Aðalfundir
Aðalfundur Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. nr. 45. var haldinn þriðjudaginn 18. apríl 2023 kl. 14:00 á
Hótel Keflavík
Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
3. Skýrsla stjórnar, Ingþór Guðmundsson, stjórnarformaður og Steinþór Þórðarsson,
framkvæmdastjóri.
4. Reikningar félagsins árið 2022, Kristján Þór Ragnarsson löggiltur endurskoðandi félagsins.
5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
6. Tilnefning stjórnarmanna
7. Kosning endurskoðanda
8. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna
9. Önnur mál.
1. Fundarsetning
Ingþór Guðmundsson, formaður stjórnar, setti fundinn kl. 14:07 og bauð fundarmenn velkomna.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
Ingþór lagði til að Friðjón Einarsson yrði kjörinn fundarstjóri og var það samþykkt samhljóða.
Friðjón við fundarstjórn og lagði til að Kristín Ragnheiður Eiríksdóttir stjórnarmaður Kölku yrði kjörinn
fundarritari og var það samþykkt samhljóða.
Friðjón tilkynnti að mættir væru fulltrúar allra eignaraðila og að fundurinn hafi verið löglega boðaður.
Engar athugasemdir komu fram.
3. Skýrsla stjórnar, Ingþór Guðmundsson, stjórnarformaður og Steinþór Þórðarson,
framkvæmdastjóri.
Ingþór Guðmundsson, stjórnarformaður og Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri fluttu skýrslu fyrir
árið 2022.
Ingþór Guðmundsson:
„Góðir aðalfundagestir
Eins og framkvæmdastjóri mun fara betur yfir var árið 2022 viðburðarríkt í Kölku. Bæði í jákvæðum og
neikvæðum skilningi. Þrátt fyrir góða rekstrarniðurstöðu fyrir árið voru truflanir á starfsemi
brennslunnar meiri en verið hefur undanfarin ár. Þá var nýliðinn vetur afar erfiður svo mjög reyndi á
samstarf Kölku og verktaka í sorphirðu.
Í mínum hluta þessarar skýrslu mun ég fyrst og fremst horfa á þau markmið sem stjórn hefur sett fyrir
reksturinn, bæði hin fjárhagslegu og þau sem snerta umhverfið öðru fremur.
Stjórn Kölku hefur síðustu ár lagt áherslu á að halda sem mest aftur af hækkunum til sveitarfélaganna
en auka á móti aðrar tekjur. Gjaldskrárhækkanir til sveitarfélaganna hafa, allt frá 2020, verið talsvert
undir kostnaðarhækkunum á þeim liðum sem snerta sveitarfélögin. Gjaldskrá móttökustöðva hefur
haldið áfram að breytast og helgast það einkum af breytingum á urðunarkostnaði og viðleitni stjórnar
Kölku til að hafa gjaldskrár hvetjandi til flokkunar. Þannig hefur óflokkað eða blandað efni sem afhent
er til Kölku orðið talsvert dýrara en reynt að halda aftur af hækkunum og lækka verð á efni sem berast
í hreinum flokkum.
Alltaf þokast eitthvað í þeirri viðleitni að hækka það hlutfall úrgangs sem fer til endurvinnslu eða
endurnýtingar. Aukning í efnum sem keyrt er til endurvinnslu eru um 300 tonn milli ára. Þetta er þó
þróun sem við í Kölku myndum vissulega sjá gerast hraðar. Mjór er þó mikils vísir og í fyrra tókst að
halda aftur af hækkunum á urðunarkostnaði með því að auka hlutfall efnis sem fór í
endurvinnslufarvegi. Velta vegna brennslu fyrir aðra en sveitarfélögin á Suðurnesjum hækkaði um 60
milljónir frá fyrra ári eða nærri tífalt það sem kostnaður Kölku vegna urðunar hækkaði. Á þessu ári
hefur verið unnið áfram að því að tryggja brennslunni vel borgandi efni og um leið efni sem hentar vel
til brennslu í Helguvík.
Stjórn Kölku hefur síðustu ár viljað bæta eiginfjárstöðu félagsins og létta skuldabyrði. Stefnt er að er
hækkun eiginfjárhlutfalls um 3% á ári en hækkunin á síðasta ári var 6%. Eiginfjárhlutfall Kölku er nú
komið yfir 50%.
Lausafjárstaða félagsins hefur verið góð síðustu árin og batnandi ár frá ári. Það hefur m.a. gert okkur
kleift að borga inn á höfuðstól lána. Í fyrra voru greiddar 70 milljónir inn á lán umfram venjulegar
afborganir. Sama upphæð var greidd inn á lán árið 2021. Í þeirri verðbólgu sem nú íþyngir rekstri skiptir
þetta verulegu máli og styrkir félagið til framtíðar.
Eins og endurskoðandi Kölku, Kristján Ragnarsson, mun rekja nánar var afkoman á síðasta ári góð.
Talsverður hagnaður varð af rekstrinum. Gott gengi undanfarinna ára gerði stjórn Kölku kleift að bjóða
eigendum sínum að fjármagna kaup á ílátum vegna fjölgunar flokka í söfnun frá heimilum. Var það
mat stjórnarinnar að það væri skynsamleg ráðstöfun á þessu fé og góð þjónusta við eigendurna. Það
verður svo samvinnuverkefni Kölku og sveitarfélaganna að tryggja að innviðaframlög Úrvinnslusjóðs
muni greiða niður þessa fjárfestingu. Góð afkoma hefur einnig þýtt að hægt hefur verið að bæta í
viðhald og nýframkvæmdir. Rík þörf er fyrir hvort tveggja en það er markmið bæði stjórnar og
stjórnenda Kölku að allur búnaður sé ávallt í toppstandi. Einnig eru tækifærin til að bæta vinnuaðstöðu
og laga Kölku að nýjum þörfum og kröfum bæði mörg og margvísleg.
Ekki er annað hægt en að minnast á undirbúning breytinga sem núna eru að komast á
framkvæmdastig. Þótt þeirra sjái hvergi stað í ársreikningi síðasta árs þá var gríðarleg vinna lögð í að
skilja kröfur nýrra laga og leita leiða til að mæta þeim á skilvirkan og hagkvæman hátt. Í Kölku er litið
svo á að þessi aðlögun að nýjum lögum sé upphaf, ekki endir. Nýjar hugmyndir um hvernig koma megi
meira efni upp eftir úrgangspíramídanum koma stöðugt fram. Við erum ekki bara að tikka í box nýrra
laga. Við erum að breyta því hvernig við umgöngumst úrganginn okkar og auðlindir jaðar. Það er rétt
vika síðan stjórn komst á flug í lok fundar og ræddi ýmsar hugmyndir um að breyta úrgangi í verðmæti.
Það er það sem koma skal og það þarf ekki spámann til að spá því að eftir fimm ár verði allt öðruvísi
um að litast á þessum vettvangi en í dag – hvað þá eftir tíu ár.
Á þessum nótum vil ég þakka fyrir mig og gefa Steinþóri Þórðarsyni orðið en hann mun greina nánar
frá starfseminni í fyrra.“
Steinþór Þórðarson:
„Góðir aðalfundagestir.
Öryggismál:
Árið 2022 var nokkuð gott frá sjónarhóli öryggis starfsfólks og viðskiptavina og fá atvik voru skráð. Eitt
óhapp er þó einu óhappi of mikið og áfram er rík áhersla lögð á öryggismál í Helguvík.
Töluverð hætta skapaðist þegar mikill eldsvoði varð á næstu lóð við Kölku, rétt fyrir páska. Allt rafmagn
til brennslunnar rofnaði og afleiðing af því var að gufurör sprakk á stað þar sem fólk er oft að störfum.
Rétt viðbrögð starfsfólks urðu til þess að enginn meiðsl urðu á fólki. Talsvert tjón varð á búnaði og
truflanir á rekstri þar sem brennsla lán niðri í nokkra daga vegna bilana. Stafsfólk Kölku hélt mjög vel
utan um upplýsingar um tjón af völdum eldsvoðans og tryggingafélag Kölku bætti umtalsverðan hluta
þess.
Covid – Heilbrigði:
Í kjölfar tveggja ára sem lituðust mjög af Covid 19 kom 2022 og varð metár í inflúensum. Samkvæmt
upplýsingum frá Landlækni voru flensutilfelli í hæstu hæðum undir lok síðasta árs og ástandið hefur
ekki verið gott það sem af er þessu ári. Það hefur því verið mikið um fjarverur og t.d. sett ég persónulegt
flensumet. Í fyrra var því tekin ákvörðun að bjóða öllum starfsmönnum allar þær bólusetningar sem í
boði eru enda snerting við mengaðan úrgang hluti af daglegri starfsemi fyrirtækisins. Flestir, ef ekki
allir, þáðu boðið.
Reksturinn – Efnismagn:
Brennt var um 11,780 tonnum en var 12.646 tonn árið áður. Í heildina bárust til Kölku um 18.400 tonn
í fyrra eða um 550 tonnum minna en árið á undan. Álíka magni var keyrt til urðunar á árið á undan en
þær tölur hefðu litið mun betur út ef við hefðum ekki misst brennsluna niður í 45 daga í fyrra eða um
25 dögum umfram það sem áætlað var. Lítils háttar aukning var á efni til endurvinnslu.
Í fyrra var svo byrjað að prófa ýmis efni til að koma í stað lífræns úrgangs frá heimilum. Ýmsir straumar
hafa verið prófaðir m.a. ristarúrgangur frá veitufyrirtækjum, fita frá veitufyrirtækjum o.fl. Fjölhæfi
Kölku gerir að verkum að við þurfum ekki að óttast breytingar á efnisstraumum og ekki heldur nýja
samkeppni. Ofninn í Kölku er óvenju heppilegur til að takast á við allskonar efni sem stærri sorporkustöð
gæti ekki tekið í brennslu.
Viðhald og nýframkvæmdir:
Stærsta viðhaldsverkefni ársins 2022 var endurnýjun á öllum eldmúr eftirbrennslunnar í stöðinni, í
fyrsta sinn frá 2013. Einnig var skipt um alla poka í reykhreinsivirki auk fjölda annarra minni
viðhaldsverkefna. Við endurfóðrun eftirbrennslunnar var notað nýtt efni sem hefur aðra
viðloðunareiginleika en fyrri eldbúr. Þannig reyndum við að hindra að efni hlaðist upp á veggjum
eftirbrennslunnar sem hefur verið vandamál.
Eins og Ingþór nefndi í sínu erindi er stefnan að halda búnaði í Kölku þannig að við að hann sé ávallt
sem nýr. Það hefur verið leiðinlegt að hlusta á það ítrekað í fréttum undanfarið að það sé bilun í Kölku.
Það er ekki haft eftir okkur sem þar störfum. Við gerum greinarmun á fyrirliggjandi viðhaldi og bilunum.
Bilanir verða þegar fyrirbyggjandi viðhaldi er ekki sinnt. Eina fréttina mátti nánast skilja þannig að þessi
riða sé í sjálfu sér ekkert vandamál en þessir aumingjar í Helguvík séu hins vegar alveg óþolandi.
Í fyrra var brennt í 310 daga, samanborið við 347 daga árið á undan. Markmiðið er að fara ekki undir
330 daga og starfsemin því óvenjumikið niðri. Brennt magn er þó ekki undir meðaltali undanfarinna 10
ára. Auk truflana vegna eldsvoða í apríl var, eins og áður sagði, stoppað í stórt viðhaldsverkefni en það
sem setti stærsta strikið í reikninginn var þegar brennslan var stoppuð í tiltölulega stuttan tíma 11.
desember til að sinna smávægilegri viðgerð. Þegar keyrt var upp aftur kom í ljós að stór vatnskassi sem
er hluti af kælikerfi stöðvarinnar hafði frostsprungið. Lítið var því brennt það sem eftir lifið 2022 og nýtt
ár byrjað með bráðabirgðaviðgerð og á skertum afköstum. Fullnaðarviðgerð var gerð núna í mars.
Í fyrra var lokið við að breyta móttökuplaninu í Helguvík svo fjölga megi hreinum efnisflokkum. Einnig
var gert átak í viðhaldi girðinga í Helguvík, Grindavík og Vogum en Umhverfisstofnun fylgir því fast eftir
að vel sé girt kringum plönin. Það væri svo að æra óstöðugan að telja upp allar minni lagfæringar og
breytingar sem gerðar voru á síðasta ári. Áfram er unnið að því að bæta aðstöðu og verður ráðist stór
verkefni í sumar.
Söfnun úrgangs í vetur:
Það er líklega óþarft að rifja upp hér ástandið sem var hér frá miðjum desember í fyrra og þar til fram
í mars. Óveðurskafli og óvenju slæm færð um miðjan desember markaði upphaf tímabils þar sem
úrgangssöfnun á Suðurnesjum fór verulega úr skorðum. Skýringar verktakans voru eðlilega þær að ekki
hefði viðrað til söfnunar og að færð hafi hindrað aðgang að ílátum. Auk þessa fengum við þær
upplýsingar að fyrirtækið væri undirlagt í umgangspestum. Vissulega var það staðfest bæði af
veðurstofu og landlækni að umræddar aðstæður voru með versta móti. Ég held að flestir hafi verið
tilbúnir til að sýna því skilning en það sem á tímabili var það versta var að yfirsýn yfir stöðuna virtist
hafa glatast og afar erfitt var að fá upplýsingar um hvar bera skyldi niður næst. Það kom því fyrir í
tvígang að Kalka sendi frá sér tilkynningar um fyrirhugaða söfnun á komandi dögum og svo birtust
engir bílar. Þá þótti okkur vanta upp á að öllum úrræðu væri beitt við að vinna upp slakann. Eins og
vænta mátti var áreiti frá íbúum gífurlegt þegar staðan var sem verst og við í Kölku vitum að það var
ekki bara hjá okkur heldur á sveitarstjórnarskrifstofunum líka. Nú er verið að undirbúa nýtt útboð á
þessari söfnun og í þeirri vinnu verður hugað sérstaklega að úrræðum þegar svona aðstæður koma
upp.
Grenndarstöðvar:
Þetta er annar aðalfundurinn þar sem vikið er að söfnun úrgangs í grenndargáma. Söfnun í gámana er
stöðugt vaxandi og í fyrra komu rúm 60 tonn upp úr þeim 9 stöðvum sem starfræktar eru í dag.
Sérstaklega er ánægjulegt að sjá meira berast af málmum og gleri en hvorugt á nokkurt erindi í
brennsluna en bæði eiga sér farvegi í endurvinnslu.
Í þeirri umræðu sem staðið hefur um fjölgun hreinna flokka í söfnun frá heimilum hefur borið á áhuga
hér á að nýta þær meira og gefa fólki tækifæri til að fækka ílátum við húsvegg. Ljóst er að stöðvarnar
eru helsta úrræðið í söfnun á málmum, gleri og textíl frá heimilum. Það liggur þó fyrir núna að til þess
að geta boðið fólki að skila pappír og plasti í grenndarstöðvar þarf að koma til undanþága frá lögum.
Ég leyfi mér að spá því að strax og rykið sest eftir dreifingu á nýjum ílátum og við förum að sjá hvernig
fjögurra flokka kerfið virkar þá munum við aftur skoða hvort hægt sé að flytja áherslur yfir í
grenndarlausnir, fyrir þá sem það kjósa og á svæðum þar sem það hentar.
Þjóðarbrennslan:
Enn er mikil umræða um að auka þurfi brennslugetu í landinu og málið er enn til skoðunar á
samstarfsvettvangi sorpsamlaganna á SV horninu. Fyrir okkur sem voru í verkefnishópi sem skilaði
skýrslu um fýsileika nýrrar brennslu á Íslandi um miðjan desember 2021 verður að segjast að
framvindan veldur vonbrigðum. Skýrslan gefur sterkar vísbendingar um að rekstur allt að 130 þús.
tonna brennslu á SV horninu sé vel mögulegur og geti skilað ágætri afkomu þrátt fyrir aðstæður hér.
Fólk skiptist í tvær fylkingar þegar rætt er hvaða framtíð er í útflutningi á efni til brennslu. Margir hallast
þó að því að það sé ekki ábyrg afstaða til lengdar að ætla útlendingum að axla ábyrgð á úrganginum
okkar. Sjálfur bendi ég gjarnan á að ný brennsla, til viðbótar við aðra innviði eins og Kölku og gas- og
jarðgerðarstöðina.
Í Álfsnesi styrki fagið sem við vinnum við og skap tækifæri sem fólk með bakgrunn í tækni og
umhverfismálum vilja nýta sér. Við myndum því ekki aðeins byggja brennslu heldur líka þekkingu.
Úrgangsgeirinn er þekkingarsamfélag sem þarf að styrkja. Áskoranirnar halda áfram að birtast og við
þurfum við vinna okkur inn í nýja og ábyrgari framtíð hvað varðar úrgang og auðlindir jarðar.
Það hefur komið fyrir að ég hef sagt, svona í tveggja manna tali, að þetta sé verkefni sem íslendingar
geti ekki leyst. Það er svo þægilegt að sópa því ofan í einhverja glufu milli ráðuneytanna og
sveitarfélaganna. Það er þó enn líf í þessari umræðu og á stjórnarfundi í mars samþykkti stjórn Kölku
að mæla með því við sveitarfélögin að skoða með opnum huga hugmyndir um nýja nálgun við verkefnið
sem stendur til að kynna núna á vormánuðum.
Afkoman:
Eins og ársreikningur félagsins ber með sér að þá skilaði Kalka góðum rekstrarafgangi á síðasta ári.
Endurskoðandi og stjórnarformaður reifa það betur.
Breytingaárið 2023 og meira framundan:
Undirbúningur fyrir fjögurra flokka söfnun frá heimilum stendur nú sem hæst. Það er óvenju gestkvæmt
í Kölku og þar er mikið bollalagt t.d. um hvernig skuli koma nýjum ílátum til íbúanna o.fl. Þessi
undirbúningsvinna hefur styrkt mjög sambandið og samtalið við sveitarfélögin. Við sjáum glöggt núna
að það eru að koma inn í myndina kostnaðarliðir sem við sáum ekki fyrir og settum ekki í áætlun. Við
þykjumst vita að sveitarfélögin hafi ekki gert ráð fyrir þeim kostnaði heldur. Við þurfum að vinna okkur
saman í gegnum þetta og megum aldrei gleyma því að hagsmunir Kölku og eigendasveitarfélaganna
fara alltaf saman. Það skapraunar mér alltaf að heyra fólk nota „við og þið“. Ég gleymi því aldrei hverjir
eiga Kölku og ekki heldur hverjum Kölku er ætlað að þjóna. Við höfum virka stjórn og núna í öllum
þessum undirbúningi er verkefnishópur að störfum, skipaður fulltrúum sveitarfélaganna. Það eru engir
þið. Bara við. Að því sögðu er mér ljúft að segja frá því að frumkvæði og frammistaða tveggja
einstaklinga, Davors Lucic og Önnu Karenar Sigurjónsdóttur í þessari vinnu er afar lofsverð og í þeim
mörgu og langdregnu inflúensum sem ég hef þurft að takast á við í vetur hefur verið gott að vita af
þeim, og mörgum öðrum, haldandi öllum boltum á lofti.
Að lokum:
Það var unnið að ýmsu í fyrra sem enn er ekki komið til framkvæmda. Núna að lokum vil ég minnast á
tvö úrlausnarefni sem fóru í gang í fyrra en hafa svo þokast vel á þessu ári. Í fyrsta lagi vil ég nefna
samning við Noah í Noregi um meðhöndlun og urðun á flugösku. Sá samningur var í uppnámi í fyrra og
fengum við síðasta séns til að senda út þau rúmu 1300 tonn sem voru þá í geymslu á Fitjabrautinni.
Útskipun fór fram í byrjun mars. Sú þjónusta sem Noah veitti okkur er afar sérhæfð og mikið áfall að
missa samninginn. Eftir að hafa boðið fulltrúum Noah í góðan mat og drykk á veitingahúsi í
Reykjanesbæ varð úr að við myndum skoða nýjar leiðir til að vinna áfram saman. Það endaði með því
að í síðasta mánuði fórum við Ingþór Karlsson saman til Noregs og undirrituðum þriggja ára samning
og stjórnendur Noah fullvissa okkur um að við getum treyst því að hann megi framlengja til 10 ára.
Í sömu ferð heimsóttum við ungt fyrirtæki með sterka bakhjarla sem er að hasla sér völl á sviði
kolefnisföngunar frá sorpbrennslum. Eftir að hafa átt í viðræðum við þessa aðila í rúmt ár og kannað
málið ofan í kjölinn hér heima varð úr að við undirrituðum viljayfirlýsingu um samstarf við föngun
koldíoxíðs úr útblæstri Kölku. Þetta er gífurlega spennandi og ef svo skyldi fara að við gætum komið
þessu á framkvæmdastig á næsta ári myndi það þýða að við værum í hópi líklega fyrstu fimm og alveg
örugglega fyrstu tíu sorpbrennsla í heiminum sem fanga koldíoxíð úr útblæstri.
Í samantekt má því segja að árið 2022 hafi verið viðburðaríkt en líka erfitt. Þetta ár verður líklega ennþá
erfiðara en við bindum vonir við að þegar hausta tekur verði allir komnir með sín ílát og íbúar verði
farnir að venjast fjögurra flokka kerfinu.
Gleðilegt sumar!
4. Reikningar félagsins árið 2022, Kristján Ragnarsson löggiltur endurskoðandi félagsins.
Kristján Þór Ragnarsson löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte kynnti ársreikning fyrirtækisins árið 2022.
Heildarrekstrartekjur námu um 970 mkr. en voru 859 mkr. árið 2021. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir
og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam þannig tæplega 235 mkr. en var tæplega 205 mkr. árið 2021.
Heildarhagnaður ársins eftir afskriftir og fjármagnsgjöld nam rúmum 162 mkr. en var rúmar 154 mkr.
árið 2021. Í árslok 2022 námu heildareignir félagsins 1.538 mkr. en skuldir og skuldbindingar námu 733
mkr. Eigið fé er 804 mkr. og eiginfjárhlutfall félagsins er 52% samanborið 46% í árslok 2021.
5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins
Valgerður Björk Pálsdóttir, bæjarfulltrúi Reykjanesbæjarspurði út í riðumálið sem mikið er búið að vera
í fjölmiðlum. Valgerður spurði út í það hvort Kalka yrði ekki að tekjum við því að taka ekki við þessu til
brennslu. Steinþór svaraði því að Kalka hafi verið með skipulagt viðhald en því var frestað út af riðu og
Kalka hafi því brenndi allt. Viðhaldið var því skipulagt aftur, en þá kom upp önnur riða. Kalka bar
aðstæðurnar undir vélfræðinga Kölku og að þeirra mati gæti önnur frestun á viðhaldi orðið til þess að
það komi upp bilun og því ekki ábyrgt að fresta viðhaldi aftur. Kalka verður því að tekjum, en yrði
mögulega af meiri tekjum ef við bilunar kæmi.
Friðjón Einarsson spurði endurskoðandann um skýringar á langtímaskuldbindingum sjóðsins í
ársreikningi Kölku. Friðjóni þótti gleðilegt en sérstakt í verðbólgunni að langtímaskuldbindingar lækki.
Kristján endurskoðandi sagði skýringuna á því að greidd voru upp lán, en ekki endurfjármagnað.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar spurði Steinþór út í flugöskuna. Samkvæmt
upplýsingum frá Kölku er flugaskan geymd í húsnæði á Fitjabraut sem er í eigu Kölku. Kjartan spurði
hvort kæmi ekki til greina að flytja hana í húsnæði nær Kölku, þar sem það fylgir því mikil
umhverfisáhætta og mikill kostnaður að vera flytja öskuna á milli staða. Kjartan upplýsti fundinn að
Reykjanesbær eigi hús í nágrenni sem hægt væri að nota. Kjartan spurði því hvort til greina kæmi að
færa öskuna í hús Reykjanesbæjar. Steinþór svaraði spurningum Kjartans og sagði Kölku vera tilbúna
til að skoða þetta þar sem þessi flutningur á milli staða kosti mikið.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar kom á færi ábendingu um að í ársreikningum
standi að Reykjanesbær sé eigandi að 73,09% hlut í Kölku, sem stemmi ekki við þær upplýsingar sem
Reykjanesbær hefur birt. Steinþór svaraði því að þessi hlutur stemmir við 2022 töluna og tölur frá 2023
eru aðeins lægri.
Friðjón Einarsson, fundarstjóri fundarins og bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar spurði út í það hvort
einhverjar skyldur væru á Kölku um að endurgreiða gjöld til sveitarfélaganna eða lækka kostnað til
þeirra nú þegar hagnaður er svona mikill. Samkvæmt lögum um hitavitu þá má hagnaður ekki vera of
mikill því þá er það endurgreitt. Innheimta ætti í samræmi við raunkostnað. Steinþór svaraði því. Hann
sagði innheimtu í samræmi við raunkostnað. Þrátt fyrir að Kalka væri að skila hagnaði þá væri allt að
breytast núna. Á næstu misserum værum við að fara í breytingar á sorphirði vegna lagabreytinga sem
kallar á aukakostnað. Einnig eigi landsmenn eftir að finna meira fyrir efnahagsástandinu í landinu á
næstu mánuðum og því ekki skynsamlegt að endurgreiða eða lækka kostnað til sveitarfélaganna eða
íbúa þeirra.
Ársreikningur Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. fyrir árið 2022 var borinn upp og samþykktur samhljóða.
Einnig lagði stjórn Kölku með áframhaldandi heimild til að greiða niður lán. Var slík tillaga borin upp á
fundinum og samþykkt samhljóða.
6. Kosning löggilts endurskoðanda
Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte verði endurskoðandi félagsins. Tillaga borin upp og
samþykkt samhljóða.
7. Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins
Engar tillaga að þessu sinni um breytingar á samþykktum félagsins.
8. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna
Lagt er til að formaður stjórnar fái 5% af þingfararkaupi fyrir hvern fund, en aðrir stjórnarmenn fái 4%
af þingfararkaupi fyrir hvern fund.
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.
9. Önnur mál.
Margrét Sanders, bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar fór upp í púlt og lýsti óánægju sinni á svörum þeirra
sem sinna sorphirðu á Suðurnesjum. Margrét sagðist oft hafa gagnrýnt sorphirðu á suðurnesjum en sé
sátt við það sem kom fram í ræðu framkvæmdastjóra fyrr á fundinum. Eitt af þeim afsökunum sem
komu fram hjá verktakanum var að mikil veikindi hafi verið. Margrét sagði alla vinnustaði vera glíma
við sama vandamálið og þeir eiga reikna með veikindum og öðru inn í útboð. Þeir eiga geta gripið til
ráðstafana ef til veikinda kemur hjá þeim rétt eins og aðrir vinnustaðir. Ef ekki sé gripið til viðeigandi
ráðstafana eigi ekki að greiða fullt gjald fyrir þjónustu sem Kalka fær ekki. Að öðru leyti þakkaði hún
stjórn og framkvæmdastjóra fyrir góð störf.
Fundarstjóri þakkaði stjórnendum og starfsmönnum Kölku fyrir góð störf fyrir félagið og
fundargestum fyrir góðan fund.
Fleira var ekki gert og var fundi slitið kl. 15:06