Aðalfundir
Aðalfundur Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. nr. 46. var haldinn fimmtudaginn 18. apríl 2024 kl. 16:00 á
Hótel Park inn í Reykjanesbæ.
Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
3. Skýrsla stjórnar, Önundur Jónasson, stjórnarformaður og Steinþór Þórðarsson,
framkvæmdastjóri.
4. Reikningar félagsins árið 2023, Kristján Þór Ragnarsson löggiltur endurskoðandi félagsins.
5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
6. Kosning löggilts endurskoðanda
7. Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins
8. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna
9. Önnur mál.
1. Fundarsetning
Önundur Jónasson, formaður stjórnar, setti fundinn kl. 16:03 og bauð fundarmenn velkomna.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
Önundur lagði til að Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar yrði kjörinn
fundarstjóri og Halldór Eiríksson skrifstofustjóri yrði kjörinn ritari var það samþykkt samhljóða.
Halldóra Fríða tilkynnti að mættir væru fulltrúar allra eignaraðila og að fundurinn hafi verið löglega
boðaður. Engar athugasemdir komu fram.
3. Skýrsla stjórnar, Önundur Jónasson, stjórnarformaður og Steinþór Þórðarson,
framkvæmdastjóri.
Önundur Jónasson, stjórnarformaður og Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri fluttu skýrslu fyrir
árið 2022.
Önundur bauð alla velkomna á 46. aðalfund Kölku flutti skýrslu stjórnar, fór yfir starfsárið og helstu
verkefni sem stjórn hefur unnað að á sl. ári:
„Síðastliðið ár hefur megináhersla stjórnar verið á umhverfismál, aukna endurnýtingu. ábyrga förgun
úrgangs ásamt virkri upplýsingagjöf til íbúa er varðar sorphirðu, flokkun og árangur í flokkun. Auka
þjónustu við íbúa/eigendur Kölku og viðskiptavini og tryggja jákvæða rekstrarafkomu félagsins.
Umhverfisstefna Kölku var endurskoðuð og uppfærð með lítilsháttar breytingum og áfram unnið eftir
henni í daglegum rekstri og óhætt að segja að umhverfismarkmið skili sér í aukinni umhverfisvitund og
meðhöndlun á efni sem berst til Kölku.
Miklar breytingar í úrgangsmeðhöndlun með fjölgun flokka í söfnun frá heimilum sem hefur verið í
undirbúningi frá 2021 komu til framkvæmda í fyrra og hafa fyrstu tölur um flokkunarhlutföll verið birt
á vefsíðu Kölku, þar munu upplýsingar um flokkunarhlutföll koma til með að vera uppfærð reglulega.
Aðrar breytingar í átt að hringrásarkerfi hafa m.a. birst í áherslu á að draga úr urðun og hafa mörg
sveitafélög því hafið útflutning á efni til orkuendurvinnslu sem áður fór í urðun. Unnið hefur verið að
halda auknum urðunarkostnaði niðri með því að leita stöðugt nýrra leiða til að auka hlutfall
endurvinnsluefnis og hefur hlutfall efnis til endurvinnslu hækkað umtalsvert á milli ára. Ástæða er til
að fagna þeim árangri sem náðst hefur þótt við í Kölku viljum við alltaf sjá þessa þróun gerast hraðar.
Aðlögun að þessum breytingum og þeim breytingum sem við megum búast við að sjá á komandi árum
munu koma til með að hafa áhrif á áherslur í rekstri og þróun Kölku á komandi árum og því lögð áhersla
á að tryggja brennslunni vel borgandi efni og um leið efni sem hentar vel til brennslu í Helguvík.
Boðin var út þjónusta við söfnun frá heimilum til fimm ára og bárust tilboð frá þrem aðilum, gengið var
til samninga við tvo þjónustuaðila, Terra í söfnun lífræns efnis og blandaðs úrgangs og Íslenska
Gámafélagið um hirðu og meðhöndlun pappa og plasts. Tóku þessir aðilar við þjónustu 1. Febrúar s.l.
Gjaldskrár hafa tekið e-h breytingum í kjölfar hækkana á aðkeyptri þjónustu en unnið hefur verið út frá
því að halda hækkunum í lágmarki eins og hægt er. Brennslugjaldskrá sveitarfélaga er óbreytt frá fyrra
ári og hafa hækkanir til sveitarfélaganna verið talsvert undir kostnaðarhækkunum á þeim liðum sem
snerta sveitarfélögin, allt frá 2020. Gjaldskrá sorphirðu hefur þó hækkað með aukinni flokkun og
auknum kostnaði við þjónustu vegna söfnunar. Úrvinnslugjöld frá úrvinnslusjóði er ætlað að koma á
móti þeim aukakostnað sem sveitafélögin verða fyrir vegna þessa. Því er mikilvægt að Kalka og
sveitarfélögin vinni vel saman að því að hámarka framlög Úrvinnslusjóðs til sveitarfélaganna á
Suðurnesjum.
Gjaldskrá á móttökuplönum hefur haldist að mestu óbreytt og gjaldskrá sett upp á þann hátt að hvati
til flokkunar aukist þar sem óflokkað efni er dýrast. Þá hefur áfram verið unnið að því að bæta aðstöðu
til móttöku og auka flokkun á móttökuplani í Helguvík.
Rekstur félagsins hefur áfram verið jákvæður þrátt fyrir miklar breytingar og áskoranir, og skilar
hagnaði, mun endurskoðandi Kölku, Kristján Ragnarsson, fara yfir afkomu síðasta árs. Áfram hefur verið
unnið í greiningum á aukinni brennsluþörf sem mun verða til við lokun urðunarsvæða og reglugerða
sem takmarka urðun, mun Steinþór koma inná það í skýrslu framkvæmdastjóra.
Stefna stjórnar Kölku síðustu árin hefur verið að bæta eiginfjárhlutfall félagsins og létta skuldabyrði.
Stefnt er að er hækkun eiginfjárhlutfalls um 3 prósentustig á milli ára en hækkunin á síðasta ári var 2%.
Eiginfjárhlutfall Kölku er nú komið í 54%. Vaxtaumhverfi þar sem gífurleg hækkun vaxta er
raunveruleikinn vegur þar þungt.
Lausafjárstaða félagsins hefur verið góð síðustu ár og framkvæmdir síðasta árs þar sem farið var í
stærsta viðhaldsverkefni brennslunnar sem framkvæmt hefur verið á einu ári var fjármagnað án
lántöku, auk kaupa, merkinga og dreifingu á ílátum vegna fjögurra flokka flokkunar frá heimilum. Með
hækkandi aldri brennslunnar er mikilvægt að tryggja áframhaldandi fjárfestingar í fyrirbyggjandi
viðhaldi stöðvarinnar til að takmarka tíðni ófyrirséðra stoppa vegna bilana. Mikið hefur áunnist á
síðustu árum við að bæta vinnuaðstöðu starfsmanna og aðlaga Kölku að nýjum þörfum og kröfum.
Stjórnendur og starfsfólk Kölku standa vaktina og hafa gert þær tilhaganir og breytingar sem þurft hefur
að gera að hverju sinni. Þá vil ég þakka fyrir mig og gefa Steinþóri Þórðarsyni orðið en hann mun greina
nánar frá starfseminni í fyrra.“
Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri:
„Góðir aðalfundargestir.
Ég ætla að gefa snaggaralegt yfirlit yfir lífið í Kölku á árinu 2023 og byrja á öryggismálum.
Öryggismál
Árið 2023 var nokkuð gott ár frá sjónarhóli öryggis starfsfólks og viðskiptavina og fá atvik voru skráð.
Eitt óhapp er þó einu óhappi of mikið og áfram er rík áhersla lögð á öryggismál í Helguvík. Við erum að
venjast því að hafa atvikaskráningu og við sjáum orðið betur samhengið milli þess að atvik sé skráð og
umbóta eða fyrirbyggjandi aðgerða.
Reksturinn - Efnismagn
Brennt var 11.520 tonnum í fyrra, rúmum 200 tonnum minna en árið á undan. Í heildina bárust til Kölku
rúmlega 19.400 tonn í fyrra eða 1.100 tonnum meira en árið á 22. Um 4.700 tonnum var keyrt til
urðunar samanborið við rétt tæp 5.000 tonn árið á undan. Aukning á efni til endurnýtingar og
endurvinnslu nam um 1.400 tonnum. Munar þar miklu um lífrænt efni til gas- og jarðgerðar og um 380
tonn sem flutt voru út til brennslu til orkunýtingar meðan viðhald stóð yfir í Helguvík.
Það er gaman að geta sagt frá því að á síðasta ári hélt Fjölsmiðjan utan um það magn nytjahluta sem
seldist í Kompunni. Salan nam 108,5 tonnum. Þá fóru rúm 60 tonn af vörubrettum og fatnaði aftur í
hring-rásina og um áramót voru um 20 tonn af vörubrettum til viðbótar geymd í Helguvík.
Í brennslunni var áfram unnið að prófunum á ýmsum efnum í stað lífræns úrgangs frá heimilum.
Ristarúrgangur og fita frá veitufyrirtækjum berast reglulega en í fyrra jókst móttaka á sláturúrgangi til
muna. Þá hófum við einnig tilraunir með móttöku og hökkun á frosnum stórgripum í litlu magni sem
heldur er að aukast. Allt hjálpar þetta við að vega upp á móti matarleifum sem nú fara í gas- og
jarðgerð.
Þá hafa hækkanir á urðunarkostnaði einnig beint til okkar straumum sem lítið hafa ratað hingað
suðureftir til þessa. Dæmi um slíkt eru vatnsmálning og fylliefni sem ekki teljast spilliefni.
Í fyrra fórum við aðeins upp fyrir mörk í starfsleyfi í móttöku á spilliefnum og sóttmenguðum úrgangi
frá sjúkrastofnunum og rannsóknarstofum. Við erum því í vinnu með Umhverfisstofnun að breytingu á
starfsleyfi og í augnablikinu er ekki útlit fyrir annað en þær muni skila tilætluðum árangri. Spilliefnin og
sóttmengað eru mikilvægir tekjustofnar og lætur nærri að þau séu um 13% af magni í brennslu en
standa undir nærri 30% af brennslutekjunum.
Viðhald og nýframkvæmdir
Stærsta viðhaldsverkefni ársins 2023 var endurnýjun á öllum eldmúr brennsluofnsins og er það í fyrsta
sinn frá því Kalka hóf starfsemi árið 2004 sem hann er endurnýjaður allur. Einnig var endurbyggður stór
hluti innmötunarbúnaðar stöðvarinnar og skipt um þak á stöðvarhúsinu.
Þá var planið á Berghólabraut 7a malbikað og það girt af. Með því var geymslupláss á athafnasvæði
Kölku stórbætt en fjölgun hreinna flokka í söfnun kallar fleiri gáma og önnur ílát. Þá voru gerðar miklar
lagfæringar á móttökuplönum í Helguvík, Grindavík og Vogum. Alls voru eignfærðar tæpar 340 milljónir
króna á síðasta ári en þar af eru rúmar 150 milljónir vegna sorphirðuíláta og því tæpar 200 milljónir
vegna viðhalds og nýframkvæmda.
Þótt síðastliðið ár hafi verið óvenjumikið framkvæmdaár þá er áfram stefnan að halda búnaði í Kölku í
góðu ástandi. Þá er einnig stefnt að því að bæta stöðugt vinnuaðstöðu og öll skilyrði til að gera betur í
flokkun.
Í fyrra var brennt í 338 daga og tvisvar stoppað í skipulagt viðhald. Markmiðið er að fara ekki undir 330
daga. Þá stöðvaðist brennsla í 10 skipti vegna rafmagnstruflana sem reyndust eiga sér orsök í búnaði
utan lóðar Kölku. Þær stöðvanir stóðu þó allar mjög stutt.
Útboð á söfnun frá heimilum
Á síðasta ári var unnið að undirbúningi útboðs á söfnun úrgangs frá heimilum í nýja fjögurra flokka
kerfinu. Útboðið fór í loftið snemma hausts og nýtt fyrirkomulag tók gildi 1. febrúar sl. Við í Kölku
lögðum mikla vinnu í vandað kostnaðarmat og varð niðurstaðan sú að tilboðin sem gengið var að voru
mjög nálægt mati. Sú staða kom upp að söfnunin skiptist á tvo aðila. Terra fékk almennt sorp og lífrænt
en Íslenska Gámafélagið varð hlutskarpara í endurvinnsluefnunum. Sú staða felur sjálfsagt bæði í sér
kosti og galla en almennt má segja að byrjunin lofi bara góðu. Núna í mars gátum við gert upp fyrsta
fjögurra vikna tímabilið þar sem losun beggja verktakanna var 100% og í kjölfarið birtum við tölur um
flokkunarárangur.
Grenndarstöðvar
Þetta er þriðji aðalfundurinn þar sem vikið er að söfnun úrgangs í grenndargáma. Söfnun í gámana er
vaxandi og í fyrra komu 72 tonn upp úr þeim 9 stöðvum sem starfræktar eru í dag. Það er 20% aukning
frá fyrra ári.
Í fyrra lagði Kalka fram við Umhverfis- og framkvæmdasvið Reykjanes-bæjar tillögu að nýrri úrfærslu
grenndarstöðva. Síðan hefur sú tillaga verið að þróast í samvinnu Kölku og starfsfólks Reykjanesbæjar
og er nú að taka á sig mynd sem líklegt má telja að verði fyrir valinu. Á næstu vikum verður niðurstaðan
kynnt í hinum sveitarfélögunum. Áður en ráðist verður í breytingar er mikilvægt að ná samstöðu um
lausnina.
Í nýju úrfærslunni er gert ráð fyrir að fatnaði, málmum og gleri verði safnað í 660 lítra ker sem Kalka
mun sjá um að tæma. Það sparar töluverðan kostnað í gámaleigu og auðveldar okkur að hreinsa efnið.
Það er mun dýrara að losna við gler ef það er t.d. leir eða aðrir aðskotahlutir í bland við það. Með því
að safna í smærri skömmtum verður auðveldara að tryggja hreina strauma.
Grindavík
Ekkert greinir síðasta ár frá öllum hinum meira en atburðarásin sem hófst í Grindavík í nóvember og
leiddi til þess að bærinn var rýmdur. Ekki þarf að rekja hér það sem síðan hefur gengið yfir Grindvíkinga.
Bærinn hefur ýmist verið lokaður eða opinn með takmörkunum. Frá rýmingu í nóvember var úrgangi
safnað frá heimilum tvisvar til áramóta. Kalka átti í góðu samstarfi við Terra og Almannavarnir um þessi
verkefni og Terra féllst strax á að fella niður reikninga vegna tæminga sem ekki var þörf fyrir. Við upphaf
nýs þjónustusamnings við Terra og Íslenska gámafélagið fyrsta febrúar sl. náðist samkomulag um að
taka Grindavík út fyrir sviga og fylgjast með þróuninni þar. Nú erum við með verkefni í undirbúningi til
að sækja tunnur sem standa við heimili sem ljóst er að ekki verði búið í á næstunni.
Þjóðarbrennslan
Umræðan um nýja sorporkustöð hélt áfram á síðasta ári og Helguvík/Bergvík kom sterkar inn í
umræðuna sem heppileg staðsetning. Það hefur gefið okkur í Kölku tilefni til að rifja það upp að sú
hugmynd hafi upphaflega komið frá okkur, með samþykki bæjarstjórna á Suðurnesjum frá haustinu
2021. Í dag er að koma út ný skýrsla sem er í raun viðbót við skýrslu frá 15. desember 2021. Ég átti sæti
í stýrihóp verkefnisins fyrir hönd Kölku og allir aðstandendur hennar eru sammála um að það er ekki
þörf fyrir meiri skýrslugerð. Það sé kominn tími á ákvarðanir og uppbyggingu. Nýju skýrsluna má lesa á
vefslóðinni htb.is og ég hvet alla til að glugga í hana.
Áhugi HS Orku á að fá svona stöð hérna á örugga svæðinu á Reykjanesi hefur verið mikill frá því þessi
umræða kviknaði en jókst enn þegar Njarðvíkuræðin rofnaði núna í febrúar. Þá hefði munað verulega
um heitt vatn frá sorporkustöð eða stöðvum þar sem Kalka getur líka framleitt talsvert af því þótt ekki
sé grundvöllur fyrir byggingu veitumannvirkja fyrir það magn eingöngu.
Þetta mál hefur áfram verið ofarlega á baugi það sem af er þessu ári og verður það áfram. Stjórn Kölku
hefur verið þeirrar skoðunar að við eigum að nýta öll tækifæri sem við fáum til að vera þátttakendur í
þessari þróun í stað þess að frétta af henni á skotspónum. Við höfum margt til þessarar umræðu að
leggja, við viljum halda áfram að gera það og vonandi verða þátttakendur í þeirri uppbyggingu sem
framundan er.
Afkoman
Eins og ársreikningur félagsins ber með sér að þá skilaði rekstur Kölku ágætum afgangi á síðasta ári en
ég eftirlæt Kristjáni endurskoðanda að greina nánar frá því.
Að lokum
Eins og fram hefur komið var síðastliðið ár gríðarlega annasamt og krefjandi í Kölku. Eins og oft er við
slíkar aðstæður verður eitthvað að láta undan. Við sinntum ekki starfsþróun og símenntun eins vel og
við hefðum viljað gera. Við afþökkuðum boð um skoðunarferðir erlendis, afþökkuðum stjórnarsæti í
Fenúr þar sem við hefðum svo gjarnan vilja sitja áfram. Ég lofaði starfsfólkinu léttara ári í ár og við erum
að reyna að blása lífi í starfsþróunarmálin á nýjan leik. Kalka nýtur þeirra forréttinda að hafa verulega
öflugan hóp starfsfólks og þann mannauð viljum við ávaxta og efla. Úrgangs- og umhverfismál eru ekki
komin að neinum endamörkum vaxtar og þróunar. Það er margt að gerast og stöðugt kemur eitthvað
nýtt inn á radarinn.
Þá ætla ég ekki að hafa þetta lengra og þakka fyrir mig“
4. Reikningar félagsins árið 2022, Kristján Ragnarsson löggiltur endurskoðandi félagsins.
Kristján Þór Ragnarsson löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte kynnti ársreikning fyrirtækisins árið 2023.
Áritun var gerð án fyrirvara og telst ársreikningurinn gefa glögga mynd af rekstri.
Kristján fór yfir helstu tekju- og gjaldaliði, einstaka eignaliði og eiginfjárliði auk sjóðsstreymis.
Heildarrekstrartekjur jukust um 18% og námu um 1.145 mkr. en voru 970 mkr. árið 2022.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam þannig tæplega 237 mkr. en var
tæplega 235 mkr. árið 2021. Heildarhagnaður ársins eftir afskriftir og fjármagnsgjöld nam tæpum 181
mkr. en var tæpar 163 mkr. árið 2022. Í árslok 2023 námu heildareignir félagsins 1.815 mkr. en skuldir
og skuldbindingar námu 830 mkr.
Eigið fé er 985 mkr. og eiginfjárhlutfall félagsins er 54% samanborið 52% í árslok 2022.
5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins
Margret Sanders bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ spurði hverju sætti að rekstrargjöld hækkuðu meira en
rekstrartekjur? Einnig hvernig stæði á lækkun á handbæru fé.
Kristján endurskoðandi benti á að rekstrarhagnaður stendur í stað. EBITDA sé sambærileg.
Tekjuaukningin fer á móti gjöldum.
Steinþór benti á að þetta hafi verið mikið fjárfestingarár og því eðlilegt að gengið hafi á handbært fé.
Stór hluti af útistandandi viðskiptakröfum um áramót er vegna kostnaðaraukningar við fjölgun
sorphirðuflokka i fjóra sem sveitarfélögin hafa getað fjármagnað með framlögum frá Úrvinnslusjóði.
Okkur sýnist að okkar áætlun hafi staðist nokkuð og sveitarfélögin getað greitt þessar kröfur án þess
að fara ofan í eigin vasa.
Einar Jón forseti bæjarstjórnar í Suðurnesjabæ hrósaði stjórn og framkvæmdastjóra fyrir nokkuð gott
ár. Einnig vildi hann hrósa starfsfólki á plani og það sé frábært hversu vel er tekið á móti fólki.
Suðurnesjabær hefur beðið um tölur og að brugðist hafi verið við því með jákvæðum hætti. Hinsvegar
þurfi að koma meira og jafnara upplýsingaefni frá Kölku og ekki bara á heimasíðu Kölku. Meiri kynningu
þurfi.
Rætt var um grenndargámana, grípa þurfi til einhverra aðgerð þannig að fólki hætti að kvarta hversu
seint og illa þeir séu losaðir.
Steinþór upplýsti að í ljós hafi komið að margt við fyrirkomulag þeirra sé ekki heppilegt og því hefur
verið leitað nýrra lausna með Reykjanesbæ. Ný tillaga gerir ráð fyrir að gámarnir fyrir plast og
pappaefnin verði töluvert stærri og með skynjurum. Öðru verði safnað íminni ílát sem starfsfólk Kölku
losar. Við treystum okkur til þess að hafa það í lagi. Gengið verður frá tillögunni og farið í Vogana og
Suðurnesjabæ og athugað hvort samstaða náist um nýtt fyrirkomulag. Nauðsynlegt er að hafa
samræmt kerfi fyrir allt svæðið. Eins og í öðrum málum er staða Grindavíkur óljós þegar kemur að þörf
fyrir grenndarþjónustu.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ hrósaði starfsfólkiu á gámaplaninu, sérstaklega
konunum. Vantar svör við spurningu sem er að koma upp aftur og aftur, hvers vegna sorphirðugjöldin
hækka svona mikið um leið og við erum að leggja meiri vinnu á íbúana.
Steinþór svaraði því til að þessi gjaldstofn skiptist í tvennt; sorphirðu og meðhöndlun/förgun.
Sorpförgunin lækkar verulega árið 2024 þar sem minna berst til brennslu frá íbúum. Á móti kemur að
hluta nýr kostnaðarliður sem er afhending á efni til gas- og jarðgerðar. Þá má ekki gleyma að samningur
skv. nýju útboði er nýgenginn í gildi og eins og vænta má eftir langt samningstímabil varð töluverð
hækkun á sorphirðukostnaði. Ekki má gleyma að þjónustustigið hefur verið hækkað og nú er verið að
sækja fjóra flokka til heimila en ekki tvo. Ný framlög úrvinnslusjóðs til sveitarfélaga vegna nýrra flokka
í söfnun munu milda áhrifin af þessum hækkunum og miðað við það sem safnaðist í fyrra og núverandi
gjaldskrá Úrvinnslusjóðs reiknast Steinþóri til að hækkunin á heildargjöldum sem Kalka innheimtir sé
um 15% á íbúa þegar gert hefur verið ráð fyrir framlagi Úrvinnslusjóðs.
Kjartan bætti því við að hann telji íbúa ekki líta á þetta sem aukna þjónustu heldur sem meiri fyrirhöfn
og kostnað.
Rætt var um nýlega Gallup þjónustukönnun sem náði yfir nóvember-janúar þar sem niðurstaðan var
verst í samanburði við önnur sveitarfélög. Mögulega snúi upplifunin að grenndargámunum en ráðast
þurfi í könnun um hvað veldur.
Margrét Sanders lýsti þeirri skoðun að finna þurfi lausn á pokamálum fyrir matarúrgang.
Þá kom einnig fyrirspurn um mögulega raforkuframleiðslu. Steinþór sagði frá því að af og til komi
fyrirspurnir um hvort hægt sé að selja gufu og heitt vatn til orkunýtingar. Imprað hafi verið á því við HS
Orku. Samstarfsaðilinn í raforkuframleiðslunni afþakkaði frekara samstarf á sínum tíma þar sem
framleiðslan stóð ekki undir kostnaði. Ef ný brennsla rís í Helguvík myndi málið horfa öðruvísi við þar
sem þá yrðu byggð veitumannvirki fyrir heitt vatn og sjálfgefið að orkan frá Kölku færi þá í þann farveg.
Að því loknu var ársreikningur Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. fyrir árið 2023 borinn upp og
samþykktur samhljóða.
6. Kosning löggilts endurskoðanda
Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte verði endurskoðandi félagsins. Tillaga borin upp og
samþykkt samhljóða.
7. Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins
1.gr. sorpeyðingarstöð sé tekið úr nafninu.
Núverandi | Tillaga |
1.grein Reykjanesbær kt. 470794-2169, Suðurnesjabær kt. 550518-1200, Grindavíkurbær kt. 580169- 1559, og Sveitarfélagið Vogar kt. 670269-2649 og eiga og reka saman sameignarfélag með ótakmarkaða ábyrgð undir nafninu Kalka sorpeyðingarstöð sf. kt. 531278-0469 (Kalka Incinerator Authority). Heimili þess og varnarþing er í Reykjanesbæ. |
1.grein Reykjanesbær kt. 470794-2169, Suðurnesjabær |
Tillaga samþykkt.
2.gr. breyting á orðalagi.
Opna fyrir það að Kalka geti tekið að sér önnur verkefni en sorphirðu frá heimilum.
Núverandi | Tillaga |
2.grein Tilgangur félagsins er að eiga og reka Kölku sorpeyðingarstöð sf. Ennfremur að annast alla sorpeyðingu og sorphirðu í sveitarfélögunum og önnur verkefni sem sveitarfélögin kunna að fela félaginu. Um starfsemina fer eins og kveðið er á um í samþykktum um sorphreinsun og sorpeyðingu á Suðurnesjum. |
2. grein Tilgangur félagsins er að eiga og reka sorpeyðingarstöð í Helguvík, annast sorphirðu, sorpeyðingu og söfnun endurvinnsluefna í sveitarfélögunum. Kalka getur einnig tekið að sér önnur verkefni sem sveitarfélögin kunna að fela félaginu og varða úrgangs- og umhverfismál. Um starfsemina fer eins og kveðið er á um í lögum, reglugerðum og samþykktum um sorphreinsun og sorpeyðingu á Suðurnesjum. |
Á fundinum kom fram sú breytingartillaga við breytingartillöguna að taka „í Helguvík“ út úr
breytingartillögunni. Breytingatillaga með breytingartillögu samþykkt.
3gr. Orðalagsbreyting.
Núverandi: | Tillaga |
3.gr. Kostnaði við uppbyggingu þjónustuþátta svo og rekstrarkostnaði, að frádregnum tekjum skal skipt milli eignaraðila í hlutfalli við íbúðafjölda í hverju sveitarfélagi miðað við lok næstliðins árs. Með íbúðafjölda er átt við allar fasteignir sem bera fasteignagjöld skv. A flokki. |
3.gr. Kostnaði við rekstur og þróun félagsins, að frádregnum tekjum skal skipt milli eignaraðila í hlutfalli við íbúðafjölda í hverju sveitarfélagi miðað við lok næstliðins árs. Með íbúðafjölda er átt við allar fasteignir sem bera fasteignagjöld skv. A flokki. |
Tillaga samþykkt
Inn kemur ný grein nr. 4 sem hljóðar svo:
„Stjórn getur samþykkt að Kalka sf. taki að sér sérverkefni á sviði úrgangs- og umhverfismála
fyrir eitt eða fleiri eigendasveitarfélög. Í slíkum tilvikum skal bókfæra og gera upp kostnað og
tekjur af þeim verkefnum sérstaklega. Þá skal þess gætt í samningum við sveitarfélög að
sérverkefni dragi ekki niður afkomu félagsins. Auk þess ættu slík verkefni ekki að hafa áhrif á
þá kostnaðarskiptingu sem lýst er í þriðju grein. Gera skal grein fyrir uppgjörum vegna
sérverkefna á aðalfundi.“
Allar greinar þar fyrir aftan hliðrast aftur um eina grein.
Tillaga samþykkt.
Við áður 8.gr. nú 9.gr. um dagskrá aðalfundar bætist inn nýr liður 5, svohljóðandi:
5. Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins enda hafi þeim verið dreift með fundarboði
með a.m.k. viku fyrirvara.
Tillaga samþykkt.
8. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna
Tillaga var borin upp að þóknun til formanns stjórnar og annara stjórnarmanna verið óbreytt. Tillagan
var samþykkt samhljóða.
9. Önnur mál.
Spurt var hvort hægt sé að hafa söfnunargáma Rauða krossins hjá grenndargámunum. Steinþór
tilkynnti að Rauði krossinn sé að draga úr umvifum sínum á þessu sviði og muni ekki bæta við gámum.
Rauði krossinn hefur ekki getað útvegað gáma en tekur ennþá við efni. Þeir hyggjast ekki lengur vera
heildarsöfnun fyrir fatnað út af miklu magni sem þeir ráða ekki við. Hinvegar er gert ráð fyrir að ílátum
verði komi fyrir fatnað þegar nýja grenndargámafyrirkomulaginu verður komið á.
Fundarstjóri sagði fundi slitið og ekki fleira tekið fyrir. Þakkaði stjórnendum og starfsmönnum Kölku
fyrir góð störf fyrir félagið og fundargestum fyrir góðan fund.
Fleira var ekki gert og var fundi slitið u.þ.b. kl. 17:20.
Fundargerð samþykkt með undirritun.
___________________________ _________________________
VIÐAUKI 1: SAMANBURÐUR Á NÚVERANDI SAMÞYKKTUM OG TILLÖGUM AÐ NÝJUM.
Stjórn félagsins
fjögurra ára, eða til enda kjörtímabils. Ef
Hver eignaraðili getur óskað eftir endurskoðun á
|
Samþykktir
Eigendur bera saman óskipta ábyrgð á
3. Tilnefning í stjórn. (Á kosningaári til
|
VIÐAUKI 2: Samþykktir eftir breytingar á aðalfundi 18. apríl 2024.
Samþykktir
fyrir Kölku sf.
Nafn, lögheimili og tilgangur félagsins
1. gr.
Reykjanesbær kt. 470794-2169, Suðurnesjabær kt. 550518-1200, Grindavíkurbær kt. 580169-1559, og
Sveitarfélagið Vogar kt. 670269-2649 og eiga og reka saman sameignarfélag með ótakmarkaða ábyrgð undir
nafninu Kalka sf. kt. 531278-0469. Heimili þess og varnarþing er í Reykjanesbæ.
2. gr.
Tilgangur félagsins er að eiga og reka sorpeyðingarstöð, annast sorphirðu, sorpeyðingu og söfnun
endurvinnsluefna í sveitarfélögunum. Kalka getur einnig tekið að sér önnur verkefni sem sveitarfélögin kunna að
fela félaginu og varða úrgangs- og umhverfismál. Um starfsemina fer eins og kveðið er á um í lögum, reglugerðum
og samþykktum um sorphreinsun og sorpeyðingu á Suðurnesjum.
Ábyrgðir og hlutdeild eignaraðila
3. gr.
Kostnaði við rekstur og þróun félagsins, að frádregnum tekjum skal skipt milli eignaraðila í hlutfalli við íbúðafjölda
í hverju sveitarfélagi miðað við lok næstliðins árs. Með íbúðafjölda er átt við allar fasteignir sem bera
fasteignagjöld skv. A flokki.
4. gr.
Stjórn getur samþykkt að Kalka sf. taki að sér sérverkefni á sviði úrgangs- og umhverfismála fyrir eitt eða fleiri
eigendasveitarfélög. Í slíkum tilvikum skal bókfæra og gera upp kostnað og tekjur af þeim verkefnum sérstaklega.
Þá skal þess gætt í samningum við sveitarfélög að sérverkefni dragi ekki niður afkomu félagsins. Auk þess ættu
slík verkefni ekki að hafa áhrif á þá kostnaðarskiptingu sem lýst er í þriðju grein. Gera skal grein fyrir uppgjörum
vegna sérverkefna á aðalfundi.
5. gr.
Eignaraðild sveitarfélags er í réttu hlutfalli við framlag þess til rekstrar og eignabreytingarliða sbr. 3. gr. hér að
framan. Skrá skal eignarhlut sveitarfélags í ársreikning félagsins hverju sinni.
6. gr.
Eigendur bera saman óskipta ábyrgð á skuldbindingum félagsins en innbyrðis skiptist ábyrgðin sbr. 5. gr. hér að
framan.
Stjórn félagsins
7. gr.
Stjórn félagsins, sem annast málefni þess á milli funda, skal skipuð 5 mönnum og 5 til vara, sem tilnefndir eru af
sveitarstjórnum, tveir frá Reykjanesbæ, einn frá hverri hinna og jafnmargir til vara. Stjórnarmenn eru tilnefndir á
fyrsta aðalfundi félagsins eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar til fjögurra ára, eða til enda kjörtímabils. Ef
stjórnarmaður lætur af störfum áður en kjörtímabili lýkur, tilnefnir viðkomandi sveitarstjórn nýjan fulltrúa í
stjórnina í hans stað. Í slíkum tilfellum þarf ekki að boða sérstaklega til félagsfundar. Stjórnin skiptir með sér
verkum eftir hvern aðalfund. Stjórninni er heimilt að ráða félaginu framkvæmdastjóra. Sé framkvæmdastjóri til
staðar, ræður hann aðra starfsmenn félagsins. Stjórnin veitir prókúruumboð fyrir félagið.
8. gr.
Stjórnin ræður málefnum félagsins milli funda en skylt er að kalla saman fund ef ein eða fleiri sveitarstjórnir óska
þess. Allar meiriháttar fjárskuldbindingar skulu leggjast fyrir sveitarstjórnirnar.
Aðalfundur og endurskoðunarákvæði
9. gr.
Aðalfund skal að jafnaði halda í aprílmánuði ár hvert, en síðar þau ár sem fram fara sveitarstjórnarkosningar.
Aðalfund skal boða bréflega eða með tölvupósti með minnst viku fyrirvara. Dagskrá aðalfundar skal fylgja með
fundarboði. Aðalfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað. Rétt til fundarsetu eiga allir kjörnir
sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum, framkvæmdastjórar sveitarfélaganna, framkvæmdastjóri og stjórnarmenn
félagsins og framkvæmdastjóri S.S.S. Atkvæðisrétt hafa þó einungis kjörnir sveitarstjórnarmenn.
Hverju sveitarfélagi er heimilt að óska eftir félagsfundi. Rétt til fundarsetu á félagsfundi hafa sömu aðilar og hafa
rétt til fundarsetu á aðalfundi.
Á aðalfundi skulu eftirtalin mál tekin fyrir:
1. Skýrsla stjórnar um liðið starfsár.
2. Reikningar félagsins fyrir liðið reikingsár skulu lagðir fram til lokaafgreiðslu. Þeir skulu vera
endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.
3. Tilnefning í stjórn. (Á kosningaári til sveitarstjórna).
4. Kosning löggilts endurskoðanda.
5. Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins enda hafi þeim verið dreift með fundarboði með a.m.k.
viku fyrirvara.
6. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna.
7. Önnur mál er varða starfsemi félagsins.
10. gr.
Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið. Stjórn félagsins skal fyrir 31. október ár hvert semja fjárhagsáætlun
og senda sveitarfélögunum og stjórn S.S.S. til upplýsingar.
11. gr.
Hver eignaraðili getur óskað eftir endurskoðun á samþykktum þessum.
Samþykktirnar eru með innfærðri breytingu sem samþykkt var á aðalfundi félagsins í Reykjanesbæ þann 18. apríl
2024.
Reykjanesbæ 18. apríl 2024
Undirritun bæjarstjóra fyrir hönd félagsmanna: