2018. Heildarrekstrartekjur námu um 652 mkr., en voru rúmar 622 mkr. árið 2017. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsgjalda námu tæplega 503 mkr., en voru rúmar 525 mkr. árið 2017. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam þannig rúmlega 149 mkr. en var rúmar 97 mkr. árið 2017. Heildarhagnaður ársins eftir afskriftir og fjármagnsgjöld nam 61,9 mkr. en var 9,2 mkr. árið 2017. Í árslok 2018 námu heildareignir félagsins 1.127,9 mkr. en skuldir og skuldbindingar námu 790,7 mkr. Eigið fé er 337,2 mkr. og eiginfjárhlutfall félagsins er 29,9% samanborið við 26,03% í árslok 2017.

Eins og áður hefur komið fram, hefur rekstur og staða félagsins batnað mjög mikið undanfarin ár. Anna Birgitta sagðist vilja þakka fyrir gott og ánægjulegt samstarf við stjórnendur félagsins þar sem nú væri komið að leiðarlokum. Hún sagðist hafa sinnt endurskoðun fyrir félagið a.m.k. sl. 25 ár og vildi hún óska PriceWaterhouse Coopers sem nú tekur við endurskoðun fyrir Kölku, alls velfarnaðar.

 

5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins

Margrét Sanders bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ vildi vekja athygli á því hvort verið væri að styðja við atvinnu á svæðinu með því að fara í útboð á endurskoðun og tryggingum og taldi að ekki væri alltaf rétt að fara í slík útboð út frá atvinnusjónarmiðum. Hún tók þó fram að hún væri almennt hlynnt úrboðum. Þá vek Margrét að skjali er fylgdi ársskýrslunni um samanburð á sorpgjöldum í nokkrum sveitarfélögum, þetta er frábær samantekt en hvers vegna þurfum við að vera svona dýrari en aðrir spurði Margrét.

Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar í Suðurnesjabæ, þakkaði Jóni Norðfjörð sérstaklega fyrir hans störf í þágu félagsins og þakkaði jafnframt Önnu Birgittu fyrir hennar störf við endurskoðun félagsins. Einar Jón sagðist hlynntur útboðum til að fá besta verðið.

Ríkharður Ibsen, varamaður í stjórn félagsins þakkaði Jóni Norðfjörð fyrir frábært starf og einnig Önnu Birgittu endurskoðanda félagsins.

Engar athugasemdir voru gerðar við ársreikning félagsins eða skýrslur stjórnar og framkvæmdastjóra. Ársreikningurinn var síðan samþykktur samhljóða.

 

6. Tillaga um breytingu á samþykktum félagsins

Tillagan er svohljóðandi:

Lögð er til eftirfarandi breyting á 1. grein:

Í stað orðanna/nafnsins „Sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis“ komi nafnið „Suðurnesjabær“.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

7. Kosning endurskoðanda

Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið Price Waterhouse Coopers ehf. verði endurskoðandi félagsins. Tillaga um nýtt endurskoðunarfyrirtæki er samkvæmt útboði á endurskoðun fyrir félagið sem framkvæmt var í samstarfi við Ríkiskaup í desember 2018. Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.

Endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte ehf., Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur og öðru starfsfólki Deloitte er þakkað fyrir mjög gott og ánægjulegt samstarf á liðnum árum.


8. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna

Lagt er til að formaður stjórnar fái 5% af þingfararkaupi fyrir hvern fund, en aðrir stjórnarmenn fái 4% af þingfararkaupi fyrir hvern fund.

Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.


9. Önnur mál.

Jón Norðfjörð þakkaði fyrir góð orð í sinn garð og sagði að lykillinn að góðum árangri væri að fá með í starfið góða samstarfsmenn. Hann sagði starfsmenn hafa lagt sig mjög fram um að reksturinn gengi sem best. Hann þakkaði að lokum öllu samstarfsfólki, starfsmönnum og stjórnarmönnum góð störf fyrir félagið og einstaklega gott samstarf.

Fundarstjóri Guðbrandur Einarsson þakkaði stjórnendum og starfsmönnum Kölku fyrir góð störf fyrir félagið. Hann óskaði Jóni velfarnaðar við starfslok og fundarfólki fyrir mjög góðan fund.

Fleira var ekki gert og var fundi slitið kl. 16:30.

Jóhann Rúnar Kjærbo, fundarritari
Guðbrandur Einarsson, fundarstjóri

41. aðalfundur Kölku sorpeyðingarstöðvar sf á PDF formi, hentugt til útprentunar

Hefur þú spurningu eða ábendingu varðandi efni vefsins?

Sendu okkur fyrirspurn