Aðalfundir
Fundargerð
- aðalfundur Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. haldinn fimmtudaginn 11. ágúst 2022 kl. 15:30 í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ.
Dagskrá:
- Fundarsetning
- Kosning fundarstjóra og fundarritara.
- Skýrsla stjórnar, Önundur Jónasson, stjórnarformaður og Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri.
- Reikningar félagsins árið 2021, Kristján Þór Ragnarsson löggiltur endurskoðandi félagsins.
- Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
- Tilnefning stjórnarmanna.
- Kosning endurskoðanda.
- Tillaga um þóknun til stjórnarmanna.
- Önnur mál.
- Fundarsetning
Önundur Jónasson formaður stjórnar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
Önundur lagði til að Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar yrði kjörinn fundarstjóri og var það samþykkt samhljóða.
Halldóra tók við fundarstjórn og lagði til að Páll Orri Pálsson fráfarandi stjórnarmaður í Kölku yrði kjörinn fundarritari og var það samþykkt samhljóða.
Halldóra tilkynnti að mættir væru fulltrúar allra eignaraðila og að fundurinn hafi verið löglega boðaður. Engar athugasemdir komu fram.
- Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra
Önundur Jónasson, stjórnarformaður og Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri fluttu skýrslu fyrir árið 2021.
Önundur Jónasson:
„Síðastliðin ár hefur megináhersla stjórnar verið á umhverfismál, aukna endurnýtingu ásamt ábyrgri förgun úrgangs og samfélagslega ábyrgð Kölku í förgun sóttmengaðs úrgangs og spilliefna. Auk þess að auka þjónustu við viðskiptavini og íbúa/eigendur Kölku og tryggja jákvæða rekstrarafkomu félagsinsins.
Umhverfisstefna Kölku er partur af daglegum rekstri og óhætt að segja að þau markmið sem þar koma fram skili sér í aukinni umhverfisvitund og meðhöndlun á efni sem berst til Kölku.
Áframhaldandi samstarf hefur verið á milli sorpsamlaganna á Suðvesturlandi sem hafa fundað reglulega og unnið sameiginlega svæðisáætlun í úrgangsmálum á Suðvesturlandi. Sjálfstæð stefna Kölku með þeirri sérstöðu að vera eina brennslustöð landsins er partur af sameiginlegri svæðisáætlun Sorpsamlaganna á Suðvesturlandi. Tillagan sem unnin var innan starfshópsins hefur verið send til skoðunar og yfirferðar hjá sveitafélögunum sem aðild eiga að áætluninni, til formlegrar staðfestingar.
Sem fyrr telur stjórn félagsins að staða Kölku sé nokkuð góð samanborið við mörg önnur sveitafélög þegar horft er til lagasetninga um enn frekari flokkun og takmörkun urðunar á komandi árum. Enn eru fjölmörg tækifæri til staðar til að flokka betur endurvinnanlegt efni úr því efni sem fer í brennslu í dag, bæði frá heimilum og fyrirtækjum á svæðinu. Með því er hægt að auka rýmd í brennslunni til brennslu efna sem ekki eru hæf til annars en förgunar. Staða sveitafélaganna á Suðurnesjum er því sterk þegar kemur að því að uppfylla kröfur framtíðarinnar um frekari endurnýtingu og endurvinnslu og takmarkanir á urðun.
- Grenndarstöðvar
- Seinnipart árs 2021 voru fyrstu grenndarstöðvarnar settar upp og í dag eru 9 grenndarstöðvar í eigenda sveitafélögunum 4.
- Nýting grenndarstöðvanna hefur aukist jafnt og þétt frá uppsetningu þeirra og telst efni sem safnast í gáma þar vera að mun betri gæðum/hreinna en efni sem safnast í blandaðar tunnur við húsvegg.
Sem fyrr er gert er ráð fyrir að grenndarstöðvarnar munu vera hluti af heildarlausn í sorphirðu í framtíðinni. Fjölga þurfi grenndarstöðvum til muna og auka þéttni þeirra. - Bætt aðstaða til móttöku og aukinnar flokkunar á móttökuplani í Helguvík
- Með stöðugri vinnu við að finna nýja farvegi fyrir efni til endurnýtingar eða endurvinnslu gefst aðilum sem skila efni til Kölku kostur á að lækka kostnað við skil á efni.
- Flokkun frá heimilum, stofnunum og fyrirtækjum
- Gjaldskrár breytingar voru gerðar á árinu og endurspegla þær raunkostnað við meðhöndlun og/eða förgun. Með uppfærðri gjaldskrá ætti að vera enn eftirsóknarverðara fyrir heimili og fyrirtæki að flokka efni til endurnýtingar og endurvinnslu.
- Greining og vinna við mögulega stækkun
- Áfram hefur verið unnið í greiningum á aukinni brennsluþörf sem mun verða til við lokun urðunarsvæða og reglugerða sem takmarka urðun til muna. Óhætt er að segja að Kalka muni áfram hafa sérstöðu vegna uppbygging brennsluofns, með það að geta brennt ýmsum efnum sem erfitt eða ómögulegt er að brenna í hefðbundnum ristarbrennslum.
Í desember 2021 var gefin út skýrslan Forverkefni um framtíðarlausn til meðhöndlunar brennanlegs úrgangs í stað urðunar. Verkefnið var unnið á vegum starfshóps sem skipaður var af sorpsamlögunum á Suðvesturlandi auk umhverfis og auðlindaráðuneytis. Steinþór Þórðarson framkvæmdastjóri Kölku var í stýrihóp verkefnisins fyrir hönd Kölku. Skýrslan hefur verið kynnt fyrir sveitastjórnum.
Kalka og starfsmenn Kölku hafa ekki farið varhluta af óvæntum truflunum í rekstri síðustu ára, þar sem heimsfaraldur hafði umtalsverð áhrif og eldsvoði hjá nágrönnum á næstu lóð olli brennslustoppi vegna tjóns á búnaði sem og teygði sig inn á athafnasvæði Kölku og töluvert tjón af völdum þess. Afleiðing þessara truflana hefur haft áhrif á daglega starfsemi sem og vinnu umbótaverkefna sem sett hafa verið af stað. Því eru mörg verkefni í vinnslu sem kunna að hafa veigamikil áhrif fyrir starfsemi Kölku, bæði út frá umhverfislegum sjónarmiðum sem og fjárhagslegum. Þrátt fyrir áðurnefndar óvæntar truflanir hefur rekstur Kölku gengið vel, stjórnendur og starfsfólk staðið vaktina og gert þær tilhaganir sem þurft hefur að gera að hverju sinni og rekstrarafkoma félagsins verið góð.
Næstu mánuðir og misseri munu að stórum hluta fara í undirbúning útboðs á sorphirðu frá heimilunum. Með breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald sem gefin voru út af Umhverfis og auðlindaráðuneyti nú Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti um breytingar í úrgangsmálum með innleiðingu hringrásarhagkerfis og taka gildi 1. janúar 2023 er krafa um aukna flokkun og að innheimta skuli eftir magni og tegund úrgangs frá hverri fasteignaeiningu. Mun komandi útboð því vera ólíkt fyrri útboðum, lagt er upp með að komandi kerfi muni gera íbúum kleift að stjórna fjölda íláta og stærð íláta við húsvegg. Þá þarf að gera ráð fyrir að á komandi mánuðum og árum munu djúpgámar verða partur af söfnun við fjölbýli og íbúakjarna. Áherslur sem auka enn frekar nýtingu grenndarstöðva, aukna flokkun frá heimilum og sérsöfnun lífræns efnis.
Samstarf stjórnar og framkvæmdastjóra hefur verið afar samstíga s.l. ár og vill ég þakka fráfarandi stjórn fyrir gott og ánægjulegt samstarf.“
Steinþór Þórðarson:
Fundarstjóri góðir fundarmenn.
Öryggismál:
Við reynum að hafa það sem reglu á fundum í Kölku að byrja á að ræða um öryggi starfsfólks og viðskiptavina. Síðasta ár var fyrsta árið þar sem skráning öryggisatvika á að geta talist býsna nákvæm. 42 atvik voru skráð, flest ábendingar um ótryggar aðstæður en nokkur minniháttar meiðsl. Unnið hefur verið að öryggisráðstöfunum á þeim svæðum sem viðskiptavinir ganga um og reyndar alls staðar þar sem slysagildrur hafa fundist. Virkni öryggisnefndar var ekki verið sem skyldi á árinu og helgaðist það að mestu af tregðu til að boða fundi vegna Covid.
COVID:
Síðasta ár er annað árið í veirufaraldrinum og setti hann svip sinn á starfsemina með ýmsum hætti. Við misstum starfsfólk bæði í veikindi og sóttkví og aftur voru tilfallandi veikindi önnur en Covid með mesta móti. Regluleg starfsemi og þjónusta við íbúa raskaðist ekki og truflanir vegna Covid komu frekar niður á umbóta- og breytingaverkefnum. Allt slíkt hefur gengið hægar en ella á þessum veirutímum og sker Kalka sig ekki úr hvað það varðar. Þetta er hin almenna reynsla í rekstri. Það sem þolir bið hefur lent á bið.
Heimavinna og netfundir voru daglegt brauð og boða að einhverju marki breytingu til frambúðar. Ekki var boðað til Viðburða á borð við fundi úti í samfélaginu eða starfsmannafundi að heitið gæti og félagslíf starfsmanna var nánast ekkert.
Reksturinn – Efnismagn:
Rétt rúm 20.000 tonn af efni til brennslu, annarrar förgunar og endurvinnslu bárust til Kölku á síðasta ári. Er það um 6% aukning frá fyrra ári. Brennt var um 12.650 tonnum og er það rúmum 1600 tonnum meira en að meðaltali síðustu árin. Magn úrgangs sem safnað var frá heimilum var um 5300 tonn og dróst saman um rúm 300 tonn frá fyrra ári. Ef sú tala væri leiðrétt fyrir fjölgun íbúa væri hún aðeins hærri. Vonandi má túlka þessa breytingu sem vitnisburð um viðleitni framleiðenda til að létta umbúðir eða sem árangur af úrgangsforvörnum almennt.
Auk hefðbundinnar brennslu voru gerðar ýmsar prófanir voru t.d. með efni frá Veitum og Sorpu. Er það liður í undirbúningi fyrir breytingar næsta árs. Það er talsvert hagsmunamál fyrir Kölku að finna heppileg efni í stað lífræns efnis sem hverfur, eða minnkar a.m.k. verulega við yfirvofandi breytingar. Lykillinn að því að halda áfram góðum afköstum í brennslunni er að finna gott efni til að halda hitagildi í skefjum. Annars þarf að draga niður afköst.
Ýmsir sigrar unnust í söfnun efnis til endurnýtingar og endurvinnslu en markmið sem við höfðum sett okkur í þeim efnum náðust ekki að fullu. Eru það viss vonbrigði en á móti koma jákvæðar breytingar líka.
Fjölsmiðjan er nú búin að taka upp fyrirkomulag til að áætla magn þess efnis sem bjargast í gegnum Kompuna svo nú er kominn mælikvarði á endurnýtingu hjá þeim. Samstarf við Fjölsmiðjuna er til fyrirmyndar og eiga þeir sem að henni standa mikið hrós skilið fyrir sitt framlag til umhverfismála. Almennt teljum við í Kölku að áhugi almennings á endurnýtingu og endurvinnslu sé vaxandi og jarðvegurinn fyrir hringrásarhagkerfið batni smátt og smátt. Magni efnis til endurnotkunar eða endurnýtingar verður eftirleiðis hluti af efnisbókhaldi Kölku
Viðhald og nýframkvæmdir:
Í fyrra var brennt í 347 sólarhringa en markmið Kölku er að brennsludagar séu ekki færri en 330 á ári. Brennslan var stöðvuð tvisvar, einu sinni samkvæmt áætlun og einu sinni vegna óvæntra aðstæðna.
Að venju voru viðhaldsverkefni ársins talsvert viðamikil og stærsta verkefnið var endurbygging innmötunarbúnaðar. Að auki var hugbúnaður og skjámyndakerfi í stjórnstöð endurnýjað.
Á heildina litið má því segja að árið hafi gengið vel í Kölku þrátt fyrir veiruna. Þegar litið er í baksýnisspegilinn er minni snerting við samfélagið líklega bagalegasta afleiðingin af henni.
Þá var einnig ráðist í talsverða fjárfestingu með stækkun og breytingar á planinu í Helguvík. Rýmkað var um alla aðstöðu til geymslu á gámum og lausu efni auk þess sem þeim hluta sem viðskiptavinir ganga um var breytt svo fjölga mætti gámum undir hreina flokka. Starfsmannaaðstaða á móttökuplaninu var einnig bætt til muna.
Umhverfisatvik:
Engin umtalsverð umhverfisatvik voru skráð á síðasta ári.
Samskipti við Umhverfisstofnun voru með ágætum og ekki var um alvarlegar ábendingar að ræða í eftirlitsferðum stofnunarinnar.
Grenndarstöðvar:
Fyrstu fullburða grenndarstöðvarnar á Suðurnesjum voru opnaðar á síðasta hausti eftir talsverðar tafir sem rekja mátti til faraldursins. Stöðvarnar eru fimm í Reykjanesbær, ein í Vogum og Grindavík og tvær í Suðurnesjabæ, í Garði og Sandgerði. Vakað hefur verið yfir nýtingu þeirra og er þróunin mjög ánægjuleg. Eins og vænta mátti fór notkun stöðvanna hægt af stað en hefur aukist jafnt og þétt. Sérstaka ánægju vekur að magn málma og glers sem berst í stöðvarnar hefur verið mjög upp á við. Grenndarstöðvar verða væntanlega framtíðarlausnin til að málmum og gleri frá heimilum og mikilvægt að íbúar venjist því. Í heildina söfnuðust rúm 15 tonn í gámana. Nýtingin hefur aukist mikið það sem af er þessu ári.
Þjóðarbrennslan:
Á síðasta ári unnu Kalka, Sorpa, Sorpurðun Vesturlands, Sorpstöð Suðurlands, með stuðningi frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, yfirgripsmikla greiningu á hagkvæmni byggingar og reksturs brennslu sem gæti leyst að mestu þörf landsmanna til næstu ára og áratuga. Verkefninu var lokið rétt fyrir áramót og niðurstöður kynntar á margvíslegum vettvangi. Meðal helstu niðurstaðna var það mat að um 130 þúsund tonna afkastagetu þyrfti á ári. Í samanburði út fyrir landsteinana er það ekki stór brennsla en á landsvísu erum við að tala um rúmar tíu Kölkur. Fram kom í kynningum að stærðarhagkvæmni skipti verulegu máli og þessi fullburða brennsla gæti boðið mun ódýrari þjónustu en margar minni. Einnig kom skýrt fram að í samanburði við útflutning á efni til brennslu verði Þjóðarbrennslan hagkvæmur kostur fyrir landsmenn. Hópurinn hélt áfram á þessu ári að kanna hvort hægt væri að þoka verkefninu lengra. Með yfirvofandi kosningar var lítið hægt að taka þetta lengra en núna með haustinu verður spennandi að sjá hvort það verði vilji til að taka upp þráðinn. Helguvík var talinn heppilegur staðsetningarkostur í skýrslunni en kom í þriðja sæti á eftir Álfsnesi og Straumsvík.
Afkoman
Eins og ársreikningur félagsins ber með sér að þá skilaði Kalka góðum rekstrarafgangi á síðasta ári. Endurskoðandi og stjórnarformaður reifa það betur. Hægt var að fjármagna viðhald og endurbætur með fjármunum frá rekstri, án nýrrar lántöku. Núna í haust verður ráðist í tæplega 60 milljóna króna verkefni en skipta þarf um þak á brennslustöðinni. Ástand þaksins kom stjórnendum í opna skjöldu þegar það var kannað og þessi útgjöld því óvænt. Viðhaldsverkefni næsta árs verður það stærsta um langt árabil og títtnefndar lagabreytingar munu kalla á að Kalka treysti sína innviði enn frekar. Það er því afar heppilegt að Kalka hafi handbært fé núna og þurfi ekki að taka lán fyrir breytingum.
Gjaldskrárhækkanir fyrir 2021 og 2022 hafa verið talsvert undir kostnaðarhækkunum á þeim liðum sem snerta sveitarfélögin. Talsverðar breytingar hafa orðið á gjaldskrá á móttökustöðum og helgast það einkum af mikilli hækkun á urðunarkostnaði og viðleitni stjórnar Kölku til að hafa gjaldskrár hvetjandi til flokkunar. Þannig hefur óflokkað eða blandað efni sem afhent er til Kölku orðið talsvert dýrara en reynt að halda aftur af hækkunum eða jafnvel lækka verð á efni sem berst í hreinum flokkum.
Í þeirri áætlanagerð sem framundan er vegna næsta árs þarf að hugsa allar gjaldskrár alveg upp á nýtt. Vönduð úttekt á raunkostnaði við móttöku og meðhöndlun hinna ýmsu efna sem til okkar berast er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að ná utan um kröfur nýju laganna. Það má eiginlega segja að hvað gjaldtöku snertir byrjum við bara með óskrifað blað í stað þess að geta einfaldlega uppfært tölur fyrra árs til að leiðrétta fyrir verðlagsbreytingar.
Að lokum. Góð rekstrarniðurstaða er vissulega fagnaðarefni fyrir eigendur Kölku. Reksturinn er ekki áhyggjuefni í augnablikinu. Við í Kölku höfum hins vegar talsverðar áhyggjur af því sem framundan er og yfirvofandi breytingum. Við heyrum æ oftar, úr ýmsum áttum, að það muni enginn verða tilbúinn þann 1. janúar næstkomandi til að tikka í öll box nýju lagana. Sumir vilja þrýsta á um frestun eða eitthvert aðlögunartímabil. Aðrir benda á að aðlögunartímabil sé óhjákvæmilegt og benda á að mikilvæga innviði hreinlega vanti.
Ég held að fyrir okkur hér á Suðurnesjum skipti mesti að halda ró okkar og gera ekki meiri kröfur til okkar en aðrir gera til sín. Líklega er einfaldlega visst óraunsæi innbyggt í lagasetninguna. Það er ekki metnaðarleysi að vilja vanda til þeirra mikilvægu skrefa sem framundan eru. Ég held að mestu skipti að nú þegar hausta tekur vinni stjórn og starfsfólk Kölku þétt með sveitarfélögunum til að tryggja að bestu lausnirnar verði fyrir valinu og innleiðing breytinganna verði farsæl.
Takk fyrir.
- Ársreikningur félagsins árið 2021
Kristján Þór Ragnarsson löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte kynnti ársreikning fyrirtækisins fyrir árið 2021. Heildarrekstrartekjur námu um 859 mkr. en voru rúmar 749 mkr. árið 2020. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsgjalda námu tæplega 602 mkr., en voru um 576 mkr. árið 2020. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam þannig rúmlega 257 mkr. en var rúmar 173 mkr. árið 2020. Heildarhagnaður ársins eftir afskriftir og fjármagnsgjöld nam rúmum 154 mkr. en var rúmar 78 mkr. árið 2020. Í árslok 2021 námu heildareignir félagsins 1.395,6 mkr. en skuldir og skuldbindingar námu 754 mkr. Eigið fé er 641,6 mkr. og eiginfjárhlutfall félagsins er 46% samanborið við 38% í árslok 2020.
- Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins
Einar Jón Pálsson bæjarfulltrúi Suðurnesjabæjar spurði út í niðurgreiðslu lána sem fór fram á liðnu ári og hvort stefnan væri að halda áfram að greiða niður langtímaskuldir félagsins. Jafnframt spurði hann út í kynningu á breytingum í losun úrgangs.
Önundur Jónasson stjórnarformaður Kölku svaraði á þá leið að félagið myndi ávallt stefna að því að greiða niður skuldir en þó þyrfti að hafa tilbúna fjármuni til frekari fjárfestinga á komandi ári. Steinþór Þórðarson framkvæmdastjóri svaraði Einari um að með haustinu myndi Kalka bæta í kynningarmálin.
Helga Jóhanna Oddsdóttir bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar spurði út í hlutverk Kölku að tryggja að íbúar Suðurnesja séu vel upplýstir um hvernig skal flokka.
Steinþór svaraði því að félagið hefur tekið frá fjármuni í kynningarmál en hingað til hefur félagið verið í samstarfi við gámafélögin um kynningarmál.
Einar Jón spurði út í fyrirkomulag djúpgáma og hvort tilkoma þeirra hafi áhrif á brennslu Kölku vegna heimilissorps sem ekki fer til brennslu.
Önundur og Steinþór svöruðu á þá leið að þeir séu væntanlegir í nýjum hverfum, Kalka leggi áherslu á að fá aukið spilliefni og að aðrar leiðir væru í skoðun til þess að koma í stað heimilissorps til að tryggja fulla afkastagetu brennslunar.
Ársreikningur Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. fyrir árið 2021 var borinn upp og samþykktur samhljóða.
- Tilnefningar í stjórn frá eignaraðilum
Reykjanesbær:
Aðalmenn: Önundur Jónasson og Eiður Ævarsson
Varamenn: Árni Rúnar Kristmundsson og Páll Orri Pálsson
Suðurnesjabær:
Aðalmaður: Svavar Grétarsson
Varamaður: Eva Rut Vilhjálmsdóttir
Grindavík:
Aðalmaður: Kristín Ragnheiður Eiríksdóttir
Varamaður: Helga Dís Jakobsdóttir
Vogar:
Aðalmaður: Ingþór Guðmundsson
Varamaður: Eva Björk Jónsdóttir
- Kosning endurskoðanda
Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte verði endurskoðandi félagsins. Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.
- Tillaga um þóknun til stjórnarmanna
Lagt er til að formaður stjórnar fái 5% af þingfararkaupi fyrir hvern fund, en aðrir stjórnarmenn fái 4% af þingfararkaupi fyrir hvern fund.
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.
- Önnur mál.
Guðný Birna Guðmundsdóttir og Valgerður Björk Pálsdóttir bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar spurðu út í mögulegt samstarf Reykjanesbæjar og Pure North Recycling og hvernig það kæmi sér fyrir Kölku.
Önundur svaraði á þá leið að Kalka væri í raun ekki aðili að samstarfinu eins og er en væri meðvitað um það. Óskaði hann um leið eftir frekari viðræðum við Reykjanesbæ um samstarfið.
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar spurði út í mögulega árekstra ofangreinds samstarfs við yfirvofandi lagasetningu og áhrif þess á Kölku. Jafnframt spurði hann út í hvort þetta ætti mögulega frekar að vera á forræði Kölku.
Steinþór svaraði á þá leið að hugmyndin væri spennandi og myndi vilja sjá þetta gerast en yrði ekki hagræðing fyrir Kölku. Hann lýsti því jafnframt yfir að Kalka væri reiðubúin til þess að taka að sér allflest umhverfismál fyrir sína eigendur.
Einar Jón spurði þá út í hvort öll sveitarfélög Suðurnesja ættu að koma að samstarfinu.
Fulltrúar Reykjanesbæjar upplýstu fundargesti um að Pure North hafi leitað til sveitarfélagsins af fyrra bragði og að mögulegt samstarf væri á byrjunarstigi. Önundur vísaði í skýrslu sína um framtíð úrgangsmála.
Fundarstjóri Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir þakkaði stjórnendum og starfsmönnum Kölku fyrir góð störf fyrir félagið og fundargestum fyrir góðan fund.
Fleira var ekki gert og var fundi slitið kl. 16:40.